Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Hvað er gerlegt í Grikklandi?

Grikkland er enn og aftur í miðju umræðunnar. Eurokreppan og misvitrir stjórnmálamenn hafa leikið landið það grátt að engir góðir leikir eru í stöðunni.

Því sem næst allir eru sammála um að Grikkland standi ekki undir skuldum sínum.

Því sem næst allir frammámenn í "Sambandinu" eru sammála um að ekki sé hægt að gefa Grikkjum eftir skuldir sínar, og varpa þeim með því á skattborgara annara "Sambandsríkja".

Vandamálið má að stórum hluta rekja til "björgunaraðgerða" "Sambandsins", Seðlabanka Eurosvæðisins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Þegar Grikkland stóð á "brún hyldýpisins", sáu þessar stofnanir engin önnur ráð en að veita því frekari lán. Annað hefði verið "fatalt" fyrir Eurosvæðið. Það að Grikkland ætti enga möguleika á því að standa undir þeim lánum, eins og margbent var á af hálfu ýmissa fulltrúa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, skipti engu máli.

Þeir skyldu fá lán.

Þau lán voru svo notuð til að greiða upp skuldir við einkaaðila, en lánin komu frá skattborgurum. "Ríkisvædd" skuldasöfnun, ef svo má að orði komast.

Þetta bjargaði mörgum bönkum frá gríðarlegu tapi, en setti skattgreiðendur í þá stöðu. Bankarnir voru margir staðsettir í Þýskalandi og Frakklandi.  Þeir eru að mestu sloppnir fyrir horn.  Þó er rétt að hafa í huga að einkaaðilar þurftu að sætta sig við "klippingu".

En ef að Grikkir geta ekki borgað og ekki er hægt að afskrifa lán þeirra á kostnað skattgreiðenda, hvað er þá hægt að gera?

Jú, það er hægt að lengja lánum og það er hægt að lækka vexti, eða lengja vaxtalaus tímabil.  Allt hjálpar, en lægri vextir og vaxtalaus tímabil eru þó lítið hjálpleg, í samfélagi sem horfist í augu við verðhjöðnun.

Ef verðbólga fer ekki af stað, og einhver vöxtur í Grikklandi, er einfaldlega verið að lengja í þjáningum Grikkja.

Þó er þetta lang líklegasta niðurstaðan. Það er gjarna auðveldast að ná samstöðu um að fresta vandanum.

Pólítískt hefur Eurosvæðið ekki efni á því að gefa eftir skuldir Grikkja og afhenda Syriza sigur.

Peningalega hafa Grikkir enginn tök á því að borga.

Að hverfa af Eurosvæðinu er undir þessum kringumstæðum hrikalega erfitt, sérstaklega til skemmri tíma litið.  Bankaáhlaup og öngþveiti er líklega eitt af því mildara sem myndi gerast.

Enn og aftur er rétt að hugleiða að það reyndist Grikkjum ekki erfitt að koma sér í þessa stöðu, en enginn veit um góða og hagfellda leið úr henni.

 


Hanna Birna er réttkjörin til þingsetu. Hún á því völina og ekki síður kvölina

Ekkert sem hefur komið fram í "lekamálinu" svokallaða gerir það að verkum að Hanna Birna hafi verið svipt þingsæti sínu.

Og það getur hvorki formaður eða þingflokkur Sjálfstæðisflokksins gert.  Fyrir slíku hafa þeir aðilar enga heimild.

Eins og Bjarni réttilega segir er það undir henni komið, er hennar ákvörðun.

Hún á á völina og svo ekki síður kvölina.

Persónulega myndi ég hvetja hana til að segja af sér þingmennsku og taka sér gott hlé


mbl.is „Undir henni komið að koma aftur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlafólk og stjórnmálaskoðanir

Rakst á blogg Brynjars Níelssonar á Pressunni í dag. Það er mjög fróðlegt og skemmtilegt, eins og reyndar oft áður.

Það fjallar Brynjar um tengsl hinn ýmsu fjölmiðlamanna og eigenda við hinar ýmsu stjórnmálahreyfingar.

Ég vil hvetja alla til að lesa pistilinn, og ég vona að mér fyrirgefist, en ég ákvað að birta hann í heild sinni hér að neðan:

26. jan. 2015 - 13:58Brynjar Nielsson

Pólitískir og ópólitískir fjölmiðlamenn

 

Það var stórfurðulegt að fylgjast með ítrekuðum fréttum af nýjum ritstjóra DV, sem einn fjölmiðlamanna á landinu virðist þurfa að bera járn til að „hreinsa sig“ opinberlega af tengslum við stjórnmálaflokk.

Það er nefnilega alkunna að ýmsir fjölmiðlamenn, blaðamenn og ritstjórar, hafa tengsl við stjórnmálaflokka hér á landi, verið í framboði eða sinnt trúnaðarstörfum fyrir þá. Nú síðast var Heiða Kristín Helgadóttir ráðin til starfa á Fréttastofu 365. Þar mun hún hafa umsjón með vikulegum þjóðmálaþætti fréttastofu, sem hefur göngu sína í febrúar auk þess að sinna fréttaskrifum. Heiða er kunn af störfum sínum fyrir Bjarta framtíð og Besta flokkinn og talin einn helsti stefnu- og hugmyndasmiður flokkanna eða flokksins, hvernig sem menn kjósa að orða það.

Heimir Már Pétursson fréttamaður 365 var framkvæmdastjóri Alþýðubandalagsins þegar Samfylkingin var stofnuð og í framboði til embættis varaformanns Samfylkingarinnar 2005, þar sem hann beið lægri hlut fyrir Ágústi Ólafi Ágústssyni. Nýr fulltrúi ritstjóra DV er Jóhann Hauksson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Það er athyglisvert að þeir sem nú gagnrýna stjórnmálatengsl nýrra ritstjóra DV á þeim grunni að talsmenn stjórnmálaafla megi ekki að hafa ítök í miðlinum skuli ekki hafa horn í síðu opinbers talsmanns núverandi stjórnarandstöðuflokka.

Sömu sögu er að segja af eigendum fjölmiðla. Flestir fjölmiðlar hér á landi státa af eigendum sem hafa einhver tengsl við stjórnmálaflokka. Skinhelgi fyrrverandi eigenda og starfsmanna DV heldur t.d. ekki vatni þegar að þessu kemur. Það ágæta blað hefur aldrei verið eins óháð stjórnmálatengslum og margir vilja nú halda fram. Lilja Skaftadóttir, sem lengst af var meðeigandi Reynis Traustasonar að DV, var frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar í kosningunum 2009 og sat í stjórn flokksins fram til ágúst 2010. Lilja átti á sama tíma 22% hlut í Smugunni, yfirlýstu flokksmálgagni Vinstri grænna, þar sem Þóra Kristín Ásgeirsdóttir núverandi fréttamaður 365 var ritstjóri. Smugan var meðal annars fjármögnuð af beinum framlögum þingmanna Vinstri grænna. Þau Reynir og Lilja keyptu DV af Hreini Loftssyni sem hefur alkunn tengsl við Sjálfstæðisflokkinn.

Nýir miðlar á markaðnum eru heldur ekki undanskildir tengslum við stjórnmálaflokka. Þannig eru tveir af eigendum Kjarnans þeir Ágúst Ólafur Ágústsson fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar og Vilhjálmur Þorsteinson núverandi gjaldkeri Samfylkingarinnar og fyrirferðamikill skoðanamiðlari í umræðunni. Ágúst Ólafur var efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur. Björt framtíð hefur einnig fyrrverandi meðlimi í fréttamennsku, t.d. þá Atla Fannar Bjarkarson sem ritstýrir Nútímanum var áður framkvæmdastjóri Bjartrar framtíðar og einn frambjóðenda Bjartrar framtíðar er Kjartan Atli Kjartansson fréttamaður 365. Sveinn Arnarsson, blaðamaður Fréttablaðsins, var  kosningastjóri Samfylkingarinnar í NA-kjördæmi í síðustu alþingiskosningum.

Og úr því styrinn hefur snúist um DV má nefna að Kolbrún Bergþórsdóttir, hinn ritstjóri DV, var lengi þekkt af stuðningi sínum við Samfylkinguna og á sínum tíma vakti athygli yfirlýsing hennar um að rétt væri að segja sig úr flokknum í tengslum við Landsdómsmálið. Ekki er vitað hvort hún lét verða af því. En að minnsta kosti var hún ekki spurð um sín pólitísku tengsl. Þá má geta þess að Valur Grettisson, nýráðinn fréttamaður DV, er fyrrverandi kosningastjóri Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, og María Lilja Þrastardóttir fyrrverandi fréttamaður DV (og áður 365) er fyrrverandi kosningastjóri Samfylkingarinnar í Reykjavík. 

Snærós Sindradóttir fréttamaður 365 (og áður Smugunnar) er fyrrverandi formaður Ungra vinstri grænna í Reykjavík. Hún varð þekkt af því að vera einn þeirra aðgerðarsinna sem stóðu fyrir umsátri um ríkisstjórnarfund í Ráðherrabústaðnum í byrjun árs 2009.  Aðalsteinn Kjartansson fréttamaður 365 (og áður DV) er fyrrverandi varaformaður ungra jafnaðarmanna í Reykjavík og með honum sat í stjórninni Sólrún Lilja Ragnarsdóttir gjaldkeri, nú blaðamaður á DV.

Ingimar Karl Helgason fyrrum frambjóðandi Vinstri grænna í Alþingiskosningunum 2013 og varaþingmaður flokksins er ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs og þeir Björn Bjarnason og Styrmir Gunnarsson sem halda úti Evrópuvaktinni hafa báðir hafa mikil og augljós tengsl við Sjálfstæðisflokkinn. Flestir þekkja líklega líka tengsl eigenda og ritstjóra Morgunblaðsins við Sjálfstæðisflokkinn. Björn Ingi Hrafnsson eigandi Vefpressunnar sem rekur Pressuna, Eyjuna og DV, er fyrrverandi borgarfulltrúi Framsóknarflokksins og aðstoðarmaður Halldórs Ásgrímssonar formanns flokksins. Öfugt við aðra hefur verið fjaðrafok út af umsvifum Björns Inga á fjölmiðlamarkaði. Hvers vegna skyldi það vera?

Þetta er nokkuð langur listi og á honum eru mörg nöfn sem hafa verið áberandi í fréttaumræðunni upp á síðkastið, og sum mjög áberandi í stjórnmálaumræðu síðustu ára. Hér eru þó aðeins nefndir nokkrir þeirra fjölmiðlamanna sem hafa bein tengsl við stjórnmálaflokka, hafa starfað innan þeirra eða gegnt trúnaðarstörfum, og listinn er ekki tæmandi. Þess utan hafa jú allir einhverjar stjórnmálaskoðanir, sumir sterkari en aðrir. Það á eins við fjölmiðlafólk og aðra.

Nú er það eitt af grunnatriðum lýðræðisþjóðfélags sé að stjórnmálaskoðanir fólks eigi ekki að ráða því hvar eða hvort það fær vinnu. Þrátt fyrir það virðist nú þykja þörf á sérmeðferð fyrir Eggert Skúlason fyrir alþjóð, krafist er opinberrar afneitunar. 

Því liggur beint við að spyrja: Hverra krafa er það, að til þess að teljast trúverðugur blaðamaður á Íslandi þurfi fólk opinberlega að svara þessari spurningu neitandi:

Ert þú núna, eða hefur þú einhverntíma verið, félagi í Framsóknarflokknum?

 

 


Kosninga Grikkir

Sigur Syriza er staðreynd, en enn er óljóst hvort han verður stór eða risastór. eins og er bendir flest til þess að hann verði einungis stór.

Síðast þegar ég frétti var Syriza með 149 þingsæti, vantaði aðeins 2 til að ná hreinum meirihluta.  Þá var búið að telja 50% atkvæða.

Hvað þýðir þetta?

Það veit enginn, en ekki er ólíkegt að pólítískur órói fari vaxandi á Eurosvæðinu. A þessu ári eru þingkosningar í Eistlandi, Finnlandi, Póllandi, Portúgal og Spáni. Flestir búast svo við snemmbúnum kosningum á Ítalíu.

Það eru þó fyrst og fremst síðastnefnu þrjú löndin sem vekja athygli og ef til vill nokkurn ugg og ótta víða.

Það eru löndin sem stórsigur Syriza gæti haft árif á pólítíska landslagið í.

Það verður því að teljast líklegt að "Sambandið" telji sig ekki hafa efni á því að láta Syriza vinna neina stóra sigra.

Allt slíkt yrði of hvetjandi fyrir hreyfingar eins og Podemos á Spáni.

En verður samið og um hvað yrði þá samið?   Það eru "milljón euro" spurningarnar, eða í þessu tilfelli milljarða spurningarnar.  Ef ég man rétt eru skuldir Grikkja í kringum 320 milljarðar euroa.

Eins og er eiga Grikkir fé fyrir rekstri, en ekki til að borga þær afborganir sem eru í sumar.

En euroið mun líklega síga lítillega og hefur eitthvað verið að gefa eftir þar sem markaðir hafa opnað. 

En þetta er vissulega órói og óvissa sem Eurosvæðið vildi líklega vera án.

 


mbl.is Syriza sigrar í kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samkeppnishindranir gilda fyrir alla

það hefur verið fullyrt að í mín eyru að mismunurinn á reglugerðum um merkingar á matvælum í N-Ameríku og svo í Evrópusambandinu sé nákvæmlega svo mikill að engin leið sé að hanna miða sem uppfylli skilyrðin á báðum svæðum.

Þó að hinn yfirlýsti tilgangur sé auðvitað "neytendavernd" er afleiðingin minni samkeppni. Margir vilja meina að hömlun samkeppni sé megintilgangurinn með því að hafa merkingar mismundandi.  Og það sem meira er það gerir mörgum fyrirtækjum kleyft að hafa hærra verð á mismunandi markaðssvæðum, sérstaklega í Evrópu, en slíkt getur þó virkað í báðar áttir.

Þó að flestir sem ég hef heyrt í telji Bandarísku merkingarnar betri, þá eru sjálfsagt um það skiptar skoðanir eins og annað. 

Eitt atriði stendur þó líklega upp úr Evrópusambandinu í hag. Það er bannið við GM matvælum, sem er ekki skylda að upplýsa um í Bandaríkjunum, ef ég hef skilið rétt.

Um slíkt eru einnig mjög skiptar skoðanir.

Persónulega hef ég gjarna tekið þá afstöðu að engin ástæða sé til að banna slikt, en allar upplýsingar eru að sjálfsögðu til bóta og nauðsynlegar.

Svo er aftur annað mál hvort að þær eru mikið notaðar.

En auðvitað gerir þessi munur það að verkum að vörur verða á mörgum markaðssvæðum dýrari en ella.  T.d. þurfa Íslendingar að flytja inn vörur sem þeir gætu flutt inn frá Bandaríkjunum, og gerðu það jafnvel áður en til EES/EES samningsins kom.

Hvað það kostar neytendur á ári hef ég ekki hugmynd um eða hvort nokkurn tíma hefur verið gerð tilraun til að áætla slíkt.

 

 


mbl.is Reglur um merkingar stoppuðu Costco
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aftur gripið til neyðarbrauðsins

Samkvæmt frétt Vísis.is var neyðarbrautin enn og aftur notuð í dag. Aðstæður voru erfiðar. Ekki hægt að nota hinar flugbrautirnar og tvísýnt um að hægt væri að lenda á Keflavíkurflugvelli.

Í þetta sinn voru 27 fullfrískir einstaklingar um borð í Fokker flugvélinni.

Það var að því að ég best veit enginn sem þurfti að komast á sjúkrahús í flýti.

En hefði þessi stutta flugbraut ekki verið til staðar hefði hugsanlega allir endað aftur á Akureyri.

Það skaðar ekki fullfríska einstaklinga, en ....

 


Það getur varla talist nema eðlilegt að þar sem er mikið atvinnuleysi, sé lítill stuðningur við aukinn fjölda innflytjenda

Löndin við Miðjarðarhafið hafa fundið fyrir gríðarlegri aukningu flóttamannstraums. Hann er orðin það stríður að þau ráða í raun ekkert við hann.

Þegar litið er til þeirrar staðreyndar að atvinnuleysi hefur verið gríðarlega hátt í þessum löndun, er ekki að undra að viljinn til að taka á móti auknum fjölda innflytjenda sé lítill.

Það er auðvelt að skilja rökin fyrir þvi að vilja draga úr fjöldanum.

Þegar atvinnleysi er í hæstu hæðum, er skiljanlegt að ekki sé vilji til þess að fjölga á atvinnumarkaði.

Hins vegar eru mörg svæði sem þarfnast innflytjenda og framtíð þeirra er ekki björt án þeirra.  En einnig þar má sjá vaxandi vilja til að stjórna straumi innflytjenda frekar en nú er og reyna eftir fremsta megni að sníða hann að þörfum móttökuþjóðarinnar.

Hvað biði hvort sem er innflytjenda í löndum þar sem atvinnuleysi er mikið og þjóðfélagið sjálft er á niðurleið, og hið opinbera hefur í raun engin tök á því, og allra síst fjárhagslega að veita þeim nokkurn stuðning?

Að mörgu leyti má segja að þetta sé enn eitt dæmið um hvernig "Sambandið" hefur ekki burði til að taka á þeim vandamálum sem upp koma sem heild.

Ef vilji er til þess hjá "norðurþjóðunum" til að taka á móti auknum fjölda innflytjenda og flóttafólks, er rétt að þau aðstoði "suðurþjóðirnar" við að taka á móti fólkinu og ferja það "norður".

En það fara ekki alltaf saman aðgerðir og orð.

Og útkoman er gjarna hálfgert "chaos", en það orð á auðvitað uppruna sinn í Grikklandi (eins og margt annað).

Og svo bætist við að ýmsum í "Sambandinu" þykir meira en nóg um "innbyrðis innflytjendur", en það er önnur umræða en vissulega skyld.


mbl.is Meirihlutinn vill færri innflytjendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beware of Greeks bearing ballot boxes

Það er mikil spenna fyrir kosningarnar í Grikklandi í dag.  Svo var reyndar í síðustu kosningum, en líklega er spennan mun meiri í dag.  Ég leyfi mér að efast um að aðrar kosningar í Grikklandi hafi fengið jafn mikla alþjóðlega athygli.

Og líklega hafa engar kosningar í Grikklandi skipt jafn miklu máli á alþjóðlega og þá sérstaklega Evrópska vísu.

Úrslitin geta haft mikil áhrif á framtíð Evrópusambandsins, þó að ekki sé hægt að fullyrða að þau geri það.

Þegar má sjá örlítil áhrif í þá átt að önnur ríki "Sambandsins" vilji gefa Grikkjum eftir fé, ekki þó af höfuðstól heldur frekar lengja í lánum og lengja vaxtalaus tímabil.

Allt bendir til þess að Syriza vinni góðan sigur, en ekkert er í hendi, og verði stærsti flokkur landsins. Rétt er að hafa í huga að stærsti flokkurinn fær "bónus" 50 þingsæti.

Við getum reynt að slengja hvað "stimpli" sem við kærum okkur um á Syriza.  Við getum kallað þá "öfga" vinstriflokk, popúlista, kommúnista og þar fram eftir götunum.  Ekkert af þessu væri líklega alfarið rétt og ekkert af þessu alfarið rangt.

Syriza er enda bandalag flokka á vinstri væng.

En þeir ná að tala til fólksins og almenningur hefur, í það minnsta nú, meiri trú á þeim en hinum hefðbundnu valdaflokkum í Grikklandi.

Það er ef til vill ekki að undra, enda margir sammála því að þeir hafi brugðist traustinu og leitt þjóðina lang leiðina til glötunar.

Grísk stjórnmál leiddu þjóðina á ranga braut og euroið læsti hana þar inni. Í gildrunni.

U.þ.b. 30% Grísku þjóðarinnar nýtur ekki heilbrigðistrygginga heldur leitar til hjálparsamtaka s.s. Lækna án landamæra.  Þau samtök ásamt mörgum fleirum hafa tekið að dreifa matvælum.  Læknar samtakanna segjast í vaxandi mæli sjá bæði börn og fullorðna sem þjást af vannæringu.

Atvinnuleysi er enn í hæstu hæðum, þrátt fyrir mikinn landflótta.

Það þarf engan að undra þó að Grikkir séu tilbúnir til að velja "eitthvað annað".

Hvort það dugir til, á svo eftir að koma í ljós.

En Grikkir eiga enga auðvelda kosti.

 

 

 

 

 


mbl.is Grikkir ganga að kjörborðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarft að einhver rannsaki

Nú ætla ég ekki að fullyrða neitt um hvað er til í þessum ásökunum Víglundar eður ei.

Ég hef heldur ekki haft tíma til að skoða þessi gögn, hef aðeins lesið "einfaldar fréttir".

En það er óskandi að einhver aðili fari í saumana á þessu máli. Ef ekki nefnd á vegum hins opinbera, þá einhver fjölmiðillinn, nú eða fleiri.

Það væri vel til fundið hjá fjölmiðlum að setja eða ráða menn í slíkt verkefni.

Það versta væri ef máið væri látið "hanga".

En nú er það auðvitað ekki ólöglegt að kaupa lánasafn á afföllum og reyna að innheimta hærra hlutfall.  Það er í sjálfu sér eðlilegur "bissness".

Það kaupir engin lán með afföllum til þess að koma þeim sem afslætti til skuldaranna. En hvað matið er á safninu, fer auðvitað eftir því hvernig líkur teljast á heimtum.

En siðferðislega lítur það öðruvísi út, sérstaklega þegar ríkissjóður og fjármálaráðherra eru að véla um málin. Og ef til vill missti "Ísland" af miklum tækifærum þessu tengdu.

Það er líka nokkuð ljóst að væntingar um endurheimtur jukust nokkuð skarpt á ákveðnu tímabili, sem endurspeglaðist í hærra verði á þeim kröfum í þrotabúin, sem gengu kaupum og sölum.

En þótt segi megi að ekki sér ástæða til að rjúka upp til handa of fóta í hvert sinn sem einhver einstaklingur fullyrðir að um lagabrot eða óeðlilega að málum staðið, er þetta það stórt mál og virðist fylgja því mikið af skjölum og vel að verki staðið, að ég tel afar nauðsynlegt fyrir almenning í þetta fáist einhver botn.

 

 

 

 

 

 


mbl.is Stórfelld svik og blekkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rökrétt niðurstaða. Skyr er "tegundarheiti".

Það er ákflega rökrétt niðurstaða að enginn geti skráð vörumerkið skyr. Í raun er það fáránlegt að slíkt skuli hafa verið hægt í einhverjum löndum.

Rétt eins og enginn ætti að eiga vörumerkið skyr á Íslandi, ætti engin að eiga rétt á því í öðrum löndum.

Rétt eins og nefnt er í Svíþjóð að enginn eigi að eiga rétt á nafninu jógúrt. 

Að mínu mati er rétt að gjalda varhug við því að fyrirtæki eða einstaklingar eignist "vörumerki" af þessu tagi.

Hið opinbera á ekki að styðja við fáranlegar kröfur sem þessar.

Engin á að eiga tegundaheiti.

Við viljum ekki að einhver eigi sem vörumerki, orð s.s. jógúrt, skyr, pizza, ostur, pepperoni, mjólk, bíll, flugvél, kjöt, kleina, brauð, o.s.frv.

Við eigum auðvitað að gera kröfu til þess að skyr sé ekki kallað "Icelandic skyr", nema að það sé framleitt á Íslandi.

En á slíku á fyrirtæki eins og MS auðvitað ekki heldur að eiga einkarétt á.

Persónulega hefur mér oft þótt illa á þessum málum haldið á Íslandi (og líklega víðar) og fyrirtækjum of oft leyft að slá eign sinni á algeng orð eða hugtök.

Síðasta dæmi um slíkt sem ég man eftir er orðið "gull" tengt bjór.

 

 


mbl.is MS fær ekki einkarétt á skyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband