Kjósendur, siðferði og Panamaskjölin. Dómstóll kjósenda

All margir stjórnmálamenn virðast líta á Framsóknarflokkinn sem "líkþráan" nú um stundir. Við hann eigi ekki að hafa nein samskipti.

Er þá vitnað til þess að það hafi verið vegna Panamaskjalanna sem kosið var nú í haust og forsætisráðherra hafi þurft að segja af sér.

Flestir þeirra virðast kjósa að líta fram hjá þeirri staðreynd að í millitíðinni felldu kjósendur sinn dóm.

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum af þingmönnunum að það fóru fram kosningar.

Ég hef ekki heyrt neinn færa fyrir því sannfærandi rök að í Panamaskjölunum hafi fundist neitt sem varðaði við lög.

En ef svo væri þyrfti að sjálfsögðu að vísa málinu til íslenskra dómstóla.

En hins vegar varðar málið siðferði og upplýsingaskyldu stjórnmálamanna.  Það brugðust enda ýmsir stjórnmálamenn býsna snöggt við og uppfærðu sínar upplýsingar.

En hvað gerir stjórnmálamaður sem er talinn vera uppvís að siðferðisbresti eða öðrum ámælingum sem ekki varða við lög?

Kostirnir eru ýmsir. Hann getur reynt að sitja áfram eins og ekkert hafi í skorist, eða hann getur sagt af sér.  Ráðherrar hafa á Íslandi sagt af sér sem ráðherrar en setið áfram sem þingmenn.

Stjórnmálamaðurinn getur ákveðið að draga sig í hlé frá stjórnmálum, en geri hann það ekki mætir hann dómi kjósenda, fyrr eða síðar. 

Hjá því verður ekki komist.

Og það er einmitt sá dómur sem skiptir öllu máli. Það eru kjósendur sem velja sér fulltrúa á Alþingi.

Framsóknarflokkurinn tapaði miklu fylgi í nýafstöðnum kosningum. En hann fékk meira fylgi en Samfylkingin, meira fylgi en Björt framtíð og meira fylgi en Viðreisn.

Þannig féll dómur kjósenda.

Ef við svo skoðum kjördæmi Sigmundar Davíðs, þess sem kom fyrir í Panamaskjölunum og sú umræða snýst mikið um, er niðurstaða kjósenda eftirfarandi:

Framsóknarflokkurinn tapar miklu fylgi, en er þrátt fyrir það næst stærsti flokkur kjördæmisins.

En listi flokksins fær mikið meira fylgi með Sigmund sem efsta mann á lista en listi Samfylkingarinnar, sem leiddur er af núverandi formanni, eða listi Viðreisnar sem sömuleiðis er leiddur af formanni flokksins. 

Jafnvel þó að við tökum frá atkvæði þar sem strikað var yfir nafn Sigmundar þá hefur flokkurinn fleiri atkvæði.

Þannig féll dómur kjósenda.

Það er meiri vilji á meðal kjósenda landsins í heild að Framsóknarflokkurinn komist til áhrifa en að Samfylkingin, Björt framtíð eða Viðreisn geri það.

Að þessu sögðu er það að sjálfsögðu val hvers og eins flokks hvern eða hverja hann velur sem samstarfsflokk eða -flokka.  Og auðvitað skiptir traust þar mestu máli.

En flokkar ættu að vega og meta úrslit kosninga og þau skilaboð kjósenda sem í þeim felast.

 


mbl.is Kannast ekki við gagnrýni á Katrínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Athyglisverð samantekt hjá þér nafni og vel orðað.

Tómas Ibsen Halldórsson, 29.11.2016 kl. 11:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband