Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

Rétttrúnaðarlögreglan lætur til sín taka

Ég verð að viðurkenna að ég er eiginlega steinhissa. Persónulega þykir mér ótrúlegt að ég sé að fylgjast með atburðum sem þessum á Íslandi árið 2016.

Sjálfur er ég svo illa "tjúnaður" inn á hinn pólítíska rétttrúnað að ég get einfaldlega ekki séð neitt hatur í þeim ummælum sem birt eru í þessari frétt.

Ég sé einfaldlega tjáningu á andstæðum skoðunum.

Og slíku framferði er ég vel kunnugur. Hér á þessari bloggsíðu (og víðar) hef ég átt í "útistöðum" við alls kyns fólk, um hin mismunandi málefni. Þannig gerast skoðanaskipti.

Einn af þeim sem ég hef átt í "rifrildum" við hér er "sökudólgurinn" Jón Valur Jensson. 

Oftar en ekki erum við á algerlega öndverðum eiði.  Jón er enda einn af þeim sem ég kalla stundum "kristilega talíbana".  Það er ekki vegna þess að ég sé að saka þá um að fara um með morðum og limlestingum, heldur vegna þess að fyrir minn smekk eru þeir full trúaðir á "bókstafinn".

En þó að enga hafi ég trúnna, get ég vel unnt öðrum slíkrar bábilju.  Slíkt verður hver að eiga og velja fyrir sig.

Ég get vel unnt þeim að slengja á mig "ritningunni" og jafnvel þó þeir hóti mér helvítisvist skiptir það mig engu máli.

Ég hef fulla trú á því að þeir eigi jafnan rétt og ég að tjá sig, og hef haft það að reglu hér á bloggi mínu, að allt sem er kurteislega sett fram fái að standa.

En sagan geymir vissulega margar ljótar sögur af rétttrúnaði.  Fjöldi einstaklinga hefur hefur dæmdur fyrir villutrú, píndir, limlestir og drepnir.

Réttarhöld í nafni kristilegs rétttrúnaðar eru svartur blettur á sögunni, en þau sem hafa verið haldin í nafni "pólítísks rétttrúnaðar" eru ekki hætis hótinu skárri.

Nú stefnir allt í réttarhöld "pólítísks rétttrúnaðar" á Íslandi.  Það er miður.

Það er að mínu mati umræðunni ekki til framdráttar og réttindabaráttu samkynhneigðra ekki heldur.

"Kristilegir píslarvottar", verða umræðunni ekki til framdráttar.

Skerðing á tjáningarfrelsi er það ekki heldur.

P.S. Það hljóta einhverjir að vera farnir að velta því fyrir sér hvort ekki sé rétt að lögin um guðlast taki gildi aftur.  :-)

 


mbl.is Jón Valur ákærður fyrir hatursorðræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósendur, siðferði og Panamaskjölin. Dómstóll kjósenda

All margir stjórnmálamenn virðast líta á Framsóknarflokkinn sem "líkþráan" nú um stundir. Við hann eigi ekki að hafa nein samskipti.

Er þá vitnað til þess að það hafi verið vegna Panamaskjalanna sem kosið var nú í haust og forsætisráðherra hafi þurft að segja af sér.

Flestir þeirra virðast kjósa að líta fram hjá þeirri staðreynd að í millitíðinni felldu kjósendur sinn dóm.

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum af þingmönnunum að það fóru fram kosningar.

Ég hef ekki heyrt neinn færa fyrir því sannfærandi rök að í Panamaskjölunum hafi fundist neitt sem varðaði við lög.

En ef svo væri þyrfti að sjálfsögðu að vísa málinu til íslenskra dómstóla.

En hins vegar varðar málið siðferði og upplýsingaskyldu stjórnmálamanna.  Það brugðust enda ýmsir stjórnmálamenn býsna snöggt við og uppfærðu sínar upplýsingar.

En hvað gerir stjórnmálamaður sem er talinn vera uppvís að siðferðisbresti eða öðrum ámælingum sem ekki varða við lög?

Kostirnir eru ýmsir. Hann getur reynt að sitja áfram eins og ekkert hafi í skorist, eða hann getur sagt af sér.  Ráðherrar hafa á Íslandi sagt af sér sem ráðherrar en setið áfram sem þingmenn.

Stjórnmálamaðurinn getur ákveðið að draga sig í hlé frá stjórnmálum, en geri hann það ekki mætir hann dómi kjósenda, fyrr eða síðar. 

Hjá því verður ekki komist.

Og það er einmitt sá dómur sem skiptir öllu máli. Það eru kjósendur sem velja sér fulltrúa á Alþingi.

Framsóknarflokkurinn tapaði miklu fylgi í nýafstöðnum kosningum. En hann fékk meira fylgi en Samfylkingin, meira fylgi en Björt framtíð og meira fylgi en Viðreisn.

Þannig féll dómur kjósenda.

Ef við svo skoðum kjördæmi Sigmundar Davíðs, þess sem kom fyrir í Panamaskjölunum og sú umræða snýst mikið um, er niðurstaða kjósenda eftirfarandi:

Framsóknarflokkurinn tapar miklu fylgi, en er þrátt fyrir það næst stærsti flokkur kjördæmisins.

En listi flokksins fær mikið meira fylgi með Sigmund sem efsta mann á lista en listi Samfylkingarinnar, sem leiddur er af núverandi formanni, eða listi Viðreisnar sem sömuleiðis er leiddur af formanni flokksins. 

Jafnvel þó að við tökum frá atkvæði þar sem strikað var yfir nafn Sigmundar þá hefur flokkurinn fleiri atkvæði.

Þannig féll dómur kjósenda.

Það er meiri vilji á meðal kjósenda landsins í heild að Framsóknarflokkurinn komist til áhrifa en að Samfylkingin, Björt framtíð eða Viðreisn geri það.

Að þessu sögðu er það að sjálfsögðu val hvers og eins flokks hvern eða hverja hann velur sem samstarfsflokk eða -flokka.  Og auðvitað skiptir traust þar mestu máli.

En flokkar ættu að vega og meta úrslit kosninga og þau skilaboð kjósenda sem í þeim felast.

 


mbl.is Kannast ekki við gagnrýni á Katrínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minningarit íslenskra hermanna

Ég var að þvælast um netið og rakst á þessa ágætu grein á Vísi. Þar er fjallað um hermenn frá Íslandi, eða af íslenskum ættum sem börðust með herjum Bandaríkjanna og Kanada í fyrri heimstyrjöld.

Þá rifjaðist upp fyrir mér bók sem ég fann á netinu fyrir all löngu og heitir Minningarit íslenskra hermanna 1914 - 1918 og var gefið út í Kanada, stuttu eftir heimstyrjöldina fyrri.

Í bókinni er stutt æviágrip í það minnsta flestra þeirra sem tóku þátt í hildarleiknum og voru Íslendingar eða af íslenskum ættum.

Mynd er af flestum þeirra og einnig eru í bókinni ritgerðir um sögu stríðsins og þátttöku Kanada.  Öll bókin er á íslensku.

Það er fróðlegt að fletta bókinni og ég yrði ekki hiss þó að margir Íslendingar finndu þar jafnvel ættingja, rétt eins og ég gerði.

En bókin hefur veri skönnuð inn og er aðgengileg öllum á netinu endurgjaldslaust.

 

 

 


Frelsi eða dauði breyttist í dauða frelsisins

Bylting Fidels Castro og félaga á Kúbu var undir slagorðinu "Frelsi eða dauði". En eitt það fyrsta sem dó eftir að Castro tók við völdum var frelsið.

Þannig lýsti einn af fyrrum félögum Castros þróun byltingarinnar á Kúbu.

Í upphafi var enda ætlunin að halda frjálsar kosningar, en bylting Castros, rétt eins og margar aðrar byltingar, þurfti að éta börnin sín til að halda sér gangandi.

Fangelsanir, kúganir, ofríki og fátækt varð hlutskipti þegnanna.

Hvað best hafa þeir það sem eru seldir í vinnu hjá erlendum stórfyrirtækjum, þó þeir fái í eigin hendur aðeins brotabrot af þeim launum sem fyrirtækin greiða.

En fæstir eru alslæmir. Menntun og heilsugæsla voru á meðal helstu baráttumála byltingarinnar, og þó að menntunin hafi að hluta til snúist um innrætingu og heilsugæslan hafi á síðari árum mátt sín lítils vegna skorts á nauðsynlegum lyfjum og tækjum, þá voru það vissulega framfarir.

En án utanaðkomandi stuðnings gat byltingin ekki gengið áfram, ekki á Kúbu, hvað þá að Kúbumenn gætu tekið að sér að vera "verktakar byltingarinnar" í fjarlægum löndum.

Þeim fer óðum fækkandi "sæluríkjum sósíalismans", ríki eins og Kúba og Venuzuela eru í raun á heljarþröm.

Íslendingar þekkja í samtímanum Kúbu líklega helst út frá notkun landsins í hræðsluáróðri.

Það er svo ef til vill tímanna tákn, að margir af þeim sem töldu það versta sem gæti komið fyrir ríki þriðja heimsins væri að vera í viðskiptum við Vesturlönd, sem mergsygu þau og arðrændu.

Nú jafnvel kenna sumir hinna sömu viðskiptabanni Bandaríkjanna um vesöldina á Kúbu.


mbl.is Fidel Castro látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringekjan stopp í Bessastaðasirkusnum

Ég held að sú ákvörðun Guðna forseta að veita engum tilteknum stjórnmálamanni stjórnarmyndunarumboðið sé ágæt.

En hún afhjúpar um leið, sem ég reynd held að flestir hafi vitað, hve tilgangslaus "umboðsúthlutun" forseta er.

Að sjálfsögðu er öllum flokkum og einstaklingum innan þeirra frjálst að ræða saman, þvers og kruss, út og suður og norður og niður.

"Umboðsúthlutunin" hefur í raun ákaflega lítinn tilgang, nema að skapa "fjölmiðlamóment" og skapa svo litla "hringekjustemningu" og gefa það til kynna að það sé forsetinn sem stjórni ferðinni. Sem hann í raun gerir þó ekki.

Rétt eins og það að enginn hafi umboð, þýðir ekki að stjórnarmyndunarviðræður séu ekki heimilar.

Það er enginn fær umboðið þýðir að engin ríkisstjórn er í sjónmáli.

Nú þurfa íslenskir stjórnmálamenn að líta í eigin barm og athuga hvort að allar þær yfirlýsingar um að þeir geti ekki starfað með þessum eða hinum eigi rétt á sér, eða hvort þær hafi verið mistök.

Ef þeir eru ekki fúsir til að viðurkenna mistök sín, er rétt að koma á starfsstjórn og kjósa aftur í apríl.

 

 

 

 


mbl.is Enginn einn flokkur fær umboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Muna alþingismenn ekki hvað þeir samþykktu eða lögðu til. Vinstri réttlætingin - en lausnin er alltaf að hækka skatta

Það hefur væntanlega farið fram hjá fæstum að upp úr slitnaði úr viðræðum vinstri flokkanna og Viðreisnar. Margir reyndu að telja landsmönnum trú um að m.a. hefðu verið vandræði vegna þess að staða "ríkiskassans" væri verri en talið hefði verið, m.a. vegna ófjármagnaðra fyrirhugaðra vegaframkvæmda, sem samþykktar hefðu verið í þinginu.

Viðskiptablaðið birti afar góðan pistil um þetta málefni sem ég vil hvetja alla til að lesa.

Þar kemur fram m.a.:

 

Í gær urðu formenn þeirra flokka sem unnu að myndun vinstristjórn svo hissa á stöðu ríkisfjármála. Hún var bara miklu verri en ein þeir gerðu ráð fyrir.

***

Enginn fréttamaður spurði hvers vegna.

***

Seinna kom svo í ljós að m.a. var samþykkt þingsályktun um samgönguáætlun þar sem gert var ráð fyrir að verja 11,5 milljörðum meira á árunum 2016-2018 en áður var gert ráð fyrir. Slík gjörningur bindur reyndar ekki nokkurn mann og allra síst nýkjörið alþingi. Útgjöld ríkisins verða aðeins ákveðin í fjárlögum. Allt tal um þrengri stöðu ber að skoða í þessu samhengi.

***

En hverjir samþykktu þessa þingsályktunartillögu um 11,5 milljarða aukin framlög til samgöngumála? Þar á meðal voru þau Birgitta Jónsdóttir Pírati, Óttarr Proppé frá Bjartri framtíð og Svandís Svavarsdóttir frá Vinstri-grænum. Katrín Jakobsdóttir formaður VG hafði ekki fyrir því að vera viðstödd atkvæðagreiðsluna frekar en Oddný Harðardóttir fyrrverandi formaður Samfylkingar. Enginn þingmaður greiddi atkvæði gegn tillögunni.

***

Þar að auki kom minnihluti samgöngunefndar með tillögu um 5,8 milljarða viðbótarútgjöld á árunum 2017 og 2018 ofan á áðurnefnda 11,5 milljarða. Höfundar þeirrar tillögu voru þau Svandís Svavarsdóttir frá Vinstri grænum, Ásta Guðrún Helgadóttir Pírati, Róbert Marshall frá Bjartri framtíð og Katrín Júlíusdóttir Samfylkingunni.

***

Útgjöld, sem samþykkt voru af fjórum flokkum af þeim fimm, sem ræddu myndun hugsanlegrar ríkisstjórnar, komu öllum fimm á óvart. Og auðvitað var svarið hærri skattar hjá fjórmenningum. Ekki datt nokkrum manni í hug að hugsanlega væri hægt að hagræða hjá ríkissjóði, sem eyðir 695 milljörðum króna á þessu ári - þar af um 72,6 milljörðum í vaxtagjöld.

Svo koma allir fulltrúar frá þessum flokkum í fjölmiðla og tala um hvað viðræðurnar hafi verið góðar og heiðarlegar.

Ef til vill þarf þetta ekki að koma á óvart þegar þingmenn virðast telja eðlilegt að greiða ekki atkvæði vegna þess að þeir þekki ekki til málanna. Er þá ekki næsta skrefið að þeir muni ekki hvað þeir hafa samþykkt eða lagt til?

Flestir fjölmiðlar virðast ekki hafa snefil af metnaði í þá átt að kanna sannleiksgildi fullyrðinganna (hér á Viðskiptablaðið skilið gott hrós).  Þeirra metnaður virðist fyrst og fremst snúast um að finna "sökudólg" þess að þessar viðræður báru ekki árangur.

 


 

 


mbl.is Katrín fundaði með forsetanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðræðuslit koma líklega fæstum á óvart

Ég held að fæstum hafi komið á óvart að slitnað hafi upp úr viðræðum vinstri flokkanna og Viðreisnar.

Það eru jú ástæður fyrir því að þetta eru 5 flokkar. Það eru ástæður fyrir því að nú eiga 7 flokkar sæti á Alþingi.

Við getum velt endalaust fyrir okkur hvers vegna Vinstri græn vildu ekki renna inn í Samfylkinguna (eins og staðan var þá, með félögum sínum úr Alþýðubandalaginu), hvers vegna Björt framtíð klofnaði úr Framsóknarflokki/Samfylkingu, hvers vegna Viðreisnarfólk klauf sig frá Sjálfstæðisflokki (þó að félagar komi vissulega víðar að) eða hvers vegna Píratar fundu sér ekki samastað í neinum öðrum flokkum.

Sömuleiðis getum við velt fyrir okkur hvers vegna fjöldi flokka hefur boðið fram upp á síðkastið, án þess að ná árangri fyrir erfiðið.

Að einhverju leyti má sjálfsagt tengja þetta við hina "klæðskerasaumuðu" tilveru "nútímamannsins". Við "veljum" okkur fréttir og fjölmiðla sem hentar okkar lífsviðurhorfi, "lifum" í hópi skoðanasystkina, og viljum starfa í stjórnmálaflokki án "málamiðlana".

Er eitthvað sem segir eða bendir til þess að líklegra sé að málamiðlanir geti orðið til á milli flokka heldur en innan flokka?

Eða er auðveldara að ná sáttum þegar fleiri hafa vegtyllur s.s. formaður, þingflokksformaður o.s.frv.?  Er eitthvað sem bendir til þess?

Það þarf einnig að hafa í huga að samvinna og samstaða í stjórnarandstöðu er býsna ólíkur hlutur og að starfa saman, gera tilslakanir og bera ábyrgð í ríkisstjórn.

Það má því segja að íslensk stjórnmál séu "sundruð" og skilaboðin sem lesa má út úr nýafstöðnum kosningum misvísandi.

Það er líklegt að slík staða verði um all langa hríð.

 

 


mbl.is Hver er Svarti-Pétur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ég þá Útvarp Saga?

Með þeim fyrirvara að ég hef ekki séð þau ummæli sem kært er fyrir, og ég hlusta aldrei á Útvarp Sögu, þá verð ég að viðurkenna að þessi ákæra fær mig til að velta því fyrir mér hvert stefnir á Íslandi.

Það er ekki gott að hata. Slíkt hugarfar skilar yfirleitt ekki nokkrum einstaklingi fram á við.

En bönn við hugsunum og tjáningu hafa yfirleitt ekki gert það heldur.

Ef við lítum nú á þá viðhorfsbreytingu sem hefur orðið á Íslandi í garð samkynhneigðra. Heldur einhver að hún hafi orðið vegna lagasetninga eða að bönn hafi verið sett?

Lagasetningar eru vissulega nauðsynlegar til að móta viðmót hins opinbera og lög eða reglugerðir eru nauðsynlegar í kringum giftingar, ættleiðingar, blóðgjafir o.s.frv.

En það voru ekki lög og reglugerðir sem breyttu viðhorfi almennings.

Það gerðist vegna hreinskilinna umræðna, fræðslu og ekki síst skemmtilegri og heiðarlegri framkomu samkynhneigðra.

Ég hygg að margir geti sagt, rétt eins og ég sjálfur, að þegar litið er til baka hafi ég haft fordóma í garð samkynhneigðra.

Ég hef stundum bætt við að hvernig hafi það getað verið öðruvísi miðað við það samfélag sem ég ólst upp í.  Það er þó í raun ekki næg afsökun, en það er hægt að kenna "gömlum hundum" nýja hugsun.

En þegar fyrir nokkrum misserum við sögðum svo mörg: Ég er Charlie, hvað vorum við að meina?

Meintum við "bara" að við værum á móti því að blaðamennirnir voru myrtir, eða vorum við einnig á móti því að reynt væri að skerða tjáningarfrelsi þeirra? Jafnvel þó að það sama tjáningarfrelsi þætti mörgum meiðandi, niðurlægjandi og hatursfull árás á trú þeirra og skoðanir?

Hefði okkur verið nákvæmlega sama ef blaðinu hefði bara verið lokað? Eða hefði okkur fundist ákjósanlegt að dæma blaðamennina í fangelsi?

Eða finnst okkur að þeir eigi rétt á því að tjá sig?

Ef ég segi já, er ég þá ekki sömuleiðis Útvarp Saga?

Þess vegna stend ég (með ofangreindum fyrirvörum) með Útvarpi Sögu.

P.S. Málið er athyglisvert og ef til vill er þörf á því að slíkt mál komi til kasta dómstóla.

Það er betra fyrir Íslendinga að vita hversu mikið löggjafinn hefur skert tjáningarfrelsi þeirra en að velkjast í vafa.

En ef dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að Útvarp Saga hafi verið brotleg við lög og nauðsynlegt sé að refsa henni, legg ég til eftirfarandi: Að Útvarp Saga verði dæmd til að láta samtökum samkynhneigðra í té endurgjaldslaust 1. klukkustund á dag á milli 8 og 20, til að að útvarpa fræðslu og kynningu á sínum málefnum.


mbl.is Pétur ákærður fyrir hatursorðræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það kemst enginn til valda á hugsjónunum einum saman: Flokkurinn sem hafði öll völd í hendi sér - í skoðanakönnunum

Það fylgir engin ábyrgð því að vera lang stærsti flokkurinn í skoðanakönnunum. En það getur fylgt því mikil gleði og reyndar margar hættur.

Stærsta hættan er að viðkomandi flokksmenn flytji inn í þær "skýjaborgir" sem skoðanakannanir reisa og telji sig svo gott sem hafa völdin í hendi sér.

Stórir flokkar þurfa vissulega að gera málamiðlanir, en yfirleitt ekki jafn miklar og þeir smærri.

Stórar hugsjónir og miklar breytingar eru nokkuð sem er erfitt fyrir smærri flokka að halda í og koma í framkvæmd.

Það má eiginlega segja að í því felist ákveðinn "pólítískur ómöguleiki".

Flokkar geta þurft að gefa mikið eftir, hliðra til og gefa eftir stefnumál, jafnvel svíkja kosningaloforð. 

Ef þeir vilja komast til valda.

En það eru einmitt völdin sem þarf til að gera breytingar. Og ef deila þarf völdunum með öðrum, þarf að sætta sig við minni skref, eða jafnvel að breyingunum sé slegið á frest.

Það hefur oft verið sagt á undanförnum vikum að pólítík sé list hins mögulega. En hún snýst líka um að gera sér grein fyrir því að eitthverju geti verið ómögulegt að hrinda í framkvæmd.

Það er hinn fyrrnefndi "pólítíski ómöguleiki".

Og allt er þetta í "spegilmyndum". Sumir Píratar segja að þeir trúi því ekki að hugsanlegir samstarfsflokkar þeirra láti ríkisstjórnarmyndun stöðvast á því að Píratar vilji að ráðherrar séu utan þings.

En hví skyldu Píratar með sína 10 þingmenn, gera það að úrslitaatriði, ef hinir 24. þingmennirnir sem mundu standa að ríkisstjórninni eru á móti því? Hví skyldu Píratar láta það stöðva stjórnarmyndun?

Fyrir kosningar bar nokkuð á því að Píratar töluðu sem "kingmakers" og smjaður sumra þingmanna annarra flokka hefur líklegast ýtt undir það.

En raunveruleikinn eftir kosningar er annar.

Píratar eru nú einn af fimm flokkum sem ræða ríkisstjórnarmyndun. Ekki sá stærsti. Þar kemur eðlilega upp sú staða að velja þarf á milli valda og áhrifa og prinsippa og kosningaloforða.

Það má leyfa sér að álykta að þetta verði ekki í eina skiptið, og líklegt að slíkt komi upp í málum sem yrðu jafnvel ekki getið í stjórnarsáttmála, en "kæmu upp" síðar á kjörtímabilinu.

Píratar hafa starfað í íslenskum stjórnmálum um nokkurt skeið.

Það má ef til vill segja að þeir séu að stíga sín fyrstu skref í "alvöru pólítík".

Þar þykir oft "hált á svellinu", eins og sagt er.

 

 


mbl.is Deilt um „pólitískan ómöguleika“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þið talið bara við Brussel: Hafa Íslendingar hug á að hegna helsta viðskiptalandi sínu?

Það er hárrétt hjá Lilju Alfreðsdóttur að þau gerast ekki mörg stærri utanríkismálin en að halda vel á spöðunum fyrir Ísland, vegna fyrirhugaðrar úrsagnar Breta úr Evrópusambandinu.

Á sama tíma tala "Evrópusambandshaukar" um nauðsyn þess að refsa Bretlandi fyrir að voga sér að ætla að yfirgefa hinn hátimbraða selskap.

Það sé nauðsynlegt að sýna þeim ítrustu hörku og "láta þá finna fyrir því". Engu skiptir þó margt bendi til þess að "Sambandið" og einstök aðildarríki þess geti farið mun verr út úr slíkri hörku en Bretland.

En skyldu Íslendingar vera almennt þeirrar skoðunar að þeir vilji taka þátt í því að hegna einu af sínum helstu viðskiptalöndum?

(Ég veit að Íslendingar vildu gjarna ná í skottið á Gordon Brown og Verkamannaflokknum, en sem betur fer eru þeir ákaflega áhrifalitlir í breskum stjórnmálum nú um stundir).

En stóra spurningin er vilja Íslendingar taka þátt í því að hegna Bretum og setja enn meiri óvissu um framtíð viðskipta okkar við þá?

Ég myndi svara þeirri spurningu neitandi. Og ef Íslendingar gera það almennt ætti flestum skynsömum mönnum að vera ljóst að það að sækja um aðild að Evrópusambandinu, að endurvekja dauðu umsóknina, eða jafnvel að greiða atkvæði um hvort að Íslendingar vilji að aðildarviðræður "hefjist að nýju" gerir það að verkum að Bretar hafa ekkert við Íslendinga að ræða. 

Í það minnsta ekki fyrr en Íslendingar hefðu sagt nei við frekari aðildarviðræðum. Ef það yrði niðurstaðan.

Eru skilaboðin sem Íslendingar og íslenskir stjórnmálamenn vilja senda til Breta:  Þið talið bara við Brussel?

Æ fleiri, ekki síst á vinstri væng íslenskra stjórnmála, sjá hvað mikið feigðarflan aðildarumsókn að "Sambandinu" er við þær kringumstæður sem uppi eru nú, á Íslandi, í Evrópusambandinu og umheiminum öllum.

En samt eru meirihluti þeirra flokka sem nú sitja og ræða hugsanlega tilurð 5 flokka vinstri stjórnar með það á stefnuskránni að halda áfram með hinar strönduðu aðlögunarviðræður.

Sumir líta á það sem eitt af sínum helstu stefnumálum eða jafnvel tilgang.

Persónulega held ég að Íslendingar hafi ekki "efni" á því að hafa slíka flokka við stjórnvölinn nú.

Ja, nema auðvitað að þeir ákveði að hugsa fyrst og fremst um þjóðarhag og fari að svíkja kosningaloforð.

 

 


mbl.is Eitt stærsta utanríkismálið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband