Færsluflokkur: Bloggar
25.4.2007 | 15:24
Næstum tvær tankfyllingar af trjám og poki af bullshit
Fórum á mánudag og versluðum tré og runna. Nú er auðvitað allt mælt í tankfyllingum og ánægjan sem hefst af trjánum orðið hálfgert aukaatriði.
En keypt var 1. nektarínutré, 1. plómutré, 4. lítil cedartré og svo 2 bláberjarunnar. Með þessu var svo keyptur 1. poki af bullshit (það stendur reyndar combusted cattle manure á pokanum, en mér þykir skemmtilegt að bera fram það sem betur hljómar).
Það vantaði ekki nema 8 dollara til að þetta næði 2. tankfyllingum, en vissulega þurfum við hér þar sem bensínlíterinn kostar ekki nema ca. 60 krónur að gera betur en sem nemur einni tankfyllingu.
Vonir standa til að það náist slysalaus dagur í dag og plöntun verði nú seinnipartinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.4.2007 | 15:15
Einhyrningur að Bjórá
Gærdagurinn var ágætur hér að Bjórá, vorvorkin eru í fullum gangi, trén eru bíða þó ennþá plöntunar, en þökur voru skornar hér í gær, blómabeð með því stækkuð og þökurnar lagðar annars staðar.
Einn skuggi var á gærdeginum þó, en það var sú stund þegar Foringinn breyttist í einhyrning. Hann tekur að sjálfsögðu virkan þátt í vorverknum, stundum virkari en æskilegt er en í gær gætti hann ekki að sér og steyptist lóðbeint á höfuðið, eða andlitið svo nánar sé tiltekið.
Ég verð að viðurkenna að mér leist ekki á blikuna, þegar gráturinn upphófst, og enn minna þegar stubbur reis upp alblóðugur í framan.
Eftir að hafa hlaupið með Foringjann inn, lagt hann á eldhúsgólfið, þurkað af mesta blóðið, lagt kaldan klút á ennið og metið stöðuna ákvað ég að hringja í lækninn. Þar fór hjúkrunarkona yfir helstu atriði með mér, hvort að sjáöldrin drægjust saman, hvort drengnum væri óglatt, hvort hann gæti labbað eðlilega og hvort að samhæfing handa og augna væri eðlileg.
Það var auðvitað mikill léttir þegar allt þetta virkaði eins og efni standa til og drengurinn úrskurðaður að mestu leyti heill heilsu.
Það er aðeins nefið sem er illa farið, hruflað og marið og svo stendur nokkurra sentimetra "horn" út úr miðju enninu á stubbnum, rautt og blátt, rétt eins og um einhyrning sé að ræða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2007 | 07:31
Frakkar velja og hafna...
Frakkar gerðu það gott um helgina og skiluðu Sarkozy og Royal í aðra umferð forsetakosninganna þar í landi.
Það sem meira er, þeir skiluðu Sarkozy þangað með nokkru forskoti sem gerir það nokkuð líklegt að hann hafi sigur og verði næsti forseti Frakka. Baráttan um þau atkvæði sem féllu á aðra frambjóðendur er þegar hafin, og verður hún ábyggilega hörð (sjá meðal annars fréttir hér.). En það sem er athyglivert, svona fyrir utan sigur Sarkozy, er gríðarlega góð þátttaka í kosningunum, eða u.þ.b. 84%.
Það er ekki að efa að á næstu vikum mun hefjast upp margraddaður kór, innan Frakklands sem utan, um "einstakt" tækifæri til að kjósa konu í eitt valdamesta embætti heims og þar fram eftir götunum.
Sjálfum gæti mér ekki staðið meira á sama hvort að Frakkar kjósa sér konu eða karl sem forseta.
Ég vona hins vegar að þeir hafni sósialistanum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2007 | 07:10
Er lýðræðið of mikilvægt til að hægt sé að treysta kjósendum fyrir því?
Ég horfði á Silfur Egils, svona á hlaupum með öðru í dag. Ég verð að segja að í heild fannst mér þátturinn frekar dapur, þó að vissulega kæmu sprettir.
Vettvangur dagsins var ekki mjög skemmtilegur, þó kom Lýður mér skemmtilega á óvart, lang frambærilegasti forystumaður Frjálslyndra sem ég hef heyrt í fyrir þessar kosningar, ekki "smurðasta" sjónvarpsframkoman, en það sem hann hafði að segja var einhvers virði.
Síðan eitt enn viðtalið við Jón Baldvin, það er engu líkara en að Jón Baldvin sé á fullu að rukka inn gamla greiða hjá fjölmiðlafólki, persónlega næ ég því ekki hver tilgangurinn er með öllum þessum viðtölum við hann, nema að þetta eigi að uppfylla einhverja nostalgíu þörf hjá gömlum krötum.
A tímabili fannst mér eins og ég sæti á kaffihúsi og heyrði "óvart" samtal tveggja Samfylkingarmanna á næsta borði, þar sem þeir skeggræddu hvað gæti nú komið flokknum þeirra til hjálpar og hvað pólítíkin væri ósanngjörn. Komment eins og um "ljóskuna í Menntamálaráðuneytinu" gerðu ekkert nema að undirstrika þá tilfinningu (ég býð eftir því að öll "kvenfrelsisfylkingin" særi Jón niður fyrir þetta orðbragð).
Annað sem mér fannst stórmerkilegt að heyra Jón segja, var að ef að ekki væri skipt um ríkisstjórn, væri lýðræðið ekki að virka. Það er sem sé ekki almennilegt lýðræði, ef kjósendur kjósa ekki til að breyta.
Hvílíkt og annað eins rugl.
Þetta er eins og að segja að lýðræðið sé of mikilvægt til að treysta kjósendum fyrir því.
Auðvitað notar fólk kosningaréttinn til að velja þann kost sem hverjum og einum líst best á. Eðli hlutanna samkvæmt endurnýja kjósendur umboð þeirra flokka sem sitja í ríkisstjórn, ef þeim þykir svo að betri kostir bjóðist ekki.
En það er einmitt meinið, vinstriflokkunum gengur illa að setja sjálfa sig fram sem betri og skynsamlegri kost, því eru þeir farnir að hamra á því að best sé að breyta, breytinganna vegna, enginn eigi að sitja lengi, heldur þurfi að breyta til. Þetta er farið að hljóma hættulega nálægt pólitísku gjaldþroti ef þið spurjið mig.
Jón er að mínu mati reyndar farinn að hljóma eins og gamall þreyttur pólitíkus, sem er sársvekktur yfir því að þjóðin hefur plummað sig sem aldrei fyrr, eftir að hann hvarf frá stjórnvellinum, finnst eins og honum sé ekki nægur sómi sýndur, og reynir því eftir fremsta megni að troða sér í "spottið" og útdeila visku sinni, sem honum finnst of fáir fara eftir.
Langbesti partur þáttarins var hins vegar viðtalið við Slavoj Zizek, þó að ég sé ekki endilega sammála öllu því sem hann sagði, þá er ekki annað hægt en að hrífast af málflutningi hans og því af hvað miklum innileik hann setur fram mál sitt. Hann veltir upp flötum og hlutum og kemur af stað hugsunum, ákaflega skemmtilegt að hlusta á hann.
Ég hef ekki lesið neitt efti Zizek, en keypti fyrir viku eða svo Revolution at The Gates, en þar velur hann úr ritverkum Lenins frá 1917, og skrifar inngang og eftirmála. Líklega verð ég að fara að drífa í því að koma henni í lestur.
P.S. Ég hélt að flestum hefði verið það ljóst að hin "stóra sameining" vinstrimanna hefði mistekist þegar árið 1999, þegar Samfylkingin og VG buðu fram, en ekki einn flokkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2007 | 17:53
Samsæri íþróttafréttamanna?
Ég hef aðeins nú undanfarna daga verið að velta fyrir mér formönnum Íslensku stjórnmálaflokkanna og hvernig þeir koma mér fyrir sjónir i gegnum sjónvarp og greinaskrif, ef til vill meira um það seinna.
En hitt vekur vissulega athygli að 2. af 6. formönnum, það er að segja Steingrímur J. og Ómar Ragnarsson skuli vera fyrrverandi íþróttafréttamenn af RUV.
Það getur eiginlega ekki verið nema tímaspursmál hvenær Samúel Örn tekur við Framsókn, eða hvað?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.4.2007 | 02:38
Illa unnin/útfærð skoðanakönnun og/eða fjölmiðlaumræða
Ég get hreinlega ekki orða bundist yfir svo rangri umfjöllun í fjölmiðlum. Ekki veit ég hvort að við Capacent-Gallup er að sakast, eða mbl.is, eða báða aðila. En alla vegna ættu blaðamenn að vera það fróðir um samfélagið á 'Islandi að fyrirsagnir sem hér er boðið upp á ættu ekki að sjást.
"Mikill meirihluti segir 35.72% tekjuskatt of háan."
Það er ekki að undra, enda tekjuskattur á Íslandi langt frá því að vera 35.72%. Tekjuskattur á Íslandi er síðast þegar ég vissi rétt tæp 23%, 22.75 ef ég man rétt. Síðan bætist við álagninguna á milli 12 og 13% útsvar sem rennur til sveitarfélaganna (12.97% að ég held í staðgreiðslunni, en síðan er möguleiki á að það minnki í endanlegu uppgjöri).
Það má að vísu virða blaðamönnum/og eða spyrjendum það til vorkunnar að báðar þessar álögur leggjast á tekjur fólks, en það er samt rík ástæða til að gera þar greinarmun á.
Þetta rifjar upp þá tillögu sem var í umræðunni fyrir nokkrum misserum að það þurfi að gera greinarmun á álögum ríkis og sveitarfélaga á launaseðlum fólks, og miðað við þessa umfjöllun er svo sannarlega ekki vanþörf á.
Hitt er svo allt annað mál, að það má vissulega stefna að því að lækka tekjuskatt enn frekar frá þessum 23%, en það breytir því ekki að þessi umfjöllun er öllum fjölmiðlum sem hafa snefil af sjálfsvirðingu til skammar.
Það hefur oft vantað í umræðuna undanfarið þegar rætt er um vaxandi hlut hins opinbera í þjóðartekjum að það sé skilgreint í hverju sá vöxtur felist, hvaðan eru þessar tekjur að koma og hvernig er skipting þeirra á milli ríkis og sveitarfélaga, en hér tekur þó vissulega steininn úr.
Ég fagna því hins vegar að meirihluta svarenda virðist sjá að betra sé að beita fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti fyrirtækja af hógværð, og fagna sömuleiðis vilja þeirra til að lækka tekjutengda skatta. En auðvitað þarf að koma fram hvort að þeim þyki ástæða til að gera það hjá ríkinu eða sveitarfélögunum, nú eða hvoru tveggja.
Mikill meirihluti segir 35,72% tekjuskatt of háan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.4.2007 | 21:17
Bannaðar ljósaperur
Þó að ég sé ekki almennt fylgjandi boðum og bönnum þá nenni ég ekki að setja mig upp á móti þessu banni á sölu glóðarpera hér í Ontario.
Ég held reyndar að svipaður árangur hefði náðst án bannsins, enda flestir sem ég þekki hér ákaflega sparsamir hvað varðar ljós og orku. En rétt er líka að athuga að það er ekki verið að banna notkun glóðarpera heldur einungis sölu þeirra. Það er heldur ekki verið að banna allar glóðarperur, heldur einvörðungu glóðarperur sem hafa slaka orkunýtingu. Þeim möguleika er haldið opið að hægt verði að bæta þessa tækni, og reyndar hefur komið fram í fréttum að GE vonast eftir því að árið 2012 verði komnar á markað frá þeim glóðarperur sem eru jafn sparneytnar og flúorperur eru í dag.
Ennfremur hefur stjórnin hér í Ontario sem og raforkufyrirtækið þeirra verið duglegt að kynna íbúunum þann sparnað sem þeir geta notið og jafnvel dreift ókeypis sparperum einstaka sinnum. Reyndar skilst mér að þeir ætli nú fljótlega að senda út "kúpón" að virði u.þ.b. 40 dollara sem gildir upp í sparperur.
Hér að Bjórá mun bannið t.d. ekki hafa nein veruleg áhrif, hér eru flúor eða halogen perur í öllum ljósum, utan einu, en það fást ekki slíkar perur. Það verður því líklega að skipta þar um ljós.
En þetta var eitt af því sem við gengum í þegar við fluttum inn, skipta alls staðar í sparperur þar sem því var við komið og höfðum það sömuleiðis í huga þegar keypt voru ný ljós.
Það einfaldlega borgar sig þegar til lengri tíma er litið að spara.
En nú fer í hönd sá tími sem raforkunotkun hér í Ontario er mest, það er nefnilega svo að rafmagnsnotkun hér er ekki mestmegnis til ljósnotkunar, eða húshitunar (þar nota flestir gas), heldur er það loftkælingin sem er frekust til rafmagnsins og er orkukerfið jafnan þanið til hins ýtrasta á heitustu dögunum hér.
Sala á glóðarperum væntanlega bönnuð í Ontario | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.4.2007 | 18:39
Örstutt hugleiðing um innflytjendamál
Það hefur sést nokkuð oft á prenti og heyrst í orðræðu að innflytjendur hafi haldið niðri launum á Íslenskum vinnumarkaði. Aðrar og hófsamari raddir segja að þeir hafi verið að fylla störf sem ekki var hægt að manna.
En ef innflytjendur hafa haldið niðri launum á Íslandi, má þá ekki með sömu rökum segja að stöðugur straumur fólks af landsbyggðinni hafi haldið niðri launum höfuðborgarsvæðinu?
Hræðilegt, ekki satt?
Fólksfækkun yrði þá að sama skapi umtalsverð kjarabót.
Ég verð að segja að það er eiginlega ekki á frjálslynt fólk leggjandi að hlusta á svona málflutning.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.4.2007 | 04:26
Af olíuhreinsun
Ég verð að viðurkenna að mér kom nokkuð á óvart sú hugmynd að reisa olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum, en finnst þó fráleitt að henda þeirri hugmynd frá borði án þess að fá allar staðreyndir og upplýsingar upp á borð.
Þar væri lægi líklega beinast við að leita til Norðmanna, fá upplýsingar hjá þeim hvernig þeir hafa staðið að uppbyggingu á sínum hreinsistöðvum, hvernig framþróun hefur verið í hönnun slíkra hreinsistöðva, hversu mikil mengun er frá slíkum stöðvum, hvers eðlis sú mengun er og þar fram eftir götunum.
Það má til sanns vegar færa að aukin umferð olíuskipa hlýtur að auka hættuna á mengunarslysi.
Það er þó einnig ljóst að það er afar líklegt að umferð olíuskipa nálægt Íslandi geri ekkert nema að aukast á næstu árum. Olíuframleiðsla í Rússlandi á án efa eftir að aukast á næstu árum og áratugum og ekki telst óeðlilegt að þó nokkur hluti þeirra framleiðslu verði fluttur vestur um haf.
En í fyrstu koma upp 2. spurningar sem ég velti nokkuð fyrir mér.
Sú fyrri er sú hvort að alþjóðalög veiti Íslendingum nokkra heimild til að banna slíkum olíuskipum að sigla á milli Íslands og Grænlands? (það er að segja í lögsögu Íslands). Ef svo er ekki eykst hættan líklega ekki svo mikið þó að skipin stoppi á Vestfjörðum.
Hin spurningin sem kom upp í hugann, er sú hver er ávinningur eigandanna af því að reisa slíka olíuhreinsunarstöð á Íslandi? Nú hefur komið fram í fréttum að starfsemin sé ekki orkufrek, þannig að varla er þá verið að sækjast eftir ódýrri og öruggri orku. Laun á Íslandi eru margföld á við það sem gerist í Rússlandi, þannig að ekki er ódýrara að reka verksmiðjuna á Íslandi en þar. Þekking á slíkum rekstri (og vant starfsfólk) hlýtur sömuleiðis að vera mun algengari bæði í Rússlandi og Vestanhafs.
Hvers vegna ekki að hreinsa olíuna í Rússlandi, eða á áfangastað Vestanhafs? Hver er ávinningurinn af því að hreinsa olíuna á Íslandi?
Ég verð að viðurkenna að ég sé hann ekki í fljótu bragði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.4.2007 | 03:25
Vorkoman að Bjórá
Það er engu líkara en að veðurfarið hér í Kanada hafi ákveðið að fylgja hinni Íslensku hefð og láta sumarið byrja á morgun (fimmtudag). Hér brast á með sólskini og hlýindum í dag eftir frekar kalda og hægfara vorkomu hingað til.
Vorkoma hér er nokkurt upplifelsi fyrir nábleikan Íslending eins og mig, sem nú fagnar henni í fyrsta sinni í eigin garði. Það sem einna helst vekur athygli er allt lífið sem flögrar og hleypur hér um. Fjórar tegundir íkorna, svartir, gráir, brúnir og jarðíkornar, klifra upp um tré og rafmagnsstaura og éta blómlaukana í garðinum (nokkuð sem er partur og "prógramminu" og verður að sætta sig við), í ljósaskiptunum má sjá þvottabirni ef heppnin er með, en á minna lukkulegum dögum velta þeir um ruslatunnunni í leit að æti.
Mýgrútur flýgur og vappar hér um í leit að æti. Það sem helst veku athygli Íslendingsins er að þeir eru ekki allir móbrúnir eða gráir, heldur sjást hér rauðir fuglar, þ.e. kardínálar, bláir fuglar, Blue Jays, og gular finkur sjást stöku sinnum.
Sé útivistarsvæðin heimsótt, eru nokkrar líkur á því að sjá skjaldbökur og froska, auk hefðbundnari tegunda eins og svani og gæsir. Einsaka sinnum hef ég verið svo heppinn að rekast á snáka.
En blessaðri vorkomunni fylgja líka vorannirnar, það þarf að hlúa að blessuðum gróðrinum. Undanfarna daga höfum við grafið og fært til plöntur, hlúð að kirsuberjatrénu (sem fuglarnir átu öll berin af í fyrra), fært til myntuna, snyrt í kringum hindberjarunnana, og hreinsað í kringum ótal plöntur sem ég kann ekki nöfnin á.
Síðan á á planta um helgin, gulrótum, tómötum hugsanlega kartöflum og eitthvað var verið að ræða um vínvið og bláberjarunna sömuleiðis.
Um allt þetta veit ég næsta lítið, telst líklega frekar hafa gráar hendur en grænar (svo nýtísku flokkanir séu notaðar) en hlýði yfirgripsmikilli og öruggri leiðsögn konunnar í þessum efnum. Hún þekkir þetta út og inn, enda alin upp í sósíalísku skipulagi, þar sem öruggara var að rækta sitt eigið grænmeti en að treysta á framboðið í verslunum "alþýðunnar".
Þetta garðadútl leysir líka úr brýnni þörf Foringjans til að þess að komast í snertingu við mold og drullu, og fer hann þreyttur og ánægður að sofa á eftir.
Þannig að ef börnin verða drullug og ánægð og eitthvað ætilegt hefst af erfiðinu, er tímanum líklega nokkuð vel varið.
Hér er líklega við hæfi að óska þeim sem lesa gleðilegs sumars, og þakka þeim sem við höfum haft samskipti við fyrir veturinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)