Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2016

Geta Púrítanarnir starfað með Pírötum í ríkisstjórn?

Píratar eru augljóslega að þroskast sem stjórnmálaflokkur. Þeir hafa lært að stjórnmál fela gjarna í sér málamiðlanir.

Þeir hafa lært að það þarf að gefa eftir í stefnumálin og jafnvel svíkja loforð sem gefin hafa verið.

Þeir hafa líka lært að finna mis trúverðugar afsakanir fyrir því að ekki er hægt að standa við stefnuna og ef ég hef skilið rétt hafa jafnvel mistök komið þar við sögu.

Þar að auki virðast Píratar telja stefnumál sín hálf absúrd og óraunhæft sé að gera kröfur til annara flokka sem þeir mynda hugsanlega ríkisstjórn með.

Gott ef Píratar eru ekki farnir að sjá ákveðinn pólítískan ómöguleika við kröfur sínar.

Það gerist ekki öllu þægilegra fyrir samstarfsflokkana.

En reyndir stjórnmálamenn og -flokkar eiga ekkert erfitt með að skilja að stundum þarf að svíkja kosningaloforð, nú eða hvika frá stefnunni.

Það er ef til vill stærsta spurningin hvernig hinir óspjölluðu púrítanar í Viðreisn gengur að fella sig við samstarf við stjórnmálaflokk sem svíkur svona stefnu sína og loforð.

Því það var eins og rauður þráður (það er einmitt rauði þráðurinn sem leiðir þá að vinstri stjórn) í gegnum kosningabaráttu þeirra að það að svíkja kosningaloforð væri alfarið fatalt og lúaleg framkoma og slíkir flokkar væru ekki upp á marga fiska.

Það er því erfitt að sjá fyrir sér Viðreisn í samstarfi við flokka sem eru byrjaðir að svíkja loforðin sín jafnvel áður en þeir komast í ríkisstjórn.

Það gæti líka hugsast að kosningaloforð Vinstri grænna frá því 2009, þar sem Steingrímur lofaði því deginum fyrir kjördag (eins og þau höfðu reyndar gert í gegnum alla kosningabaráttuna) að það kæmi alls ekki til greina að sækja um aðild að "Sambandinu".

Það gæti verið erfiður biti að kyngja fyrir "kosningaloforðalögreglu" eins og Viðreisn því sem næst gaf sig út fyrir að vera í kosningabaráttunni.

Ég man þó ekki hvort þau gáfu út á hvað mörgum árum, eða kjörtímabilum slík svik fyrnast.

 

 

 


mbl.is Fjórir málefnahópar funda í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kratar í leit að týndum tíma

Kratar víða um lönd eiga erfiða daga nú um stundir. Fylgi þeirra fer þverrandi víðast um lönd.

Það má vissulega deila um hverja við köllum krata, en það er ljóst að íslenskir Kratar lítu til breska Verkamannaflokksins, undir forystu Tony Blair, sem fyrirmyndar og sumir leiðtogar þeirra íslensku gumuðu sig af flokksskírteini sínu hjá Tony og félögum.

Og sósíalistarnir í Frakklandi standa ekki betur og jafnvel kratarnir á Norðurlöndunum eru ekki svipur hjá sjón.

Það er ef til vill ekki tilviljun að kratarnir skuli hugsa aftur í timann og tala um endurkomu Tony Blair og endurreisn Alþýðuflokksins.

Bæði Samfylkingin og Verkamannaflokkurinn eiga það sameiginlegt að hafa tekið skarpa vinstribeygju þó að ef vill sé það ofsögum sagt að Corbyn sé "rugludallur".

Það er reyndar ekki mjög langt síðan að vinstri sinnaðir álitsgjafar og spekingar töluðu um Corbyn og Sanders í sömu andrá og þóttust hafa séð framtíð vinstri hreyfinga.

Það er komið nokkuð annað hljóð í strokkinn nú, þó að Sanders njóti enn töluverðra vinsælda.

Vinsældir endast oft betur ef menn komast ekki til valda.

En á velmektardögum Samfylkingarinnar mátti jafnvel lesa forystumenn hennar mæra "jafnaðarmanninn" Hugo Chavez, en slíkt kæmi þó líklega engum í hug nú, jafnvel þó að flokkurinn hafi færst til vinstri.

Nú vita nefnilega allir um vitleysuna í Venezuela.

En Kratar eru í kreppu.  Þá fara þeir að leita að týndum tíma.  Þá dettur þeim í hug að Tony Blair (sem er merkilegt nokk sigursælasti forystumaður Verkamannaflokksins) geti snúið aftur og þá dettur þeim í hug að lausn á vandræðum sínum geti verið að endurreisa Alþýðuflokkinn.

Því ekki er ástæðan málefnin (sem eru þau bestu í heimi, en þarfnast samt endurskoðunar) og ekki eru fólkið (nema í Bretlandi) þannig að það hljóta að vera umbúðirnar.

Retro er málið.

 


mbl.is Blair hugar að endurkomu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný ríkisstjórn tekur við í Eistlandi

Eins og ljóst var orðið fyrir nokkru tekur ný ríkisstjórn við völdum í Eistlandi í dag. Þingið mun ræða og greiða atkvæði um ríkisstórn undir forsæti Jüri Ratas, formanns Miðflokksins (Keskerakond). Atkvæðagreiðslan er formsatriði, enda meirihluti þingmanna að baki ríkisstjórnarflokkunum.

Auk Miðflokksins standa að ríkisstjórninni Sósíaldemokratar og Föðurlands- og lýðveldisfylkingin (IRL).

Hver flokkur fær 5 ráðherra og það vekur athygli að IRL fær í sinn hlut bæði fjármála og varnarmálaráðuneytið.

Sú skipan er líklega ætlað að róa öldurnar, IRL er sá eini af flokkunum sem getur talist til hægri. Margir hafa lýst yfir áhyggjum af þátttöku Miðflokksins í ríkisstjórn, enda hefur sá flokkur haft náin tengsl við flokk Putins Rússlandsforseta.

Utanríkisráðuneytið verður í höndum Sósíaldemókrata sem og innanríkisráðuneytið.

Stærstu breyingarnar sem væntanlega verða munu eiga sér stað í skattamálum.

Skattleysismörk hækka líklega verulega, vaxtafrádráttur mun hverfa, hækka á álögur á áfengi, fjármagnstekjuskattur mun lækka (en vaxtatekjur skattlagðar, sem hefur ekki verið), og bifreiðaskattur mun hækka verulega. Skattur á þá sem hafa yfir 2000 euro í mánaðartekjur munu hækka og skattar á fjármálafyrirtæki munu einnig aukast verulega.

Jafnframt á að ráðast í mikla innviðauppbyggingu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja (ýmist að hluta eða fullu).

Ríkisstjórnin boðar jafnframt að auknar lántökur komi vel til greina, en Eistland er eitt af þeim löndum sem hafa hvað lægstar skuldir/GDP.  Það hlutfall hefur jafnan verið vel undir 10%.

Að mörgu leyti má líkega segja að Miðflokkurinn beri skarðan hlut frá borði sé miðað við þingstyrk flokkanna, Miðflokkurinn hefur 27 þingmenn, Sósíaldemokratar 15 og IRL 14. En til hins ber einnig að líta að enginn flokkur hefur viljað starfa með Miðflokknum um all langa hríð, og svo hefur hann vissulega forsætisráðuneytið.

Það má því ef til vill segja að hann hafi viljað leggja mikið í sölurnar til þess að komast í ríkisstjórn og það hefði verið ómögulegt, nema fyrir formannsskiptin sem urðu fyrir fáum vikum.

 


Stórmerkileg niðurstaða í fyrri umferð forkosninga Franska Lýðveldisflokksins

Niðurstaða fyrri umferðar forkosninga Lýðveldisflokksins kemur á óvart með afar skemmtilegum hætti

François Fillon sigrar með yfirburðum sem "engin" átti von á. Allra síst gáfu skoðanakannanir sigur hans til kynna, enda má líklega fara að segja að það sé frekar að verða regla en undantekning að þær séu nokkuð á skjön. Ég held að sú könnun sem ég hef séð gefa honum bestu útkomuna hafi verið í kringum 25%.

En það verður að vísu að hafa í huga að forkosningar sem þessar eru líklega með mjög erfitt forspárgildi, enda afar erfitt að fá gott úrtak, þegar alls óljóst er hverjir munu kjósa á endanum.

En ef marka má fréttir er talið að um 4.3 milljónir hafi tekið þátt í forkosningunum, sem er stórkostlegur sigur út af fyrir sig (aðeins 2.5 milljónir tóku þátt hjá Sósialistaflokknum árið 2011), auk þess að gefa góða innspýtingu í peningakassann (allir sem tóku þátt þurftu að borga 2. euro).

Franskir fjölmiðlar hafa verið uppfullir af fréttum af kjósendum annara flokka sem hugðust ætla að greiða atkvæði hjá Lýðveldisflokknum eigi að síður.

Þannig var talað um að stuðningsfólk Sósialistaflokksins hefði í hyggju að styðja Juppe vegna þess að honum myndi fylgja minnst "óbragð" þegar þau neyddust til að kjósa Lýðveldisflokkinn í síðari umferð forsetakosninganna.

Það var einnig talað um að kjósendur Þjóðfylkingarinnar ætluðu sér að styðja sinn "óskaframbjóðenda" gegn Marine Le Pen, og var sagt að það yrði Sarkozy.

En hvort að þessi stuðningur skilaði sér ekki á kjörstað eða fór á aðra frambjóðendur er erfitt að fullyrða, en ljóst er að Sarkozy er alla vegna úr leik.

Hvort að stuðningsfólk Sósíalistaflokksins eigi eftir að skila sér af auknum krafti í síðari umferðinni og lyfta Juppe, er sömuleiðis opin spurning.

En Fillon hefur verið talinn mest "pro business" af öllum frambjóðendunum og vill fækka ríkisstarfsmönnum um 5 til 600.000, lengja vinnuvikuna í 39 stundir (gefa vinnustöðum þó meira frelsi hvað varðar vinnustundir) og sagði að Frakkland væri í raun "gjaldþrota".

Ég held að ég fari rétt með að hann hafi verið kosinn á þing í kringum 1980, og hefur gengt ráðherraembættum bæði í forsetatíð Chirac og Sarkozy.

Hann er yfirlýstur aðdáendi Margaretar Thatcher, telst "anglophile" og er giftur welskri konu (ekki ólíklegt að alls kyns spekúlasjónir eigi eftir að verða í kringum Brexit út frá því sjónarhorni).

En það verður fróðlegt að fyljgast með hvernig leikar fara næsta sunnudag. Mun þátttakan aukast og hverjir mæta á kjörstað?  Munu sósíalistar fjölmenna á kjörstað og lyfta Juppe?

Hvor verður talin sterkari frambjóðandi gegn Marine Le Pen, sem flestir telja að verði mótherji frambjóðanda Lýðveldisflokksins í forsetakosningunum.

Og svo er líka spurning hvort að Sósíalistaflokkurinn eigi einhverja möguleika á því að komast inn í "hringinn"?

En ef að baráttan í lokin verður á milli François Fillon, sem þykir hallur undir "engilsaxneska frjálshyggju" og hins "franska sósíalisma" sem Marine Le Pen boðar, er hætt við að fylgjendur Sósíalistaflokksins nagi neglur sínar meira en ella.

Líklega má segja að sigur Fillon hafi "opnað" frönsku forsetakosningarnar upp á gátt - ekki síst vegna þess að efasemdir um skoðanakannanir munu fá byr undir báða vængi.


mbl.is Sarkozy heltist úr lestinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk verslun stendur frammi fyrir stærstu prófrauninni

Það er mikið barið á versluninni þessar vikurnar. Sumpart er það auðvitað gott og æskilegt, enda henni nauðsynlegt eins og öllum öðrum að viðskiptavinir sýni henni aðhald og sýni í verki, bæði ánægju sína og óánægju.

En þegar talað er um að verslunin hafi ekki skilað að fullu, eða jafnvel engu af gengistyrkingu og tollalækkunum, er gagnrýnin að ýmsu leyti ekki sanngjörn.

Í fyrsta lagi er innkaupsverð ekki nema hluti af því sem myndar verðið. Að sjálfsögðu spilar launakostnaður þar inn í og sem betur fer hafa laun á Íslandi hækkað nokkuð myndarlega undanfarin misseri og kaupmáttur aukist verulega.

Húsnæðiskostnaður spilar einnig verulega rullu og eftir því sem mér hefur skilist hefur húsaleiga á Íslandi hækkað verulega á undanförnum árum.

En það sem þarf ef til vill ekki hvað síst að taka með í reikninginn, er að tala um meðalstyrkingu krónunnar segir ekki nema afar takmarkaða sögu.

Mikið nær er að líta til styrkingu krónunnar gagnvart bandaríkjadollar, því það er sú mynt sem ræður langmestu í viðskiptum í heiminum, burtséð frá því í hvaða mynt varan er svo greidd.

Þannig er eins og flestir vita olía verðlögð í dollurum.  Það sama gildir í raun um allar hrávörur, matarkyns sem aðrar.

Flutningar eru verðlagðir í dollurum. Segja má að flest öll rafmagnstæki, hverju nafni sem þau kunna að nefnast séu verðlögð í dollurum.  Framleiðsla á þeim fer að miklu leyti fram í Asíu, og þó að þau kunni að vera samsett annars staðar, eru íhlutirnir næstum undantekningarlaust verðlagðir í dollurum og hafa þannig bein áhrif á verðið.

Það sama gildir að miklu leyti um fatnað, þó að líklega megi segja að það gildi síst um dýrari hluta fatnaðar.

Það er líka vel þekkt að bæði heildsalar og framleiðendur verðleggja vörur sínar eftir því hvað þeir telja "markaðssvæðið" bera. Þar hafa Norðurlöndin oft haft þann vafasama heiður að vera í hæsta flokki.

Það er því býsna margt sem þarf að taka með í reikninginn áður en við fullyrðum að "verslunin" sé að hlunnfara neytendur, þó að ég efist ekkert um að ýmsir söluaðilar geti gert betur.

En auðvitað er tilhneyging hjá verslunaraðilum að verðleggja vörur á því verði sem þeir telja sig geta selt þær á, og er í raun ekki hægt að segja að slíkt sé með öllu óeðlilegt.

Það er líka þekkt staðreynd að lægra verð skilar sér ekki nauðsynlega í meiri sölu, sérstaklega á vörum sem sæta "huglægu" mati.

En það er aðeins samkeppni og árvekni neytenda sem mun til langframa geta skilað neytendum betra og sanngjarnara verði.

Þar mun íslensk verslun fljótlega standa frammi fyrir einni af sínum stærstu prófraunum.

Tvær risastóra verslunarkeðjur munu innan skamms hefja starfsemi á Íslandi. Costco og H&M. Það sem er athyglisvert við þessar fyrirhugðu opnanir, er að verslanirnar verða reknar af hinum erlendu eigendum, en ekki íslenskum umboðsaðilum eða einkaleyfishöfum.

Ég held að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist, en þó er það sjaldgæft og það er sömuleiðis þarft að taka með í reikninginn að um er að ræða sannkallaða risa á sínum sviðum.

Það verður því fróðlegt að fylgjast með hvernig verðþróun á Íslandi verður og hvernig markaðshlutdeild hinna nýju aðila mun þróast.

Því enn og aftur munu það verða neytendur sem stjórna hvernig málin æxlast.

Það er sömuleiðis vert að gera sér grein fyrir því að þessi fyrirtæki eru óhrædd við íslensku krónuna, en talað er um að það sem hafi ráðið miklu um að þau töldu Ísland vænlegan markað, væri einföldun á viðskiptaumhverfinu, niðurfellingar á tollum og vörugjöldum.

Þar stóð fráfarandi ríkisstjórn sig afar vel, og er óskandi að sú sem tekur við haldi áfram sömu braut og taki engar U-beygjur.

En takist þessum erlendu aðilum vel upp, eru allar líkur á að fleiri slíkir muni hassla sér völl á Íslandi og samkeppni aukast, öllum til góða.

Þessi samkeppni mun einnig leiða í ljós hvernig íslenskir kaupmenn hafa staðið sig og hvort þeir geti staðist hana.

Það eru því áhugaverðir tímar framundan hjá bæði íslenskri verslun og neytendum.

 

 


mbl.is Sterkt gengi ekki skilað sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverðar forkosningar í Frakklandi

Á sunnudaginn næstkomandi velur Lýðveldisflokkurinn (les Républicains) frambjóðanda sinn fyrir Frönsku forsetakosningarnar sem fram fara á næsta ári. Þó verður líklega aðeins um að ræða fyrri umferð, en sú seinni mun líklega fara fram sunnudaginn þar á eftir.

Forkosning Lýðveldisflokksins vekur mikla athygli, enda telja flestir að líklegast sé í raun verið að velja næsta forseta Frakklands.

Varla er talið að nokkur frambjóðandi Sósíalistaflokksins eigi möguleika á því að komast svo mikið sem í seinni umferð hinna eiginlegu forsetaskosninga.

Ekki er enn ljóst hvort að Hollande (Sósíalistaflokknum), núverandi forseti, muni sækjast eftir endurkjöri, en vinsældir hans á meðal almennings slá öll met niður við. Skoðanakannir sýna að allt niður í 4% kjósenda telji hann hafa staðið sig vel sem forseta.

En það sem gerir forkosningar Lýðveldisflokksins jafnvel enn athyglisverðari, er í raun er um að ræða það sem Íslendingar myndu kalla "opið prófkjör".

Þetta er í fyrsta skipti sem Franska "hægrið" velur þessa aðferð, en yfirleitt hafa frambjóðendur verið valdir innan flokks.

En nú mega allir kjósa. Einu skilyrðin eru að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis að viðkomandi "deili gildum með Lýðveldisflokknum", og svo þarf að borga 2. euro.

Þetta hefur orðið til þess að lesa má í fréttum um stórir hópar þeirra sem hafa hugsað sér að kjósa Sósíalistaflokkinn, hafi nú hugsað sér að taka þátt í forkosningunni, til þess að velja þann frambjóðenda sem að þeir telji að standi betur að vígi til að sigra Marine Le Pen í forsetakosningunum. 

Þeir hafa enga trú á því að þeirra maður nái í seinni umferðina.

Sagt er að þeir muni kjósa Juppe.

Jafnframt er talað um að kjósendur Þjóðfylkingarinnar (Front National) ætli sömuleiðis að taka þátt í stórum hópum og kjósa þann frambjóðanda sem þeir telja að Marine Le Pen eigi meiri möguleika á að sigra.

Sagt er að þeir ætli sér að kjósa Sarkozy.

En Sarkozy og Juppe eru jafnframt þeir tveir sem flestir telja að komist áfram í seinni umferðina (því ekki er reiknað með að neinn nái yfir 50% í fyrri umferð).

En það verður fróðlegt að sjá niðurstöðuna og sömuleiðis þátttökuna.

Þó að Sarkozy og Juppe séu almennt taldir sigurstranglegastir, er ekki þar með sagt að úrslitin séu ráðin, það er ekki eins og skoðanakannanir hafi verið á sérstakri "sigurbraut" undanfarið.

Ef til vill kemur Lýðveldisflokkurinn okkur á óvart.

En þátttakendur eru : Jean-François Copé, 52. ára, François Fillon, 62. ára (gjarnan talinn líklegur til að ná 3ja sæti), Alain Juppé, 70 ára, Nathalie Kosciusko-Morizet, 42. ára, Bruno Le Maire, 46. ára, Jean-Frédéric Poisson, 52. ára og Nicolas Sarkozy, 61. árs.

Þó enn sé langt í kosningar þá tel ég líkur Marine Le Pen á því að sigra því sem næst engar. Uppbygging kosningana því sem næst tryggir það.

En ég hugsa að hún gæti hæglega komið á óvart og sigrað fyrri umferðina.

En allar líkur eru á að Frakkar séu að velja sinn næst forseta næstu tvær helgar í forkosningum hjá Lýðveldisflokknum.


mbl.is Le Pen mögulega næsti forseti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afar litlar líkur á því að Krím tilheyri Ukraínu í framtíðinni

Ég er sammála því að Bandaríkin eiga ekki að viðurkenna yfirráð Rússa yfir Krímskaga.

Það er ekkert sem mælir með því. 

Í raun er eina ríkið sem getur leitt viðurkenningu á framferði Rússa, og önnur ríki þá fylgt í kjölfarið, er Ukraína sjálf.

Það væri sorglegt að sjá þann leik endurtekin að "stórveldi" semji um landsvæði annara ríkja sín á milli til að "tryggja friðinn", hvort sem hanna ætti að gilda um "okkar daga" eða lengur.

En það hafa margir kokgleypt áróður Rússa um að Krím "eigi" að tilheyra þeim og hafi alltaf gert það, það hafi einfaldlega verið "mistök" að Sovétríkin hafi "gefið" Krím til Ukraínu.

Sagan er mun flóknari en það og rétt eins og hjá mörgum öðrum nágrönnum Rússa/Sovétríkjanna er hún blóði drifin.

Rússar unnu Krím í stríði gegn Tyrkjaveldi, og tóku þar völd 1783. Krímstríð var svo u.þ.b. 70 árum síðar.

Í upplausninni sem fylgdi byltingu kommúnista í Rússlandi reyndu íbúar Krímskaga að öðlast sjálfstæði, en völdin skiptu ótt og títt um hendur og svæðið var mikill vígvöllur.

Þegar upp var staðið náðu Sovétríkin völdum þar á ný.  En frá 1921 og til 1945 var Krímskagi sjálfstætt Sovéskt lýðveldi (svona eins og þau gátu verið sjálfstæð).  Þjóðverjar hernámu það á um stutta hríð á því tímabili.

En það var síðan eftir síðari heimstyrjöld sem að stærstu hluti hinna upprunalega íbúa (tatarar) voru fluttir nauðungarflutningum á brott.

Svæðið tilheyrði síðan Rússlandi þangað til í febrúar 1954 er það var fært til Ukraínu.

Þannig má segja að á síðustu 100 árum eða svo, hafi Krímskagi tilheyrt Rússlandi í u.þ.b. 10 ár.  Það er ekki meira.

Síðan nefna margir kosninguna sem Rússar stóðu fyrir, eftir að segja má að þeir hafi hernumið Krímskaga.

Það eru í raun fráleit rök, enda kosningarnar haldar við vægast sagt undarlegar og þvingaðar kringumstæður, og með þeim var sömuleiðis hagsmunir hina upprunalegu íbúa, tataran, sem voru farnir að snúa aftur í nokkrum mæli, algerlega fyrir borð bornir.

Með því að segja að rétt sé að greiða atkvæði með þessum formerkjum, er verið að leggja blessun yfir þjóðernishreinsanir, og að fólkið sem þeir sem að þjóðernishreinsunum stóðu fluttu á svæðið, séu réttbornir til þess að ákvarða framtíð þess.

Hitt er svo að samningar eiga rétt á sér og geta skilað góðum árangri og friði. Eftirgjöf landsvæðis eða svæða getur verið partur af slíku samkomulagi.

En það er eingöngu sú þjóð sem landsvæðið tilheyrir sem getur gefið slíkt eftir. Í þessu tilfelli Ukraína.

 

 


mbl.is Ráðleggja Trump frá því að viðurkenna innlimun Krímskaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

3, 4 eða 5?

Það verður fróðlegt að sjá og heyra hvernig viðræður á vinstri vængnum (-/+ Viðreisn) koma til með að ganga.

Persónulega hef ég ekki svo mikla trú á því að það verði málefnin sem hugsanlegt stjórnarsamstarf muni stranda á.  Það er ekki svo langt á milli vinstri flokkanna þar og ef Viðreisn er reiðubúin til að standa með flestum vinstri lausnunum til að mjaka draumnum um "Sambandsaðild" örlítið áfram verða vandmálin ekki þar.

Ég held að stóra spurningin verði um traust. Hvort að leiðtogar og einnig þingmenn þessara flokka beri traust til hvors annars. Þar held ég að geti orðið vöntun, ef ekki hreinlega skortur.

Síðasta vinstri stjórn innhélt aðeins tvo flokka og samt gekk kattasmölunin erfiðlega. Sú stjórn var í raun minnihlutastjórn síðari hluta þess kjörtímabils.

Sumir þeirra flokka sem nú vilja standa að vinstri stjórn hafa tekið upp flest ósættis mál þeirrar ríkisstjórnar upp á arma sína.

Það getur því orðið erfitt að ná tilskyldu trausti svo að hægt verði að horfa með bjartsýni til 4ja eða 5 flokka ríkisstjórnar.

Sjálfsagt sjá einhverjir nú eftir því að hafa ráðist jafn harkalega á Bjarta framtíð og formann hennar, vegna viðræðna við Sjálfstæðisflokk.

Slíkt "skítkast" á það til að hafa býsna víðtæk og löng áhrif, sérstaklega ef "skíturinn berst í viftuna".


mbl.is Katrín vill mynda fjölflokkastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð skoðanakönnun

Þessi könnun er athglisverð nú u.þ.b. 2. vikum eftir kosningar.

Eins og oft er með kannanir á fylgi er hægt að skoða hana með tvö mismunandi viðmið.  Annars vegar er hægt að bera niðurstöðurnar saman við kosningaúrslit, eða þá að bera þær saman við síðustu könnun sama fyrirtækis, sem birtis degi fyrir kjördag.

Ályktanirnar sem hægt er að draga af könnuninni eru nokkuð misvísandi eftir því hvort viðmiðið er valið.

Þannig er t.d. Sjálfstæðisflokkurinn nokkuð undir kjörfylgi, en bætir sig frá könnun sama fyrirtækis deginum fyrir kjördag.

Vinstri græn bæta við sig, en minna sé miðað við skoðanakönnunina en kjördag.

Fylgið virðist halda áfram að hrynja af Pírötum, en hrunið er þó mun meira ef miðað er við skoðanakönnunina en kjördaginn.

Viðreisn stendur nokkuð í stað frá kjördegi, en bætir við sig miðað við skoðanakönnunina.

Sama má segja um Bjarta framtíð, þar er bæting frá báðum viðmiðum.

Það er öfugt með Framsóknarflokkinn, þar er tap á báðum vígstöðvum.

Samfylkingin rekur svo eins og áður lestina, þar er tap á báðum vígstöðvum, tapið frá kosningum er þó varla mælanlegt, aðeins 0.1%, en flokkurinn missir hálft prósentustig frá skoðanakönnuninni.  Neðri vikmörk tækju hann út af þingi (nema hugsanlega kjördæmkjörinn þingmann í NE).

Eins og oft áður skiptir máli hvert viðmiðið er í hinni pólítísku baráttu, en þó eru þarna  vísbendingar um fylgishreyfingar þó að þær séu ekki miklar.

En það eru þeir flokkar sem hafa verið mest í umræðunni í kringum stjórnarmyndun sem koma best út, hinir síður.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Sjálfstæðisflokkur og VG stærst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki hægt að segja að niðurstaðan komi á óvart

Ég get ekki sagt að þessi niðurstaða komi mér á óvart.  Ég hefði talið það gæti ekki talist annað en neyðarbrauð að leggja af stað með ríkisstjórn með 1. þingmanns meirihluta nú.

Hvert framhaldið verður er eitthvað sem ég ætla ekki að spá um.

Sú frétt að Bjarni og Katrín hafi rætt saman gefur ástæðu til örlítillar bjartsýni.

En þar sem ég hef alltaf gaman af því að hafa rétt fyrir mér, spái ég að næst verði stjórnarmyndunarviðræður þar sem Katrín Jakobsdóttir kemur við sögu.

En læt ósagt hvaða aðrir flokkar verði þar viðloðandi.

 


mbl.is Stjórnarmyndunarviðræðum slitið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband