Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015
12.5.2015 | 17:53
Uppþotið ofar málefninu?
Það var mikið fjallað og skrifað um skattaundanskot á liðunum vetri og mörg þung orð og jafnvel þyngri ásakanir féllu.
En enn er málið í farvegi og ekkert í hendi.
Á sama tíma hefur komið í ljós að gögn frá HSBC, sem einnig var gert mikið með á sínum tíma gefa ekki ástæðu frekari aðgerða.
Það þýðir auðvitað ekki að Íslendingar hafi ekki svikið undan skatti í gegnum tíðina, eða ekki sé fyllsta ástæða til þess að vera á varðbergi og með flestar klær úti til að afla gagna eins og kostur er.
En ef til vill er á stundum ástæða til að spara "stærstu" orðin og ekki að gera ráð fyrir hinum versta.
En vissulega tekur skrattinn sig yfirleitt vel út á veggnum.
Boltinn hjá seljanda gagnanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2015 | 20:37
Hið erlenda skyr
Nú er svo komið, eins og reyndar mátti reikna með að erlend fyrirtæki eru farin að framleiða "Íslenskt" skyr.
Slíkt hefur reyndar verið gert um all nokkra hríð í Bandaríkjunum, en nú er framleiðslan orðin mikil í Evrópu.
Skyr er góð vara og því eðlilegt að stórir framleiðendur taki upp framleiðslu þegar sala og eftirspurn fer vaxandi.
Það hefur enginn vilja til að gefa eftir markaðshlutdeild.
Það má því fagna því að MS hafi ákveðið að fara þá leið að framleiða skyr í samvinnu við erlenda aðila, jafnhliða því að flytja út skyr frá Íslandi.
Til lengri tíma litið er það líklega eina leiðin til að standast samkeppni.
Styttri leiðir á markað og ódýrara hráefni hefði líklega ella gert samkeppnina mun erfiðari. Stórir framleiðendur eru einnig mun betur í stakk búnir til að takast á við sveiflur í eftirspurn.
Því má reikna með að þannig verði tekjur MS meiri til lengri tíma litið, þó að þær séu minna á hverja dós.
En það er sjálfsagt og nauðsynlegt að standa vörð um að skyr sé ekki auglýst sem Íslenskt, nema að það sé framleitt á Íslandi, en það á reyndar einnig við um mikið af því skyri sem er selt undir merkjum MS hér og þar.
En fyrir þa sem finnst það skrýtin tilhugsun að til sé "útlent skyr", þá er það auðvitað ekkert fráleitara, en Íslensk jógúrt, Íslenskur Camembert, Íslenskt gin eða vodki, svo nefndar séu nokkrar vörur sem eru framleiddar um allan heim og líka á Íslandi.
Skjaldborg um íslenska skyrið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.5.2015 | 15:36
"Feimnir Íhaldsmenn" skapa óvæntan stórsigur - hreinn meirihluti
Ég man ekki eftir því að hafa séð neina skoðanakönnun fyrir Bresku kosningarnar sem gaf Íhaldsflokknum, eða yfirleitt nokkrum flokki hreinan meirihluta á þingi.
En nú er ljóst að Íhaldsflokkurinn hefur hreinan þingmeirihluta næstu 5 árin, hlýtur 330 þingmenn.
Hreint út sagt ótrúlegur sigur.
Að öllum líkindum hefur boðskapur flokksins um að kjósa forsætisráðherra hitt í mark, og líklegt að Englendingum hafi ekki litist á minnihlutastjórn sem ætti allt sitt undir Skoska þjóðarflokknum.
En hvers vegna eru úrslitin svo ólík því sem skoðanakannanir sýndu?
Það er líklega erfiðara að gera eins góðar skoðanakannanir í einmennings fyrirkomulagi. Til þess að gera litlar fylgisbreytingar geta breytt þingmannatölu verulega, ef breytingin er í "réttum" kjördæmum.
Skoðanakannair sýndu Íhaldsflokkinn og Verkamannaflokkinn báða í kringum 34% fylgi. Íhaldsflokkurinn fer hins vegar upp í tæp 37%, en Verkamannaflokkurinn dettur niður í u.þ.b. 30.5%.
Og það dugar til. Það er líka rétt að hafa í huga að Verkamannaflokkurinn hefur mun meira "dautt" fylgi í Skotlandi heldur en Íhaldsflokkurinn, þó að flokkarnir hafi báðir náð 1. þingmanni þar.
En það tala líka margir um hina "feimnu Íhaldsmenn". Það er að einhverra hluta vegna sé all nokkur "hulduher" Íhaldsmanna sem gjarna veigri sér við að gefa upp að þeir kjósi flokkinn. Það sé ekki síst vegna fjandsamlegs andrúmslofts sem til til Íhaldsflokksins víða, ekki hvað síst skapað af fjölmiðlum, álitsgjöfum og "celebum". Það sé því hvorki vænlegt til vinsælda né "cool", að segjast kjósa "Íhaldið".
Einnig benda margir á að undir stjórn Gordons Brown og síðar Milibands hafi Verkamannaflokkurinn flutt sig til vinstri og gefið eftir miðjuna sem Tony Blair hafði með eftirminnielgum hætti slegið eign sína á fyrir hönd Verkamannaflokksins.
En það er að sjálfsögðu mikið rætt um einmenningskjördæmi og hve lítil tenging er á milli fylgis á landsvísu og þingmannafjölda. Skiptingin talar sínu máli:
(Athugið að tölurnar eru svona u.þ.b., en ekki hárnákvæmar.)
En í þessu tilfelli nær kerfið þó þeim yfirlýsta tilgangi, að lyfta einum flokki til ábyrgðar, en það er auðvelt að halda því fram að það sé á kostnað lýðræðisins.
En sigur Íhaldsflokksins er glæsilegur og óvæntur, en svo tekur alvaran við. Það verður erfitt verk að halda Sameinaða konungdæminu saman, þegar kosningaúrslit eru jafn "póleruð" eftir landshlutum og raun ber vitni, og næsta víst að krafa um nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstætt Skotland fær byr undir báða vængi með þessum úrslitum. Sömuleiðis er ekki ólíklegt að krafa um þing fyrir England heyrist meira. Spurning hvort að úr verði lauslegt sambandsríki.
Svo er það spurningin um "Sambandsaðild", en Íhaldsflokkurinn lofaði að endursemja um aðildarskilmála og halda þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2017.
Það gæti orðið erfitt loforð að efna, því samningaviðræður verða erfiðar, ef næst að hefja þær fyrir alvöru.
En hins vegar stendur Cameron mun sterkari gagnvart "Sambandinu" en áður, með þennan glæsilega kosningasigur að baki sér.
Ég leyfi mér að efast um að þeir séu margir sem fagna þessum úrslitum innilega í "Brussel".
Tíundaði kosningaloforð íhaldsmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.5.2015 | 05:26
Nær Íhaldsflokkurinn hreinum meirihluta?
Það stefnir allt í að David Cameron og Íhaldsflokkurinn verði sigurvegarar Bresku þingkosninganna, sigur þeirra verði jafnvel sætari en sigur Nicolu Sturgeon og Skoska þjóðarflokksins.
Nú eru spár jafnvel farnar að gera ráð fyrir því að Íhaldsflokkurinn gæti náð hreinum meirihluta. En 323 sæti eru yfirleitt talinn nægja til þess, þar sem Sinn Féin þingmenn taka aldrei sæti í Westminster.
Nú segja spár að Íhaldsflokkurinn gæti náð 325 þingsætum.
En hvort sem það verður eður ei, er ljóst að það stefnir í góðan sigur Íhaldsmanna.
Það stefnir sömuleiðis í að þrír leiðtogar stjórnmálaflokka segi af sér að loknum kosningum, leitogar Verkamannaflokksins, Frjálslyndra demókrata og líklega UKIP einnig.
En það verður líklega mjótt á mununum hjá Nigel Farage.
Í atkvæðum talið, verður UKIP líklega þriðji stærsti flokkurinn, en uppskeran verður rýr. Líklega aðeins 2 þingmenn.
Skoski þjóðarflokkurinn, Frjálslyndir demókratar, Írski Sambandsflokkurinn og Welskir þjóðernissinnar, munu líklega allir fá fleiri þingmenn, með færri atkvæðum.
En stærsta fréttin er sigur Íhaldsflokksins, síðan kemur frábær árangur Skoska þjóðarflokksins og hræðilegt gengi Verkamannaflokksins, en það tvennt helst nokkuð í hendur, Skotland enda lengi traust vígi þess síðarnefnda.
Íhaldsflokkurinn stærstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.5.2015 | 18:46
Þörf upprifjun
Nú þegar 70 ár eru liðin frá lokum seinni heimstyrjaldar er þarft að rifja upp hörmungar stríðsins, aðdraganda þess og eftirleik.
Og kvikmyndin sem fylgir fréttinni sem þessi færsla er hengd við sýnir vel eyðilegginguna sem blasti við í stríðslok.
Reyndar er hægt að finna margar slíkar heimildir á netinu, og hægt að eyða tíma sínum í meiri óþarfa en að skoða slíkt og fræðast um styrjöldina miklu.
Þessa mynd og margar aðrar má finna á síðum s.s. YouTube, t.d á þessari síðu.
En þegar við fögnum því að 70 ár séu séu liðin frá lokum seinni heimstyrjaldar, er hollt að leiða hugann að því hvernig ástandið var í stríðslok.
Það er þarft að leiða hugann að því að það fengu ekki allar þjóðir endurheimt frelsi sitt í lok seinni heimstyrjaldarinnar. Sumum þjóðum má segja að hafi verið fórnað á "altari friðarins", því allir voru búnir að fá nóg af átökum.
Lok seinni heimstyrjaldrarinnar þýddi ekki endalok nauðungarflutninga einstaklinga í gripavögnum til nauðungarvistar. Búðirnar voru ekki "tæknivædd sláturhús" lengur, en þó voru þeir margir sem áttu þaðan ekki endurhvæmt.
Lok seinni heimstyrjaldarinnar þýddi ekki endalok gyðingahaturs, eða flótta þeirra frá Evrópu. Slíkt gerist enn þann dag í dag.
Og í mörgu er seinni heimstyrjöldin enn í umræðunni, rétt eins og umræða um stríðsskaðabætur sýnir okkur.
Og nýleg dæmi sýna okkur að hernám og innlimum landsvæða með valdi heyrir ekki sögunni til.
En þó að heimstyrjöldinni síðari hafi lokið fyrir 70 árum, má deila um hvenær eftirleik hennar (eða heimstyrjaldarinnnar fyrri) hafi lokið, eða hvort að eftirköst hennar séu enn að hrella Evrópu og heimsbyggðina.
Svona var Berlín í júlí 1945 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.5.2015 | 06:46
Hvað kjósa Bretar?
Það er rétt eins og kemur fram í fréttinni að það er mikil spenna í Bretlandi vegna kosninganna sem fram fara í dag, og jafnvel enn meiri spenna fyrir eftirleiknum. Hvernig stjórn verður mynduð.
Stuðningsmenn Íhaldsflokksins binda miklar vonir við að stuðningsmenn UKIP, muni mörgum snúast hugur í kjörklefanum, vegna þess að skoðanakannanir sýna að megnið af atkvæðum flokksins muni falla dauð.
Spá um 1. eða 2. þingsæti, þrátt fyrir á milli 10 15% fylgis, er döpur sýn, ekki síst ef hún leiðir í þá erkiandstæðingin, Verkamannaflokkinn til valda.
Raunar held ég að þessar kosningar gætu tekið mestan vind úr seglum Breska sjálfstæðisflokksins, verði afrasksturinn jafn dapur og raun ber vitni. Þetta áttu að verða kosningarnar sem flokkurinn "brytist" inn í Westminster, en fátt bendir til þess að það verði af neinum krafti.
Fari svo að Nigel Farage nái ekki þingsæti, og hætti sem formaður í kjölfarið, hverfur enn frekari kraftur úr flokknum. Þó er líklegt að hann verði áfram sterkt afl í kosningum til Evrópusambandsþingsins.
Íhaldsflokkurinn hefur einnig lagt mikla áherslu á að ná til kjósenda Frjálslyndra demókrata og svo þeirra Englendinga sem líst ekki á að Skoskir þingmenn verði sterka aflið með stuðningi sínum við hugsanlega ríkisstjórn Verkamannaflokksins.
Íhaldsflokkurinn hefur lagt mikla áherslu á að atkvæði greitt UKIP og Frjálslyndum demókrötum, sé ávísun á stjórn Verkamannaflokksins undir stjórn Ed Milibands.
En skoðanakannanir hafa sýnt, að mun fleiri vilja að Cameron sé áfram forsætisráðherra, frekar en Miliband taki við, þó að flokkar þeirra njóti mjög svipaðs stuðnings.
Hvort að þessar áherslur Íhaldsflokksins muni duga til að skila honum hærri fylgistölum en skoðanakannanir hafa sýnt er hluti spennunar.
En það má segja að Bresk stjórnmál séu í nokkrum hnút og verði úrslitin í takt við skoðanakannanir, er erfitt annað en að draga þá ályktun að líkur á "sambandsslitum" aukist all nokkuð.
Póleringin eykst, og ef Skoski þjóðarflokkurinn fær alla þingmenn, eða svo gott sem, í Skotlandi, eykur það líkurnar á uppbroti.
Sömuleiðis er líklegt að óánægja vaxi í Englandi yfir því að Skotar hafi bæði vaxandi sjálfsforræði, en þingmenn þeirra séu jafnframt úrslitaaflið hvað varðar málefni Englands. Ekki er ólíklegt að krafa um sérstakt þing fyrir England verði því háværari.
Fari það svo að minnihlutastjórn Verkamannaflokksins taki við stjórnartaumunum með stuðningi Skoska þjóðarflokksins, munu margir frammámenn "Sambandsins" anda léttar, enda ljóst að þá verður ekkert af þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Bretlands innan "Sambandsins", sem Íhaldsflokkurinn hefur lofað 2017.
En það gæti orðið skammvinn sæla. Ýmsir eru þeirrar skoðunar að komist Verkamannaflokkurinn í stjórn, minnki líkur á brotthvarfi Breta úr "Sambandinu" á næstu 5 árum, niður í næstum ekki neitt. En þeir bæta því við að líkurnar á "Brexit" á næstu 10 til 15 árum, aukist.
Andstaða við "Sambandsaðild" muni aukast og herðast í Íhaldsflokknum, sem yrði líklegur til að ná völdum aftur eftir 5 ár. Ekki sé líklegt að óánægjan með "Sambandið" muni minnka í Bretlandi á þeim tíma.
En það er varasamt að spá, sérstaklega um framtíðina eins og maðurinn sagði.
En það verður spennandi að sjá úrslitin og hvað Bretar kjósa.
Flokkarnir hnífjafnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.5.2015 | 17:40
Fyrir hvað stendur Katrín Jakobsdóttir í pólítík?
Það skrifa margir um Katrínu Jakobsdóttur þessa dagana. Ýmist er hún hvött til þess að bjóða sig fram til forseta Íslands, eða að vilji er til þess að hún leiði "samfylkingu" vinstri manna fram til sigurs á Alþingi.
Og það kemur fram í skoðanakönnunum að Katrín nýtur meira trausts á meðal Íslendinga en aðrir stjórnmálmenn. Sá eini sem er á sama plani er Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti.
Það er eins og að það sé traustvekjandi að hafa gegnt/gegna formanns embætti Alþýðubandalagsins/Vintri grænna. Slíkt traust loðir þó ekki við Steingrím J. Sigfússon.
En hefur Katrín í einhverju mikilvægu máli tekið aðra afstöðu en Steingrímur, eða Vinstri græn, sem nú njóta fylgis á milli 10 og 11%?
Það breytir ekki þeirri staðreynd að sjálfur kann ég ágætlega við þá ímynd af Katrínu sem við mér blasir.
Fallegt og einlægt bros og það sem virkar sem einlægur og trúverðugur talandi.
En fyrir hvað stendur Katrín Jakobsdóttir í pólítík?
Tók hún aðra afstöðu en Vinstri græn í einhverjum mikilvægum málum?
Var hún á móti afstöðu Vinstri grænna í í því að samþykkja IceSave samningana? Barðist hún fyrir því að "Skjaldborgin um heimilin" yrði öðruvísi, eða sterklegri en raun bar vitni?
Var hún á móti svikum Vinstri grænna þegar ríkisstjórn sem hún sat í, sótti um aðild að Evrópusambandinu?
Vann hún einhver "afrek" í Mennta og menningarmálaráðuneytinu, önnur en að fjölga þeim sem þiggja listamannalaun?
Hvað liggur eftir Katrínu Jakobsdóttur í Íslenskum stjórnmálum?
Eða hefur hún einfaldlega siglt nægilega lygnan sjó til þess að hafa fengið nægilega fáa á móti sér?
Er það nægilegt til þess að verða forseti Íslands, eða óskoraður leiðtogi Íslenskra vinstrimanna?
5.5.2015 | 08:52
Grikkland og Eurokrísan - tragedía í endalausum þáttum.
Gríska tragedían er nú þegar orðnir fleiri þættir en nokkur reiknaði með. Og enn er líklegt að fleiri eigi eftir að bætast við.
Hvort að þjóðaratkvæði um veru Grikklands á Eurosvæðinu breyti einhverju, eða fari yfirleitt fram, er ekki gott að spá um, líklegra er þó en hitt, að slíkt verði áfram eingöngu hugmynd. Þjóðaratkvæði þykja alla jafna ekki vænleg leið á því svæði.
Og auðvitað yrði í raun að greiða atkvæði um fleira en sjálfst euroið, það yrði jafnframt að greiða atkvæði um þær ráðstafanir sem "eigendur" eurosins vilja að Grikkir grípi til.
Og þar hefur einmitt skóinn kreppt að Akkílesarhælnum. Grikkir vilja halda euroinu, en ekki framfylgja þeim skilyrðum sem sú aðild setur (það eru reyndar ekki mörg löndin á Eurosvæðinu sem hafa gert það) eða framfylgja þeim skilyrðum sem "Þríeykið" hefur krafist.
Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að skiptar skoðanir séu um hvort að þau skilyrði séu skynsamleg eða réttlát, en öllu jöfnu er það þó tilhlýðilegt að lánveitandi setji skilyrði, en lántakandi síður. Lántakandinn hefur hins vegar rétt til að þiggja lán eður ei.
En þar liggur ef til vill hluti deilunnar. Hvort að Grikkir hafi tekið öll þessi lán af fúsum og frjálsum vilja, eða hvort þeir hafi verið þvingaðir til þess, í það minnsta að nokkru leyti, vegna þess að það hentaði Eurosvæðinu best?
Það er alla vegna flestum ljóst, og all mörgum var það þegar lánin voru veitt, að Grikkir eru ekki borgunarmenn fyrir þeim, ekki við þáverandi eða núverandi aðstæður.
En hefði verið betra fyrir Grikki að fara í "þrot" þá, eða nú? Og hvort hefði verið eða væri verra fyrir Eurosvæðið?
Eða tekst Grikklandi að fara í þrot og halda sér innan "girðingar" eurosins?
Það er ljóst að það er nógu erfitt fyrir yfir skuldsett ríki að kljást við skuldamál sín og áralanga óstjórn, þó að það ekki bætist við ótti við að gjaldmiðill þess verði tekinn af því.
Til viðbótar má segja að Seðlabankinn sé óvinveittur, í það minnst að hluta til og um leið nýttur til þvinganna af skuldunautum landsins.
Enn og aftur er rétt að hafa í huga að í slíka aðstöðu er auðveldara í að komast en úr.
Inn í tragedíuna bætist svo umræða um stríðsskaðabætur, hræðilegt hlutskipti Grísks almennings og geopólítísk togstreita á milli "Sambandsins", Rússa og Bandaríkjanna, svona eins og hliðarplott í sápuóperu.
En enn hefur engin "handritshöfundur" komið fram með ásættanlegan endi, hvað þá góðan og má því búast við "fleiri þáttum", enn um sinn.
Vill þjóðaratkvæði um evruna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.5.2015 | 05:44
Í lobbýinu á Alþingi
Það þarf engum að koma á óvart að kröfuhafar í þrotabú bankanna hafi fjöldan allan af Íslendingum (sem og annara þjóða einstaklingum) í vinnu við að gæta hagsmuna sinna.
Annað væri óeðlilegt, enda um gríðarlega mikla fjárhagslega hagsmuni að ræða.
Það er heldur ekki óeðlilegt að slíkir starfsmenn "nuddi" sér upp við þingmenn og leiti upplýsingar og reyni að hafa áhrif á þá.
Slíkt er velþekkt víða um lönd og eins og í mörgu öðru er engin ástæða til þess að ætla að slíkt gerist ekki á Íslandi.
Það má segja að slíkt eigi ekki að gerast, en það er ekki til nein 100% leið til að koma í veg fyrir slíkt.
Það er því líklega kominn tími til þess að Alþingi setji lög eða reglugerð um starfsemi "lobbýista" og skráningu þeirra, eins og tíðkast víða um lönd.
Það væri eðlilegt að slíkt yrði gert um leið og í tengslum við siðareglur fyrir alþingimenn og starfsmenn þingsins, sem og yfirhalningu á skráningu hagsmunatengsla.
Og þar er rétt að hafa í huga að ef allir hagsmunir eiga að vera "upp á borðum", skiptir ekki síður máli t.d hverjum einstaklingar skulda, en hvað þeir eiga.
Heimildarmenn á Alþingi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.5.2015 | 05:33
Straumhvörf?
Rafhlaða eins og þessi getur valdið straumhvörfum, í bókstaflegri merkingu. Þegar tæknin er orðin góð, ódýr og endist vel, er líklegt að "bylting" verði í raforkuframleiðslu.
Grundvöllur fyrir aukinni notkun lítilla vindmylla og sólarorku gjörbreytist.
En mér sýnist þó að kostnaðurinn við þessar rafhlöður og geymslugetan sé með enn með þeim hætti að notendur geti ekki tengt sig frá netinu, nema á sólríkustu og/eða vindasömustu stöðum.
En án efa eiga þessir "rafhlöðuskápar" eftir að verða öflugri, endingarbetri og ódýrari. Það er því líklegt að innan skamms tíma verði "orkuveggur" á flestum "betri heimilum".
En enn sýnist mér að eingöngu sé um öflugan varaaflgjafa að ræða.
Tesla kynnir nýja ofurrafhlöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |