Er Kafka bara við höfnina eða er hann um allt land?

Grein sem birtist á vef Vísis og ber titilinn "Kafka við Sæbrautina - eða endurminning um Hörpu", hefur vakið mikla athygli.

Í greininni rekur fyrrverandi forstjóri Hörpu (þó að hann titli sig reyndar sem húsvörð í greininni), raunir sínar og lýsir baráttu við kerfið, eða eigendur hússins, Reykjavíkurborg og ríkið.

"Rangt staðsett" skilti kemur all nokkuð við sögu og svo ákvarðanir varðandi fasteignagjöld.

Lýsingarnar á baráttunni við "Kerfið" (með stórum staf) eru oft á tíðum grátbroslegar.

Ég skora á alla að lesa greinina.

En heldur einhver að Harpa sé eina fyrirtækið sem hafi svipaða sögu að segja?

Að ekkert annað fyrirtæki hafi "gengið frá Pontíusi til Pílatusar" og "lent í" kerfinu.

Að af engu öðru húsnæði þurfi greiði gríðarlega há fasteignagjöld?

Var ekki einmitt í fréttunum fyrir fáum dögum að helmingur leigutekna af húsnæðinu þar sem Bíó Paradís er til húsa fari í að greiða fasteignaskatt til Reykjavíkurborgar?

Fasteignaskattar fara ekki eftir tekjum, heldur fasteignamati.

Er ekki Harpa á einhverri dýrustu lóð sem hægt er að finna á Íslandi?  Er ekki Harpa eitt dýrasta (ef ekki dýrasta) hús (á fermetra) sem hefur verið byggt á Íslandi?

Er þá ekki eðlilegt að fasteignaskattarnir séu gríðarlega háir?

Á ríkisfyrirtæki að fá einhvern afslátt af því að tekjurnar af starfseminni eru ekki í takt við verðmæti fasteignarinnar?

Myndi eitthvert einkafyrirtæki fá það?

P.S. Svo má auðvitað með hliðsjón af þessu velta fyrir sér hvers vegna ríkisfyrirtæki eins og Landsbankinn vill endilega byggja risahús þarna við hliðina.

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Að Harpa sé "félagsheimili þjóðarinnar" er langt seilst. Harpa er óþarfi. Minnisvarði um ofmetnað og framkvæmdaóðagot fyrirhrunsáranna. Það er áreiðanlega óhugsandi að hún muni geta staðið undir sér og þarafleiðandi þarf reksturinn opinbert fé, sem mætti eins koma á formi lækkaðra fasteignagjalda. Svona ef á á annað borð að halda áfram að reka þarna menningarhús. Það er nóg til af þeim í Reykjavík, þannig að Harpa er sosum alveg óþarfi.

En Harpa er soldið eins og kirkja; það er ekki auðvelt að breyta rétt sisona um starfsemi í húsinu. Eða hvað, í hvað gætum við breytt Hörpu? Kannski flytja höfuðstöðvar Landsbankans í hana? 

Kristján G. Arngrímsson, 4.2.2020 kl. 21:34

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Ekki ætla ég að segja neitt um hvort Harpa sé "félagsheimili þjóðarinnar", aðeins séð húsið tilsýndar og vissulega er það nokkuð tilkomumikið. All margir Ýdalir myndu sjálfsagt einhver segja.

En það er visslega umdeilanlegt hvort að það hefði átt að byggja Hörpu, nú eða klára hana eftir að "upphafsfyrirtæki" fór á höfuðið.

En ég er algerlega ósammála því að rétta aðferðin til að styrkja Hörpu eða aðrar opinberar stofnanir sé að lækka t.d. fasteignaskatta.

Það er einmitt mjög áríðandi að allur styrkur frá obinberum aðilum sé uppi "á borðum" og gegnsær.

Þannig getur almenningur vitað hver kostnaðurinn sem hann ber er.

(Þess utan er Reykjavíkurborg ekki eini eigandi Hörpu, en fær allan fasteignaskattinn.  Það er því ekki líklegt að hún vilji fara að lækka hann. :-)

Annars gæti þetta færst í einhverjar heimskulega leiki eins og Harpa (og aðra álíka stofnanir) myndi ekki borga Orkuveitunni nema hálfvirði fyrir rafmagn og hita o.s.frv.

Það má oft finna önnur not fyrir húsnæði, ef það liggur fyrir að þau eru á lausu.

Víða um lönd er t.d. búið í gömlum kirkjum, þar eru starfræktir skólar, skemmtistaðir o.s.frv.

Sonur minn er í framhaldsskóla sem átti að hýsa verslunarmiðstöð.

En Harpa verður líklega rekin um ókomna tíð og milljarðarnir sem tapast rekstrinum safnast saman.

En þá dæsa flestir Íslendingar og segja "En við erum svo ríkt land".

G. Tómas Gunnarsson, 4.2.2020 kl. 22:37

3 identicon

"Að ekkert annað fyrirtæki hafi "gangið frá Pontíusi til Pílatusar" og "lent í" kerfinu."

Maður nokkur hét Pontíus Pílatus og annar maður hét Heródes. Sá fyrrnefndi var landstjóri og hinn konungur. Sá sem fer erindisleysu fer frá Pontíusi til Heródusar.

Heródus og Pontíus (IP-tala skráð) 5.2.2020 kl. 11:05

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Heródus og Pontíus, þakka þér fyrir þetta. Ég hef heyrt þessa leiðréttingu áður, og þakka þér fyrir hana. Ég hins vegar ólst upp "P&P" útgáfuna, sleit enda barnsskónum í "danska bænum" Akureyri, en mér hefur einmitt verið sagt að þaðan sé "vitleysan" ættuð. Hvað gerðum við ef við gætum ekki kennt Dönum um að sem aflaga hefur farið :-)

Ég hafði reyndar aldrei heyrt um hina útgáfuna fyrr en fyrir fáum árum.

En að ganga á milli "P&P" getur auðvitað þýtt að þurfa að koma aftur og aftur með eitthvað nýtt til sama aðila (ekki nauðsynlega persónu).

En ekki ætla ég að fullyrða hvernig þetta hefur allt tilkomið, en það hefur það auðvitað fram yfir "Heródusar" útgáfuna að vera stuðlað sem við Íslendingar upp til hópa kunnum svo vel við.

Ég er ekki frá því að ég komi til með að halda mig við "P&P" útgáfuna.

G. Tómas Gunnarsson, 5.2.2020 kl. 12:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband