Bloggfærslur mánaðarins, júní 2021
28.6.2021 | 01:26
Ef til vill fyrst og fremst ósigur lýðræðisins
Það er mér að meinalausu að flokkar Macron og Le Pen bíði ósigur og atkvæðin færist heldur hægra megin við miðjuna.
Reyndar virðist Franski Sósíalistaflokkurinn ætla að fá ágætis kosningu sömuleiðis, þannig að úrslitin eru "hefðbundnari" en undanfarið ef svo má segja.
En það sem stendur ef til vill upp úr er áætluð kjörsókn. Þegar þetta er skrifað er talað um að hún hafi verið eitthvað rétt yfir 30%.
Tveir þriðju Franskra kjósenda virðast hafa hundsað þessar kosningar. Þátttakan er talinn enn lægri á meðal ungra kjósenda (undir 35) eða í kringum 23%.
Þetta eru svipaðar tölur og í fyrri umferðinni, en fyrir þá seinni eru þær ekki endanlegar þegar þetta er skrifað.
Vissulega er það svo í þessum kosningum sem öðrum að það eru þeir kjósendur sem nota réttindi sín sem ráða niðurstöðunni.
En það er óneitanlega vert að gefa því gaum þegar kjörsókn er jafn lítil og raunin er nú i Frakklandi.
Hvort það er skortur á trú kjósenda á lýðræðinu eða á frambjóðendum ætla ég ekki að fullyrða um, ef til vill hvoru tveggja, eða aðrar ástæður sem blasa ekki við.
Það má einnig velta því fyrir sér hvort að aukin hætta sé á að einstaklingar og hópar leiti annara leiða en að greiða atkvæði til að finna óánægju sinni farveg.
Léleg kosningaþátttaka enda ekki eina "aðvörunin" sem hefur komið fram í Frakklandi að undanförnu.
En hins vegar er enn býsna langt til næstu forsetakosninga og margt getur breyst á þeim tíma. En það er ljóst að "hefðbundnu" flokkarnir eru að ná vopnum sínum, en hvort að þeir hafi "svörin" sem Frakkland þarfnast er önnur spurning.
Ósigur Macron og Le Pen | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.6.2021 | 16:54
Verðlag er hátt á Íslandi, en sker sig minna frá "samanburðarlöndum" en oft er talið
Það geta ekki talist nýjar fréttir að verðlag sé hátt á Íslandi. Það er nokkuð vel kunn staðreynd.
Þó að ekki séu öll ríki Evrópu með í samanburði Eurostat, má reikna með því að þó lönd sem eru utan hans séu ekki við toppinn sem gerir Ísland að 4ja dýrasta landi Evrópu í, miðað við útreikninga Eurostat.
Aðeins Sviss, Danmörk og Noregur eru dýrari. Fáum kemur líklega á óvart að sjá Sviss og Noreg á toppnum, en líklega eru einhverjir hissa á því að sjá Danmörk í öðru sæti (á undan Noregi), og þá jafnframt "dýrasta" Evrópusambandslandið.
En það vekur ekki síður athygli hve lítill munur er t.d. á Íslandi og Írlandi og Luxembourg.
Ísland er 37% yfir "Sambandsmeðaltalinu" en Írland og Luxembourg 36%. Þau eru þau tvö lönd sem eru "dýrust" á Eurosvæðinu.
Síðan koma Svíþjóð og Finnland. Ég tel það koma fáum á óvart að Norðurlöndin ásamt Sviss og Luxembourg raði sér í efstu sætin. Sjálfum mér kom það örlítið á óvart hvað Írland er ofarlega.
Ísland er í miðju Norðurlandanna, tvö þeirra eru örlítið dýrari, tvö heldur ódýrari.
En auðvitað eru svo einstaka flokkar sem skipast öðruvísi.
Hvað Ísland varðar eru það líklega 2. flokkar sem skera sig úr. Annars vegar áfengi og tóbak (en þar er Ísland u.þ.b. 90% yfir meðaltalinu, aðeins Noregur hærri, en Írland skammt undan) og svo aftur orka (en þar er Ísland með 63.4% af meðaltalinu og nokkurn veginn á pari við Noreg).
Eini flokkurinn sem Ísland er dýrasta landið í þessum samanburði er raftæki (consumer electronics), en þar er Ísland 22.9% dýrari en "Sambandsmeðaltalið".
Heilt yfir tel ég að Íslendingar geti þokkalega við unað, þó að án efa sé svigrúm til þess að gera betur.
En smár markaður þar sem flutningskostnaður verður alltaf hár gerir það líklegt að Ísland verði í "hærri sætunum".
En auðvitað er fjöldi breytanna mikill í dæmi sem þessu. En ég get ekki séð að gjaldmiðill hafi afgerandi áhrif á verðlag, eða stuðli að því að það lækki.
En hér má skoða samanburðinn nánar ef áhugi er fyrir hendi.
P.S. Meiningin var að þessi færsla tengdist þessari frétt af mbl.is, en það virðist hafa misfarist.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2021 | 00:29
Hvenær verður öfgasinnaður byltingarmaður íhaldssamur?
Ég hef oft gaman af því að velta fyrir mér hugtaka notkun, ekki síst notkun á alls kyns pólítískum hugtökum.
Það er býsna algengt að hugtök séu eitthvað á reiki og talað sé "í kross" um sama hugtakið.
Nú segja fréttir að íhaldssamur klerkur hafi sigrað í kosningum í Íran (ef kosningar skyldi kalla).
En ég hygg að flestir séu sammála því að byltingin í Íran árið 1979 hafi verið bæði róttæk og öfgafull.
En hvað þurfa "sömu öfl" að vera lengi við völd til þess að teljast "íhaldsmenn", eða íhaldssamir?
Eru þeir sem vilja auka frjálsræði og minnka "trúræðið" í Íran "róttækir"? Hvað þarf til að teljast "frjálslyndur" í Íran? Er t.d. nóg að vilja hætta að höggva hendur af fólki eða hýða það?
Voru Brezhnev og félagar "íhaldsamir kommúnistar"? Var Gorbachov "frjálslyndur kommúnisti" eða "byltingarsinni" vegna þess að hann vildi virkilega breyta hlutunum?
Gætu Sænskir jafnaðarmenn verið "íhaldsamir jafnaðarmenn" vegna þess að þeir hafa verið mikið við völd og eru ef til vill orðnir hlynntir "hægfara þróun"?
Einhvern tíma ræddi ég við einstakling sem taldi "The Founding Fathers" í Bandaríkjunum til íhaldsmanna. En ef þeir voru íhaldsmenn, hvaða skilgreiningu notum við yfir þá sem vildu áfram tilheyra Bretlandi?
Hvaða skilgreiningu höfum við á öfgamönnum?
Hvað þarf til að vera talinn öfga hægrimaður? Nú eða öfga vinstri maður?
Hvað er frjálslyndi? Er hægt að vera öfgafrjálslyndur?
Ég hugsa að svörin við spurningum og vangaveltum sem þessum séu æði mismunandi eftir því hver svarar.
Við því er í sjálfu sér lítið að gera, það er ekki hægt að segja að slíkar skilgreiningar séu meitlaðar í stein.
En ef skilgreiningar eru allar "út og suður" er hætt við að um- og samræður verði það einnig.
Raisi verður forseti Írans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2021 | 00:19
Svipmynd úr súpermarkaði
Það er svolítið sérstakt að ganga inn í súpermarkað þar sem allir eru með grímur og öllum er skipað að halda sig í skikkanlegri fjarlægð frá hver öðrum.
En svo kemur sumarið til skjalanna og hópur fólks stendur í miðjum súpermarkaðnum og handfjatlar vatnsmelónur af miklum ákafa, í leit að þeirri bestu og stærstu, því þær kosta það sama óháð stærð eða þyngd.
Allir eru ábúðarmiklir með grímu fyrir andlitinu og strjúka melónum og banka í þær.
22.6.2021 | 21:57
Loftgæði, nagladekk og götuþvottur
Ég held að varla verði um að deilt að nagladekk slíta götunum meira en önnur dekk.
Það er því æskilegt að dregið verði úr notkun þeirra eins og mögulegt er. Hitt er svo að hvaða marki það er mögulegt?
Sjálfur hef ég ekki ekið á nagladekkjum síðan áríð 2003, eftir minu besta minni.
Síðan þá hef ég ekið á snjódekkjum yfir "háveturinn" og svo yfirleitt "all season" þess á milli.
En auðvitað skiptir máli hvar er ekið, veðráttan þar og svo ekki síður hvort að snjóhreinsun og annað því um líkt sé eins og best verður á kosið.
Það vakti nokkra athygli mína í þessari frétt að loftgæði í Tallinn væru verulega betri en í Reykjavík.
Ég hef oft dvalið (og ekið) í Tallinn og bjó þar um all nokkra hríð. Loftgæði þar geta verið misjöfn, þar er mikið af dísilbílum og mikið um að hús séu kynt upp með timburafurðum (dulítið misjöfnum að gæðum), jafnvel kolum og sorpi er þar brennt til rafmagnsframleiðsu og miðlægrar húshitunar (þess má til gamans geta að fyrrverandi forstjóri þeirrar orkustöðvar er núverandi forseti Eistlands).
Í Tallinn myndi ég álíta að meirihluti bíla sé ekið á nagladekkjum, en líklega í skemmri tíma en á Íslandi, í það minnsta flest ár.
En í viðtali lét aðstoðarborgarstjóri Tallinn hafa eftir sér í viðtali árið 2020:
"Deputy Mayor of Tallinn Kalle Klandorf (Center) said that driving with studded winter tires kicks up dust in the air and wears out the roads.
"We have measured the dust molecules and they are at quite a high limit even though we are washing the roads all the time. We have never showered the roads as much as we have this year. We are washing the streets every evening with water, and when the winter tires drive on it, then just as soon the dust is back there again," Klandorf said."
Ekki ætla ég að segja að þetta sé eina skýringin, en líklega all nokkur hluti.
Leyfilegur tími fyrir nagladekk er í Eistlandi frá 15.okt til 1. maí.
Reykjavík í 16. sæti yfir loftgæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.6.2021 | 23:13
Lyfjaþróun er sýnd veiði en ekki gefin
Það hefur oft verið talað um "óhóflegan hagnað" lyfjafyrirtækja, en minna um þau lyf sem fyrirtæki eyða jafnvel milljörðum og gríðarlegum fjölda vinnustunda í þróun á, en kemst aldrei á markað.
Ég rakst einmitt á frétt um eitt slíkt tilfelli á vef Vísis í dag.
Þar er fjallað um bóluefni gegn "Kórónuveirunni", þar sem rannsóknir virðast ætla að skila litlum eða engum árangri.
Samt er búið að eyða tugum milljarða af bæði "einka" og opinberu fé til að þróa bóluefnið.
Þannig gerast kaupin oft á þeirri eyri.
Þess vegna er það svo hættulegt að taka "einkaleyfin" af þeim sem ná árangri, og um leið svifta þau fyrirtæki möguleika á því að ná fjárfestingunni til baka.
Rétt eins og sósíalistar eins og Biden hafa lagt til.
Hver vill festa fé sitt í rannsókn sem ef hún bregst þá tapast allt, en ef hún skilar árangri, þá er einkaleyfið tekið af, og allir mega framleiða lyfið?
Ég bloggaði um þetta áður, í færslu sem má finna hér.
18.6.2021 | 19:36
Breski Íhaldsflokkurinn hlýtur umtalsverðan skell í aukakosningum
Aukakosningar voru haldnar í Breska kjördæminu Chesham and Amersham í gær. Þingmaður kjördæmisins, Dame Cheryl Gillan sem hefur þjónað umdæminu síða 1992, lést nýverið.
Allir þingmenn kjördæmisins, allt frá stofnun þess 1974, hafa komið frá Íhaldsflokknum.
Þangað til nú.
Nú vann frambjóðandi Frjálslyndra demókrata, Sarah Green stórsigur, hlaut 56.7% atkvæða og jók atkvæðahlutfall flokksins (frá kosningum 2019) um 30.4 prósentustig. Atkvæðahlutfall Íhaldsfloksins skrapp saman um 19.9 prósentustig, og hlaut flokkurinn 35,5% atkvæða.
Verkamannaflokkurinn galt einnig afhroð, hlaut einungis 622 atkvæð eða 1.6% atkvæða (samanborið við 12,9% 2019). Það mun vera lakasta útkoma í aukakosningum í sögu flokksins.).
Niðurstaðan er auðvitað ákveðinn skellur fyrir Boris Johnson og ríkisstjórn Íhaldsflokksins, tap í aukakosningum sem þessum þykir benda til ákveðinnar óánægju.
En þó segir þessi niðurstaða ekki alla söguna, eins og stundum vill verða er kosningaþátttakan stórum minni en í kosningunum 2019, fellur úr 76,8% í 52,1%, eða um 24.7 prósentustig.
Það má lesa vangaveltur um að aukin áhersla Íhaldsflokksins í "norðrinu" hafi valdið því að kjósendum í "suðrinu" hafi þótt þeir afskiptir.
Einnig hefur verið í umræðunni að andstaða við lagningu hraðlestar (HS2) hafi valdið því að kjósendur Íhaldsflokksins hafi viljað koma óáægju sinni á framfæri og ýmist kosið Frjálslynda demókrata eða setið heima. Þingmaður Íhaldsflokksins í umdæminu hafði barist hart gegn núverandi skipulagi hvað varðar teinalagningu.
Það hefur líka heyrst að frestum Johnson á "opnun" Bretlands sem tilkynnt var þann 14. júní, hafi hugsanlega haft sín áhrif. Sú ákvörðun enda umdeild bæði innan Íhaldsflokksins sem utan.
Það ber að varast að lesa of mikið út úr niðurstöðum aukakosninga sem þessarar, en það má hæglega líta á þær sem viðvörun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.6.2021 kl. 12:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.6.2021 | 16:36
Heiðarleiki eða hroki?
Ég hef séð umræður um þá yfirlýsingu Haraldar Benediktssonar að hann muni ekki taka sæti neðar á lista en 1. sætið og eðlilega eru skiptar skoðanir á slíku.
Ég get í rauninni sagt að ég sjálfur hafi "klofnar" skoðanir til slíks.
Annars vegar lýtur það aldrei skemmtilega út að "hætta að leika", ef leikurinn fer ekki akkúrat í þá átt sem viðkomandi vill.
En hins vegar er það mun heiðarlegra að segja frá slíkum ákvörðunum fyrirfram en að hverfa á braut að prófkjöri loknu.
En hvort að Haraldur hafi ástæðu til þess að líta svo á að honum hafi verið hafnað, ef leikar enda svo að hann verði í öðru sæti, er líka annað mál.
En þátttakendur prófkjörinu vita þó að hverju þeir ganga hvað afstöðu Haraldar varðar.
14.6.2021 | 21:40
Fyrir áttatíu árum
Þann 14. júni 1941 hófust umfangsmiklir nauðungarfluttningar í Eystrasaltslöndunum, hersetnu Póllandi og í Hvíta Rússlandi og Ukraínu.
Tugþúsundir íbúa Eystrasaltsríkjanna voru fluttir í gripavögnum vinnubúðir eða fangelsi á afskektum stöðum í Sovétríkjunum.
Frá Eistlandi var í ríflega 10.000 einstaklingum pakkað í gripavagnana og þeir fluttir nauðugir á brott. Fjölskyldur, einstaklingar, smábörn, öldungar, konur og karlar.
Í gripavögnunum mátti finna u.þ.b. 2500 börn undir 16 ára aldri og í kringum 5000 konur.
Aðeins í kringum 3400 áttu afturkvæmt til Eistlands.
Stuttu seinna réðust Þjóðverjar á Sovétríkin
Nauðungarflutningar í Gulagið héldu svo áfram eftir að heimsstyröldinni lauk.
Sem tengingu við nútímann má nefna að móðir Kaju Kallas, núverandi forsætisráðherra Eistlands, var þann 25. mars 1949, flutt nauðungarflutningum til Síberíu, ásamt móður sinni og ömmu. Þá var hún 6. mánaða gömul.
Hún sneri aftur til Eistlands 10. ára.
Hér er heimasíða Hernáms- og frelsissafnsins í Tallinn.
Hér má sjá minnismerki um þá Eistlendinga sem týndu lífinu af völdum Sovétsins.
Hér er svo frétt Eistneska ríkisútvarpsins um minningarathafnir dagsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.6.2021 | 20:33
Samræming skattprósentu er að mörgu leiti blekking
Ef til vill er rétt á að byrja á því að fyrirsögn mbl.is á þessari frétt er kolröng. Samkomulag G7 hópsins snýst ekki um fjármagnstekjuskatt, heldur það sem oftast er kallaður tekjuskattur fyrirtækja, en er í raun hagnaðarskattur þeirra.
Fjármagnstekjuskattur er annað, en þó vissulega skylt fyrirbæri.
En hvaða þýðingu hefur það að setja lágmarkstekjuskattsprósentu á fyrirtæki innan G7? Í sjálfu sér nákvæmlega enga, enda prósentan mun hærri í þeim öllum en lágmarkið kveður á um.
En auðvitað hefur slík ákvörðun áhrif, ekki síst með þeim hætti að stærri ríki setja þrýsting á smærri ríki að hækka tekjuskattsprósentu fyrirtækja.
Það eru t.d. 3. ríki innan Evrópusambandsins sem mun ekki taka slíkum þrýstingi vel. Það eru Luxembourg, Holland og Írland.
Það er ekki tilviljun að "slanguryrði" s.s. "double Irish with a Dutch sandwich" er vel þekkt í fjármálaheiminum.
Ef ég hef skilið rétt rann það sitt skeið á síðasta ári en sjálfsagt hafa vel menntaðir skattalögfræðingar og fjármálaverkfræðingar fundið nýrri og betri leiðir.
Þessi vefsíða skýrir t.d. að hluta til hvernig það má vera að tekjuskattsprósenta í Luxumbourg er rétt tæplega 25%, en mörg fyrirtæki komast upp með að borga í kringum 1%.
Það er nefnilega svo að opinber skattprósenta segir ekki alla söguna.
Í raun minnst af henni.
Skattalöggjöf hvers lands fyrir sig er það sem skiptir ekki minna máli, og svo er það vilji einstakra ríkja til að gera "sérstaka skattasamninga" við stórfyrirtæki hvert um sig.
Engan hef ég heyrt tala um að samræma skattalöggjöfina eða það að bannað verði að einstök fyrirtæki geri "sérsamninga".
En án þess að slíkt sé gert er þetta að mestu leiti "óþarfa hjal" eins og svo mörgum stjórnmálamönnum er tamt. Þeir vilja jú að þeir líti út fyrir að vera að gera eitthvað en reyndin er önnur.
Þess vegna þarf í sjálfu sér ekki að koma neitt á óvart að slíkt komi frá Biden, sem hefur að ýmsu leiti "sérhæft" sig í slíkum "aðgerðum" á ríflega 50 ára stjórnmálaferli.
En munu þá engin fyrirtæki borga hærri skatt?
Um það er erfitt að segja þó að vissulega eru miklar líkur á því að fyrirtæki borgi hærri skatta á komandi árum. Það er þó líklegra en ekki að þær skattahækkanir bitni fyrst og fremst á smærri og millistórum fyrirtækjum, sem ekki hafa sömu möguleika til að hafa áhrif á skattalöggjafir og þau stóru. Eru síður með her "lobbýista" í vinnu o.s.frv.
Þeirra sem eru þokkalega stór, en hafa síður "her" skattalögfræðinga, fjármálaverkfræðinga o.s.frv. á launaskránni.
Hvað eru "meðalstór" fyirtæki?
Í Bandaríkunum er oft miðað við að meðalstór fyrirtæki velti á bilinu frá 10 milljónum dollara til 1 milljarðs dollara.
Í Evrópusambandinu er oft talað um þau fyrirtæki sem velta minna en 50 milljónum euroa og hafa frá 50 til 250 starfsmenn.
En mun þetta samkomulag G7 ríkjanna hafa áhrif? Það er alla vegna ekki hægt að sjá það á hlutabréfaverði risafyrirtækja að fjárfestar óttist að skattbyrði þeirra muni aukast úr hófi og þar með draga úr hagnaði og arðgreiðslum.
Það er líklegra að um verði að ræða dulítinn "kattar og músar" leik, þar sem rétt eins og í "Tomma og Jenna", músin verði ekki auðveld bráð, en starfsöryggi alls kyns "skattasérfræðinga" lítur betur út en nokkru sinni fyrr og er vænlegt fyrir ungt fólk að hefja nám í.
Samkomulag G7 um fjármagnstekjuskatt í höfn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.6.2021 kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)