Færsluflokkur: Formúla 1
10.9.2007 | 18:31
McLies?
Það er nokkuð ljóst að langt frá því allt sem hefur komið fram í "stóra njósnamálinu" er sannleikanum samkvæmt.
Þessi framkoma Ítalska blaðamannsins er auðvitað fyrir neðan allar hellur, en það er ýmislegt sem bendir til þess að framkoma McLaren sé ekki heiðarleg heldur.
Það er rétt að benda lesendum þessarar fréttar mbl.is, að blaðamaðurinn er ekki sakaður um að hafa falsað frétt um tölvupósta á milli ökuþóra McLaren, heldur falsaði hann frétt um innihald tölvupóstanna. Á því er mikill munur.
FIA gerði þá kröfu á hendur ökuþórum McLaren að þeir afhentu tölvupósta sína og hefur bréfið verið birt opinberlega. Þar segir víst m.a.:
You will appreciate that there is a duty on all competitors and Super Licence holders to ensure the fairness and legitimacy of the Formula One World Championship. It is therefore imperative that if you do have such information, you make it available to us without delay.
Hér er vísað til þess að ef ökumenn hafi vitneskju um ólöglegt athæfi (í þessu tilfelli af hendi McLaren) beri þeim skylda til að láta FIA þau gögn í hendur.
Hvað stendur í tölvupóstunum á hins vegar eftir að koma fyrir almenningssjónir, gerir það líklega á fimmtudaginn.
Hver kom þeim upplýsingum á framfæri við FIA að einhverjar upplýsingar gæti verið að finna í tölvupósti ökumanna McLaren er ekki vitað en væri vissulega fróðleg vitneskja.
En það er líklega best að láta dómstóla FIA eftir að dæma málinu og bíða spenntur fram á fimmtudag eftir fleiri fréttum.
9.9.2007 | 14:44
Niðurlæging
Það getur varla talist neitt annað en niðurlæging fyrir Ferrari að láta McLaren sigra 1 - 2 í Monza. Og það því sem næst baráttulaust, ef svo má að orði komast.
Vissulega reyndi Raikkonen að klóra í bakkann, en Hamilton sýndi honum hvers vegna hann og McLaren eru með forystu í titlakeppnunum og hvers konar yfirburði þeir hafa yfir Ferrari nú um stundir.
Þetta er að ég held í fyrsta sinn sem McLaren vinnur 1 - 2 sigur í Monza, og því sérstakt gleðiefni fyrir þá, en að sama skapi súr stund fyrir Ferrari.
Enn einu sinni er áreiðanleiki Ferrari bilsins til vandræða, Massa fellur snemma úr keppni og undirstrikar á heimavelli hve mikil vandræði hafa verið með bílinn.
Þetta er keppni sem við Ferrari aðdáendur viljum gleyma sem fyrst, og raunar hygg ég að margir okkar séu að hugsa um 2008 tímabilið, sigur í ár er einfaldlega utan seilingar.
McLaren gjörsigrar Ferrari í Monza | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.8.2007 | 15:43
Morgunstund gefur....
Það er óneitanlega góð byrjun á deginum að horfa á Ferrari sigra tvöfalt í Istanbul. Kappaksturinn bauð þó ekki upp á mikil tilþrif, erfitt að fara fram úr í brautinni og staðan breyttist ekki mikið hvað efstu sætin varðaði, nema í þjónustuhléum.
En það dugði ekkert nema tvöfaldur sigur og sú er auðvitað krafan í þeim keppnum sem eftir eru, en þó ólíklegt að það náist. Sigurinn í dag vannst fyrst og fremst á örlitlu hraðaforskoti sem Ferrari hafði. Hversu stóran þátt dekkin áttu í því er ekki gott að segja, en Ferrari ók 2/3 á mýkri dekkjunum en McLaren á þeim harðari.
En það sem gaf þó aukna von var fyrst og fremst óhapp Hamiltons, hann var að vísu heppinn að ná að klára i 5. sæti og tapaði því eins litlu og hægt er þegar menn lenda í slíku óhappi, en það er lykillinn að velgengni hans og McLaren hvað þeir hafa verið stabílir. Þeir ásamt Kovalainen eru þeir eina sem hafa klárað allar keppnir, ef ég man rétt. Af þeim 12 keppnum sem lokið er hefur Hamilton staðið á verðlaunapalli í 10. 4. toppmennirnr hafa hins vegar allir unnið 3. keppnir, bróðurlegra verðu það varla.
En nú eru ekki nema 5 keppnir eftir. Líklega ættu 4. af þeim brautum sem eftir er að keppa á að henta Ferrari nokkuð vel, líklega heldur betur en McLaren, en Monsa, Spa, Interlagos og Kína ættu ef eitthvað er að gefa Ferrari vel, en óvissa er með Fuji brautina í Japan, enda langt síðan hefur verið háð keppni þar.
Öruggt hjá Massa og Ferrari fagnar tvennu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.8.2007 | 16:41
Hressandi í morgunsárið
Það gladdi mig vissulega í morgunsárið að sjá Massa taka Tyrklandspólinn. Ég var reyndar svo syfjaður að það hálfa væri nóg, enda kl. 7 á laugardagsmorgni ótrúlega snemmt. Ég var meira að segja kominn á fætur á undan ómegðinni, merkilegt nokk.
En það er auðvitað ekki tímatökurnar sem gilda og við þurfum sárlega á góðum úrslitum að halda á morgun, í raun dugar ekkert nema 1 - 2 til að seðja sigurhungrið. Það þurfa báðir bílar að skila hámarksstigum.
En annars var ekki margt sem kom á óvart, Ferrari, McLaren og BMW í efstu sætunum. Hamilton á undan Alonso eina ferðina enn, eitthvað sem kætir líklega ekki skapið hjá Spánverjanum.
Það sem líklega ræður úrslitum á morgun er hvað margir lítrar eru á tönkunum hjá köppunum. Þeir taka ekki mikla sénsa og líklega verður helst reynt að "fram úr" á þjónustusvæðunum.
En það verður að rífa sig upp í fyrramálið líka.
Massa hlutskarpastur í æsispennandi tímatöku í Istanbúl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.8.2007 | 04:36
Klúðurslegt
Þó að kappaksturinn í Ungverjalandi í morgun hafi verið ágætis skemmtun, er klúðurslegt líklega besta orðið til að lýsa honum.
Ekki nóg með það að keppnin hafi verið klúðursleg fyrir mína menn, heldur var hún í raun einnig klúðursleg fyrir McLaren, og það þrátt fyrir að þeirra maður hefði sigur.
Ferrari er að missa af lestinni. Það er ekki hægt að segja að þeir eigi raunhæfa möguleika á titlum í ár. Það er enda varla við því að búast að lið sem ekki getur fyllt sómasamlega á tankinn sé í baráttunni um titla. Þá erum við ekki byrjaðir að tala um vandræði hvað varðar áreiðanleika bílanna.
Það er líklega raunhæfast að líta á það sem eftir er af tímabilinu sem undirbúning fyrir næsta ár.
En helgin var ekki góð fyrir McLaren heldur. Þó að Hamilton hafi unnið góðan sigur, þá er liðið eiginlega í sárum eftir helgina. Það segir sig sjálft að þegar Alonso er farinn að gefa út yfirlýsingar í þá veru að Hamilton sé stærsta vandamál liðsins, að þá er komið hættulega nærri því að upp úr sjóði.
"Biðstaðan" í tímatökunum sýndi svo með eftirminnilegum hætti að lítið má út af bregða. Hvort að rekja má atvikið til óhlýðni Hamilton eða Alonso, skiptir í raun ekki máli, aðalmálið er að liðið er ekki að virka sem heild. Vissulega er vandamálið að því leiti jákvætt að það snýst um 2. mjög góða ökumenn sem báðir eru reiðubúnir að leggja því sem næst allt í sölurnar fyrir sigur. Það neikvæða er að það getur líklega ekki gengið til lengdar.
Það eru enda byrjaðar vangaveltur víða um hvor þeirra það verði sem yfirgefi liðið að tímabilinu loknu.
En því miður er staðan sú að það er því sem næst eingöngu spurning um hvor þeirra McLaren manna verður heimsmeistari í ár, ég hef því sem næst enga trú á því að Ferrari ökumennirnir nái að blanda sér í þá baráttu.
En akstur Hamilton var til mikils sóma í dag, fumlaus frá upphafi til enda og sigri hans aldrei ógnað, Heidfeld góður í 3ja, en þó að Raikkonen hafi náði að innbyrða annað sætið, er þetta kappakstur sem Ferrari menn vilja gleyma sem fyrst að ég tel, enn eitt glatað tækifæri.
Hamilton stóðst pressu Räikkönens | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.7.2007 | 04:49
Merkilegt
Mér þykir niðurstaða FIA í þessu máli býsna merkileg og hún vekur vissulega upp ýmsar spurningar.
Í fyrsta lagi þá er McLaren fundið sekt um að hafa aflað upplýsinga með ólöglegum hætti, en þar sem ekki er talið sannað að þær upplýsingar sem aflað var ólöglega hafi verið nýttar, er fallið frá refsingu!
Skrýtin niðurstaða.
Ég sem hélt að brotið væri framið þegar upplýsinganna væri aflað.
Þessi niðurstaða vekur líka upp þá spurningu hvar mörkin á milli liðs og starfsmanns liggur? Hver er ábyrgð liðs ef starfsmaður er brotlegur?
Svo er líka spurningin hvernig hægt er að hafa allar þessar upplýsingar undir höndum án þess að notfæra sér þær við vinnu sína sem hönnuður annars liðs?
Flestir, s.s. Briatore virðast enda vera hneykslaðir á þessari niðurstöðu.
P.S. Fyrirsögnin á þessari frétt er reyndar býsna merkileg. "Ferrari brjálast....", býsna merkilegt orðalag og eitthvað sem ég hef ekki séð aðra fjölmiðla nota, þó að vissulega hafi forráðamenn Ferrari lýst því yfir að þeir séu ekki sáttir við þessa niðurstöðu, en ég hef hvergi lesið fréttir af því að þeir hafi "brjálast", eða misst alvarlega stjórn á skapi sínu.
En þetta er ekki í fyrsta sinn sem mér finnst það koma nokkuð skýrt fram hvar "samúð" mbl.is liggur í Formúlunni, en það er önnur saga.
Ferrari brjálast yfir að McLaren skyldi sleppt við refsingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.7.2007 | 03:53
Rigning
Kappaksturinn í dag var að mörgu leyti eftirminnilegur, fyrst og fremst fyrir úrhellið sem setti svip sinn á keppnina, en síðan verður ekki fram hjá því horft að keppnin var tapað tækifæri fyrir Ferrari til að jafna leikinn.
Það er nokkuð ljóst að ef sama "meistaraheppni" fylgir Alonso það sem eftir er móts og fylgdi honum í dag, þá verður ekkert sem getur komið í veg fyrir að hann verði heimsmeistari (nema ef til vill Hamilton) og McLaren hirði bílsmiðabikarinn.
Raikkonen og Massa óku ágætlega í dag, en það var langt frá því að duga til. Vökvakerfið gaf sig hjá Raikkonen og Massa var í vandræðum með bílinn á endasprettinum og átti þar af leiðandi engan séns í að halda Alonso fyrir aftan sig.
Þetta lítur ekki nógu vel út og þegar McLaren fékk fleiri stig en Ferrari enn eitt mótið.
Það er því orðið verulega á brattann að sækja.
Alonso hafði sigur í þýska kappakstrinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.7.2007 | 05:18
Gleðiefni
Það er óneitanlega gleðiefni að Raikkonen skuli vera á ráspól. Það er heldur ekki hægt annað en að vera sáttur með 3ja sætið hjá Massa, þó að auðvitað ætti Alonso ekki að vera á milli þeirra.
En þetta er ágætis árangur úr tímatökunum og útliti fyrir þokkalega spennandi keppni á morgun. Hamilton endaði illa í dag, en það sem mér þykir þó undarlegast hvað hann varðar er að McLaren hafa gefið þá yfirlýsingu að sami mótorinn verði notaður.
Það segir ef til vill meira en margt annað um hve Formúlan er að breytast í einhvern undarlegan þolakstur, en snýst ekki um að bestu ökumenn, með bestu hugsanlegu bíla sé att saman. Þetta er miður góð þróun.
En það er ekki hægt annað en að vera bjartsýnn fyrir morgundaginn, ég held að við fögnum sigri með Raikkonen, en það er meiri spurning hvort að Massa nær að skilja Spánverjann eftir í kjalsoginu, en vissulega þurfum við á 1 - 2 sigri að halda.
En 3ji sigur Raikkonen í röð er vel ásættanlegt eins og staðan er í dag.
Räikkönen sér fram á erfiða keppni þrátt fyrir ráspólinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.7.2007 | 04:07
Veit vonandi á gott
Við Ferrari menn þurfum á 1 - 2 sigri að halda um helgina. Kimi virðist í fantaformi þessa dagana og er líklegur að taka sigur, en það er spurningin hvað Massa gerir.
En eins og ég hef áður sagt er það athyglivert hvernig gæfan er að snúast okkur í hag á sama tíma og tekst að stöðva "upplýsingaflæðið" frá liðinu.
En ég bíð spenntur eftir keppni helgarinnar. Þó að það geti verið örlítið erfitt að rífa sig á fætur, er fátt meira hressandi í morgunsárið en Ferrari sigur.
Räikkönen hafði sætaskipti við Hamilton á seinni æfingunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.7.2007 | 17:22
Hollt og heilsubætandi
Það var hollt og heilsubætandi, svona í morgunsárið, að horfa á Kimi vinna sætan sigur í Breska kappakstrinum. Ekki veitti heldur af, því heilsan hefur verið með daprasta móti undanfarna daga, hiti, beinverkir, bólginn háls og hor lekandi úr nefi. Foringinn hefur þjáðst af sama kvilla og heimasætan fékk nefrennsli. Aðrir hafa sloppið.
En aftur að kappakstrinum. Ég hafði þetta sterkt á tilfinningunni, rétt eins og ég sagði í pistli hér í gær, enda held ég að Ferrari sé að "rísa" aftur. Það hefur líklega hjálpað að vindgöngin í Maranello eru komin í gagnið aftur eftir að hafa verið óstarfhæf um nokkurt skeið.
Svo er það auðvitað umhugsunarvert, að þegar Ferrari hefur tekist að stoppa upplýsingaflæðið frá liðinu vinnast 2. sigrar. En vissulega gæti verið um tilviljun að ræða.
En kappaksturinn í dag var skemmtilegur á að horfa, Kimi ók vel, sömuleiðis Alonso, Hamilton átti ágætis dag þrátt fyrir mistök, enda líklega enginn nýliði sem væri óánægður með að vera í þriðja sæti og á verðlaunapalli 9. mótið í röð.
En Massa sýndi líka framúrskarandi akstur, stórkostlegt að enda í 5. sæti eftir að hafa þurft að ræsa frá bílskúrsaðreininni.
En vonandi tákna Enski og Franski kappaksturinn að Ferrari eru komnir á beinu brautina og við náum að sýna Mclaren í tvo heimana það sem eftir lifir Formúluársins.
Räikkönen hafði betur í taktískri rimmu við Alonso | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Formúla 1 | Breytt 9.7.2007 kl. 04:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)