Færsluflokkur: Bloggar

Örstutt hugleiðing um kvóta og framsal

Mér finnst það örlítið merkilegt hvað margir eru ósáttir við að litið sé á "óveiddan fiskinn í sjónum" sem eign og hann seldur og veðsettur, þegar það er nákvæmlega það sama og viðgengist hefur til sveita í áratugi ef ekki hundruði?

Spakmæli dagsins - kosningar í nánd.

Þetta "snilldarkvót" vakti athygli mína í dag, og þar sem svo stutt er til kosninga á Íslandi ákvað ég að það væri vel þess virði að deila þessum með þeim sem berja þessa blogsíðu augum.

"You´ve got to be honest, if you can fake that, you´ve got it made."

                                               George Burns

Það gerist ekki heiðarlegra en þetta, eða hvað?


3.2 billjónir kílómetra af rótum?

Það er að Bjórá eins og svo víða að hingað berst umtalsverður "ruslpóstur".  Oft bölva ég kamínuleysi heimilisins, en þetta fer flest ólesið beint í bláa endurvinnslukassann.  En stundum tek ég þó eftir einni setningu, eða einu slagorði.  Það gerðist í morgun og fær þessi auglýsing því að fljóta hingað inn, því mér þótti skringilega og skemmtilegt sjónarhorn dregið fram þar.

En auglýsingin var sem hér segir:

"Your lawn has over 2 billion miles of roots.  Do you want to take care of all that?

GreenLawn does."

Eða snarað yfir á Íslenskuna:

"Á lóðinni þinni eru ríflega 3.2 billjónir kílometra af rótum.  Vilt þú þurfa að að hugsa um þá alla?

GrænaLóðin geri það."

Ekki hef ég áður hugsað um hve mikið og óeigingjarnt starf ég inni af hendi í garðinum, en það er ekki að undra þó að ég sé gjarna hálf þreyttur eftir það.

Þetta er klassa auglýsingamennska, en bæklingurinn er samt sem áður á leiðina í endurvinnsluna, án þess að hringt hafi verið í fyrirtækið.


Athyglivert framtak - Kolviðarhól

Aukin skógrækt er vissulega af hinu góða, og ég væri alveg reiðubúinn til að leggja þessu máli lið, þó að ég hafi mínar efasemdir um ástæður hlýinda á jörðinni, en það er önnur saga. 

Það er líka hvorutveggja prýði að trjám sem og eins og kemur fram þá binda þau kolefni og gefa frá sér súrefni og bæta því andrúmsloftið. 

En eitt skil ég þó ekki alveg í PDF skjalinu sem fylgir með fréttinni.  Það er að það þurfi að planta 7 milljónum trjáa árlega og að hver bílstjóri þyrfti að gefa (sem þumalputtaregla) sem samsvaraði andvirði einnar tankfyllingar.

Nú myndi ég þyggja frekari útskýringar, því ég hélt einfeldni minni að trén "ynnu" fyrir okkur ár eftir ár, og raunar ykist "vinnuframlag" þeirra eftir því sem þau yrðu stærri.

Það sem ég hefði áhuga á að vita er hvað þarf mörg "meðaltré" til að "dekka" einn "meðalbíl" sem er ekið t.d. 20.000km á ári?

Þess utan velti ég svo auðvitað fyrir mér hvað ég "kemst langt" á risastóra silfurhlyninum sem prýðir bakgarðinn hjá mér, og skilar ekki aðeins sínu í kolfefnisbindingu, heldur býr til þægilegan skugga í garðinum og skýlir húsinu að hluta til fyrir sólinni og sparar þannig drjúgar fjárhæðir í loftkælingu.  En það er líklega ekki svo einfalt að reikna það út.


mbl.is Umhverfisverkefninu Kolviði hleypt af stokkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Put The Money Where Your....

Miðað við fréttir helgarinnar reikna ég með því að "launaleynd" hafi verið aflétt hjá Glitni á mánudagsmorgun.

Er varla að efa að laun starfsmanna hefur verið aðalumræðuefnið í matar og kaffitímum.


Af hundum, innflytjendum, nautgripum og meintu frjálslyndi

Ég fékk sendan í tölvupósti í gær hlekk á grein sem er hér á Moggablogginu, en virðist hafa verið ætluð til birtingar í Morgunblaðinu.  Kunningi minn sagðist hafa rekist á hlekk á viðkomand grein á bloggsíðu Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, en þar er verið að hneykslast á því að að Morgunblaðið hafi ekki birt viðkomandi grein, á Magnúsi má helst skilja að það sé aðför að tjáningarfrelsinu.

Greinin er eftir Halldór Jónsson, verkfræðing, sem ég þekki ekki nein frekari deili á.

Ég fór og las viðkomandi grein og þó að greinin sé ágætlega skrifuð þá var þar eitt og annað vakti hjá mér hálfgerðan hroll.  Eftirfarandi klausa stendur þar upp úr:

"Vilji maður flytja hund til landsins er hann settur í einangrun úti í Hrísey til langtíma. Það má ekki flytja beljukyn til landsins sem mjólkar meira. Það má ekki flytja inn arabíska stóðhesta, eða setja sænskar geddur í Þingvallavatn. En það eru engin takmörk fyrir því hversu margir eða hvers konar útlendingar mega flytjast hingað."

Einhvern veginn get ég ekki skilið þetta öðruvísi en að höfundi þyki það miður að innflytjendur fái á Íslandi betri og vægari meðferð en hundar, og að meiri andspyrna sé við innflutningi hesta og nautgripa en komu útlendinga, sem honum þyki miður.

Það má hrósa Halldóri fyrir það að hann fer ekki í neinar felur með það "hvaðan" hann kemur, eða hvaða skoðanir hann aðhyllist, í næstu málsgrein segir:

"Við gömlu rasistarnir úr Norðurmýrinni, sem lifðum í áþvinguðu fjölmenningarsamfélagi styrjaldaráranna, vorum heimagangar hjá Kananum, vorum með hor í nefinu og töluðum ensku fyrir átta ára aldur, erum orðnir þegnar í íslenzku fjölmenningarsamfélagi, sem einhverjir eru að skapa án þess að við værum spurðir. Vorum við þó með talsverða reynslu."

Fyrir neðan má svo lesa athugasemdir frá ýmsum aðilum, þar á meðal frambjóðendum Frjálslynda flokksins, þar sem þeir hrósa greininni.  Hvet ég alla til að lesa það sem og greinina alla.

Hér má finna greinina, og hér blog Magnúsar sem vísað er í hér að ofan.

Ég trúi á tjáningarfrelsið og er alfarið á móti því að nokkrar skoðanir séu bannaðar, það leysir engan vanda.  Ég myndi þó vilja benda Frjálslyndum á það að tjáningarfrelsið stendur ekki og fellur með Morgunblaðinu og mér þykir það eðlilegt að það blað, rétt eins og aðrir fjölmiðlar sem vandir eru að virðingu sinni, setji sér mörk um það hvað þeir birta í blaðinu, við það er ekkert óeðlilegt og hvorki atlaga að tjáningarfrelsi né þöggun.

Ég velti því líka líka þegar ég les skoðanir sumra Frjálslyndra hver staða mín og fjölskyldu minnar yrði á Íslandi, ef þeir komast til valda á Íslandi og byrja að framkvæma stefnu sína.

Nú hef ég búið erlendis um nokkurt skeið, hef ég ekki komið til Íslands í á annað ár, þyrfti ég að skila heilbrigðisvottorði fyrir mig og fjölskyldu mína ef við hyggðumst flytja til Íslands, eða eru það bara útlendingar sem eru smithætta?

Hyggjast Frjálslyndir rifta milliríkjasamningum sem Ísland hefur við mörg ríki um að þegnar þeirra þurfi ekki vegabréfsáritanir til Ísland, þegar þeir koma sem ferðamenn (og geta dvalið á Íslandi allt að 3. mánuðum án sérstakrar áritunar).  Munu þeir krefjast heilbrigðisvottorða af ferðamönnum?  Eða er smithætta einungis fyrir hendi ef viðkomandi útlendingur ætlar að vinna eða setjast að á Íslandi?

Auðvitað er sjálfsagt að ræða málefni innflytjenda og útlendinga á Íslandi, enda hefur það verið gert, er gert og mun verða gert.  Persónulega kysi ég að sú umræða færi fram á öðrum nótum en gert er í þeirri grein sem ég vitna í hér að ofan, sömuleiðis finnst mér málflutningur Frjálslyndra oft vera farinn yfir strikið, ýta undir fordóma og hræðslu gagnvart útlendingum og innflytjendum.

Því miður virðist slíkur málflutningur eiga nokkurn hljómgrunn á meðal Íslendinga, þessi könnun gefur í það minnsta ekki ástæðu til sérstakrar bjartsýni.


Silfrið

Var að enda við að horfa á Silfrið frá því í gær. 

Fínn þáttur, gott viðtal við Geir, eins og við var að búast stóð hann sig vel, sömuleiðis hafði ég gaman af umræðunum í Vettvangi dagsins.  Þar var farið útfyrir hinn hefðbundna "viðmælendahóp" og gafst vel að mínu mati.  Ef eitthvað var fannst mér  frammistaða "atvinnustjórnmálamannsins", Margrétar Sverrisdóttur þar einna síst.

Síðan kom Ingibjörg Sólrún mér skemmtilega á óvart, viðtalið við hana sýndi hana í betra formi en mér finnst ég hafa séð hana í lengi.  Léttara yfirbragð heldur en oft áður og gott "rennsli".

Ef ég ætti að ráðleggja henni eitthvað (ekki það að ég reikni með að mín ráð séu tekin alvarlega), myndi ég ráðleggja henni að kveða kröftuglega niður þennan "fórnarlambsstimpil" sem Egill og býsna margir stuðningsmenn Samfylkingarinnar eru að reyna að koma á hana.

Ég hef ekki trú á því að kjósendur hafi áhuga á því að flykkja sér um "fórnarlamb".

Lang sísti hluti þáttarins fannst mér síðan viðtalið við formenn norrænu jafnaðarmannaflokkanna, það fór aldrei á flug og nákvæmlega ekkert kom þar fram nema endurtekning á tiltölulega innihaldslitlum frösum.

En ég hlakka til þáttanna fram að kosningum.


Góður sigur

Það var farið á fætur fyrir 7, til að missa nú örugglega ekki af Formúlunni sem hófst hér fyrir allar aldir, fín keppni.

Að sjálfsögðu ánægður með Ferrari sigur, hefði þó vissulega viljað sjá Raikkonen fara í 2. sætið og ná þannig efsta sætinu í keppni ökuþóra, en það verður ekki á allt kosið.

Það er síðan ekki hægt annað en að minnast á Hamilton, fantagóður akstur hjá honum og um leið tryggði hann sér sitt fyrsta met.  Fyrsti ökumaðurinn til að fara á pall í 3. sínum fyrstu keppnum.  Það er vissulega of snemmt að koma með stóra spádóma, en þarna gæti verið kominn fram ökumaðurinn sem á eftir að hirða metin af Schumacher í framtíðinni, alla vegna hefur hann tímann fyrir sér. 

Heidfield kom líka skemmtilega á óvart og það mætti segja mér að það hafi mörgum verið skemmt (og ekki) í Þýskalandi þegar BMWinn tók fram úr Mercedes (McLaren) Alonso.

Fín spenna í keppni ökumanna, Alonso, Raikkonen og Hamilton hnífjafnir.

Annars flaug mér í hug þegar ég var að horfa á "Múluna" í morgun, að það væri ákveðinn samhljómur á milli Formúlunnar og stjórnmála. 

Það er að segja að "allur pakkinn" verður að virka.  Ökumaðurinn, bíllinn, dekkin, vélin, bremsurnar, bílskúrsgengið og stjórnendurnir.

Allt og allir verða að vinna saman til þess að árangur náist.  Sömuleiðis í pólítíkinni.

Toyota og Honda sanna það svo, rétt eins og í stjórnmálunum að það er ekki nóg að eyða peningum til að ná árangri, það verður að byggja upp lið.

 

 


Að framleiða þiggjendur

Ég vil nú byrja á því að taka undir með þeim sem sagt hafa þessa frétt ruglingslega.  Við fyrsta lestur fær lesandinn það á tilfinninguna að Sjálfstæðisflokkurinn ætli sér að afnema skólaskyldu og gera foreldrum kleyft að kenna börnum sínum heima.

Þegar fréttin er lesin aftur og reynt að geta í eyðurnar fæst þá skilningur að hér sé verið að fjalla um leikskóla, eða dagheimili, en hvorugt þeirra orða er þó að finna í fréttinni.

En ég verð að segja að ég hef blendnar tilfinningar til þessarar tillögu.

Ég er reyndar ákaflega fylgjandi að því að foreldrar séu heima hjá börnum sínum fyrstu árin, ef það er mögulegt, það eru enda skiptar skoðanir um hversu hollt það er börnum að eyða of miklum tíma á dagvistarstofnunum og mismunandi niðurstöður rannsókna þess að lútandi.  Ég bloggaði einmitt um eina slíka fyrir stuttu.

En það er að sjálfsögðu ljóst að það þarf að bjóða upp á gott og fjölbreytt úrval dagvistunarkosta, slíkt er nauðsyn í nútíma þjóðfélagi.

Hitt er svo spurning í mínum huga hvort að einstaklingar sem af einhverjum ástæðum kjósa að nýta sér ekki þjónustu hins opinbera eigi rétt á því að fá að einhvern hluta, eða allan, þann kostnað sem hið opinbera hefði lagt út, hefði hann nýtt sér þjónustuna.

Persónulega finnst mér verið að leggja út á nokkuð hála braut, þar sem allir (sem eiga börn) eigi rétt á því að hið opinbera greiði ákveðna upphæð fyrir barnapössun, hvernig svo sem henni er háttað. 

Þetta er er ein byrtingarmynd af þeirri hyggju að gera alla að þiggjendum frá hinu opinbera.

En það eru vissulega rök með slíku fyrirkomulagi.  Þetta getur sparað hinu opinbera fjárhæðir í rekstri og uppbyggingu dagheimila og gert fleirum mögulegt að vera heima hjá börnum sínum.

Ég held að ég hugsi málið enn um sinn.


mbl.is Miklar umræður um skólamál á landsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilög þrenning?

Það er vissulega athygliverð framsetning að Samfylkingarmenn verði að leggja sig alla fram um að almenningur "kokgleypi boðskap hennar með góðu eða illu".  (Feitletrun er blogghöfundar.).

Það er líklega best fyrir landsmenn sem hafa ekki þegar móttekið "fagnaðarerindið", sem þegar síðast fréttist var ríflega 80% kosningabærra Íslendinga, að forðast  Samfylkingarfólk á næstu vikum.

Enn fremur verð ég að lýsa þeirri skoðun minni að það færi betur á að fólk sem getur aðeins nefnt Ingibjörgu, Sólrúnu og Gísladóttur, sem ástæðu fyrir veru sinni í Samfylkingunni, stofnaði einfaldlega aðdáendaklúbb, nú eða sértrúarsöfnuð. 

 


mbl.is Ingibjörgu, Vigdísi og stofnendum Kvennalistans þakkað á landsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband