Samræming skattprósentu er að mörgu leiti blekking

Ef til vill er rétt á að byrja á því að fyrirsögn mbl.is á þessari frétt er kolröng.  Samkomulag G7 hópsins snýst ekki um fjármagnstekjuskatt, heldur það sem oftast er kallaður tekjuskattur fyrirtækja, en er í raun hagnaðarskattur þeirra.

Fjármagnstekjuskattur er annað, en þó vissulega skylt fyrirbæri.

En hvaða þýðingu hefur það að setja lágmarkstekjuskattsprósentu á fyrirtæki innan G7?  Í sjálfu sér nákvæmlega enga, enda prósentan mun hærri í þeim öllum en lágmarkið kveður á um.

En auðvitað hefur slík ákvörðun áhrif, ekki síst með þeim hætti að stærri ríki setja þrýsting á smærri ríki að hækka tekjuskattsprósentu fyrirtækja.

Það eru t.d. 3. ríki innan Evrópusambandsins sem mun ekki taka slíkum þrýstingi vel.  Það eru Luxembourg, Holland og Írland.

Það er ekki tilviljun að "slanguryrði" s.s. "double Irish with a Dutch sandwich" er vel þekkt í fjármálaheiminum.

Ef ég hef skilið rétt rann það sitt skeið á síðasta ári en sjálfsagt hafa vel menntaðir skattalögfræðingar og fjármálaverkfræðingar fundið nýrri og betri leiðir.

Þessi vefsíða skýrir t.d. að hluta til hvernig það má vera að tekjuskattsprósenta í Luxumbourg er rétt tæplega 25%, en mörg fyrirtæki komast upp með að borga í kringum 1%.

Það er nefnilega svo að opinber skattprósenta segir ekki alla söguna. 

Í raun minnst af henni.

Skattalöggjöf hvers lands fyrir sig er það sem skiptir ekki minna máli, og svo er það vilji einstakra ríkja til að gera "sérstaka skattasamninga" við stórfyrirtæki hvert um sig.

Engan hef ég heyrt tala um að samræma skattalöggjöfina eða það að bannað verði að einstök fyrirtæki geri "sérsamninga".

En án þess að slíkt sé gert er þetta að mestu leiti "óþarfa hjal" eins og svo mörgum stjórnmálamönnum er tamt.  Þeir vilja jú að þeir líti út fyrir að vera að gera eitthvað en reyndin er önnur.

Þess vegna þarf í sjálfu sér ekki að koma neitt á óvart að slíkt komi frá Biden, sem hefur að ýmsu leiti "sérhæft" sig í slíkum "aðgerðum" á ríflega 50 ára stjórnmálaferli.

En munu þá engin fyrirtæki borga hærri skatt?

Um það er erfitt að segja þó að vissulega eru miklar líkur á því að fyrirtæki borgi hærri skatta á komandi árum.  Það er þó líklegra en ekki að þær skattahækkanir bitni fyrst og fremst á smærri og millistórum fyrirtækjum, sem ekki hafa sömu möguleika til að hafa áhrif á skattalöggjafir og þau stóru. Eru síður með her "lobbýista" í vinnu o.s.frv.

Þeirra sem eru þokkalega stór, en hafa síður "her" skattalögfræðinga, fjármálaverkfræðinga o.s.frv. á launaskránni.

Hvað eru "meðalstór" fyirtæki?

Í Bandaríkunum er oft miðað við að meðalstór fyrirtæki velti á bilinu frá 10 milljónum dollara til 1 milljarðs dollara.

Í Evrópusambandinu er oft talað um þau fyrirtæki sem velta minna en 50 milljónum euroa og hafa frá 50 til 250 starfsmenn.

En mun þetta samkomulag G7 ríkjanna hafa áhrif?  Það er alla vegna ekki hægt að sjá það á hlutabréfaverði risafyrirtækja að fjárfestar óttist að skattbyrði þeirra muni aukast úr hófi og þar með draga úr hagnaði og arðgreiðslum.

Það er líklegra að um verði að ræða dulítinn "kattar og músar" leik, þar sem rétt eins og í "Tomma og Jenna", músin verði ekki auðveld bráð, en starfsöryggi alls kyns "skattasérfræðinga" lítur betur út en nokkru sinni fyrr og er vænlegt fyrir ungt fólk að hefja nám í.

 

 


mbl.is Samkomulag G7 um fjármagnstekjuskatt í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Eins og ég skil BBC fréttina sem mbl vísar í snýst þetta samkomulag um að draga úr möguleikum fyrirtækja á að telja fram til skatts í öðru landi en það starfar að mestu og hefur mestar tekjur í. Með öðrum orðum að þrengja að skattaparadísum. Jafnvel líka að semja um "global" skattalágmark.

Vissulega ætla ég mér ekki þá dul að sjá í gegnum þetta plott hjá stjórnmálamönnunum og vísast verður eitthvað lítið úr þessu en eigum við ekki að segja að orð séu til alls fyrst, jafnvel í pólitík?

Kristján G. Arngrímsson, 12.6.2021 kl. 20:58

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það er reyndar góð spurning hvað varðar stór fyrirtæki, hvar þau "starfa að mestu"?

Hitt er svo að samkomulag G7 ríkja hefur engar skuldbindingar fyrir önnur ríki, þó að vissulega verði að hafa í huga að "þrýstingur" þeirra geti vigtað.

Hefur "þrýstingur" t.d. Þýskalands, Frakklands og Ítalíu innan "Sambandsins" virkað á Írland, Holland og Luxembourg?  Þessi þrjú ríki Evrópusambandins eru með "alræmdustu skattaparadísum" heims, og ekki má gleyma Kýpur, sem er jú líka í "Sambandinu".  Það er heldur engin ástæða til að gleyma Ermasundseyjum Breta, nú eða Sviss.  En vissulega vilja mörg Evrópuríki frekar tala um "karabísku eyjarnar".

En skattaprósenta segir lítið, skattalöggjöf þeim mun meira, svo ekki sé talað um "sérstaka skattasamninga".  Junker, fyrrum forseti "Sambandsins" var jú "innvolveraður" í nokkra slíka á meðan hann "ríkti" í Luxembourg.

En vissulega eru orð til alls fyrst.  En ef orðum er ekki fylgt eftir með einu eða neinu, eins og mörgum pólitíkusum er tamt, er "fyrst" ekki mikils virði.

En þetta eru heldur ekki fyrsta sinn sem hugmyndir í þessa átt eru "viðraðar".

Eins og líklega Churchill sagði, þá þarf góður stjórnmálamaður að geta sagt fyrir um það sem gerist eftir 6. mánuði, og eftir 6. mánuði þarf hann að geta útskýrt út af hverju það gerðist ekki.

G. Tómas Gunnarsson, 12.6.2021 kl. 21:26

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég hugsa nú að í flestum tilvikum sé nokkuð ljóst að fyrirtæki sem er með skúffuútibú í skattaparadís en selur lítið sem ekkert af framleiðslu sinni þar í landi sé vísvitandi að komast hjá því að borga skatta. 

Á endanum snýst þetta svo um þann þroska að vilja leggja sitt að mörkum til samfélagsins en hugsa ekki bar um eigið rassgat.

Restin er bara útfærsluatriði.

Það er mjög athyglisverð pæling hvers vegna menn eins og t.d. Bezos leggja sig fram um að borga sem minnstan skatt í ljósi þess að allar tekjurnar sem hann hefur koma honum í rauninni ekkert til góða. Menn sem fara út í geiminn að gamni sínu og á eigin kostnað eða byggja sér "skemmtisnekkjur" á stærð við skuttogara eða eiga Boeing sem einkaþotu eru mjög athyglisverð fyrirbæri. Spurningin varðandi þá er ekki hvernig þeir fari að þessu heldur hvers vegna þeim finnist þetta eftirsóknarvert. Hvað vantar í þá? Það segir sína sögu að þeir sem svona er komið fyrir eru mjög fáir. Langflest fólk hefur engan áhuga á svona ofurgróða vegna þess að hann færir því engin lífsgæði.

Kristján G. Arngrímsson, 12.6.2021 kl. 21:40

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Það er mikil einföldun og raunverulega rangt að segja að fyrirtæki séu t.d. með "skúffuútibú" á Írlandi.  Hins vegar hafa mörg fyrirtæki ákveðið að höfuðstöðvar þeirra í Evrópu séu á Írlandi vegna hagstæðari skatta.

En það þýðir ekki að það séu "skúffufyrirtæki", þó að ég ætli ekki að fyllyrða að engin þeirra séu það.

Apple er t.d. eitt þeirra fyrirtækja sem hafa ákveðið að hafa höfuðstöðvar sínar í Evrópu á Írlandi. Starfsmenn Apple á Írlandi eru taldir vera í kringum 6000.

Microsoft er annað, en starfmenn þeirra á Írlandi eru í kringum 2000, ef hég hef skilið rétt. 

Þetta eru ekki "skúffufyrirtæki", en vissulega hafa þau valið Írland fyrir hluta af starfsemi sinni vegna "jákvæðrar" skattalöggjafar.

En gríðarmikið af sölu þeirra frá Írlandi á sér stað í öðrum "Sambandsríkjum", enda "Sameiginlegi markaðurinn" ákveðið aðdráttarafl, ekki satt?

Bezos sem er oft tallinn ríkasti maður heims, þá þó ekki "nema" í kringum 11% af hlutafé Amazon.

Þegar Amazon greiðir út 100 kall í arð, eru það aðrir en Bezos sem fá næstum 90 krónur.

Stundum hef ég verið á meðal þeirra, þó að það hafi ekki mælst á þeim skala.

Í því tifelli og mörgum öðrum hef ég flotið með þeim sem hafa "skarpari framtíðarsýn" en ég.  En ég hef vissulega tapað sömulieiðis.

Hver þarf snekkju, eða einkaþotu?  Hver þarf 1.2 milljarða?  Á ekki ríkið að taka vinninginn af "lóttomanninum"?   Hefur hann eitthvað með þetta að gera?

Vantar ekki eitthvað í "lottómanninn" ef hann gefur þetta ekki frá sér?

Þarf heimurinn ekki frekar fleiri en færri einstaklinga sem sjá tækifæri og notfæra sér þau, sem skara fram úr og skapa eitthvað og koma ár sinni fyrir borð?

Eða eiga allir að eiga sér þann helsta metnað að ná að verða ríkisstarfsmenn?

G. Tómas Gunnarsson, 13.6.2021 kl. 00:28

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég er auðvitað ekki að halda því fram að fyrirtæki sem er með 6.000 manns í vinnu á Írlandi og höfuðstöðvar þar sé þar með skúffuútibú. Þú verður nú að temja þér aðeins meiri rausnarskap í túlkunum þínum á orðum viðmælenda þinna.

Fólk sem leggur alla áherslu á að eignast sem mest af peningum með öllum tiltækum ráðum er að finna bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera. Þetta er spurning um sálrænan kvilla - eitthvað tóm í sálinni sem reynt er að fylla upp í með peningum - en ekki rekstrarform.

Ef lottómaðurinn liggur á auðnum eins og ormur á gulli - tekur Jóakim aðalönd á þetta - má kannski segja að vanti í hann smá samkennd með sínum minnstu bræðrum. Og rússneski ólígarkinn sem kom hingað á snekkju á stærð við skuttogara hefur líklega verið einn af þeim sem fékk gefins stóran hluta af þjóðarauði Rússlands. Ósköp dapurleg saga.

En afsakaðu að ég er kominn með þetta í allt aðra átt en þú lagðir upp með.

Kristján G. Arngrímsson, 13.6.2021 kl. 08:08

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Ég minntist á Apple, Microsoft og Írland vegna þess að þau eru meðal þeirra fyrirtækja og landa sem þetta samkomulega er ætlað að beinast gegn.

Írland er almennt talið "skattaparadós" og 12.5% fyrirtækjaskattur þar hefur verið mörgum þyrnir í augum.  Það hefur enda gengið á ýmsu ef svo má að orði komast sbr. hvernig "Sambandið" reyndi að þvinga Íra til að taka meira fé af Apple.

https://www.bbc.com/news/business-53416206

Yfirvöld í "Sambandinu" héldu því fram að "raunskattur" Apple væri í kringum 0,05% á Írlandi.

Ég vildi því benda á að þessi samþykkt beinist alls ekki sérstaklega að "skúffufyrirtækjum".

Ég ætla ekkert að fullyrða um hvað drífur einstaklinga áfram til þess að eignast mikinn auð.  Ég einfaldlega þekki engan slíkan.

Ég reikna með því að það sé býsna misjafnt milli einstaklinga hvað drífur þá áfram.

Ég veit í sjálfu sér ekki hvaða Rússa þú ert að tala um, en ef "masturssnekkjan" er það sem þú ert að fjalla um, þá er eigandi hennar að mig minnir svo ungur að hann fékk ekkert "gefins" við uppbrot Sovétsins. Hann hefur að ég tel enda lítið verið í náttúruauðlindum.

En það er auðvitað auðvelt að "mála alla með sama penslinum". 

Hvað drífur hann áfram ætla ég ekkert að fullyrða um.

G. Tómas Gunnarsson, 13.6.2021 kl. 13:16

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nei, ég hef heldur ekkert fullyrt um hvað drífur menn áfram, aðeins velt því fyrir mér. Svona eins og þú hefur "velt því fyrir þér" hvað pólitíkusar séu í rauninni að meina með þessum skattalagabreytingum - þ.e. að hjá þeim búi óheilindi að baki og einungis það að líta vel út, ekki að ná neinum raunverulegum árangri.

Það er fátt ömurlegra en þegar "einkaaðilar" koma höndum yfir opinbert fé og hafa það á brott með sér. Lítið ef nokkuð skárra en þegar ríkið "tekur af" fólki peninga. Eiginlega er þó skárra þetta síðarnefnda því að "ríkið" er jú ekki annað en almenningur.

Kristján G. Arngrímsson, 13.6.2021 kl. 16:25

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Það getur oft verið gaman að velta hinum aðskiljanlegustu hlutum fyrir sér og ekkert nema sjálfsagt.

En það er eins og ég áður sagði sjálfsagt misjafnt hvað drífur einstaklinga áfram í auðsöfnun.

Í sjálfu sér getur auðsöfnun verið viðurkenning á því að verið sé að gera eitthvað rétt.

Viðskiptin ganga vel og verið er að bjóða upp á vöru sem fellur í kramið og jafnvel gerir lífið betra.  Vara eða þjónustu sem selst vel skapar gjarnan auð.

Það má nú segja að það sé dulítið misjafnt eftir "stað og stund" hvort að Ríkið (ekki Vínbúðin) sé ekkert annað en "almenningur" eða annað hættulegra fyrirbæri.

En það er ekki óalgengt að "Frelsis og réttlætisriddarar" sem hafa komist til valda auðgist verulega á völdunum.

Það hefur til dæmis mátt lesa fréttir af því að dóttir Chavez sé líklega ríkasti einstaklingur í Venezuela, metin á nokkra milljarða dollara.

"Alþýðuhetjurnar" bregðast ekki.

G. Tómas Gunnarsson, 13.6.2021 kl. 18:43

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

En hvað heldur þú Kristján að drífi áfram "sósíalistana"?  Hvað dreif áfram Stalín? Pol Pot? Kim Il Sung? Hugo Chavez? Ho Chi Minh? Lenín? Ceausescu og svo margir fleiri?

Hvað dreif þessa einstaklinga áfram?

Hvað dreif þá Íslendinga áfram sem dýrkuðuðu þessa einstaklinga og störfuðu í "vináttufélögum" o.s.frv. til að vegsama þessa einstaklinga og ríki þeirra?

Hvað dreif þessa einstaklinga áfram?  Hvað hefur fengið "vinstri intellígensuna" til þess að lofsyngja þessa einræðisherra?

Hvað fékk Halldór Laxness til að lofsyngja Stalín?  Græðgi og ágirnd?  Eða eitthvað annað?

Er það ekki eitthvað sem er vert að velta fyrir sér og jafn áhugavert og hvers vegna Bezos langar í meiri pening?

G. Tómas Gunnarsson, 14.6.2021 kl. 00:32

10 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Jú þetta eru einmitt mjög athyglisvert efni í vangaveltur, þetta með einræðisherrana. Ég er nefnilega ekki frá því að um þá hafi gilt mikið það sama og menn á borð við Bezos, fyrst og fremst sjúklegur narsissismi svo jaðraði við síkópatíu. Í tilviki Stalíns held ég að það hafi verið alveg augljóst að hann var síkó.

Og síkópatar eru mjög heillandi og eignast marga áhangendur. Samanber hvernig Trump varð einlægur andáandi Pútíns og vegsamaði hann sem leiðtoga.

Kannski var HKL bara óskup venjulegt fórnarlamb síkópata. Þangað til hann eins og aðrir sá hvernig raunverulega var í pottinn búið.

Mæli með kvikmynd sem heitir Death of Stalin - hún er stórkostleg og þótt hún sé gamanmynd er hún kannski mjög upplýsandi.

Kristján G. Arngrímsson, 14.6.2021 kl. 16:57

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Það er þó t.d. afar misjafnt hvort að einræðisherrar hafa stýrt til sín miklum auði, þó hygg ég að líklega séu þeir fleiri en færri.

En Stalín er almennt ekki talinn til þeirra og lifði til þess að gera fábrotnu lífi, svona almennt séð.

En einstaklingar eins og Bezos hafa ekki stolið sínu fé eða eignast það í gegnum spillingu.

Hvað HKL varðar, kannski var hann bara fégráðugur.  Hann var jú gefinn út í Sovétríkjunum á fjölda tungumála og líklega í all stórum upplögum. Bækur hans voru bækur mánaðarins í risa bókaklúbbum.  Höfundarlaun hafa sjálfsagt verið ágæt.

En að sjálfsögðu urðu listamenn að vera "solid" kommúnistar til að njóta slíkrar þjónustu.

Reyni sjálfsagt að finna þessa mynd einhvers staðar, líst vel á hana.

G. Tómas Gunnarsson, 14.6.2021 kl. 21:46

12 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þótt Stalín hafi ekki sankað að sér peningum má segja að hann hafi safnað völdum. Og eru ekki peningar nokkurnveginn ígildi valda nú á tímum. 

Það hafa borist fréttir af einkar slæmum vinnuskilyrðum lægst settu starfsmanna Amazon, þeir mega jafnvel ekki fara á klósettið þegar þeir vilja, og þess vegna alveg spurning hvort auður Bezos er ekki að sumu leyti illa fenginn. Við það bætist svo spurningar um skattgreiðslur fyrirtækisins - eða öllu heldur skort á þeim.

Varðandi aðdáun vinstri menntamanna á Sovétinu má kannski velta því upp að í Sovétríkjunum nutu rithöfundar mikillar virðingar - voru m.a. kallaðir "engineers of human souls" eða eitthvað álíka. Kannski vildi HKL og fleiri intellektúalar sækjast eftir upphafningu og virðingu, frekar en völdum og peningum.

Reyndar var HKL ásakaður - ef ekki ákærður - fyrir skattaundanskot í tengslum við tekjur hans í Bandaríkjunum, ef ég man rétt. Þótt hann hafi skrifað góðar bækur er ekki þar með sagt að hann hafi verið engill í siðferðisefnum.

Kristján G. Arngrímsson, 15.6.2021 kl. 15:17

13 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Völd geta fært peninga og peningar geta fært völd.  En það er alls ekki svo að þetta þurfi að fara saman eða geri það ætíð.

Það er alveg rétt að það hafa heyrsta býsna svæsnar sögur af vinnuaðstæðum hjá Amazon.  Ég efast í sjálfu sér ekkert um þær, en þær eru misjafnar eins og aðrar. Sumir vilja meina að þær komi að hluta til vegna möguleika á bónusum, en ég hef ekki þekkingu þar á.

Núna er víða verið að auglýsa að Amazon bjóði "sign on" bónus upp á ca. 350.000 Isl. 

Þannig að sjálfsagt er þetta misjafnt og fleiri en eitt sjónarhorn. 

Hvað Sovétið varðar þá er það nú svo að upphafningu og virðingu fylgja oft fjármunir eða ígildi þeirra.

Mig minnir að HKL hafi fengið sekt fyrir einhver skattaundanskot, en ekki síður fyrir gjaldeyrisundanskot, en gjaldeyriskilaskylda var ströng á árum áður.

Hann var ábyggilega enginn engill í siðferðisefnum, og um einstakling sem sagði ekki kunningja sínum frá því svo áratugum skipti að barnsmóðir og barns viðkomandi hefðu verið tekinn af NKVD fyrir framan hann, myndi ég nota orð sem eru ekki prenthæf, eins og stundum er sagt.

G. Tómas Gunnarsson, 15.6.2021 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband