Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Írar halda þjóðaratkvæðagreiðslu - en er það rökrétt?

Þó að upp að vissu marki megi taka hattinn ofan af fyrir Írum að halda þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, er það að ýmsu leiti skrýtið og ef til vill órökrétt, eða hvað?

Það kemur fram komið fram að flestir stjórnmálaflokkar (alla vegna á þinginu) hvetji til þess að hjónabönd samkynhneigðra verði samþykkt, þannig að hægt hefði verið að snara þessu í gegn á þinginu, líklega án teljandi vandkvæða.

Og stóra spurning er, er rökrétt að halda atkvæðagreiðslu, þar sem meirihlutinn getur ákveðið að neita minnihluthóp um ákveðin réttindi?

Er það ekki oft talið eitt af megintilgangi stjórnarskrár að tryggja að slíkt gerist ekki?

Að mínu mati ætti það vissulega að vera óþarfi að halda þjóðaratkvæðagreiðslu á Írlandi, en það kann þó að vera nauðsynlegt, til að "höggva á hnútinn" og að skýr vilji kjósenda komi fram.

En eftir situr alltaf spurningin um hvort að rökrétt sé að opið sé fyrir að minnihluti sé kúgaður með þessum hætti.

Aðrar spurningar sem vakna, eru til dæmis hvers vegna í ósköpunum ríkisvaldið er yfirleitt að skipta sér af hlutum eins og hjónaböndum og trúarbrögðum?

Er það ekki einfaldlega óþarfi í dag?

Er ekki eðlilegast að hver hagi slíku eftir eigin óskum og ríkivaldið eigi einfaldlega að tryggja að allir hafi sama rétt, gagnvart hinu sama ríkisvaldi?

Sem aftur leiðir hugann að því að fyrir ekki svo löngu, samþykkti meirihluti þátttakenda í skoðanakönnun (ráðgefandi þjóðaratkvæði) á Íslandi að ríkisvaldið ætti að gefa einu trúfélagi forréttindi og stuðning umfram önnur.

Meirihlutinn í þeirri könnun (þó að þátttakan hafi verið frekar döpur) vildi binda forréttindi í stjórnarskrá.

En aftur að upphaflega málefninu, við skulum vona að meirihlutinn á Írlandi kjósi að hætta að nota ríkisvaldið til að neita minnihlutahópi um sjálfsögð réttindi.

 


mbl.is Kjörsóknin góð á Írlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af undirskriftalistum og tvískinnungi

Ég fékk sendan hlekk á þessa athyglisverðu frétt á Eyjunni, um tölfræði undirskriftasafnana á Íslandi.

Í athugasemdum kemur fram að sá sem tók saman viðkomandi samanburð, viðurkennir smávegileg mistök, og undirskriftasöfnun Þjóðareignar því ekki kominn inn á top 10, í það minnsta kosti ekki enn. En það skiptir þó ekki í ruan mestu máli, alla vegna ekki í mínum huga.

Í stað þeirrar undirskriftasöfnunar, væri söfnunin gegn virkjun Eyjabakka í 6. sæti á top 10. En látum það liggja á milli hluta. Ef það er eitthvað sem vantaði í þessa upptalningu, væri það í minum huga prósentuhlutfall einstaklinga á kjörskrá á hverjum tíma, en það er önnur saga.

Þessi samanburður finnst mér ákaflega gott framtak.

En þessi listi fékk mig til þess að velta fyrir mér hvernig stendur á því að í fjölmiðlum finnst mér mikið pláss gefið undir vangaveltur og kröfur um að fullt tillit sé tekið til krafna og undirskrifta um áframhald "Sambandsviðræðna" og svo aftur "makríluúthlutunar", en mun minna skrifað um kröfu um að Reykjavíkurflugvölldur verði á sínum stað.

Þó trónir undirskriftasöfunuin um Reykjavíkurflugvöll á toppi listans.

Undir enga kröfuna eða söfnunina hafa fleiri skrifað.

Sem fékk mig aftur til að velta því fyrir mér, hvernig stendur á því að uppi eru kröftugar (og skiljanlegar að mínu mati) kröfur um að ákveðið hlutfall kjósenda geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá hef ég aldrei heyrt kröfu um að ákveðið hlutfall íbúa (eða kjósenda) í sveitarfélögum geti krafist þess að almenn atkvæðagreiðsla fari fram um misgáfulegar ákvarðarnir borga, bæja og sveitastjórna?

Hvernig skyldi standa á því?

P.S. Ég er fylgjandi því að kjósendur geti kallað eftir almennum kosningum, þó að almennt þyki mér hlutfallið sem nefnt er til sögunnar of lágt.

Ennfremur þykir mér ástæða til að binda löggildi við ákveðið þátttökuhlutfall af síðustu þing/sveitarstjórnarkosningum.

Ég held að almennar kosningar séu góð viðbót, en ekki ástæða til að láta þær leysa fulltrúalýðræðið af, nema að afar takmörkuðu leyti. Séu skilyrðin of rúm, er hætta á misbeitingu og þreytu.

 


Erfitt að meta gildi Icelandair

Ég held að það séu margir sem ekki gera sér grein fyrir þýðingu félags eins og Icelandair fyrir Íslenskt samfélag.

Það er ekki sjálfgefið að rétt ríflega 300 þúsund manna samfélaga hafi víðlíka tengingar við umheiminn og Íslendingar njóta.

Og það er ekki sjálfgefið að takist að byggja upp slíkt net sem Icelandair hefur tekist og gera það með góðum hagnaði.

Þeir eru ófáir milljarðarnir sem hafa tapast í flugrekstri víða um heim á undanförnum árum, bæði hjá minni og stærri flugfélögum en Icelandair.

Rétt er að hafa í huga að ekkert myndi þýða að ætla að byggja upp viðlíka samgöngunet byggt á íslenskum þörfum og farþegum. Það er enda svo að minnihluti farþega Icelandair eru Íslendingar, og sömuleiðis meirihluti þeirra sem lætur sér nægja örstutt stopp á Íslandi áður en þeir halda áfram austur, eða vestur um haf.

En þeir eru þó góður markhópur fyrir Íslenska ferðaþjónustu, enda margir sem koma með þeim hætti fyrst til Íslands, en notfæra sér síðar "stop-over" möguleikann sem boðið er upp á eða koma til landsins síðar.

En það er ekki aðeins að flugnet eins og Icelandair hefur tekist að byggja upp, gefi Íslendingum betri ferðamöguleika og Íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum stærra og betra markaðssvæði, heldur gefur það Íslenskum inn og útflytjendum gríðarlega möguleika og stækkar markaðssvæði þeirra.

Áhrif velheppnaðar uppbyggingar félags eins og Icelandair finnast því víða í litlu samfélagi eins og á Íslandi.


mbl.is Fljúga til 13 borga N-Ameríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarabarátta hverra, gegn hverjum,

Ég hef nú ekki haft tíma til að fylgjast náið með fréttum af kjaraviðræðum á Íslandi, en hef þó gripið all margar fréttir.

Fréttirnar eru ekki góðar, en að sama skapi finnst mér þær gjarna lítt skiljanlegar.

Ég er afskaplega litlu nær um hvað er deilt, nema jú auðvitað kaup og kjör.

Fréttir af lélegri þátttöku í atkvæðagreiðslum (t.d. hjá VR) þar sem í raun mjög lítill hluti félagsmanna greiðir atkvæði með verkfallsboðun, vekur einnig athygli.

Að sjálfsögðu ræður meirihluti þeirra sem atkvæði greiða niðustöðum, en þátttakan er engu að síður sláandi.

Það væri sömuleiðis fróðlegt að vita hve stór hópur félagsmanna í VR fær greidd laun samkvæmt kjarasamningum? Er það mikið hærra hlutfall en greiddi atkvæði með verkfalli?

Alla vegna var það svo á þeim árum sem ég var félagi í VR, að mesta áherslan var lögð á svokölluð launaviðtöl og þeir voru ekki margir sem ég þekkti sem fengu útborgað eftir töxtum.

Og eins og hefur komið fram víða, eiga lífeyrisjóðir orðið býsna stóra hluti í mörgum af stærstu fyrirtækjum landsins, jafnvel það sem kalla mætti ráðandi.

Þar á meðal eru tvær af stærstu smásölukeðjum landsins, en oft hefur því verið haldið fram að þar séu greidd hvað lægstu launin, þó að ég ætli ekki að slá því föstu.

En er þá verkalýðsfélag eins og VR, ekki hvað síst að fara í verkfall til þess að hækka launataxta starfsfólks hjá fyrirtækjum sem eru að stórum hluta í eigu lífeyrissjóða?

Og stöðva um leið starfsemi, og jafnvel valda rekstrarerfiðleikum, hjá miklum fjölda smærri fyrirtækja sem borga starfsfólki sínu mun hærri laun en taxtar segja til um?

Það er ef til vill ekki að undra að betur gangi út á landi (sérstaklega ef marka má fréttir frá Húsavík og í Vestmannaeyjum) þar sem nálægðin er meiri og skilningur á milli verkalýðsforkólfa og atvinnurekenda sterkari.

Því auðvitað ætti það ekki að vera markmið að hegna þeim fyrirtækjum sem þegar borga góð laun.

Til lengri tíma litið flyst fólk frá fyrirtækjum sem borga léleg laun til þeirra sem borga betur, ekki síst ef þau síðarnefndu standa betur ef ekki kemur til vinnustöðvunar hjá þeim.

Þannig vinna allir.

 


mbl.is SA breyttu tilboðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staða sem er auðveldara í að komast en úr

Staða Grikklands er afleit, því neitar enginn.

Gríski harmleikurinn heldur áfram þó að allir séu búnir að missa tölu á hvað margir þættir hafa verið leiknir. Að því leiti til minnir atburðarásin næstum á óendanlega sápuóperu og ef til vill eru allir að leita að "leiðarljósi" út úr völundarhúsinu.

En það virðist ekki skína.

Grikkland hrekst undan viku eftir viku, skrapar saman fé og tekst að forðast greiðsluþrot, eina viku, eftir aðra.

Nú er talað um 5. júni sem "úrslitadaginn", en sá hefur átt marga undanfara. Allt eins víst er að þjáningar Grikkja dragist enn frekar á langinn.

Það er því ekki að undra að margir (beggja vegna borðsins) séu farnir harma þann dag þegar Grikkland gerðist aðili að Eurosvæðinu.

En eins og oft áður er auðveldara að koma sér í klípu, en komast úr henni.

Því þó að það hafi líklega verið vitleysa af Grikkjum að taka upp euro, þýðir það ekki að það sé auðvelt, eða leysi vandann að taka upp aðra mynt eða snúa baka til drökhmunar.

Vandamál hverfa ekki við myntbreytingu.

Það er líka mun auðveldara að taka upp aðra mynt þegar aðstæður eru hagfelldar. Allir eru starfa saman og vinna að upptöku hinnar nýju myntar.

Annað er upp á teningnum þegar skuldir hafa rokið upp úr öllu valdi, yfirseðlabanki myntsvæðisins starfar að mestu leyti gegn landinu og í þágu stærstu kröfuhafa, atvinnuleysi er í hæstu hæðum og innviðir samfélagsins grotnaðir og/eða í lamasessi.

Ríkiskassinn eru næsta tómur og innheimtumennirnir eru allt um kring.

Leiðin inn var auðveld og lífið ljúft að meðan euroið skapaði falskt lánstraust.

En leiðin út?

 


mbl.is Betur borgið utan evrusvæðisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunverulegar mafíur vilja ....

Það er ef til vill ekkert nýtt að reynslumesti þingmaður Pírata setji fram undarlegar skoðanir og alhæfingar, en þessi er líklega með þeim skringilegri.

Vissulega er það svo að þegar aðild að "Sambandinu" er skoðuð er ýmis mál sem þarf að athuga, og aðild fylgja bæði kostir og gallar.

En það hlýtur að þurfa nokkuð sérstakan þankagang til þess að halda því fram að sala á kindakjöti til Rússlands sé ein af veigamestu ástæðum þess að núverandi ríkisstjórn vilji setja punkt aftan við aðildarviðræðurnar.

Hvað þá að það geri Skagafjörð að "Sikiley Íslands".

En auðvitað er það rétt að hagsmunir landbúnaðar og sjávarútvegs er nokkuð sem kemur sterkt upp í umræðuna þegar rætt er um "Sambandsaðild". Alla jafna á "mínushliðinni", en um það eru þó skiptar skoðanir eins og svo margt annað.

En hinir "sönnu mafíósar Sikileyjar", hafa ekki barist á móti "Sambandsaðild", enda fundið þar margar "matarholurnar", ekki síður saðsamar en Skagfirsk haustlömb.

"Raunverulegar mafíur", hafa ekkert móti aðild að "Sambandinu" eða spillingunni innan þess. Þær vilja komast í hana.

 


mbl.is Segir Skagafjörð „Sikiley Íslands“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að trúa að lausnin liggi í bönnum

Það er auðvelt að skilja að Sovétríkin og kommúnismi séu ekki í hávegum höfð hjá mörgum Ukraínubúum. Meðferð og og viðskilnaður hinna Sovésku kommúnista á Ukraínu og íbúum hennar var með þeim hætti að ekki er óeðlilegt að Ukraínubúar vilji sem minnst vita af Lenín og öðrum Sovétíkusum.

Vissulega er málin all nokkuð blandin, því um leið og Sovétið murkaði líftóruna úr innfæddum (sem hernám Þjóðverja bætti svo í enn frekar) fluttu þeir inn aðra íbúa sér þóknanlegri, sem eru þar enn ásamt afkomendum sínum.

Líklega hefur ekki á mörgum stöðum verið gengið rösklegar fram í því að "skipta um þjóð", þegar þjóðin vildi ekki "gera rétt" gagnvart valdhöfum

Því er skiljanlegt að tákn og merki kommúnisma og nazisma séu vekji litla hrifningu þarlendis og margir vilji banna þau, ásamt stjórnmálaflokkum þeim tengdum.

En það er ólíklegt að bönn leysi þann vanda í Ukráinu frekar en í öðrum löndum.

Skoðanir finna sér yfirleitt farveg þrátt fyrir bönn, það ættu þeir að vita sem hafa barist fyrir frelsi sínu til orðs og athafna, þrátt fyrir bönn, að vita betur en flestir aðrir.

Það hefur því yfirleitt takmörkuð áhrif að banna stjórnmálahreyfingar eða tákn, og stundum þveröfug.

Það ber einnig að hafa í huga að mörg tákn, s.s. hakakross og stjarna svo dæmi séu tekin, eru æfaforn og hafa margra alda sögu, í mismunandi menningarheimum. Eigi að banna öll tákn sem voðaverk hafa verið framin undir, væru líklega ekki mörg eftir.

Það þýðir ekki að hið opinbera geti gengið á undan með góðu fordæmi og fjarlægt opinber minnismerki og önnur tákn á opinberum vettvangi, ef ástæða þykir til.

Það er þó rétt að gjalda varhug við því að eyðilegggja þau, betra getur verið að færa þau til, eða koma þeim á safn.

Það er ekki rétt að afneita eða reyna að afmá "söguna".

Það gefst best að berjast gegn kommúnisma og nazisma með fræðslu og umræðu. Bönn hafa þar takmörkuð áhrif.


mbl.is Tákn um Sovétríkin bönnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlastjórnmálamenn, gjafir, boðsferðir og bitlingar

Það er merkilegt að lesa að til séu fjölmiðlamenn sem eru þess fullvissir að þeir séu fyllilega þess umkomnir að skilja á milli þjónustuhlutverks síns við almenning og þess einstaklings sem í krafti stöðu sinnar og atvinnu þiggur gjafir og/eða bitlinga frá fyrirtækjum og alþjóðlegum samtökum eða ríkjasamböndum.

Þeir eru þess fullvissir um að slíkt hafi ekki áhrif á umfjöllun sínar.

Á sama tíma eru jafnvel þeir fjölmiðlar sem viðkomandi starfa hjá, önnum kafnir við að birta fréttir um óeðlileg tengsl stjórnmálamanna við einkafyrirtæki, sem geri þeim greiða eða þeir hafi þegið frá þeim gjafir eða hlunnindi.

Fjölmiðlarnir álíta að stjórnmálamennirnir geti trauðla varist að láta slíkt hafa áhrif á gjörðir sínar.

Það er varla hægt að álykta á annan hátt en að fjölmiðlamennirnir álíti sig umtalsvert sterkari á hinu siðferðislega svelli en stjórnmálamenn séu.

Það ef til vill skýrir að hluta til, hve algengt er að fjömiðlamenn sækist eftir því að gerast stjórnmálamenn. Þeir gera sér grein fyrir því að þar er þörf fyrir siðferðislega sterka einstaklinga.

Sem aftur leiðir hugann að því að flestir fjölmiðlamenn eru gjarnan þeirrar skoðunar að eigendur viðkomandi fjölmiðils hafi engin áhrif á efnistök viðkomandi fjölmiðils, alla vegna þangað til þeir eru hættir störfum á viðkomandi fjölmiðli.

P.S. Skyldi enginn fyrirtækiseigandi eða aðrir hagsmunaaðilar hafa komist að því að slíkar boðsferðir eru jafn áhrifaríkar og að henda peningunum sínum út um gluggann?


33. sæti, má Finna að því?

Það er fróðlegt að sjá þennan samanburð sem OECD hefur gert á hæfni 15 ára unglinga í stærðfræði og raungreinum (science).

Eins og alltaf með samanburð sem þennan á að taka honum með fyrirvara og aldrei líta á hann sem hinn stóra endanlega sannleik.

En það þýðir heldur ekki að rétt sé að gefa því gaum sem hann gefur til kynna og velta því fyrir sér hvað megi betur fara.

33. sæti í samanburði sem þessum er ekki afleitur dómur, en vissulega gefur það til kynna að margt megi betur fara.

Árangur Íslands í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar, að Finnum undanskildum, er líka ásættanlegur og á margan hátt eðlilegra að Íslendingar velti fyrir sér samanburði við þær, frekar en Asíuþjóðirnar sem raða sér í efstu sætin.

Danmörk er í 22. sæti, Noregur í því 25, en Svíar reka lestina í 35 sæti, en Rússland er á milli Íslendinga og Svía.

Það hefur oft verið sagt í mín eyru að Íslendingar hafi sótt mesta fyrirmynd fyrir grunnskóla til Svíþjóðar, en ég get ekki fullyrt hvort að það sé rétt. En sé svo er það vert að taka eftir að Svíar eru eina Norðurlandaþjóðin sem er aftar Íslendingum.

En það sem vekur fyrst og fremst athygli mína, fremur en Asíuþjóðirnar sem raða sér í efstu sætin, er árangur Finna.  Og ekki síður ótrúlegur árangur Eistlendinga.

Að Finnland sé í 6. sæti og Eistlendingar í því 7. er ótrúlega góður árangur, hjá þessum nágrönnum og tengdu þjóðum. Vert er að hafa í huga að Eistlendingar hafa sótt mikið til Finna í menntamálum eftir að þeir endurheimtu sjálfstæði sitt, enda þjóðirnar nánar og tungumálin skyld.

Árangur Eistlendinga er líka athyglisverður vegna þess að þeir hafa ekki haft mikla fjármuni til að setja í skólakerfið, og hafa kennnarar þarlendir verið með verst launuðu kennurum í Evrópu, þó að reynt hafi verið að bæta kjör þeirra á undanförnum árum. Enn eru grunnskólakennarar þar þó nokkuð frá því að ná meðallaunum í landinu, eftir því sem ég veit best.

En líklega gætu Íslendingar gert margt vitlausara en að leita að einhverju marki í smiðju Finna í menntamálum, árangur þeirra er virkilega eftirtektarverður.

P.S. BBC birtir 4. af spurningum sem notaðar hafa verið til að mæla kunnáttu 15 ára unglinga. Þeir sem áhuga hafa á því að spreyta sig, finna þær hér.

 


mbl.is Asía skarar fram úr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og hagsmunir

Mér er það til efs að meiri "tilfærslur" séu á milli annara stétta en stjórnmálamanna og fjölmiðlamanna, nema ef væri á milli fjölmiðlamanna og almannatengla og ráðgjafa.

Og það leiðir hugann að kröfum sem réttilega gerast æ háværari um að "allt sé upp á borðum" og tengls og "hagsmunir" séu sýnirlegir.

Slíkar kröfur eru heyrast eðlilega oftast um stjórnmálamenn, en er ef til vill eðlilegt að þær séu víðtækari?

Hvað til dæmis um sjálft fjórða valdið, starfsfólk fjölmiðla?

Er ástæða til að gera frekari kröfur um að upplýst sé um hagsmunatengsl þess og tengingar?

Væri rétt að gera kröfu um að fjölmiðlar upplýsi um "feril" þeirra sem skrifa fréttir? Til dæmis hvort þeir hafi starfað í stjórnmálaflokkum, hvort þeir hafi verið eða séu félagar í þessu eða hinu félaginu, eað baráttusamtöku eða öðru slíku?

Væri æskilegt að slíkt birtist á heimasíðu hvers fjölmiðils í ítarlegum búningi, og jafnvel stuttlega í lok hverrar fréttar sem viðkomandi flytur eða skrifar?

Til dæmis eða í lok fréttar kæmi fram að viðkomandi blaðamaður hefði verið framskvæmdastjóri XXX samtaka árin...XXXX eða starfað með þessum eða hinum stjórnmálafloki eða verið t.d. formaður ungliðahreyfingar einhvers stjórnamálaflokksins?

Eða að þeir hafi starfað, eða starfi í frístundum fyrir einhver samtök?

Vissulega er ekki hægt að segja að almenningur eigi kröfu á slíku, nema ef til vill hjá Ríkisútvarpinu, þar sem hann borgar reikninginn hvort sem honum líkar betur eða verr, og hlutleysisskylda er til staðar.

En væri það ekki góð leið til að auka trúverðugleika fjölmiðla að slíkar upplýsingar væru aðgengilegar almenningi, hjá fjölmiðlunum sjálfum?

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband