Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2015
30.4.2015 | 08:44
Spennandi en undarlegar kosningar
Það er mikil spenna fyrir Bresku þingkosningarnar. Næsta öruggt má telja að enginn flokkur verði með hreinan meirihluta, annað kjörtímabilið í röð.
Það sem meira er, margar kannanir benda til þess að engir tveir flokkar muni nægja til að ná þingmeirihluta.
Það eru því margir sem telja að ekki verði langt til næstu kosninga.
Bresku "turnarnir tveir", Íhaldsflokkurinn og Verkamannaflokkurinn verða að öllum líkindum í kringum 33% hvor.
Þriðji stærsti flokkurinn (í þingsætum, en ekki prósentum talið) verður líklega Skoski þjóðarflokkurinn.
Síðan koma Frjálslyndir demókratar og Lýðræðislegi Sambandsflokkurinn (Democratic Unionist Party), sem býður einungis fram á N-Írlandi.
Það vekur athygli að svæðisbundnir flokkar ná góðum árangri. Skoski þjóðarflokkurinn gæti farið langt með að þurka út Verkamannaflokkinn í Skotlandi, og unnið svo gott sem öll þingsæti þar.
Og Lýðræðislegi Sambandsflokkurinn hefur afar sterka stöðu á N-Írlandi.
Því er er að koma upp nokkuð skrýtin staða, þar sem Skotland fær æ meira forræði yfir eigin málum, en Skoski þjóðarflokkurinn gæti jafnframt verið í lykilaðstöðu til að hlutast til um Bresk og þar með Ensk málefni.
Sem vonlegt er hefur þetta vakið upp umræður, bæði um hvort að þörf sé að þingi fyrir England og svo einnig hvort að Breska kosningakerfið geti ekki gengið við aðstæður nútímans.
Þegar við blasir að svo gæti farið að Verkamannaflokkurinn fengi engan þingmann í Skotlandi, þrátt fyrir ríflega 20% fylgi (Íhaldsflokkurinn er svo með ca. 15%) og að í kringum 45% kjósenda í Skotlandi hefði í raun engan þingmann, er eðlilegt að efasemdir komi upp.
Að sama skapi gæti það hlutskipti beðið Breska Sjálfstæðisflokksins að vera með á bilinu 10 til 12% fylgi á landsvísu, en uppskera aðeins 1 eða 2 þingmenn.
Frjálslyndir demókratar gætu fengið 28 þingmenn með u.þ.b. 9% fylgi, en Skoski þjóðarflokkurinn gæti fengið um og yfir 50 þingmenn, þrátt fyrir að vera með minna fylgi en þessir flokkar.
Þannig er erfitt að halda því fram að þingsætafjöldi endurspeglist af vilja kjósenda. En það eru engin verðlaun fyrir annað sætið í einmenningskjördæmum.
En UKIP hefur látið verulega undan síga (í það minnsta í skoðanakönnunum) eftir því sem liðið hefur á kosningabaráttuna og má líklegt telja að þeir muni eiga erfitt með að telja kjósendum trú um að atkvæði greitt flokknum, sé ekki kastað á glæ.
En það eru margir sem óttast að hálfgert upplausnarástand verði að á pólítíska sviðinu að loknum kosningum, og að það hafi jafnframt neikvæð áhrif að Hið sameinaða konungdæmi og auki líkurnar á uppbroti Bretlands.
Ef að svæðisbundnir flokkar ná að "deila og drottna", þá rjúfi það alla samstöðu og samkennd "ríkjanna" fjögurra.
En það er ljóst að það verður barist af hörku fram á kjördag.
Helsta von Íhaldsflokksins er að höfða til ótta Enskra kjósenda við oddaaðstöðu Skoska þjóðarflokksins en það virðist þó ekki hafa skilað þeim árangri sem heitir getur enn sem komið er.
Verkamannaflokkurinn gerir út á óánægju með ríkisstjórnina og leggur mikla áherslu á heilbrigðiskerfið.
Frjálslyndir eru í stöðugri vörn, en hafa þó heldur náð að rétta úr kútnum, en horfa samt fram á gríðarlegt tap.
UKIP hefur gengið afleitlega í kosningabaráttunni, fylgið er í sjálfu sér þolanlegt, en hver skoðanakönnunin á fætur annari gefur þeim litla von um mikið meira en 2 þingsæti, sem hefur tekið byrinn úr seglunum.
En það verður fróðlegt að sjá úrslitin, og ekki síður að sjá hvernig spilast úr þeim eftir á.
Eins og víðar eru Bresk stjórnmál ákaflega "splundruð", ef svo má að orði komast.
Kosningaloforð upp á milljarða punda virðast ekki hrífa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.5.2015 kl. 07:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.4.2015 | 06:51
Ekki hinn stóri eða endanlegi dómur, en ....
Það er auðvitað svo að skoðanakannanir eru ekki hinn stóri eða endanlegi dómur. Hvorki um heiðarleika stjórnmálamanna, fylgi flokka eða nokkuð annað.
Það eru kosningar.
En það gerir það ekki að verkum að rétt sé að líta fram hjá þeim, eða hundsa þær.
Þær gefa vísbendingu um stöðuna og hvernig upplifun svarenda er. Sem aftur gefur all góða vísbendingu um viðhorf almennings.
Hvernig stjórnmálamennirnir koma þeim fyrir sjónir og ef til vill ekki hvað síst hvaða mynd er dregin upp af þeim í fjölmiðlum.
Og það er öllum stjórnmálamönnum hollt að velta því fyrir sér hvernig stendur á því að upplifun kjósenda af þeim er eins og fram kemur, eða ástæðunni fyrir því að að "mynd" þeirra í fjölmiðlum er eins og raun ber vitni.
Það má líklega endalaust deila um hvort að þetta sé allt rétt eða rangt, hvort að umfjöllun sé óeðlileg, ósanngjörn eða byggi meira á neikvæðum atriðum en þeim jákvæðu.
En hún er samt sem áður staðreynd sem stjórnmálamenn verða að lifa með og skiptir máli.
Að hluta til er þetta nokkuð alþjóðleg þróun, almenningur víðast hvar virðist hafa minna álit og minni þolinmæði gagnvart stjórnmálamönnum. Ekki hvað síst þeim sem oft eru kallaðir "hefðbundnir".
Bjarni tekur upp hanskann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.4.2015 | 06:34
Flikkerað
Það hefur lítil vefvirkni verið hjá mér undanfarnar vikur, þörf var á að hneppa öðrum hnöppum og leika fingrum um önnur lyklaborð.
En vondandi verður eitthvað líflegra hér á næstunni.
Er nýbúinn að setja all nokkuð af myndum inn á Flickr síðuna mína, eins og venjulega má smella á myndirnar og flytjast þangað.
4.4.2015 | 17:08
Fyrirheitna landið?
Ég fékk tölvupóst frá kunningja mínum þess efnis að ég ætti að horfa á heimildamynd, sem sýnd hefði verið á RUV og bæri heitið Fyrirheitna landið. Með fylgdi að hún fjallaði um Íslendinga í Noregi og hve vel þeim vegnaði þar.
Þar sem dagurinn var þess eðlis að ýmis verkefni biðu sem ljúft var að skjóta á frest, ákvað ég að horfa á myndina og fresta því sem leiðinglegra gæti talist um nokkra tíma.
Það er skemmst frá því að segja að myndin var ágæt áhorfs, en sagði þau í raun ekki frá miklu.
Það hefur alltaf verið svo að Íslendingar (jafnt sem aðrar þjóðir) leggja land undir fót og freista gæfunnar í öðrum löndum, sumum vegnar vel og öðrum síður. Ekkert nýtt þar.
Vissulega hentar Noregur Íslendingu betur en flest önnur lönd. Fólkið er að ýmsu svipað, tungumálin náskyld og svo mætti líklega fleira til telja.
Noregur er ríkt land, hefur hagnast gríðarlega á olíu og uppbygging hefur verið mikil, þannig að ekki hefur skort atvinnu.
Allt þetta virkar eðlilega vel fyrir Íslendinga.
Það þarf heldur engan að undra að það sem er ekki aðeins ein ríkasta þjóð veraldar, heldur einnig u.þ.b 16 sinnum fjölmennari geti búið blindum og heyrnarskertum, eða þeim með sjaldgæfa sjúkdóma, betra umhverfi heldur en Íslendingar.
Þó mátti skilja á ýmsum viðmælendum að lífið væri ekki bara auðvelt, heldur þyrfti að vera agaður, skipulagður og velta því fyrir sér í hvað væri eytt.
Það stemmir ágætlega við mína upplifun af Noregi, en þangað fór ég í heimsókn fyrir skömmu.
Og það er þetta með agann, sem ýmsir virtust hafa tekið eftir í Norskri "þjóðarsál", en býsna algengt er að telja vanta í þá Íslensku.
Ef til vill hefur það eitthvað að gera með Norska herinn, þar sem allir, jafnt konur sem karlar, geta átt von á því að vera kallaðar til (eftir því sem ég kemst næst eru u.þ.g. 15% af þeim sem eru á réttum aldri kallaðir til). Það er nú eitthvað annað en á Íslandi, þar sem flestir fussa og sveia, ef minnst er á her (persónulega tel ég Íslendinga ekki þurfa slíkt, þó að vissulega mætti huga að ýmsum vörnum), og fá heiftarlega munnræpu, ef fréttist af vélbyssum innan landhelginnar.
En það sem vantaði ef til vill mest í myndina, og vissulega er erfitt að gera öllu skil í stuttri mynd, var meira um aðstæður fólkins, fyrir og eftir flutningana.
Fór fólkið úr eigin húsnæði í eigið húsnæði? Eða úr leiguhúsnæði í leiguhúsnæði? Hafði það svipaðan fermetrafjölda undir? Taldi það sig lifa í svipuðum lífstíl og það hafði gert á Íslandi?
Nota þeir almenningssamgöngur meira, eiga þeir svipaðan bíl, "leiktæki" o.s.frv.?
Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að fleiri en einn kunningi minn, hefur nefnt það við mig, eftir að hafa flutt erlendis, er að mesti munurinn sé að skipta um "andrúmsloft".
Og hvað eiga þeir við með því?
Jú, að þeir hafi stimplað sig út úr "keppninni" eins og einn þeirra nefndi það. Að þeir hafi einfaldlega notið þess að "hverfa í fjöldann" og að samkeppnin um bíl, híbýli og annað slíkt hafi einfaldlega horfið.
Lífið hafi einfaldlega orðið að ýmsu leiti betra.
Hvort þetta er almennt rétt ætla ég ekki að dæma.
En hvað mest sláandi í heimildamyndinni fannst mér að heyra frá ungu stúlkunum sem höfðu farið til Noregs, vegna þess að þeim bauðst ekki að komast "á samning" á Íslandi. Það bendir til þess að eitthvað sé stórlega að í iðnmenntakerfi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.4.2015 kl. 09:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.4.2015 | 10:02
Þarft frumvarp
Ég get ekki betur séð en að þetta sé ákaflega þarft og skynsamlegt frumvarp. Engin ástæða er til að flýta sér um of í þessum efnum.
Stóraukinn kostnaður fellur á Íslendinga vegna þessara laga. Það er ljóst að ekki er þörf á að skilyrðinu um endurnýjanlega orkugjafa þarf ekki að fullnægja fyrr en árið 2020.
Þangað til er ekki nauðsynlegt að lögin taki gildi.
Ísland stendur mun betur að vígi hvað varðar notkun endurnýjanlegrar orku heldur en flest ef ekki öll lönd.
Það þýðir auðvitað ekki að Íslendingar eigi að sitja með hendur í skauti, og telja nóg að gert.
En mun æskilegra væri að nota þessi 5 ár sem eru þangað til markmiðunu þarf að vera náð (að endurnýjanleg orka verði 10% af notkun í samgöngum) til að legga áherslu á aukna notkun rafmagns í samgöngum.
Sparaði þjóðarbúinu milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.4.2015 | 12:26
Stóraukin niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar - rétt leið?
Þessi frétt á Vísi vakti athygli mína. Vissulega er hægt að halda því fram að það sé göfugt að greiða niður húshitunarkostnað, þó að efist reyndar heldur ekki um að mörgum þyki það óþarfi.
En ég held að það geti varla talist klókt að halda niðurgreiðslum sem þessum áfram út í hið óendanlega, og jafnframt í raun taka af allan hvata til þess að leita hagkvæmari lausna.
Eðlilegra þætti mér að tímamarka niðurgreiðslur, en bjóða jafnfram upp á þann möguleika að þeir sem búa á svæðum sem ekki geta notað heitt vatn, fengi styrki, eða afar hagkvæm lán til þess að fá sér öðruvísi kyndingu.
Þá hefði ég fyrst og fremst í huga "öðruvísi jarðvarma", sem nýttur er með varmaskiptum. Slík tækni er notuð víða um heim, á svæðum sem eru jafn köld eða kaldari en Ísland. Má þar nefna Finnland, Svíþjóð og Kanada. Eftir því sem mér hefur skilist standa Svíar t.d. mjög framarlega í þessum efnum.
Með vaxandi skógrækt gæti viðarkynding (t.d. með pellettum) hugsanlega verið lausn, en ég held að varmaskiptin myndu líklega henta betur á Íslandi.
Síðan að loknum þeim fresti sem gefin er, gæti t.d. verið 10 ár, verði niðurgreiðslum einfaldlega hætt.
Þannig mætti spara einstaklingum mikið fé til lengri tíma litið og hinu opinbera einnig.
Engin ástæða er til að niðurgreiða húshitunarkostnað til þeirra sem sýna enga viðleitni til að lækka hann.
Kostnaður við uppsetningu varmamskiptabúnaðar (borunar þar sem það þarf o.s.frv.) myndi líklega sömuleiðis minnka all nokkuð, ef útbreiðslan ykist.
2.4.2015 | 10:38
Landspítalann burt af miðbæjarsvæðinu?
Þó að ef til vill kunni dagsetningin á fréttinni eitthvað að rýra gildi hennar, þá er hugmyndin að hluta til góð, og vert að velta henni fyrir sér víðar en á munnþurku (á ekki öll umræða á vegum hins opinbera að fara fram góðri Íslensku?).
En þó að ég held að það sé vert að velta því fyrir sér að byggja upp Landspítalann á nýjum stað, er það bollaleggingarnar um Efstaleitið sem fá mig til að velta fyrir mér dagsetningunni.
En væri ekki gott að byggja t.d. nýjan spítala við Vífilsstaði, eins og stundum hefur komið til tals?
Eða jafnvel í Hafnarfirði, þannig fæst betri tenging við flugvöll, ef að Reykjavíkurflugvöllur verður lagður niður.
En ég fagna því að aftur skuli vera komnar upp hugleiðingar um staðarval Landspítala.
Ég held að það sé marg sem mæli með því að byggja frá grunni og byggja mun hærra en leyfilegt er á núverandi staðsetningu.
Ekki myndi það skaða ef hægt væri að selja núverandi lóð á hærra verði en lóðir má fá annars staðar.
Að byggja Landspítala annars staðar gæti sömuleiðis hugsanlega stuðlað að frekari sátt í "flugvallarmálinu".
Nýr Landspítali í Efstaleiti? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.4.2015 | 15:04
Neikvæðar auglýsingar
Ég geri mér vel grein fyrir því að í fjölmiðlumhverfi samtímans er baráttan hörð. Þegar æ færri eru reiðubúnir til þess að greiða fyrir fjölmiðlanotkun, þá verður æ erfiðara fyrir þá að ná til fjármagn, til að veita þá þjónustu, sem við viljum þó svo gjarna njóta.
Ég er mikill notandi "ókeypis" fjölmiðla, bæði Íslenskra og annara.
Ég á auðvelt með að sætta mig við auglýsingar, því ég geri mér grein fyrir því að þær eru órjúfanlegur þáttur ókeypis miðla, og jafnvel þeirra sem þó krefjast áskriftargjalds.
En of ágengar og "ruddalegar" auglýsingar virka neikvætt, í það minnsta á mig, bæði fyrir auglýsenda og fjölmiðil.
Því eru vefir Vefpressunar komnir út af mínum fjölmiðlarúnt.
Ég þoli einfaldlega ekki auglýsingar sem spila síendurtekin skilaboð.
Það má þola þau einu sinni eða svo, en ekki meir.
Enn síður, fá slíkar auglýsingar fá mig til að skipta við viðkomandi fyrirtæki.
1.4.2015 | 08:28
Rétt ákvörðun
Mér sýnist að það sé vel til fundið að Ísland gerist aðili að "Fjárfestingabanka Asíu", ef gefa má honum slíkt nafn.
Lönd Asíu þróast hratt og sækja fram og geta orðið og eru orðin, Íslenskum fyrirtækjum mikilvægir markaðir.
Það er því vel til fallið að Ísland taki þátt í uppbyggingu sem þessari.
Það er best fyrir Íslendinga að leita viðskipta, samstarfs og fríverslundar sem víðast.
Gerist stofnaðili að nýjum banka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.4.2015 | 08:27
Að fljúga hingað eða þangað?
Það væri vissulega gott að geta dreift ferðamannastraumnum víðar um Ísland en nú er. En ég hygg að þetta sé líklega hvorki fyrsti né síðasti starfshópurinn sem fjallar um svipað eða skylt mál. Ég held að þeir hafi verið á ýmsum stjórnsýslustigum.
Ég bloggaði um samam málefni í nóvember síðastliðnum.
Viðskiptamódel Icelandair byggist að stórum hluta á því að selja tvo leggi, það er að segja alla leið yfir Atlantshafið. Inn í slíkt módel hentar illa að bæta við ferðum til annara flugvalla. Og WOW er að stefna á sama model sýnist mér.
Það væri því helst erlend flugfélög sem gætu séð hag sinn í því að bjóða upp á aðra flugvelli, sérstaklega ef það væri ódýrara.
En þegar rekstur allra flugvalla er á einni hendi, má sömuleiðis velta því fyrir sér hvort að það félag sjái sér ekki bestan hag í því að nýtingin á aðalflugvellinum sé sem best, og vilji síður gefa afslætti á öðrum flugvöllum, nema aðalflugvöllurinn sé að verða "fullur"?
En myndi einhver annar vilja taka að sér rekstur flugvallar á landsbyggðinni? Jafnvel þó að þeir fengju hann gefins?
Myndi einhver vilja taka yfir rekstur Húsavíkurflugvallar með því markmið að byggja hann upp? Þar er stutt í afar vinsæla ferðamannastaði, stutt til Akureyrar (eftir að Vaðlaheiðargöng koma í gagnið), og nálægðin við Austurland sömuleiðis plús.
Eða væri til bóta að aðskilja rekstur Keflavíkurflugvallar frá öðrum, þannig að samkeppni skapist frekar?
Það er eitthvað sem segir mér að þessu myndi fylgja meiri kostnaður en ráðlegt væri, fyrir 300.000 manna þjóð.
Skyldi hafa verið gerð einhver könnun meðal ferðamanna á Íslandi, hve margir þeirra settu það ekki fyrir sig að koma ekki til Reykjavíkur á ferðalagi sínu?
Því það er ljóst að heimamenn duga ekki til að halda uppi flugi, sem margir meira að segja setja það fyrir sig, að komast ekki í "almennilega fríhöfn", ef flogið er frá öðrum stöðum en Keflavík.
En vissulega geta skapast einhverjir möguleikar á að fljúga inn á einum flugvelli, og út á öðrum.
En ég á erfitt með að sjá að auðveld lausn finnist á þessu máli.
Millilandaflug um Egilsstaði og Akureyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |