33. sæti, má Finna að því?

Það er fróðlegt að sjá þennan samanburð sem OECD hefur gert á hæfni 15 ára unglinga í stærðfræði og raungreinum (science).

Eins og alltaf með samanburð sem þennan á að taka honum með fyrirvara og aldrei líta á hann sem hinn stóra endanlega sannleik.

En það þýðir heldur ekki að rétt sé að gefa því gaum sem hann gefur til kynna og velta því fyrir sér hvað megi betur fara.

33. sæti í samanburði sem þessum er ekki afleitur dómur, en vissulega gefur það til kynna að margt megi betur fara.

Árangur Íslands í samanburði við hinar Norðurlandaþjóðirnar, að Finnum undanskildum, er líka ásættanlegur og á margan hátt eðlilegra að Íslendingar velti fyrir sér samanburði við þær, frekar en Asíuþjóðirnar sem raða sér í efstu sætin.

Danmörk er í 22. sæti, Noregur í því 25, en Svíar reka lestina í 35 sæti, en Rússland er á milli Íslendinga og Svía.

Það hefur oft verið sagt í mín eyru að Íslendingar hafi sótt mesta fyrirmynd fyrir grunnskóla til Svíþjóðar, en ég get ekki fullyrt hvort að það sé rétt. En sé svo er það vert að taka eftir að Svíar eru eina Norðurlandaþjóðin sem er aftar Íslendingum.

En það sem vekur fyrst og fremst athygli mína, fremur en Asíuþjóðirnar sem raða sér í efstu sætin, er árangur Finna.  Og ekki síður ótrúlegur árangur Eistlendinga.

Að Finnland sé í 6. sæti og Eistlendingar í því 7. er ótrúlega góður árangur, hjá þessum nágrönnum og tengdu þjóðum. Vert er að hafa í huga að Eistlendingar hafa sótt mikið til Finna í menntamálum eftir að þeir endurheimtu sjálfstæði sitt, enda þjóðirnar nánar og tungumálin skyld.

Árangur Eistlendinga er líka athyglisverður vegna þess að þeir hafa ekki haft mikla fjármuni til að setja í skólakerfið, og hafa kennnarar þarlendir verið með verst launuðu kennurum í Evrópu, þó að reynt hafi verið að bæta kjör þeirra á undanförnum árum. Enn eru grunnskólakennarar þar þó nokkuð frá því að ná meðallaunum í landinu, eftir því sem ég veit best.

En líklega gætu Íslendingar gert margt vitlausara en að leita að einhverju marki í smiðju Finna í menntamálum, árangur þeirra er virkilega eftirtektarverður.

P.S. BBC birtir 4. af spurningum sem notaðar hafa verið til að mæla kunnáttu 15 ára unglinga. Þeir sem áhuga hafa á því að spreyta sig, finna þær hér.

 


mbl.is Asía skarar fram úr
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband