Verð á kvóta er aðeins einn hluti af kostnaði við útgerð. Skýrsla þyrfti að vera um allan kostnað.

Að bera saman verð á fiskveiðikvótum á milli landa segir frá einum afmörkuðum þætti kostnaðar við útgerð. 

Það þarf að vita alla þætti til að hægt sé að gera vitiborinn samanburð.

Útgerð getur t.d. hæglega ákveðið að kaupa kvóta hærra verði, ef  annar kostnaður, t.d. laun, skattar á hagnað, hafnargjöld o.s.frv. er lægra.

Þá er hægt að kaupa kvótann dýrara verði en samt skila hagnaði.

Þannig má t.d. ímynda sér að erlent fiskveiðifyrirtæki hefði efni á því að greiða hærri veiðigjöld til Íslenska ríkisins, en innlend fyrirtæki gera. 

Það er að segja ef það væri gert út frá ríki þar sem t.d. laun sjómanna væru lægri, tekjuskattar fyrirtækja væri lægri o.s.frv.

Ef svo fyrirtækið nyti umtalsverðra ríkisstyrkja, eins og sjávarútvegur gerir víða um lönd, gæti ef til vill borgað enn hærra kvótaverð en samt komið út í hagnaði.

En það þarf ekki að reikna lengi til þess að sjá að það kæmi ekki betur út fyrir Íslendinga í heild.

Þess vegna er það markleysa að bera saman kvótaverð eitt og sér.

En vissulega gæti verið fróðlegt að sjá samanburð á sjávarútvegi á Íslandi í mismunandi löndum, ekki bara Namibíu.

Hvernig er skattgreiðslum háttað, hverjar eru tekjur sjómanna, eru reksturinn styrktur af hinum opinbera, o.s.frv.

Svo má aftur velta fyrir sér hvort að ekki eigi að vera einhver takmörk fyrir því að þingmenn geti "pantað" þetta og hitt á kostnað Alþingis.

Er ekki alltaf verið að auka það fé sem flokkarnir fá til þess að nota í "sérfræðiaðstoð" og aðstoðarmenn.

Er það ekki m.a. ætlað til upplýsingaöflunar?

 

 

 


mbl.is „Einhverskonar pólitískur loddaraskapur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónas Ómar Snorrason

Sæll Tómas, nú er grein í DV sem bæði styðst við upplýsingar um greiðslu Samherja fyrir Hestamakrílkvóta við Namibíu, síðan við upplýsingar sem fyrir liggja um greiðslu íslenskra fyrirtækja á Íslandi þmt. Samherji fyrir Makrílkvóta við Ísland. Meðan Samherji greiddi 23-30 kr. fyrir kg.í Namibíu, þá greiða íslensk fyrirtæki 3,55 kr. fyrir kg.á Íslandi. Ekki bara það, heldur er Makríll veiddur á okkar slóðum allt önnur og dýrari söluvara, það þarf að ganga ansi langt til að réttlæta svona ofboðslega mikinn mismun á verði milli landa, og sér í lagi þegar munurinn er töluvert í óhag töluvert dýrari tegundarinar. En allir vita um sambærilegt dæmi frá Færeyjum sem fór nokkuð hátt. Síðan svo ekki sé minnst á sðluverð íslenskra útgerðarfyrirtækja á móti norskum, það er sér kapituli. Almennt er ekki annað hægt við veiðar en að miða laun út frá skiptaprósentu til áhafnar, síðan tekur við eins og hér, þar sem áhöfn tekur þátt í olíkostnaði. Niðurstaðan ber alltaf að sama brunni, það á að bjóða kvótann upp og allan fisk á markað. Slíkt fyrirkomulag er farsælast fyri íslensku þjóðina á alla vegu.   

Jónas Ómar Snorrason, 7.2.2020 kl. 14:37

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Jónas, þakka þér fyrir þetta. Þarna er einn hluti stórrar jöfnu tekin út fyrir sviga og hamast á honum.  Það er einmitt þekkt taktík í lýðskrumi

Ég hef reyndar ekki séð þessa útreikninga hjá DV, en einhverja útreikninga heyrði ég af, þar sem meintum "mútum" var bætt við kvótaverðið. Hversu rétt er það?

Er vitað hvað meintar "mútur", ef satt reynist, hefðu dreifst á mikinn kvóta?  Veist þú það?

Það er nákvæmlega ekkert að því að rannsaka og bera saman mismunandi verð á kvóta, en það verður þá að skoða aðra liði útgerðarkostnaðar samhliða, horfa á heildarmyndina.

Þar koma inn í aðrir skattar og skyldur, launakostnaður o.s.frv.

Þetta er alveg eins og að bera saman verð á bjór á Íslandi og Spáni.  Allir vita að bjórinn er miklu ódýrari á Spáni en Íslandi.  En það eru margir þættir sem valda því.

Það er t.d. að mestu leyti "heimasmíðaður" vandi af hálfu hins opinbera en þannig vilja Íslendingar hafa það, alla vegna nógu stór hluti.

Hrossa makríll, sem mér er sagt að sé í raun alls ekki makríll (það eru til svo margar mismunandi tegundir að erfitt er að festa hönd á þeim öllum), er líklega eins og annar fiskur, að það skiptir máli hvert og hvernig hann er seldur, í hvaða ástandi hann er o.s.frv.

Besti hluti hans fer t.d. eftir því sem mér skilst til Japans (þeir veiða hann líka mikið) og er notaður þar í sushi.

Mér er sömuleiðis sagt að Íslenskur makríll sé oft á tíðum ekki sértaklega gott hráefni, veitt á vitlausum tíma árs ef svo má að orði komast. 

Það var líka áfall fyrir makrílveiðendur þegar Rússland lokaðist (sjálfsagt er hægt að selja markíl frá Afríku þangað, en eftir því sem mér skilst eru Færeyjar eina Evróulandið sem ennþá selur þangað) og þurfi að auka leyfilegan "mjölkvóta" frá því sem verið hafði.

Fiskimjöl er nú ekki í mjög háu verði þessa dagana eftir því sem mér hefur verið sagt.  Frekar gott verð á lýsi þó.

Ég skrifaði nú tvær færslur um fiskveiðar og allan fisk á markað, þó settir inn athugasemdir við aðra þeirra ef ég man rétt. 

https://49beaverbrook.blog.is/blog/49beaverbrook/entry/2244787/

https://49beaverbrook.blog.is/blog/49beaverbrook/entry/2244638/

Ég er alls ekki viss um að setja allan fisk á markað sé til hagsbóta fyrir Íslendinga.

Það gæti hins vegar verið ágætt fyrirkomulag að bjóða upp kvóta til einhverra ára í senn.

En ef það er vilji til að fá sem mest fyrir kvótann, þá þarf auðvitað að sætta sig við frekari samþjöppun í greininni, enda alveg ljóst að sumir geta borgað meira fyrir kvótann, en aðrir ráða ekki við það.

Þá þyrfti það líka að vera svo að engum kvóta væri úthlutað, ekki til eins né neins, án uppboðs, hæsta verð gilti, en þó mætti setja hámarks hluteild í einverstaðar 10 til 15% af heildarafla.

Fljótlega yrðu þá líklega á bilinu 10 til 15 fiskveiðifyrirtæki á Íslandi, og ef til vil er það alveg nóg.

G. Tómas Gunnarsson, 8.2.2020 kl. 00:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband