Fyrirheitna landið?

Ég fékk tölvupóst frá kunningja mínum þess efnis að ég ætti að horfa á heimildamynd, sem sýnd hefði verið á RUV og bæri heitið Fyrirheitna landið. Með fylgdi að hún fjallaði um Íslendinga í Noregi og hve vel þeim vegnaði þar.

Þar sem dagurinn var þess eðlis að ýmis verkefni biðu sem ljúft var að skjóta á frest, ákvað ég að horfa á myndina og fresta því sem leiðinglegra gæti talist um nokkra tíma.

Það er skemmst frá því að segja að myndin var ágæt áhorfs, en sagði þau í raun ekki frá miklu.

Það hefur alltaf verið svo að Íslendingar (jafnt sem aðrar þjóðir) leggja land undir fót og freista gæfunnar í öðrum löndum, sumum vegnar vel og öðrum síður. Ekkert nýtt þar.

Vissulega hentar Noregur Íslendingu betur en flest önnur lönd. Fólkið er að ýmsu svipað, tungumálin náskyld og svo mætti líklega fleira til telja.

Noregur er ríkt land, hefur hagnast gríðarlega á olíu og uppbygging hefur verið mikil, þannig að ekki hefur skort atvinnu.

Allt þetta virkar eðlilega vel fyrir Íslendinga.

Það þarf heldur engan að undra að það sem er ekki aðeins ein ríkasta þjóð veraldar, heldur einnig u.þ.b 16 sinnum fjölmennari geti búið blindum og heyrnarskertum, eða þeim með sjaldgæfa sjúkdóma, betra umhverfi heldur en Íslendingar.

Þó mátti skilja á ýmsum viðmælendum að lífið væri ekki bara auðvelt, heldur þyrfti að vera agaður, skipulagður og velta því fyrir sér í hvað væri eytt.

Það stemmir ágætlega við mína upplifun af Noregi, en þangað fór ég í heimsókn fyrir skömmu.

Og það er þetta með agann, sem ýmsir virtust hafa tekið eftir í Norskri "þjóðarsál", en býsna algengt er að telja vanta í þá Íslensku.

Ef til vill hefur það eitthvað að gera með Norska herinn, þar sem allir, jafnt konur sem karlar, geta átt von á því að vera kallaðar til (eftir því sem ég kemst næst eru u.þ.g. 15% af þeim sem eru á réttum aldri kallaðir til). Það er nú eitthvað annað en á Íslandi, þar sem flestir fussa og sveia, ef minnst er á her (persónulega tel ég Íslendinga ekki þurfa slíkt, þó að vissulega mætti huga að ýmsum vörnum), og fá heiftarlega munnræpu, ef fréttist af vélbyssum innan landhelginnar.

En það sem vantaði ef til vill mest í myndina, og vissulega er erfitt að gera öllu skil í stuttri mynd, var meira um aðstæður fólkins, fyrir og eftir flutningana.

Fór fólkið úr eigin húsnæði í eigið húsnæði? Eða úr leiguhúsnæði í leiguhúsnæði? Hafði það svipaðan fermetrafjölda undir? Taldi það sig lifa í svipuðum lífstíl og það hafði gert á Íslandi?

Nota þeir almenningssamgöngur meira, eiga þeir svipaðan bíl, "leiktæki" o.s.frv.?

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta er að fleiri en einn kunningi minn, hefur nefnt það við mig, eftir að hafa flutt erlendis, er að mesti munurinn sé að skipta um "andrúmsloft".

Og hvað eiga þeir við með því?

Jú, að þeir hafi stimplað sig út úr "keppninni" eins og einn þeirra nefndi það. Að þeir hafi einfaldlega notið þess að "hverfa í fjöldann" og að samkeppnin um bíl, híbýli og annað slíkt hafi einfaldlega horfið.

Lífið hafi einfaldlega orðið að ýmsu leiti betra.

Hvort þetta er almennt rétt ætla ég ekki að dæma.

En hvað mest sláandi í heimildamyndinni fannst mér að heyra frá ungu stúlkunum sem höfðu farið til Noregs, vegna þess að þeim bauðst ekki að komast "á samning" á Íslandi. Það bendir til þess að eitthvað sé stórlega að í iðnmenntakerfi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já í Noregi er kynding dýr, og húsin oftar en ekki frekar illa kynnt, þannig er ekkert óalgengt að maður sitji í lopapeysunni og lopasokkunum yfir sjónvarpinu. Ríkið lokar daginn fyrir kosningar svo fólk sé nú örugglega edrú að kjósa.  Vegirnir eru frekar slæmir og flestir svona einbreiðir og hraðinn frá 50 til 70 km nema á fáeinum stöðum.  Ef bankamaðurinn "þinn" er í fríi, færð þú ekki fyrir greiðlsu í bankanum fyrr en hann kemur heim úr fríinu.  Það er margt gott í Noregi, en það er líka margt sem er á eftir okkar mælikvarða.  Til dæmis millifærir þú ekki á bankareikningi sama daginn.  Það tekur nokkra daga.  En það er satt að það er betur haldið utan um efnahag fólks, og ef til vill ekki vanþörf á.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.4.2015 kl. 21:43

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásthildur Þakka þér fyrir þetta. Já, það er engin staður fullkominn, alla vegna ekki af þeim sem ég hef búið á. En ég held að oft sé þetta spurning um að finna "fjölina sína". Og vissulega eru fleiri "fjalir" í stærri samfélögum.

Og Noregi hefur vegnað vel, þó að lækkun á olíu setji einhver strik í reikninginn, held ég að svo verði áfram.

En kunningi minn lét þau orð falla hér á blogginu fyrir nokkrum vikum að "venjulegt fólk" hefði ekki efni á því að kynda húsin sín í Noregi, þú segir nokkuð það sama. En svo sást í myndinna að verið var að höggva eldivið. Víða í Evrópu er það lang ódýasti kosturinn og er skilgreint sem "græn orka". Það er lausn sem margir nota, en er óneitanlega nokkur vinna.

En hitaveita hefur alltaf verið eitt af því sem ég hef saknað hvað mest frá Íslandi. Ótakmarkað heitt vatn, á vægu verði er mikill lúxus.

En svo sá ég líka á blogginu þínu að þú hafðir farið í siglingu frá Noregi. Það er nokkuð sem flestir þeir sem ég þekki í Noregi gera reglulega. Bæði til Þýskalands og Danmerkur. Þar kaupa þeir föt, kjöt, áfengi, sígarettur og auðvitað margt fleira.

Fyrir svo utan allar ferðirnar til Svíþjóðar. Það eru því margir sem hafa fyrir því að "fá meira fyrir peninginn" og telja sig þurfa þess í Noregi.

En á meðan næga atvinnu eru að hafa, sem er frekar vel borguð, er ekki óeðlilegt að margir freisti gæfunnar í Noregi, í lengri eða skemmri tíma.

Og það er ekki eins og Íslendingar séu þeir einu sem sækja til Noregs. Mikið af fólki, frá Danmörku, Svíþjóð og Eystrasaltslöndunum hefur komið til Noregs á undanförnum árum, ekki hvað síst til að vinna í heilbrigðisgeiranum.

Og mikill fjöldi kemur einnig lengra að.

G. Tómas Gunnarsson, 5.4.2015 kl. 10:11

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þegar maður ferðast niður Evrópu akandi, má allstaðar sjá kesti við hús.  Í Noregi veit ég að menn kaupa eða leigja sér svæði til að rækta sín eigin tré á til húsahitunar.  Málið er að gallinn við þessa upphitunaraðferð er mengunin sem fylgir. Til dæmis var ég um tíma í bæ í Austurríki sem var eiginlega þröngur dalskorningur með háum fjöllum kring, iðulega eftir 4 þegar fólk fór að kynda upp lá mökkurinn yfir dalbotninum.  Það er líka afskaplega mikil reykjalykt bæði í Noregi og Danmörku.  Og þetta er mikil mengun sérstaklega fyrir fólk með viðkvæm lungu.  Í Danmörku þekkti ég til þar sem heimilisfólkir danir lokuðu hluta íbúðarhússins á veturna til að spara kyndinguna.  

Máið með að finna fjölina sína, er mikið rétt, en sumir fara því miður langt yfir skammt að leita hennar.  Fólk spáir afskaplega lítið í af hverju því gengur betur erlendis, en þar er meira aðhald í peningamálum.  Það fólk sem ekki getur tamið sér sparnað og ahald, er sennilega betur komið þar sem slíkt aðhald er virkt.  Eða stjórnvöld og bankar þurfa að taka upp skilvirkari viðskiptahætti.  

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.4.2015 kl. 11:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband