Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019

Er Seðlabankinn með allt niðrum sig?

Þó að mér gæti ekki verið meira sama um hvort að nektarmyndir (sama af hvaða toga þær eru) hanga uppi í Seðlabankanum eður, finnst mér umræðan sem hefur spunnist um þær nokkuð áhugaverð.

Það virðist ekki ganga upp að "frjálsar geirvörtur" prýði veggi bankans.

En eru geirvörtur á myndum Gunnlaugs eitthvað merkilegri en geirvörtur á mánaðadegi einvers höggdeyfaframleiðenda?  Hvað ef "pin-up" myndirnar eru teknar af frægum "listrænum" ljósmyndara"?

Hafa "listamenn" meiri rétt en aðrir til að vera "ögrandi", "móðgandi", eða "klámfengnir", nú eða kalla hjúkrunarfræðinga hjúkrunarkonur?

Eiga allir rétt á að lifa og starfa í umhverfi sem ekki misbýður þeim eða móðgar á nokkurn hátt?  Hver á að tryggja það og hvernig?

En hins vegar verð ég líka að segja að ég skil Seðlabankann fullkomlega.  Ef ég ræki stóran vinnustað og einhver hluti af starfsfólkinu óskaði þess við mig að einhverjar myndir yrðu teknar niður, myndi ég án efa gera það ef ég teldi að "andinn" á vinnustaðnum yrði betri.

Á hvers rétt gengur það?

Hugsanlega þeirra sem nutu myndanna, fram hjá því er ekki hægt að líta.  Þeir geta orðið af hugsanlegum ánægjustundum.

En skrifstofur eru ekki "almannarými". Hafi verið rætt við þá sem unnu á skrifstofunum og þeir verið sáttir við að fá aðrar myndir á vegginn er í raun lítið frekar að ræða.

Hafi það hins vegar verið gegn þeirra vilja, er komið annað mál.

Er svo kominn tími til að setja upp skilti við inngang á listasöfnum, þar sem varað sé við því að þar sé hugsanlega að finna hluti sem geti gengið gegn blyðgunarkennd, verið móðgandi og jafnvel valdið óþægilegum hugrenningum.

Eða ætti frekar að skylda alla til þess að setja sambærilegt skilti á innanverða útihurðina hjá sér?


Þjóðarsjóður, skynsamlegt, eður ei?

Nú er mikið rætt um hvort skynsamlegt að Íslendingar komi á fót svokölluðum "Þjóðarsjóði" eður ei.

Eins og oft er ýmislegt sem mælir með því og á móti.

Að sjálfsögðu er skynsamlegt að "leggja fyrir".  Og það er alltaf skynsamlegt að hugsa til framtíðar.

Þó að Íslendingum vegni vel núna, er að sjálfsögðu engin trygging fyrir því að svo verði um alla framtíð.

Það er einnig rétt að hafa í huga að þegar vel gengur, er einmitt rétti tíminn til þess að leggja fyrir, það gildir jafnt um einstaklinga, fjölskyldur og ríki.

Ekki að nota alla peninga sem koma inn og eyða þeim.

Aðrir segja, og það er mikil skynsemi í því, að best sé að borga upp skuldir, áður en farið sé að leggja fyrir .

Ég mæli því ekki í mót, það er eiginlega ekki hægt að hugsa sér betri "fjárfestingu" heldur en að borg upp skuldir, því það er varasamt að treysta á að fjárfestingar geti skilað hærri arðsemi, en nemur vöxtum á skuldum.

En ég mæli þó með því að Íslendingar komi sér upp þjóðarsjóði.

Ekki vegna þess að ég haldi því fram að rétt sé að Íslenska ríkið hætti að borga niður skuldir sínar, heldur vegna þess að ég held að rétt sé að gera hvoru tveggja.

Það er skynsamlegt að stofna "Þjóðarsjóð", jafnvel þó að allar skuldir séu ekki greiddar.

Ekki vegna þess að ríkissjóður eigi að hætta að greiða niður skuldir, heldur vegna þess að ef áföll verða, er gott að eiga varasjóð.

Vegna þess að þegar "skíturinn lendir í viftunni", er einmitt tíminn þegar enginn vill lána þér.

Og þá er gott að eiga varasjóð.

Eins og stundum er sagt, banki er, stofnun sem eilíflega er að bjóða þér regnhlíf (yfirdrátt), en tekur hana frá þér þegar droparnir byrja að falla.

Því er skynsamlegt fyrir bæði ríki og einstaklinga að eiga varasjóð, jafnframt því að greiða niður skuldir.

Auðvitað er best að skulda engum og eiga varasjóð, en þangað til svo er, er alls ekki vitlaust að eiga bæði - skuldir og varasjóð.

 

 

 

 

 


Fulltrúi Pírata í Borgarstjórn varð sér til skammar....

Ég horfði á Silfur Egils, á netinu nýlega, ætli það hafi ekki verið á mánudag.  Þar fullyrti fulltrúi Pírata ítrekað að engum tölvupóstum hefði verið eytt í "Braggamálinu".

Hún sagði líka ítrekað að borgarfulltrúar ættu að halda sig við staðreyndir.

Nú er komin staðfesting frá Innri endurskoðun borgarinnar að tölvupóstum hafi verið eytt, rétt eins og marg oft hefur komið fram í fréttaflutningi af málinu.

Þvi fellur fulltrúi Pírata frekar skammarlega af þeim "háa hesti" sem hún reyndi að sitja í Silfrinu.

Ég get ekki sagt að ég hafi höndlað sannleikann til fulls í málinu, en það er merkilegt hvernig meirihlutinn virðist æ ofan í æ standa í veg fyrir því að sannleikurinn komi í ljós í málinu.

Skyldi fulltrúi Pírata biðjast afsökunar á framgöngu sinni, útskýra hvers vegna hún fór rangt með, hvernig stóð á því að hún lagði annan skilning í skýrsluna en fulltrúar minnihlutans og fjölmiðlar.

Gat hún ekki lesið skýrsluna sér til gagns?

Í skýrslunni má m.a. lesa á bls. 77:

"Skjalastjórnun í tengslum við framkvæmdir við Nauthólsveg 100 var óvönduð og leiddi til þess að upplýsingar um ákvarðanir og úrvinnslu töpuðust. Varðveislu skjala um endurgerð bygginga við Nauthólsveg 100 var ábótavant. Hún var ekki í samræmi við skjalastefnu Reykjavíkurborgar og fól í sér brot á lögum um opinber skjalasöfn. Tölvupóstum á ekki að eyða úr pósthólfum starfsmanna fyrr en þeir hafa verið færðir til viðeigandi vistunar."

Hér er fullyrt að skjalastjórnum hafi verið ábótavant, brotin séu lög um opinbera skjalastjórnun og að tölvupóstum eigi ekki að eyða fyrr en þeir hafi verið vistaðir á viðeigandi hátt.

Er þetta ekki nógu skýrt svo að borgarfulltrúi Pírata hafi skilið?

Persónulega veitti ég "Braggamálinu" í upphafi ekki mikla athygli. Vissulega óeðlilegt, en ekki af þeirri stærðargráðu að það væri einhver virkilegur "skandall".  En ég held að það hafi breyst í eitt af þessum málum, þar sem viðbrögð ríkjandi aðila umbreyta málinu. Það er ekki lengur málið sjálft sem vekur tortryggni (ef svo má að orði komast) heldur viöbrögð stjórnvalda (í þessu tilfelli meirihluta Borgarstjórnar).  Þau benda æ sterkar til þess að hér sé potturinn alvarlega brotinn, því ákefðin við að drepa málinu á dreif og afvegaleiða það, eru  þess eðlis að það eiginlega kallar á frekari rannsókn.

"Tilviljanirnar" eru einnig orðnar óþægilega margar til þess að hægt sé að líta fram hjá þeim.

Í skýrslunni má einnig lesa eftirfarandi:

"Eins og fram kom í kaflanum um skipulag SEA er umboðskeðjan þannig að SEA heyrir undir borgarritara og síðan er borgarstjóri hans yfirmaður. Þrátt fyrir þetta hefur borgarritari haft lítil afskipti af SEA sem hefur í raun sótt sín mál framhjá honum og til borgarstjóra."

Samt er ítrekað fullyrt af meirihlutanum að ábyrgðin sé ekki borgarstjóra, heldur borgarritara.


mbl.is Tölvupóstum vegna braggamálsins var eytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rökrétt, eða röng leið?

Fyrir þá sem vilja stefna að því að "Sambandið" verði að sambandsríki, er rökrétt að stefna að því að afnema þá nauðsyn að eitthvað sé samþykkt einróma á sem flestum sviðum.  Það gerir ákvarðanatöku einfaldari og skilvirkari.

Það að allir séu sáttir getur tekið allt of langan tíma og krafist allt of mikilla málamiðlana.

(Til gamans má svo velta því upp hvort að nauðsynlegt ætti að vera að samþykkja slíkar breytingar einróma, eða hvort einfaldur meirihluti ætti að duga, eða þyrfti hann að vera aukinn, eins og þessi tillaga gerir ráð fyrir? Það má einnig rökræða hvort að 1. ríki eitt atkvæði eigi að gilda, eða hvort fara ætti eftir íbúafjölda.)

Hin hliðin snýr að sjálfstæði og fullveldi ríkja innan "Sambandsins". Hægt og rólega hefur "Sambandið" sneytt af fullveldi ríkjanna þannig að umdeilanlegt, svo ekki sé meira sagt, getur talist að þau njóti fullveldis.

Er ríki fullvalda ef að það getur ekki gert viðskiptasamniga við önnur ríki, ef það getur ekki ákveðið hvort að það tekur á móti "flóttafólki" eður ei, ef það getur í ákveðið skatta sína?

Nú þegar eru uppi hugmyndir um að afnema þörf fyrir einróma samþykki hvað varðar utanríkismál, en ekki þykir líklegt að slíkt verði samþykkt - í bráð.

Enn einn hluti fullveldis aðildarríkjanna sem margir vilja taka. En hvað þarf að taka mikinn hluta af fullveldi, til þess að það sé ekki fullveldi? 

Það er áhugaverð spurning sem ábyggilega eru mörg og misjöfn svör við.

En ef að svo færi að utanríkismál yrðu einnig færð til "Sambandsins" vaknar upp spurning sem önnur ríki heims hljóta að spyrja sig:  Hvers vegna ætti Evrópusambandið að hafa 27 (eða fleiri atkvæði) í stofnunum eins og t.d. Sameinuðu þjóðunum?

Ættu Bandaríkin þá rétt á 50? Kanada 10?

Eru ríki Bandaríkjanna og fylki Kanada ekki jafn fullvalda eins og ríki "Sambandsins" væru þá?

Spyrjið íbúa Quebec.

 

P.S. Þessi setning í fréttinni vakti athygli mína: "Fram kem­ur í frétt AFP að Evr­ópu­sam­bands­sinn­ar í Brus­sel hafi lengi stefnt að því að koma á sam­ræmd­um skatta­mál­um inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins en ýmis minni ríki inn­an sam­bands­ins hafa einkum lagst gegn þeim hug­mynd­um. Ekki síst Írland.".

Þar sem stendur "Evrópusambandssinnar", á líklega að standa "Sambandsríkissinnar", því það eru ekki margir "Sambandsskeptíkar" sem koma að ákvörðunum sem þessum í Brussel.

 

 

 


mbl.is Vill afnema neitunarvald í skattamálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg stefna í heilbrigðismálum

Eins og kemur fram í viðhengdri frétt, nota æ fleiri Íslendingar rétt sinn til að notfæra sér heilbrigðisþjónustu erlendis.

Þetta er fylgifiskur hins Evrópska efnahagssvæðis og líkleg einn af þeim kostum þess samnings sem margir kunna að meta.

Heilbrigðisþjónusta er skilgreind svipuð og önnur þjónusta og sjálfsagt sé að sækja hana, eins og aðra þjónustu, yfir landamæri.

En ef hægt er að sækja þjónustu yfir landamæri, ætti þá ekki að vera hægt að sækja hana innan landamæra?

Eins og er virðast Íslensk stjórnvöld ekki vera þeirrar skoðunar.

Þeim virðist þykja sjálfsagt að Íslendingar geti sótt heilbrigðisþjónustu út til Evrópulanda (ef biðtími á Íslandi fer yfir ákveðin mörk), en þykir fráleitt að Íslendingar geti sótt sömu þjónustuna hjá einkareknum aðilum á Íslandi.

Einkarekin heilbrigðisþjónusta í Svíþjóð, Tékklandi eða Amsterdam er valkostur fyrir Íslendinga, en einkarekin þjónusta á Íslandi er fráleitur kostur að mati stjórnvalda.

Að sækja þjónustuna erlendis er þó mikið meira rask fyrir sjúklinga og oftast nær fylgir því meiri kostnaður (gjarna óbeinn).

En einhverra hluta vegna virðist einhver "hugsjón" standa í vegi fyrir einkarekinni heilbrigðisþjónustu, jafnvel þó að hún kosti þegar upp er staðið hið opinbera lægri fjárhæð.

Það virðist sem svo að sú tilhugsuna að einhver innanlands kunni að hafa hagnast á aðgerðinni sé svo ógeðfelld að það sé miklu æskilegra að einhver "erlendis" hafi hagnast á sömu aðgerð.

Er ekki eitthvað að slíkri hugsun eða "hugsjón"?

 

 

 

 


mbl.is Sprenging í læknismeðferð erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hriktir í fjórfrelsinu?

Þetta er vissulega athyglisverð frétt. Ekki aðeins vegna þess að þarna virðist heilbrigðisráðherra Þýskalands setja sig upp á móti frjálsum búferlaflutningum, heldur einnig vegna þess að hann virðist vilja að "Sambandið" setji Svisslendingum stólinn fyrir dyrnar.

Rótin að þessu virðist eftir fréttinni vera sú að Þýskir læknar leita til Sviss, líklega vegna mun betri kjara.

En þetta "vandamál" er auðvitað ekki nýtt af nálinni og hafa mörg "fátækari" ríki "Sambandsins" glímt við slíkan atgervisflótta um langa hríð.

Finnland hefur sogað til sín mikið af heilgbrigðistarfsfólki frá Eistlandi (stutt á milli og tungumálin svipuð), og sömuleiðis hefur mikið af heilbrigðisstarfsfólki farið frá Eystrasaltsríkunum til Noregs og Svíþjóðar.

Eistland hefur sótt lækna til Rússlands og Ukraínu svo dæmi sé tekið. Hvernig ástandið er þar veit ég ekki.

Á milli 2009 og 2015 missti Rúmenía 50% af læknum úr landi.

Fátækari löndin eyða miklum tíma og fé í að mennta ungt fólk, en ríkari löndin njóta stórs hluta ávaxtanna.

En það er ekki eingöngu um lækna að ræða, gríðarlegur fjöldi af velmenntuðu fólki hefur flutt frá löndun eins og Grikklandi, Spáni, Ítalíu, Rúmeníu, Póllandi, Búlgaríu, Litháen, Lettlandi, Eistlandi, Cróatíu og Írlandi svo dæmi sé tekið.

Það eru verkfræðingar, tæknifræðingar, tölvunarfræðingar, stærðfræðingar og svo má lengi telja.

Visslega gott að ungt fólk fái tækifæri við hæfi, en til lengri tíma litið eykur þetta vandamálin í löndunum og brenglar aldurssamsetninguna, hefur áhrif á lífeyriskerfi, lífsgæði o.s.frv.

En það er óraunhæft að setja skorður á að fólk geti yfirgefið heimkynni sín (takmörkun á innflytjendur, er annars eðlis), og því get ég ekki séð að rökrétt sé að grípa til einhverra aðgerða. Allra síst sem tækju eingöngu til tiltekinna stétta eins og lækna.

En það er ef til vill týpískt fyrir ástandið innan "Sambandsins" að farið sé að tala um aðgerðir, þegar vandamálið hefur náð til Þýskalands.

En sé litið á gengisþróun milli Svissneska frankans og eurosins undanfarin 10 ár, er ef til vill ekki að undra að aukning sé á flutningi Þýskra lækna yfir til Sviss.

10 years CHF Euro

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P.S. Íslendingar kannast að sjálfsögðu vel við svona vandamál, enda hefur Íslenskt heilbrigðisstarfsfólk farið til Norðurlandanna (og annara landa), í mismiklum mæli eftir því hvernig vindar hafa blásið.


mbl.is Vill að ESB takmarki flutninga lækna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stytting vinnuvikunnar - 33% aukinn launakostnaður fyrir mörg fyrirtæki?

Það hefur mikið verið rætt um styttingu vinnuvikunnar á Íslandi upp á síðkastið og ég sá á vef RUV að verið er að ræða um slíka styttingu í tengslum við kjarasamninga.

 

Ég hef líka séð marga tala á þeim nótum að kostnaður vinnuveitenda vegna slíks yrði lítill, enda myndi frameleiðni aukast og margir geti afkastað svo gott sem því sama á 6 tímum og 8.

Ég ætla ekki að efast um að slíkt sé rétt - í undantekningartilfellum, en ég held að það þurfi að líta á heidlarmyndina.

Að sjálfsögðu er öllum atvinnurekendum frjálst að minnka" viðveruskyldu" starfsmanna sinna og ég myndi reikna með því að margir myndu taka þann kost ef þeir sjái fram á að framleiðni standi í stað og starfsfólkið sé hamingjusamara.

En "viðvera" getur líka skipt miklu máli, jafnvel þó að ekki sé "brjálað að gera".

Það blasir við að hjá mörgum fyrirtækjum ykist launakostnaður um ca 33%.

Þau fyrirtæki sem eru opin allan sólarhringinn, yrðu að reka sig á 4. 6. tímavöktum í stað 3ja 8 tíma vakta áður.

Hefur einhver reiknað út hver áhrif þess yrðu til dæmis á heilbrigðiskerfið?  Á öldrunarþjónustu?

Hvað skyldi launakostnaður hótela aukast við slíka breytingu, hvaða áhrif hefði hún á matsölustaði?  Hvernig yrðu heildaráhrifin á hina sívaxandi ferðaþjónustu?

Hver yrðu áhrifin á löggæslu, slökkvilið?

Hvernig ætti að reka slík fyrirtæki án þess að launakostnaður þeirra ryki upp?

 

 

 


Ísland - dýrast í heimi?

Það hefur víða um netið (aðallega Íslenska hlutanum) mátt lesa fréttir þess efnis að Ísland sé dýrasta land í heimi, hvergi sé dýrara að lifa eða ferðast um.

Hafandi komið til Íslands ásamt fjölskyldunni í sumar þá finnst mér þetta nokkuð sennilegt þó að ég geti ekki fullyrt um slíkt með 100% vissu.

En vissulega var dýrt á Íslandi, ég held að um slíkt efist engin, né reyni verulega að mæla því mót.

En þó að ég efist ekki um að ýmislegt mætti betur fara og dýrir aðdrættir, skortur á samkeppni, hár launakostnaður og háir skattar og opinber gjöld, dugi ekki til að réttlæta hið háa verðlag, er það þó býsna mikill hluti af útskýringunni.

Vissulega er verðlag víða um heim og jafnvel í löndum ekki langt frá Íslandi afar aðlandi og stórskemmtilegt að njóta veitinga og verslunar á Íslenskum "kaupmætti".

En glansinn getur verið fljótur að fara ef ef standa þarf undir neyslunni á innlendum lágmarkslaunum.

Þannig hafa þeir sem fylgjast vel með fréttum sjálfsagt tekið eftir því að þegar Macron Frakklandsforseti reyndi að friðþægja "gulvestunga", þá var ein af aðgerðum hans að hækka lágmarkslaun úr 1400 euroum í 1500.  Ég er hálfhræddur um að það verði erfitt að lifa og leigja þokkalega íbúð í París á slíkum launum.

Og hér í Eistlandi þar sem ég er núna, voru lágmarkslaun hækkuð nú um áramótin, úr 500 euroum í 540.  Býsna góð prósentuhækkun, en upphæðin ekki há.

En mér kom í hug þegar ég fór með lítin bíl og skipti yfir á vetrardekk, og borgaði fyrir það 40 euro, að það þæti sjálfsagt frekar ódýrt á Íslandi.  En þó að ég þekki ekki hvað dekkjaskipti, umfelgun og jafnvægisstiling kosti á Íslandi þá þá þykir mér líklegt að sá kostnaður sé lægra hlutfall af lágmarkslaunum á Íslandi en Eistlandi.

En það eru aðrir hlutir sem spila stóra rullu. Eftir því sem ég kemst næst (hef ekki grandskoðað Eistneska skattalögjöf) borga Eistlendingar engan skatt af 500 euroum (sá afsláttur fylgir ekki upp launaskalann og það þarf að sækja um hann).

Í höfuðborginni Tallinn borga íbúar engan fasteignaskatt af húsnæði, svo lengi sem eigandinn býr í því, og lóðin fer ekki yfir ákveðna stærð (sem er að mig minnir um 1500 fermetrar).

En það þarf að borga verktaka lága upphæð fyrir sorphirðu (hægt að velja hvort að tunnan er losuð á 1., 2., eða 4. vikna fresti), og borgin rukkar fyrir vatnið eftir mæli (það stendur undir kostnaði vatnsveitu og holræsakerfis).

Það er frítt í strætó, en bara fyrir íbúa borgarinnar (það virðist ekki þvælast fyrir borginni að ekki megi mismuna eftir búsetu) og hefur verið svo í kringum 6. ár.  Það er að sjálfsögðu mikil búbót fyrir tekjulægri hópana.

(Því má skjóta hér inn að þó að frítt sé í strætó, og sérakgreinar hafa verið gerðar fyrir vagnana, hafa samt verið byggð tröllaukin mislæg gatnamót í borginni og unnið er að greiða umferð einkabíla eftir sem áður).

Mig minnir líka að engin í Frakklandi borgi skatt af tekjum undir ca 1500 euroum (en Franska skattkerfið er býsna flókið), en þetta segi ég þó án ábyrgðar.

En ég er ekki að segja að Íslenskir launþegar í lægri launahópum eigi ekki skilið að hafa meiri "í veskinu".  En það hljóta flestir að ajá að krónutöluhækkun ein sér breytir ekki miklu til langframa, allra síst þegar staðan er sú að meirihluti launþegar heldur eftir minnihluta launa sinna við útborgun.

Þá hlýtur að þurfa að horfa til annara þátta.

Líklega eru tveir stærstu útgjaldaliðir flestra heimila skattur (tekjuskattur og útsvar) og húsnæðiskostnaður.

Það hlýtur að þurfa að beina sjónum þessum tveimur meginpóstum.  Hvers vegna er húsnæði svona dýrt á Íslandi og hvers vegna eru skattar svona háir?  Því borið er saman lífeyrisfyrirkomulag á Íslandi og í öðrum löndum, eru skattar gríðarháir á Íslandi.

Hækkandi fasteignaskattar (í krónutölu langt yfir verðbólgu) eiga aldrei aðra leið en út í verðlag, bæði á vörum og þjónustu og ekki síst húsaleigu.

Sama gildir auðvitað um hátt bensínsverð og svo má lengi áfram telja.

 

Price level index for food and non alcoholic beverages, 2017 (EU 28=100)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P.S. Set hér inn graf af verðlagi í mörgum af helstu ríkjum Evrópu, en grafið er fyrir 2017, en ég einfaldlega fann ekki nýrri samanburð, sem mér fannst góður og áreiðanlegur.


Sjálfvirkni eykst á flestum sviðum

Það hefur lengi tíðkast að tækninýjungar leysa vinnuafl af hólmi. Stórar breytingar eins og vatns- og vindmyllur, gufuvélar og svo síðast ekki síst tölvur og "róbótar" (hér vantar mér gott Íslenskt orð, því mér finnst "vélmenni" ekki duga til).

Þannig hefur fjöldinn allur af "ómissandi" störfum horfið. Í flestum tilfellum hafa einstaklingar einfaldlega aðlagað sig þróuninni og skipt up störf.

Stundum hafa þó orðið tímbundnir erfiðleikar og þekkt er einnig að einstaklingar hafa reynt að halda aftur af þróuninni og hafa ráðist gegn tækninýjungum.

En til lengri tíma litið hafa frjáls samfélög aðlagast breytingum og störfum hefur fjölgað jafnframt því að þau hafa flust til.

Það þarf ekki að horfa lengi í kringum sig til að sjá fjöldan allan af störfum sem urðu ekki til fyrr fyrir til þess að gera fáum árum.

Að stórum hluta er sjálfvirknin að taka yfir einföld og einhæf störf, og er síst ástæða til þess að gráta þó að þó hverfi.

Sjálfur nota ég stundum t.d. sjálfvirka afgreiðslukassa eins og minnst er á í fréttinni, en síst ef ég er að kaupa mikið af grænmeti (eða lausum vörum), það er svo skratti þreytandi að "leita" að viðkomandi vöru.

Einnig er eingöngu ein verslun sem ég fer í reglulega sem býður upp á sjálfsafgreiðslukassa þar sem hægt er að greiða með reiðufé.

Það finnst mér fyrirtaks þjónusta, og kýs oft þann kost ef ég er að kaupa til þess að gera fáa hluti (og ódýra), þá sparast gjarna mikill tími í bið.

En það má líka velta því fyrir sér að um leið og margir hafa miklar áhyggjur af fækkun starfa, þá eru aðrir sem hafa miklar áhyggjur af fólksfækkun á Vesturlöndum.

Hversu líklegt getur það verið að bæði vandamálin verði til staðar?  Hvort vandamálið er líklegt að verði til staðar?

Eða hvorugt?

 

 

 

 

 


mbl.is Sjálfsafgreiðslukössum fjölgar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjötskattur er vinstra (grænt) rugl

Nú nýlega viðraði einn af þingmönnum Vinstri grænna þá hugmynd að rétt væri að huga að því að setja sérstakan skatt á kjötneyslu.

Eðlilega er slík hugmynd umdeild, og sitt sýnist hverjum, en auðvitað þarf að velta því fyrir sér hvort að slíkt sé rökrétt, fyrst að þingmenn setja slíkar hugmyndir fram, jafnvel þó að þeir teljist þinglegir "villikettir".

Í mínum huga er hugmyndin algert rugl.

Í fyrsta er hugmyndin næsta óframkvæmanleg svo vel fari.

Í öðru lagi, ef við kjósum að trúa öllu því sem fram er haldið um hættuna á loftslagshlýnum o.s.frv, er kjötframleiðsla ekki það sama og kjötframleiðsla.

Þannig á bóndi til þess að gera auðvelt með að "kolefnisjafna" kjötframleiðslu sína, með skógrækt, nýtingu á metangasi og með öðrum aðferðum (hann gæti t.d. neitað sér um utanlandsferðir, lol).

Því er algerlega órökrétt að skattleggja kjötneysluna, heldur yrði, ef vilji væri til þess að skattleggja losun "gróðurhúsaloftegunda", að líta á heildarmyndina.

Og skattleggja hvernig staðið er að ræktun og svo framvegis.  Hvað er innflutt (með kolefnum) o.s.frv.

Einnig má velta því fyrir sér hvort að þeir sem fari sjaldnar erlendis (með flugvélum) eigi rétt á því að neyta meira kjötmetis o.s.frv.

Meta þarf hvað innflutt kjötmeti (og einnig grænmeti) ætti að bera hærri neysluskatt o.s.frv.

Ég held að flestir sjái að hugmyndir sem þessar séu næsta mikið rugl, og komast vonandi seint eða aldrei til framkvæmda.

En eflaust eru þær nóg til að afla nokkurra "læka" og einhverra atkvæða.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband