Hljómar ágætlega... þangað til....

Það hefur lengi tíðkast að hafa horn í síðu lyfjafyrirtækja og "óhóflegs hagnaðar" þeirra.

Mörg þeirra eru á meðal stærri fyrirtækja heims.

En hvað býr að baki og hvers vegna?

Vissulega er saga lyfjaiðnaðar þyrnum stráð og þar er ekki vandi að finna dæmi þar sem lyf hafa valdið skaða og jafnvel að lyfjafyrirtæki hafi vísvitandi markaðssett lyf sem seinna meir hafa verið bönnuð, eða hafa valdið jafnvel meiri vanda en þau leystu.

Eftirlit með lyfjaframleiðslu og markaðssetningu þeirra hefur þau aukist all verulega með tímanum.

Heroin, var upphaflega vöruheiti á "over the counter" lyfi (gegn hósta), amfetamín var einnig í útbreiddri notkun, jafnvel sem megrunarlyf. Þessi "lyf" voru bæði upphaflega markaðssett í Þýskalandi.

En líklega hefur lyfjaiðnaðurinn oftast nær verið hvoru tveggja, haldreipi og skotspónn víðast um lönd.

Það er enda engin skortur á dæmum um að lyf hafi valdið tjóni, en sömuleiðis eru það ófáar milljónir sem hafa átt lengra líf lyfjum og lyfjaiðnaðinum að þakka. Ekki síst í samstarfi og bland við framfarir í læknavísindum.

Sá sem þetta skrifar þar á meðal.

En hvað kostar að þróa lyf og hvernig eiga þeir sem það gera að fá kostnaðinn til baka?

Stuttur tími einkaleifa hvað lyf varðar, ýtir í að mörgu leyti undir hátt verð.

Ef ég hef skilið rétt, rennur einkaleyfi í lyfjaframleiðslu út eftir 20 ár víðast hvar.  Allur kostnaður við þróun þarf því að greiðast á þeim tíma.

Hugverk, s.s. tónlist, leikverk o.s.fr., njóta verndar til æviloka höfundar og 70 árum lengur.

Hvort skyldi hafa spilað stærri rullu í velferð almennings, lyf, tónlist eða leikverk?

En auðvitað heyrast sjónarmið eins og að það sé ekki réttlætanlegt að hagnast á veikindum eða óhamingju annara.

Það er hægt að líta á slíkt frá mörgum sjónarhornum.

Ef t.d. er horft til fyrirtækis s.s. Össurs, segja sjálfsagt einhverjir að fyrirtækið hagnist á örkumlum og fötlun þúsunda einstaklinga. 

Það er í sjálfu sér ekki rangt.

En svo má líka segja að fyrirtækið hagnist á því að finna upp og endurbæta tól og tæki sem gera líf einstaklinga sem hafa orðið fyrir slysum og eru fatlaðir, svo óendanlega betra.

Sjálfur aðhyllist ég seinna sjónarhornið sem ég set hér fram (sjálfsagt eru þau fleiri).

Það er eins með þau bóluefni sem komin eru fram gegn kórónuveirunni. Miklum fjármunum hefur verið varið til þess að þróa þau.

MRNA tæknin sem bóluefnin frá Moderna og Biontech/Pfizer byggja á byggja á rannsóknum sem hafa staðið yfir svo árum skiptir.  Upphaflega var tæknin ætluð til að vinna gegn krabbameini (og mun án efa nýtast til þess í framtíðinni).

Bóluefnið frá Oxford háskóla/AztraZeneca nýtur rannsókna og þróunar sem höfðu verið unnar fyrir bóluefni gegn malaríu.

Hefur "heimsbyggðin" einhvern rétt til þess að svipta þessi fyrirtæki þeim tekjum sem þau þurfa á að halda til þess að vinna að áframhaldandi rannsóknum?

Það er einfalt fyrir misvitra stjórnmálamenn s.s. Joe Biden að að ákveða að einkaleyfi skuli falla úr gildi.

Stjórnmálamönnum finnst gjarna ekkert að því að gefa fjármuni sem ekki tilheyra þeim.

Hins vegar má alveg hugsa sér að Bandaríkin og aðrar af ríkustu þjóðum heims kaupi einkaleyfið af lyfjafyrirtækjunum.  Það er ekki eins og þær séu ekki að "henda" milljörðum í vitlausari hluti.

En það er varhugavert að neita fyrirtækjum um hugsanlega umbun fyrir árangursríkar rannsóknir.

Hér má finna lista yfir lyfjafyrirtæki sem hafa "horfið" á undanförnum árum.  Rannsóknir og þróun eru langt í frá að vera ávísun á hagnað.

P.S. Svo er langt frá því að hægt sé að treysta hvaða fyrirtæki sem er til þess að framleiða bóluefni þó að einkaleyfi yrðu afnumin. 

Framleiðslan er nákvæmnisverk og krefst stundum hundruða efna.  Lítið þarf út af að bregða svo að útkoman geti verið hættuleg.


mbl.is Einkaleyfi bóluefna verði afnumin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Eitt af því sem "big pharma" hefur verið gagnrýnt fyrir er að setja jafn mikið af peningum, ef ekki meira, í markaðssetningu en rannsóknir og þróun. Þetta mun vera eitthvað misjafnt eftir fyrirtækjum og líka er greinarmunur á þessu tvennu ekki alltaf augljós.

Svo hefur verið bent á að lyfjafyrirtæki hafi notið ríkisstyrkja, t.d. í Bandaríkjunum. Ekki má gleyma tröllasögunum af því þegar lyfjafyrirtæki hækka verðið á lífsnauðsynlegum lyfjum um hundruð prósenta.

Það má líka deila um hvort lyf séu eins og hver önnur söluvara. Sumt fólk deyr ef það fær ekki tiltekin lyf. Hvaða aðrar vörur á markaði gildir það sama um? Og eigum við að setja það í hendurnar á lyfjafyrirtækjum hvort eitthvert fólk deyr? Eða á maður kannski enga heimtingu á því að lifa?

Hefur heimsbyggðin einhvern rétt til að svipta þessi fyrirtæki tekjum, spyrð þú. Þetta er nú dálítið mikil einföldun, t.d. á grundvelli þess hvort lyf (amk. sum) séu venjuleg neysluvara, eins og t.d. íþróttaskór. Svo má á móti spyrja hvort þessi fyrirtæki eigi einhvern rétt á því að gera veikindi fólks sér að féþúfu. Það er alveg jafn valid spurning, þótt þú gerir lítið úr henni í byrjun færslunnar. Og reyndar alveg jafn mikil einföldun, ef út í það er farið.

Kristján G. Arngrímsson, 15.5.2021 kl. 18:12

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Spurningin hvort að einhver eigi heimtingu á því a lifa er auðvitað skyld spurningunni um að eiga rétt til að lifa.

En það er auðvitað svo að við getum ekki tryggt neinum líf, hvort sem viðkomandi "heimtar" það ekki. En hvern á hann "kröfu" á?

Eru þeir sem eru haldnir "ólæknandi sjúkdómum" (alveg þangað til einhver finnur upp lyf sem virka, eða aðrar aðferðir til lækningar) betur settir ef hvatinn til að finna upp lyf er minnkaður eða tekinn út?

Markaðsetning á lyfjum er oft mjög skrýtin, en víða orðin "reguleruð". Ég minnsist á slík dæmi í upphaflegu færslunni, og vissulega má finna sambærileg dæmi nær okkur í tíma.

Það er yfirleitt ekki í höndum lyfjafyrirtækjanna að ákveða hver fær lyf eða ekki.  Víða er það (þar á meðal á Íslandi, ef ég hef skilið rétt) í höndum stjórnvalda.

Myndi verð á sumum lyfjum lækka, ef einkaleyfis tímabilið yrði lengt?  Það er erfitt að fullyrða.

En þó lækkar líklega verðið meira sé litið til lengri tíma með núverandi fyrirkomulagi.

En stjórnvöldum er auðvitað heimilt að ráðast í umfangsmikla lyfjaþróun.  Það er ekkert sem bannar þeim slíkt, nú eða stjórnmálaflokkum að lofa slíku ef þeir komast til valda.

Sputnik V, er t.d. dæmi um bóluefni þróað af sjóði á vegum hins opinbera.

En hið opinbera víða um lönd finnst hins vegar oft frekar spennandi að gefa það sem það á ekkert í.

Svo má velta því fyrir sér hvort að hið opinbera eigi að setja "þessi eða hin" skilyrði þegar það veitir styrki til rannsókna.  Það er önnur umræða.

P.S. Íþróttaskór eru líklega mun betur "patent" varðir en lyf.  Enda verð á mörgum þeirra þannig að ekki er á "hvers manns" færi að eignast þá.

G. Tómas Gunnarsson, 15.5.2021 kl. 18:44

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Áttu við að hvatinn til að þróa lyf sé fyrst og fremst gróðavonin? Ég er ekki alveg viss um að svo sé í öllum tilvikum. Reyndar er kannski þarna komið að kjarna þess hvers vegna "big pharma" nýtur svo mikillar óvildar sem raun ber vitni. Fólki finnst eins og þessi fyrirtæki séu drifin áfram af gróðavon þegar það sem kannski ætti að vera drifkrafturinn er löngun til að gera öðrum gott.

Þessi punktur snertir reyndar líka þetta sem ég nefndi um að lyf séu ekki alveg sambærileg vara m.v. margar neysluvörur. Það er sosum ekkert skrítið við það þegar fyrirtæki framleiðir íþróttaskó til þess fyrst og síðast að græða, eða selt er áfengi fyrst og fremst til að græða.

En það lítur ekki mjög huggulega út að framleiða lyf til þess fyrst og fremst að græða.

Kristján G. Arngrímsson, 15.5.2021 kl. 18:55

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég reikna með því að hvatinn til að þróa lyf sé margvíslegur, rétt eins og í flestu öðru í lífinu.

En hvatinn til að þróa lyf (eða aðrar vörur sem hjálpa til við meðhöndlun sjúklinga) getur t.d. verið misjafn t.d. hjá þeim sem vinnur að þróuninni og þess sem fjármagnar hana.

Fjármagnseigandinn getur verið hugsjónamaður sem missti náin ættingja úr sjúkdómi, og finnur vísindamann í verkið og svo öfugt, sem er hugsanlega algengara, þó að ég ætli ekki að fullyrða um málið.

En það eru líklega ekki margir sem hafa tugi eða hundruði millljóna dollara til að leggja í slíkt rannsóknarstarf.

Því hyggjast líklega flestir ná kostnaðinu til baka.  Síðan má ekki gleyma öllum þeim rannsóknum sem aldrei skila neinu til baka, eru einfaldlega "flopp". 

Þeim sem skila árangri er oft ætlað að borga fyrir þær sömuleiðis.  Leitaður bara í fréttum hvað margir hafa hafið rannsóknir og þróun á bóluefni gegn Covid og hvað margir eru komnir með "afurð".

Enda listinn yfir lyfjafyrirtæki sem hafa "horfið" langur.

Í mínum huga er ekkert athugavert við að framleiða lyf með hagnað að leiðarljósi, ekki frekar en að framleiða matvæli, gervifætur, sjúkrahúsrúm, læknasloppa, röngtgenmyndavéla eða hreinlega sápu.   Sem er notuð til að þvo hendur læknisins sem er að fara skera upp sjúkling.

Listinn gæti verið langur.

G. Tómas Gunnarsson, 15.5.2021 kl. 19:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband