Bloggfærslur mánaðarins, desember 2019
31.12.2019 | 23:26
Gott og farsælt nýtt ár
Þó að tíminn streymi áfram eins og öflugt fljót og í raun engin munur á mínútunni sem var að líða og þeirri sem er að koma, þá höfum við komið okkur saman um að mæla tímann í ákveðnum einingum. Þær eru vissulega ekki þær sömu alls staðar, eða upphaf þeirra eða endir staðlaður, en flestir eru þó sáttir við mælieiningarnar.
Og þó að ekki sé líklegt að mikið meira hafi breyst frá 31. desember til 1. janúar, en flesta aðra daga, finnst okkur flestum nýtt ár nokkuð merkilegt fyrirbæri.
Hvort að fljótlega hefjist nýr áratugur, er svo önnur saga, sem ég ætla ekki að fara að efna til rifrildis um (auðvitað er það ekki nú).
En 2020 er skemmtilegt ártal, og margir hafa sett sér ákveðið takmark tengt því ári einhverjar "sóknaráætlanir" hafa einnig verið því tengdar og nefndir skipaðar til að vinna þær.
En senn er 2019 liðið (hve langt er eftir fer auðvitað eftir því hvar einstaklingurinn er staddur, eða hvaða tímatal er notast við :-), ég vona að sem flestum hafi það reynst gott.
Ég vil ennfremur nota tækifærið og óska öllum, nær og fjær, gæfu og farsældar á komandi ári, 2020.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.1.2020 kl. 16:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.12.2019 | 19:16
Vanhæfi, vinir og verðleikar
Líklega er best að taka fram að ekki þekki ég Gylfa Arnbjörnsson neitt, hef ekki séð hann nokkurs staðar nema í fjölmiðlum. Mér er heldur ekki kunnugt um að við séum skyldir eða eigum sameiginlega kunningja.
Persónulega hefur mér þótt Gylfa standa sig ágætlega í þeim störfum sem hann hefur tekið að sér, þótt eflaust séu um það skiptar skoðanir eins og flest annað.
Forseti ASÍ verður líklega sjaldnast allra.
En nú sækir Gylfi um starf sáttasemjara ríkisins.
Enginn getur neitað því að Gylfi þekkir vel til á vinnumarkaðnum.
En er þekking hans um of frá annarri hliðinn?
Hefur hann ef til vill myndað tengsl, eða jafnel vináttusambönd í sínu fyrra starfi?
Yrði hann á stundum að lýsa sig vanhæfan til þess að gegna starfi sínu vegna þess?
Gæti þess verið krafist?
Til viðbótar má svo nefna að núverandi eða fyrrverandi flokkssystkin hans úr Samfylkingunni (ég ætla ekkert að fullyrða um flokksaðildir dagsins i dag) eru mörg áberandi í verkalýðshreyfingunni.
Ég vil taka það fram að þessi færsla er ekki gegn Gylfa eða því að hann verði ríkissáttasemjari.
En ég held að Íslendingar þurfi að velta þessum málum fyrir sér. Í littlu landi verða á lífsleiðinni til margvísleg tengsl.
"Fyrnast" þau á ákveðnum fjölda ára? Hve "náin" þurfa þau að vera svo að spurning um vanhæfi vakni?
Er þörf á að skerpa á lögum og reglugerðum hvað vanhæfi varðar?
Því varla er æskilegt að þetta ráðist af "andrúmsloftinu" og hve stórt "upphlaupið" er í það og það skiptið?
Gylfi vill verða ríkissáttasemjari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 31.12.2019 kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2019 | 16:19
Hver er skandallinn?
Persónulega finnst mér þetta dæmi um hvernig reynt er að koma höggi á einstaklinga, frambjóðendur og fyrirtæki, án verulegrar ástæðu.
Er ámælisvert að skaffa föngum atvinnu?
Borgaði framboð Bloomberg óeðlilega lágt verð fyrir þjónustu fanganna? Nei.
Það má vissulega deila um hvort óeðlilegt sé að fangarnir beri svo lítið úr býtum, en þar er ekki við framboðið að sakast, heldur hvernig reglurnar eru um vinnu fanga og laun þeirra.
Það er sjálfsagt að berjast fyrir breytingu á þeim reglum.
En það er gott fyrir fanga að fá vinnu, og æskilegt að hún sé að einso lík vinnu utan múranna og kostur er.
Skyldi fjölmiðilinn sem "svipti hulunni" af þessu vera stoltur af því að fangarnir hafa ekki lengur þessa vinnu?
Hver er skandallinn?
Fangar hringdu fyrir Michael Bloomberg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.12.2019 | 16:41
Gleðileg jól
Ég hef skrifað hér áður um hvað mér finnst jól vera skemmtileg hátíð og ekki síður gott orð.
Jólin geta verið allra, allra þeirra sem vilja það er að segja. Þetta forna heiðna indoevrópska orð, sem enginn veit fyrir víst hvað þýðir en er samt sem áður svo hátíðlegt.
Sumir vilja meina að það sé skylt orðinu hjól og lýsi einfaldlega árinu sem nokkurs konar "hjóli", aðrir segja að jól þýði einfaldlega hátíð.
Það er enda gamall og gegn siður að fagna sólstöðum og því að daginn fari að lengja.
Ég reikna með að flestum þyki það fagnaðarefni.
En að sjálfsögðu hafa jólin mismunandi merkingu hjá mismunandi hópum, en flestir tengja þau líklega við góðar minningar, oft frá bernskunni og samveru fjölskyldunnar.
Góðar matur, góðar gjafir, góður félagsskapur.
Það eru jólin.
Kalkúninn, býður eftir því að fara í ofninn, trönuberin eru að sjóða, sætar kartöflur í potti og skvaldur heyrist frá fjölskyldunni.
Það eru jólin.
Ég óska öllum, bæði nær og fjær gleðilegra jóla.
22.12.2019 | 21:04
PISA blús
Það má eiginlega ganga að því vísu að þegar niðurstöður PISA kannana eru birtar upphefjist gríðarleg umræða á Íslandi um hvers vegna niðurstöðurnar séu svo slæmar fyrir Ísland og hvers vegna þær færist sífellt neðar á skalanum.
En sú hefur svo gott sem raunin frá því að Ísland byrjaði þátttöku í þessum rannsóknum, leiðin hefur heldur þokast niður á við.
Ég er reyndar sammála því að PISA könnunin sé hvorki upphaf né endir skólastarfs, en það er engin ástæða heldur til að líta fram hjá þeim vísbendingum og samanburði sem könnunin gefur.
Það er ef til vill rétt að taka það fram að ég hef enga reynslu af því að eiga barn í Íslensku skólakerfi, mín eigin reynsla af þvi er áratugagömul og það sem ég veit um Íslenskt skólakerfi er það sem kunningjar mínir hafa sagt mér eða ég lesið.
En ég hef reynslu af því að eiga börn í skólum, bæði í Kanada og Eistlandi. Það eru einmitt löndin sem eru í 5 og 6 sæti í könnuninni, fyrstu lönd utan Asíu.
En hvers vegna standa krakkarnir í þessum löndum sig svona vel?
Við þeirri spurningu er ekki neitt eitt svar. Ekki eru það kennaralaunin sem skipta öllu máli. Kennarar í Kanada eru reglulega á top 10 yfir best launuðu kennara í heimi, en Eistneskir kennarar eru gjarnan á eða við botninn hvað varðar laun. Laun kennara í Eistlandi ná almennt ekki 200.000 Íslenskum krónum, og eru heldur undir meðal launum í landinu. Luxembourg sem oft hefur verið talið borga kennurum hvað best, er fyrir neðan Ísland hvað varðar PISA árangur.
Það er skrýtin samsetning að í því landi sem nær bestum árangri í Evrópu, eru laun kennara á meðal þeirra lægstu.
En það er rétt að taka eftir því að Íslenskir kennarar eru einnig í hópi þeirra kennara sem hafa hvað lægstu launin.
Í Eistlandi voru börnin mín í bekkjum sem voru yfirleitt með ríflega 30 börn, gjarna 32 eða 33.
Í Kanada hafa bekkirnir yfirleitt verið fámennari, gjarna á bilinu 24 til 27. Einn vetur var drengurinn minn í "samsettum" bekk, sem var þá 2 og 3ji bekkur saman. Skólinn var ekki stærri en svo að ríflega tvær bekkjardeildir voru í hverjum árgangi og því "afgangnum" skellt saman. Slíkt fyirkomulag er ekki vinsælt á meðal foreldra, en allt gekk þetta vel.
Í Eistlandi er dagheimilisvist barna mjög útbreidd, en sjaldgæf í Kanada (Ontario). Í Kanada byrjar hins vegar skólinn við 4ja ára aldur (Kindergarten), sem er þó ekki skylda en er án kostnaðar fyrir foreldra. En það er aðeins 2 og hálfur tími á dag.
Tungumálakennsla (Franska, Kanada er tvityngt land) getur svo hafist við 5 ára aldur, ef foreldrar kjósa svo, en þá fer barnið í "frönsku aðlögun" (French immersion).
Skólaskylda er svo frá 6 ára í Kanada, en ekki fyrr en við 7. ára aldur í Eistlandi.
Heimalærdómur byrjaði strax í 1. bekk í Eistlandi og jókst svo með ári hverju. Í Kanada byrjar heimalærdómur mun síðar, líklega ekki fyrr en 6. bekk, en strax frá upphafi eru alls kyns "project" í vísindum, landafræði og allra handa sem eru unnin heima (getur lagst þungt á "metnaðargjarn foreldra).
Mikil áhersla er lögð lestur í Eistlandi, jafnt í skóla sem heimavið. Krakkarnir eru látnir lesa sígildar Eistneskar barna og unglingssögur sem og heimsklassík s.s. Astrid Lindgren.
Alltaf fylgir í kjölfarið endursögn (mislangar) á bókinni. Kennarar í Eistlandi eru óhræddir við að gefa út "leslista" fyrir sumarfríið.
Í Kanada er líka mikill lestur, en að mestu leyti bundin við skólann.
Í Eistlandi fá öll börn í grunnskóla frían hádegisverð (ekki endilega "stórkostlegir" réttir, jafnvel bara súpu og brauð, en yfirleitt saðsamir og næringarríkir). Í Kanada er ekki boðið upp á hádegisverð, heldur koma börnin með nesti að heiman.
Bæði Eistland og Kanada hafa margþætt menntakerfi. Í Eistlandi má t.d. finna bæði skóla sem kenna á Eistnesku og Rússnesku. Í Kanada (Ontario) eru bæði "hefðbundnir" og kaþólskir grunnskólar reknir af hinu opinbera. Bæði löndin hafa úrval af einkareknum skólum, margir þeirra, sérstaklega í Kanada eru eingöngu reknir fyrir skólagjöld. En í Eistlandi er einnig margþætt form, og margir skólar velja stóran hluta nemenda sinna, þó þeir fái rekstrarkostnað sinn frá hinu opinbera.
Þannig að fjölbreytileikinn í skólakerfum þessara landa er verulegur. Skólastjórar hafa mikið að segja um hvernig skólarnir eru reknir.
En ef ég ætti að nefna eitthvað eitt sem mér virðist vera öðruvísi í skólum í Kanada og Eistlandi samanborið við hvað ég hef heyrt um Islenska skóla dugir eitt orð:
Agi.
Mér virðist mun meiri agi ríkja í skólum bæði í Eistlandi og Kanada en á Íslandi.
En það fer líka fram mun meiri flokkun á nemendum í þessum löndum en Íslandi, líklega sérstakaklega Eistlandi.
Ekki endilega eftir getu eða einkunnum, heldur einnig eftir hegðun.
Ég man ekki eftir því að hafa heyrt svipað hugtak og skóli án aðgreiningar í Eistlandi eða Kanada.
Það er líklega einn af þáttunum sem gerir stærri bekkjardeildar mögulegar.
En ég vil biðja alla sem lesa þetta að gera sér grein fyrir því að hér er ekki um að ræða neina vísindalega úttekt.
Hér er eingöngu um að ræða mína upplifun af tveimur mismunandi menntakerfum og af afspurn hið þriðja.
En ég held að það sé ljóst að þessi lönd, Kanada og Eistland sem skipa sér svo ofarlega í PISA könnuninni, eru með mjög mismunandi menntakerfi.
Ég held líka að það sé óraunhæft að Ísland geti tekið upp menntakerfi annara landa, hvort sem það er Finnland, Svíþjóð, Kanada eða Eistland.
En líklega þurfa Íslendingar að hyggja að því að bæta sitt menntakerfi og bæta árangur, ekki síst hvað varðar lesskilning.
En ég held að þjóðin þurfi líka að gera upp við sig hvernig menntakerfi hún vill. Á hvað á að leggja áherslu.
Eiga skólar fyrst og fremst að vera góðir "geymslustaðir" þar sem öllum líður vel, eða á að gera frekari kröfur.
Því það er ekki alltaf átakalaust að "menntast" og getur tekið á. Þar getur verið að það falli ekki öllum að fara áfram á sama hraða, eða á sömu braut.
Líklega er fjölbreytni að mörgu leyti lykilorðið, og það er oft því erfiðara að tryggja það í littlu samfélagi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.12.2019 | 19:52
Satanísk meðallaun
Það er ekki nema von að það gangi á ýmsu í VR og sýnist sitt hverjum. Meðallaunin eru einfaldlega satanísk.
Sjálfsagt munu margir líta svo á að að djöfullinn spili í félaginu.
Við verðum að vona meðallaunin hækki eða lækki fljótlega, annars er voðinn vís.
666 þúsund króna meðallaun í VR | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.12.2019 | 18:04
Breska kosningakerfið - skiptar skoðanir
Það má ganga nokkurn veginn að því sem vísu að eftir kosningar í Bretlandi upphefjist umræða um kosningakerfið.
Til dæmis segir Nigel Farage að það sé stærsta málið í Breskum stjórnmálum að breyta yfir í hlutfallskosningu (líklega þá eftir að Brexit hefur verið afgreitt :-). Líklega hafa fáir flokkar farið mikið verr út úr Breska kosningkerfinu, en UKIP, þar sem Farage var lengi leiðtogi.
Vissulega eru einmenningskjördæmi verulega umdeilanlegt fyrirkomulag, enda möguleiki á því að sigurvegarinn hafi ótrúlega lágt hlutfall atkvæða, allt eftir fjölda framboða og atkvæðadreifingu. En að er ekki óþekkt að vinna sæti með í kringum 30% atkvæða.
Þannig má vissulega segja að niðurstöðrnar endurpegli ekki vilja kjósenda heldur eingöngu stærsta hluta þeirra. Þetta þekkja Íslendingar vel frá niðurstöðum forsetakosninga, en flestum forsetum hefur þó tekist að verða að forsetum "allra kjósenda".
En það er varhugavert að yfirfæra niðurstöðu kosninga í einmenningskjördæmum yfir í hlutfallskosnigar.
Því eðlilega taka kjósendur, frambjóðendur og flokkar mið af því kerfi sem þeir starfa með.
Mjög líklegt er að kosninghegðunin hjá öllum þessum aðilum yrði önnur í Bretlandi ef um hlutfallskosningu væri að ræða.
En án nokkurra vísindalegra rannsókna, heldur eingöngu byggt á því sem ég hef lesið og heyrt, sem og skoðunum örfárra enskra kunningja, held ég að niðurstöðurnar í nýafstöðnum kosningum hefði orðið all nokkur önnur ef um hlutfallskosningu í nokkrum stærri kjördæmum hefði verið að ræða.
Í fyrsta lagi hefði flestir flokkar líklega ákveðið að bjóða fram í öllum kjördæmum. Brexit flokkurinn hefði aldrei dregið sig í hlé í stórum hluta þeirr, svo dæmi sé tekið.
Mér þykir líklegt að Íhaldsflokkurinn hefði fengið heldur lægra hlutfall atkvæða(og mun færri þingmenn), mér þykir sömuleiðis líklegt að tap Verkamannaflokksins hefði orðið mikið stærra.
Frjálslyndir demókratar hefði líklega orðið mun stærri og Brexit flokkurinnn hefði jafnvel getað náð á bilinu 12 til 20% fylgi. Brexit flokkurinn hafði t.d. yfir 25% fylgi í Hartlepool, en var samt í 3ja sæti.
Skoski þjóðarflokkurinn myndi síðan skreppa saman í fylgi að einhverju leyti, en líklega helmingast í þingmannafjölda.
Ekki er ólíklegt að tala framboða myndi marfaldast. Sömuleiðis þykir mér líklegt að kjörsókn hefði orðið meiri.
Þetta eru auðvitað hugleiðingar sem óþarfi er að taka hátíðlega, en það er staðreynd að flokkarnir haga kosningabaráttu sinni í samræmi við kerfið og eyða littlu púðri í kjördæmi sem þeir telja örugg.
En þar kemur þó einmitt að því sem margir telja kost einmenningskjördæmanna, nálægðin og þá staðreynd að fá ef nokkur sæti eru 100% örugg.
Því fékk leiðtogi Frjálslyndra demókrata að kynnast í nýafstöðnum kosningum, en hún náði ekki kjöri.
Það breytist í hlutfallskosningum með "löngum" listum.
Jafnvel tvær umferðir tryggja heldur ekki að meirihluta atkvæða þurfi til meirihluta á þingi. Þannig er t.d. staðan í Frakklandi (með sínar 2. umferðir í þingkosningum) að flokkur Macron forseta er með u.þ.b. 53% þingmanna með rétt ríflega 43% atkvæða. Fjöldi flokka hefur vissulega áhrif.
En mörg ríki (þar á meðal Ísland) hafa löggjöf sem settur er "þröskuldur", hugsaður til að draga úr "flokkakraðaki". Önnur ríki gefa "þingmannabónus", þeim flokki sem er stærstur. Í Grikklandi minnir mig að sá bónus sé 50 þingmenn, en á Ítalíu segir minni mitt mér að bónusinn sé 100 þingmenn.
Líklega væru ekki margir andstæðingar Sjálfstæðisflokksins ánægðir með slíkt fyrirkomulag á Íslandi.
Þannig eru mismunandi kerfi notuð víða í lönd, og um þau ríkja mismunandi skoðanir. Það er eðlilegt.
Líklega verður seint breytt um kerfi í Bretlandi, enda hafa þrír stærstu (þing)flokkarnir, Íhaldsflokkurinn, Verkamannaflokkuring og Skoski þjóðarflokkurinn ótvíræða hagsmuni í af núverandi kerfi.
Það voru heldur ekki margir sem mótmæltu hlutskipti UKIP árið 2015, en þá var flokkurinn 3ji stærsti flokkurinn í atkvæðum, en hlaut aðeins 1. þingmann. Sigurinn hefði jafnvel getað orðið stærri i hlutfallskerfi, hver veit?
Ég gerði töflu eftir kosningarnar 2015, hvað varðar mismun á % hvað varðar atkvæði og þingmenn.
Líklega hefði stjórnmálasaga Breta orðið að einhverju leiti öðruvísi, ef eftir þessar kosningar hefði tekið við samsteypustjórn Íhaldsflokksins og UKIP, í stað meirihlutastjórnar þess fyrrnefnda.
P.S. Það er ýmislegt sem tíðkast í lýræðisríkjum sem skiptar skoðanir eru um. Ég er t.d. alfarið á móti því fyrirkomulagi sem tíðkast víða, t.d. á mörgum af Norðurlöndunum að þjóðhöfðingji geti ekki komið úr nema einni fjölskyldu. En þegnar viðkomandi landa virðast flestir vera ágætlega sáttir við fyrirkomulagið. Það fyrirkomulag helst því áfram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.12.2019 kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2019 | 15:00
Loksins: "Fjarlæga hliðin" kemur á vefinn
Það var mörgum mikill harmur þegar Gary Larson dró sig í hlé og "The Far Side" hætti að dafna og þroskast.
En nú er hægt að taka gleðina upp að nýju, stórglæsileg vefsíða hefur opnað, ekki flókið https://www.thefarside.com/ , og síðan er uppfærð daglega.
Ótrúleg hamingja að geta fengið sinn daglega skammt.
Ég er reyndar hamingjusamur eigandi af heildarsafninu, "The Complete Far Side", og hef verið í vel á annanáratug. Það er sígildur gleðigjafi.
En nú er heimasíðan dagleg skylduheimsókn.
16.12.2019 | 22:21
Óæskilegir erindrekar?
Mér þykir býsna merkilegt að lesa þessa frétt, ekki síst ef hún er sett í samhengi við fréttir af hótunum Kínverskra erindreka gagnvart Færeyingum, áhyggjum Ástrala, og sívaxandi áhyggjur margra vestrænna þjóða varðandi uppsetningu nýrrar kynslóðar fjarskiptakerfa.
Tækniþjófnaður Kínverskra starfsmanna sem hafa verið gripnir glóðvolgir er svo annar handleggur, en ekki ótengdur.
Það er ekki hægt annað en að velta því fyrir sér á hvaða vegferð Kínversk yfirvöld eru (því ólíklegt er að frumkvæðið sé sendiherrana).
Hótanir, njósnir og hugverkaþjófnaður er ekki líkleg blanda til vinsælda og þess má sjá merki í nýlegri skoðanakönnun sem var gerð í Kanada. Þar eru um 70% andsnúinn því að Huawei verði leyft að taka þátt í uppbyggingu fjarskiptakerfa, sama prósenta er þeirrar skoðunar að mannréttindi eigi að vega meira en viðskiptahagsmunir í samskiptum við Kína.
90% er svo þeirra skoðunar að ekki sé hægt að treysta Kína sem réttarríki og hvað varðar mannréttindi.
Það er ef til vill ekki síst vegna þeirra tveggja Kanadísku ríkisborgara sem voru handteknir, sakaðir um njósnir og stuld á ríkisleyndarmálum, skömmu eftir að Meng Wanzhou, var handtekin í Kanada. Þær gerast ekki öllu skringilegri tilviljanirnar.
En flest vestræn ríki hafa á undanförnum árum verið afar varkár í samskiptum sínum við Kína, á tíðum skammarlega varkár.
Vilja vísa sendiherra Kína úr landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.12.2019 | 19:47
Sterkt umboð fyrir Breska Íhaldsflokkinn
Á komandi dögum og vikum eigum við eftir að sjá alls kyns skýringar og vangaveltur um Bresku þingkosningarnar.
Úrslitin eru bæði mögnuð og margslungin.
Upplausnin sem hefur ríkt í Breska þinginu ætti að vera að baki, en á sama tíma mun ákall um sjálfstætt Skotland verða hávært og krafa um þjóðaratkvæðagreiðslu þar að lútandi. Staða Skoska þjóðarflokksins enda sterk, þó að nokkuð vanti upp á sama styrk og 2015.
En Íhaldsflokkurinn hefur gríðarlega sterkt umboð frá kjósendum og ljóst er að þeim var best treyst til að koma á ró og festu í Breskum stjórnmálum, en þar hefur verulega vantað upp á undanfarna mánuði, svo ekki sé sterkar að orði kveðið.
Ég hugsa að sterkri stöðu Íhaldsflokksins sé fagnað víðast um lönd, jafnvel innan "Sambandsins". Líklega hafa einhverjir innan "Sambandsins" gælt við þann draum að niðurstaða kosninganna yrði á þann veg að hætt yrði við "Brexit", en ég hygg að flestir geri sér grein fyrir því að mestu skiptir að traust og starfhæf ríkisstjórn sé í Bretlandi, þannig að reikna megi með því að hún komi málum (og samningum) í gegnum þingið.
En Johnson og Íhaldsflokkurinn stendur sterkt á miðjunni og hægri vængnum, en Verkamannaflokkurinn, með sitt sósíalíska/marxíska yfirbragð, hefur likt og svo margir sambærilegir Evrópskir flokkar, misst tengingu við þá kjósendur sem þeir telja sig starfa fyrir, verkafólk.
Corbyn sem margir töldu þegar hann komst til valda í Verkamannaflokknum, tákn um "nýja framsókn sósíalismans", fær frekar háðulega útreið.
Svipaða sögu má segja af Jo Swinson, leiðtoga Frjálslyndra demókrata, sem margir sáu framtíðarleiðtoga í, ja, bara fyrir fáum vikum. All nokkrir þingmenn bæði frá Verkamamanna- og Íhaldsflokknum gengu til liðs við flokkin sem samsamaði "Sambandinu" og var í fylkingarbrjósti þeirra sem vildu draga úrsögnina til baka.
Eftir stendur Boris Johnson sem ótvíræður sigurvegari.
En hans bíður erfitt hlutverk, því væntingarnar eru miklar.
En hingað til hefur hann staðið sig vel og spilað vel úr erfiðri stöðu. Nú hefur hagur hans vænkast og verður fróðleglegt að fylgjast með framhaldinu.
P.S. Það er ekki hægt að verjast þeirri hugsun sem ég bloggaði um þegar Johnson var kjörinn leitogi, að það hefði átt að gerast fyrir ríflega 3. árum.
Þakkar stuðningsmönnum Verkamannaflokksins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |