Færsluflokkur: Bloggar

Tilviljanir í draumalandi flatneskjunnar

Það er skemmtileg tilviljun hvernig kröfur verkalýðshreyfingarinnar stemma við kröfur sumra stjórnmálaflokka, aðallega þó með þvi að vera í raun algerlega óframkvæmanlegar og krefjast þess að komið verði á þjóðfélagi flatneskjunnar á Íslandi.

Það er ekki ógöfugt markmið að útrýma fátækt á Íslandi, en ef miða á við hlutflall af  meðaltali eða miðgildi launa eins og gert er í þeim tölum sem vitnað er í þeirri frétt sem hér er tengd við, sér  flest skynssamt fólk að það er varla gerlegt.  Aðeins með einu móti er það hægt, með því að koma á þjóðfélagi flatneskjunnar.  Þar sem því sem næst allir hafa laun á svipuðu róli.

Hvort þykir mönnum líklegt að það myndi nást með því að flestir yrðu hækkaðir í launum, eða með því að lækka hærri launin?

Ef þeir betur launuðu (til dæmis vel launað starfsfólk fjármálageirans) yrðu hraktir úr landi, þá ykist jöfnuðurinn og þá líklega minnkaði fátæktin, eða hvað?

Þetta er skelfilegur málflutningur og í raun ekki sæmandi verkalýðsfélögunum á Íslandi, þar ættu menn að vita betur.

 


mbl.is Krafan 1. maí að fátækt verði útrýmt á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hneykslismál? Er Alþingi afgreiðslustofnun?

Það hefur verið nokkuð merkilegt að fylgjast með "Stóra Jónínumálinu".  Ég er einn þeirra sem ekki er of trúaður á tilviljanir. 

Hvorki að um helbera tilviljun sé að ræða hvað varða veitingu ríkisborgararéttarins, né að um geti verið að ræða tilviljun að þetta kemst í hámæl nú, stuttu fyrir kosningar.

En það er líka gott fyrir alla að velta því hvaða meðferð málið fékk á Alþingi.  Stofnuninni sem að margir (sérstaklega stjórnarandstaðan, sem nú reynir hvað harðast að gera "skandal" úr þessu) eru sífellt að kvarta yfir að sé ekki að verða neitt nema "stimpilpúði", að á Alþingi sé ekki gert neitt nema að "afgreiða" lög og reglugerðir.

En hvað gerðist við afgreiðslu þessa frumvarps, lesið það hér.

Í stuttu máli sagt, ekkert.

Ef menn eru hissa á því að meðlimir Allsherjarnefndar hafi ekki kveikt á perunni hvað varðar tengslin, eigum við þá að trúa því að það sama gildi um alla Alþingismenn?  Eða las enginn málskjölin yfir nema til málamynda?  Athugaði enginn þingmaður eða ræddi það við meðlimi Allsherjarnefndar hver væri bakgrunnur þeirra sem væri verið að veita ríkisborgarétt?

Eða liftu þingmenn bara "stimplinum"?

Hversu marktæk er gagnrýni þingmanna sem ekki athuguðu hvað þeir voru að samþykkja?


Að kunna sig í boðinu: Vandi Framsóknarflokksins

Það hefur mikið verið rætt um stöðu Framsóknarflokksins undanfarna mánuði.  Skoðanakönnun eftir skoðanakönnun hefur vitnað um bága stöðu flokksins, en þó virðist hann örlítið hafa braggast undanfarna daga.

Margir vilja kenna samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn alfarið um þessa bágu stöðu, sumir tala um að Sjálfstæðisflokkurinn sé "stikkfrír" og þar fram eftir götunum.  Aðrir segja að það sé náttúrulögmál að samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokks tapi á samstarfinu.  Ekkert er þó fjær sanni og nægir að skoða kosningaúrslit 2003, þar sem Framsóknarflokkurinn tapaði innan við 1% af fylgi sínu á meðan Sjálfstæðisflokkur seig um það bil um 7%.

En það er engu líkara en menn vilji ekki sjá "fílana sem ganga um í herberginu", eða ætti ég ef til vill að segja "nautgripina", svona af því að við erum að ræða um Framsóknarflokkinn?

Vissulega hefur Framsóknarflokkurinn átt erfitt með að fylgja byggðaþróuninni á Íslandi og hasla sér völl í þéttbýlinu.  Staðan á höfuðborgarsvæðinu er afleit fyrir flokkinn.

Sömuleiðis var það auðvitað nokkuð áfall fyrir flokkinn þegar Samvinnuhreyfingin því sem næst lagði upp laupana.  Þó má sjá að staðan er ennþá sterkari en ella, þar sem kaupfélögin hafa ennþá ítök, s.s. á Suðurlandi, Skagafirði og í kringum Borgarnes.  Þó að aðrar viðskiptablokkir hafi komið til þá er ekki saman að jafna, S-hópurinn svokallaði enda ekki fjöldahreyfing.

Á tímabili virtist Framsókn þó eiga möguleika á því að ná fótfestu á mölinni, en á því kjörtímabili sem nú er að ljúka virðist allt hafa gengið á afturfótunum.

Það er heillavænlegra að leita að þeim orsökum innan eigin raða, heldur en að kenna um samstarfsaðilum.

 Ég held að allir hafi heyrt af sundurlyndi innan Framsóknarflokksins á yfirstandandi tímabili, og þó að hluti þess vanda hafi flutt sig yfir til Frjálslyndra, virðist ennþá ólga undir.  Þetta er auðvitað hluti vandans.

Ég er einnig þeirrar skoðunar að  forsætisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar hafi verið ákaflega misráðin og í raun ekki einvörðungu stórskemmt annars nokkuð gæfuríkan feril, heldur einnig skaðað flokkinn verulega. 

Það verður að kunna sig í boðinu, kunna að segja nei og taka ekki við meiru en maður á skilið.  Eftir að Halldór varð forsætisráðherra byrjaði strax að heyrast að fólk var óánægt með hve mikil völd þessum litla flokki var afhent og hvernig hann notaði oddaaðstöðu sína til að auka þau.

Það bætti síðan ekki úr skák að Halldór var ákaflega mistækur sem forsætisráðherra og kórónaði það svo með þvi að klúðra eigin afsögn, skapaði upplausn í flokknum og allt logaði í ófriði.

 Það leit út fyrir að það ætti að bola Guðna út, nafn Finns Ingólfssonar var nefnt sem formanns og Jón Sigurðsson náði svo að setjast á stólinn þegar tónarnir hljóðnuðu og átti erfiða innkomu þó að hann hafi vaxið í starfi.

Þjóðin horfði hissa á aðfarirnar.

Svipað varð að nokkru leyti upp á teningnum í borgarstjórnarkosningunum, ég heyrði það á mörgum að þeim fannst Framsókn fá alltof mikið miðað víð þá kosningu sem flokkurinn fékk.  En og aftur virtist hann í krafti oddaaðstöðu ná að kúga viðsemjendur sína og kunni sig ekki "í boðinu", lét eins og gömul maddama sem leggst í sortir.

Ég hef það á tilfinningunni að mörgum kjósendum hugnist ekki þessi oddaaðstaða Framsóknar og þyki mál að linni.

Í þessum sveitastjórnarkosningum gerðist það sömuleiðis að frambjóðandi flokksins í einu traustasta vígi hans, Akureyri, sagði sig úr flokknum fáum dögum fyrir kosningar og hefur líklega kostað flokkinn þar einn mann.  Enn og aftur ófriður.

Það þurfti svo heldur ekki að bíða lengi eftir að Framsókn beitti völdum sínum í höfuðstaðnum á vafasaman máta, og þurfti að draga til baka skipan Óskars Bergssonar.

Hér hefur bara verið stiklað á stóru, líklega mætti týna ýmislegt fleira til, s.s. illindin sem urðu eftir prófkjörið í borginni. 

En ef þetta er lesið sést að það er líklegra að leita skýringanna innan flokks, en meintri "teflonhúð" samstarfsflokksins sé um að kenna.  Það hefur enginn flokkur logað eins í innbyrðis illindum og óheilindum eins og Framsókn, þó að Samfylking komi þar líklega næst og síðan Frjálslyndir.

Ef til vill er ekki að undra þó að staða Sjálfstæðisflokks og VG sé sterk um þessar mundir, þó að þeir flokkar séu langt í frá fullkomnir.

Því eins og Garfield sagði:  "If you want to look thin, hang around fat people".


Svarti Pétur í grasrótinni?

Ég er að horfa með öðru auganu á kjördæmaþátt úr Norð-Vestri á RUV.  Það er ekki hægt að segja að það sé stórkostleg skemmtun, en þó er rifist og gripið fram í af nokkurri list.

En skoðanakönnunin sem var birt í upphafi þáttarins og sjá má hér er athygliverð.  Staða Sjálfstæðisflokksins er sterk, Samfylking og Framsóknarflokkurinn virðast braggast nokkuð frá fyrri könnunum, en VG bætir stöðu sína mikið frá síðustu kosningum.

Það sem helst vekur athygli er þó slæm staða Frjálslynda flokksins í þessu höfuðvígi sínu.  Guðjón hefur verið sterkur á heimavelli, en staða flokksins virðist ekki hafa styrkst við komu "grasrótarkóngsins" úr Framsóknarflokknum. 

Framsóknarflokkurinn virðist hins vegar heldur hafa sótt í sig veðrið við brottför "grasrótarinnar".  Það er engu líkara en að Framsóknarflokkurinn hafi komið "Svarta Pétri" yfir á Frjálslynda flokkinn.


Þaulsætnir "frelsarar"

Það hefur verið nokkuð merkilegt að lesa fréttir tengdar þessum atburðum í Eistlandi.  Fáir sem þær skrifa virðast hafa haft fyrir því að grafast mikið fyrir um sögu þjóðarinnar, eða hver er grunnurinn að þessum óeirðum.

Rangfærslur eru ýmsar (ekki verið að tala um þessa frétt) , einna algengast virðist sem að fjölmiðlamenn taki gildar þær útskýringar sem Rússar/Sovétmenn hafa fram að færa.

Eistlendingar fengu ekki sjálfstæði frá Sovétríkjunum árið 1991 (eins og lesa má í þessari frétt), sjálfstæði fengu þeir árið 1918, hernámi Sovétríkjanna í Eistlandi, sem hófst árið 1940,  lauk hins vegar árið 1991 og endurheimtu Eistlendingar þá  frelsi sitt.

Það verður að teljast eðlilegt að sjálfstæð þjóð vilji fjarlægja minnismerki, sem þó að það hafi verið reist til minningar um frelsun Eistlands frá nazistum, stendur fyrir niðurlægingarskeið í sögu þjóðarinnar, enda fylgdi þeirri "frelsun" ekkert frelsi, heldur ógnarstjórn þar sem tug eða hundruðir þúsunda þegnanna ýmist flúði land, eða var fluttur nauðungarflutningum til Síberíu.  Þeir sem eftir voru bjuggu við einræði og frelsiskerðingu.

Það er svo rétt að það komi fram að það er ekki meiningin að eyðileggja minnismerkið eða skemma á einn eða neinn hátt, heldur verður það flutt (og líkamsleifar, ef einhverjar finnast) í herkirkjugarð stutt fyrir utan Tallinn.

Þeir Eistlendingar sem mest hafa sig í frammi í þessum mótmælum virðast svo flestir tilheyra Rússneska minnihlutanum í landinu, en Sovétmenn flutti til landsins fjölda fólks frá Sovétríkjunum til að vinna gegn þjóðerniskennd fólksins og "samhæfa" landið Sovétríkjunum.  Hugsjónirnar virðast þó ekki rista mjög djúpt hjá stórum hópi þessa fólks, því mótmælin hafa á köflum leysts upp í rán og gripdeildir.

Það er ekki að efa að þessi atburður á eftir að hafa langvarandi áhrif í Eistlandi, samskipti "Rússneska" minnihlutahópsins og "Eistlendinga" (hér vantar mig að koma vel orðum að mismuninum, enda flestir "Rússana" Eistlendingar, fæddir þar og uppaldir) hafa oft á tíðum verið erfið, en ég held að seint muni gróa yfir þetta og "innfæddir" ekki reiðubúnir til að fyrirgefa og öfugt.

En Rússar virðast ganga fram með vaxandi hroka gegn þjóðum Austur Evrópu, það var enda ekki síst vegna ótta við þennan stóra og öfluga nágranna sem Eistland og önnur lönd í Austur Evróu lögðu svo mikla áherslu á að ganga í Evrópusambandið og NATO.

Mæli með þessari síðu fyrir þá sem hafa áhuga fyrir því að kynna sér stuttlega sögu Eistlands.


mbl.is Áframhaldandi óeirðir í Tallinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki blogfærsla með ZERO slagorðum?

Ég hef aldrei séð auglýsingu fyrir kók ZERO, en ég hef hins vegar heyrt og séð mikið fjallað um þessar auglýsingar og hvernig VG sneri þessum auglýsingum upp á Framsóknarflokkinn, voru margir hneykslaðir á þessu framferði.

Persónulega verð ég að segja að mér þykir eðlilegt og skemmtilegt ef ungt fólk í pólitík er svolítið "agressívt".  Það veitir ekki af smá ferskleika í baráttuna og fátt er leiðinlegra en ungt fólk í pólitík sem er "miðaldra" eða þaðan af eldra.

Sjálfur kom ég örlítið nálægt útgáfustarfsemi af þessu tagi á yngri árum, og kom þá nálægt ýmsu sem settlegt fólk myndi sjálfsagt vilja "særa" mig niður fyrir.

Eftirminnilegast eru ábyggilega barmerkin með útliti "innakstur bannaður" skiltis og á stóð "Aldrei aftur vinstri stjórn".  Ekki síður eftirminnilegt er veggspjaldið sem við útbjuggum og sýndi gamla koparstungu af líkfylgd, svart hvít mynd sem prentað var ofan í með rauðu letri:  "Móðuharðindi af mannavöldum:  Framsóknaráratugurinn"

Sjálfsagt fannst mörgum þetta of langt gengið, en við skemmtum okkur bærilega.

En ég hef alltaf haft gaman af því að dunda mér með orð, og skeyti þá lítt um hvort það passi alltaf við mínar skoðanir, eða minn málstað.  Ég verð til dæmis að nefna að mér finnst slagorðið "Damnation", ákaflega gott, þó að ég sé ekki fylgjandi því sem það stendur fyrir, eða að eyðileggja verðmæti með því að skrifa það.

En í dag og gær hafa leitað í hugann nokkur "ZERO" slagorð, ekkert þeirra sérstaklega fylgjandi mínum málstað, en ég læt þau flakka hér holt og bolt.

Fyrstu tvö gætu til dæmis gagnast Íslandshreyfingunni, sem ég vona þó að komi ekki manni á þing.

Af hverju ekki  græn og ZERO vinstri?

Af hverju ekki Kárahnjúkastífla og ZERO vatn?

Framsókn gæti svo notað þessi.

Af hverju ekki framsókn og ZERO stopp?

Af hverju ekki ekkert stopp og ekkert ZERO?

Blessaður biskupinn gæti svo hæglega látið búa sér til barmmerki sem á stæði:

Hvers vegna ekki samfélag og ZERO framfarir?

Og að lokum er hér eitt "retro", sem hefði hljómað vel í seinni heimstyrjöld

Af hverju ekki Japan og ZERO flugvélar?


Endalausar tilviljanir?

Það er nokkuð merkilegt að fylgjast með umræðunni um veitingu ríkisborgararétts nú nýverið. 

Friðjón er með ágætis innlegg í þá umræðu.

En sjálfur er ég ekki trúaður á tilviljanir, hvorki í þá veru að það sé helber tilviljun hver tengsl þessa nýja Íslendings og félagsmálaráðherra eru, né að þessi umræða kemur upp nú 16. dögum fyrir kosningar.

 


Að styrkja stöðu Íslenskunnar?

"Samfylkingin vill virkja menningararfinn með því að:  ....Dont be a sucker

9. Kanna hvort æskilegt er að styrkja stöðu íslenskunnar í stjórnsýslu, menntakerfi og löggjöf, ásamt íslenska táknmálinu. Móta stefnu um stöðu alþjóðamála, norrænna mála og helstu tungumála innflytjenda í stjórnsýslu og menntakerfi. Tryggt verði í löggjöf að allir íslenskir ríkisborgarar njóti almannaþjónustu á móðurmáli sínu en standi ella til boða sérstök aðstoð. "

Ofangreindur texti er fengin að láni úr kosningastefnu Samfylkingarinnar fyrir Alþingiskosningarnar sem fram fara nú í maí.  Skjámyndin er tekin af myndbandi sem frambjóðendur Samyfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hafa látið framleiða og ég fór og skoðaði eftir að hafa lesið færslu hjá Friðjóni.

Eftir að hafa séð umrædda auglýsingu er hægt að taka undir með Samfylkingunni að það sé þörf á að styrkja stöðu Íslenskunnar, en hvort að þingmannsefni þeirra á Suðurlandi séu réttu mennirnir til þess leikur meiri vafi á.

Eflaust er þessari auglýsingu ekki ætlað að heilla bændur í uppsveitum Árnessýslu, sjálfsagt er meiningin að fá ungt fólk til að kjósa Samfylkinguna með því að segja þeim að "DON´T BE A SUCKER".

En er ekki sjálfsagt að kosningaáróður á Íslandi, sé á Íslensku, nema ef honum er beint sérstaklega að Íslendingum sem séu af erlendum uppruna og reikna megi með að eigi í erfiðleikum með að skilja Íslensku?

Því væri ef til vill rétt að segja við frambjóðendur Samfylkingarinnar á Suðurlandi:  Ekki vera aular, notið Íslenskuna.

     


Hið stóra ef.... Verðlaunasamkeppni

Skáldsögur sem byggja á "hvað ef sögu" (þar sam sagan er endurrituð út frá punkti sem er talin marka straumhvörf), líklega er Fatherland eftir Robert Harris eitt þekktasta dæmið um slíkan skáldskap sem hefur notið mikilla vinsælda.

Það getur verið skemmtilegt að ímynda sér eitt og annað út frá öðrum forsendum.  Þess vegna ætla ég að hafa hér stutta verðlaunasamkeppni.

Ímyndið ykkur ykkur að vinstri stjórnin sem fór frá völdum árið 1991 hefði setið áfram.  Ekkert hefði orðið úr breytingum eins og einkavæðingu bankanna, skattar á fyrirtæki væru ennþá fast að 50% og þar fram eftir götunum.  Ögmundur Jónasson, Jóhanna Sigurðardóttir eða Jón Baldvin Hannibalsson hefðu tekið við af Sverri Hermannssyn sem bankastjóri Landsbankans.  Samfylkingin eða Þjóðvaki hefðu aldrei verið stofnuð (óþarfi þar sem flokkarnir væru við völd), en hér væru ennþá til Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Kvennalisti.  Síminn væri að sjálfsögðu ennþá í ríkiseign og vinstri borgarstjóri í Reykjavík væri að hefja uppbyggingu á brunnum húsum í Austurstræti.

Hvernig myndi fréttin sem tengd er við þessa færslu þá hljóma?  Eða hefði einhver frétt um "fjármálageirann" verið skrifuð?

Skrifið "smásögur" ykkur í athugasemdir hér að neðan, eða notið tengilinn "hafa samband".  Dómnefnd er lýðræðislega skipuð mér, og verðlaunin eru ekki af verri endanum, eða 1. líters brúsi af hágæða hlynsýrópi sem framleitt er af miklum móð hér í Kanada þetta vor sem önnur og frí póstsending hvert sem er í heiminum.


mbl.is Yfir þúsund störf urðu til í fjármálastarfsemi á síðasta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guð, eyðing jarðar og Sarkozy

Þessi er einfaldlega of góður til að "stela" honum ekki.  En eftirfarandi brandari er fengin að láni frá Vefþjóðviljanum.  Í Frönskum stjórnmálum er ekkert eins og það sýnist.

"Í byrjun vikunnar kallaði Guð þá George Bush, Vladimir Putin og Jacques Chirac á sinn fund. Ástæða fundarins var að tilkynna þeim að hann hygðist eyða jörðinni fyrir helgina. Að þessum fundi loknum fór Bush til síns heima og ávarpaði þjóð sína með þessum orðum: Ég hef góðar fréttir og slæmar fréttir. Góðu fréttirnar eru þær að Guð er til. Slæmu fréttirnar eru þær að hann ætlar að eyða jörðinni fyrir helgina. Vladimir Putin ávarpaði einnig þjóð sína og sagði: Ég hef tvær slæmar fréttir að færa. Sú fyrri er að Guð er til og sú seinni er að hann ætlar að eyða jörðinni fyrir helgi. Jacques Chirac fór einnig til síns heima og ávarpaði þjóð sína með þessum orðum: Ég hef tvær góðar fréttir að færa. Sú fyrri er að ég var einn evrópskra þjóðarleiðtoga boðaður á fund Guðs með Bush og Putin, en sú seinni er að Nicolas Sarkozy verður ekki kjörinn forseti Frakklands."


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband