Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014
17.7.2014 | 07:45
Nauðsynlegt að setja punkt fyrir aftan og afturkalla umsóknina.
Árni Páll hefur rétt fyrir sér að vissulega eru þetta vonbrigði fyrir "Sambandssinna". En þar með er það líklega nokkuð upptalið sem hann og Samfylkingin hafa haft rétt fyrir sér hvað varðar "Sambandsumsóknina".
Það væri reyndar full þörf á því að einhver fjömiðillinn rifjaði upp hvernig talað var um að umsóknarferlið yrði, áður en umsóknin var send.
"Töfralausnin" hans Árna Páls, hraðferðin, sú nauðsyn að sækja um á meðan Svíar væru í forystu, atkvæðagreiðslan um samning sem átti að vera árið 2011, í síðast lagi 2012.
Ekkert af þessu stóðst.
"Sambandssinnar" og Samfylkingarfólk talaði eins og upptaka euro væri handan við hornið og væri nánast formsatriði.
Ríkisstjórn Samfylkingar og VG varð að setja viðræðurnar á ís. Ekki reyndist unnt að opna kaflann um sjávarútvegsmál, lang mikilvægasta atriði samninga af Íslands hálfu.
Nú er ljóst að samningaviðræður sem áttu að taka innan við tvö ár, yrðu í það minnsta kosti að taka nálægt 10.
Raunhæfara væri líklega að tala um að Ísland gæti orðið "Sambandsríki" árið 2022.
En það er engin ástæða til að láta stöðu Íslands sem umsóknarríkis standa.
Eina rökrétta aðgerðin í stöðunni er að draga umsóknina til baka.
Staða Íslands sem umsóknarríkis getur staðið í vegi fyrir viðræðum um fríverslunarsamninga og öðrum alþjóðlegum samskiptum.
Síðar ef aðstæður og afstaða þjóðarinnar er með þeim hætti að vilji er til að sækja um aðild að "Sambandinu", má sækja um aftur, undirbyggja og búa þá umsókn vel úr garði, og byrja á því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja skuli um.
En það er einmitt sá farvegur sem "Já fólkið" og "Sambandssinnarnir" óttast. Þau vilja að umsóknin sé í "salti" og hefja megi viðræður þega svo ber undir, án þess að þurfi að koma umsókn í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu eða Alþingi.
Það er ekki víst að takist að snúa nógu margar hendur á loft, eins og síðast.
Vonbrigði fyrir hluta þjóðarinnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.7.2014 | 07:15
Hágæða Bandarískt kjöt
Það má vissulega kaupa nautakjöt sem hefur verið alið með sterum í Bandaríkjunum og Kanada. Heilbrigðisyfirvöld í báðum löndunum eru þess fullviss að slíkt kjöt sé ekki hættulegt neytendum.
Um það eru skiptar skoðanir, en ég hef hvergi rekist á sannanir þess efnis að slíkt sé hættulegt, né heldur afgerandi sannanir þess efnis svo sé ekki. Það verður þó ekki séð að heilsufar Kanadabúa sé verra en annara svo eftir verði tekið.
En bæði Kanada og Bandaríkin bjóða upp á gríðarlegt úrval af kjöti sem ekki er alið með sterum og mikið af því hefur vottun sem "náttúrulegar afurðir", eða hvað við viljum kalla það.
Af því að Costco hefur verið mikið í umræðunni má t.d. benda á síður þar sem Costco netverslun býður upp á nautakjöt, bæði í Bandaríkjunum og svo í Kanada(Ontario), en úrvalið er mismunandi.
Eins og sjá má er úrvalið mun meira í Bandaríkjunum.
En Costco býður líka upp á t.d. vísundakjöt og villibráð, það er að segja í Kanada, en það gat ég ekki fundið á Bandarísku heimasíðunni.
Úrvalið er síðan annað í verslunum og líklega býsna misjafnt eftir staðsetningum, alla vegna er það mín reynsla.
En það er gott að þessi mál eru komin inn í umræðuna, en hún þarf, svo vel fari, að vera án upphrópanna og svigurmæla.
Reglugerðir um kjötframleiðslu eru mismunandi um víða veröld. En það þarf að hafa í huga að reglugerðir eru eitt og framkvæmd þeirra og árangur annað.
Ég geri að sjálfsögðu ekki kröfu um að vera sérfræðingur í þessum efnum, en mér hefur oft verið sagt að löggjöf Evrópusambandsins um matvælaframleiðslu sé mun strangari en sambærileg löggjöf í Bandaríkjunum og ég hef ekki dregið það í efa.
En þeir hinu sömu hafa sagt að árangur Bandaríkjamanna, t.d. hvað varðar sýkingar í fólki, sé mun betri.
Það er auðvitað gömul saga og ný, að sú trú að reglugerðir, boð og bönn leysi vanda, nær ekki langt, án eftir og framfylgni.
Það þekkja Íslendingar líka, af kjötlausum kjötbökum og mismunandi tegundum af salti. Reyndar má telja ólíklegt að kjötlausu bökurnar hefðu uppgötvast, nema vegna þess að umræðan fór að snúast um hrossakjötsíblöndun.
Það hneyksli, sem margir vilja halda fram að hafi viðgengist í Evrópu svo árum skipti, sýnir hve reglugerðir ná skammt. Þar var þó engin hætta á ferðum, einfaldlega vörusvik. Þó gilda aðrar reglur um lyfjagjafir fyrir hross (sem eru ekki ætluð til matar) og því fyllsta ástæða til að hafa áhyggjur.
En nýlega fékk ég þessa töflu senda í pósti:
Taflan er fengin af síðu capreform.eu, og má finna í þessari grein, en upprunlegu vinnuna má finna hér.
Rétt er að taka fram að þetta er engin stóri dómur, það er erfitt að gera slíkan samanburð og skiptar skoðanir um gögnin, eins og sjá má hér.
Þessi samanburður er um matvæli almennt, en fókusar ekki á nautakjöt.
Einnig hafa verið uppi harðar deilur um erfðabreytt matvæli. Rétt eins og hvað vaxtarhormón varðar eru uppi skiptar skoðanir í því máli. Það þarf ekki að fara út fyrir Moggabloggið til að finna góða grein um það efni.
Margir eru þeirrar skoðunar að andstaða og bönn í Evrópu snúist fyrst og fremst um að vernda innlenda framleiðslu, en sitt sýnist hverjum.
Sjálfur neyti ég mikils kjöts og annara landbúnaðarafurða. Ég hef ekki óttast það kjöt sem mér hefur staðið til boða, en viðurkenni það fúslega að núorðið sneyði ég í vaxandi mæli hjá unnum kjötvörum. Ég kaupi ekki einu sinni kryddlegið kjöt.
Hvað mig varðar lít ég að mestu svo á að "matvælavinnslur" eða hvað við viljum kalla það, séu "veiki hlekkurinn" í minni fæðukeðju.
Ég er þeirrar skoðunar að ekkert geti komið í veg fyrir aukin innflutning á kjöti og landbúnaðarafurðum í Íslands á næstu árum.
Fréttir undanfarinna missera um innflutning á svínasíðum (í beikon), smjöri og öðrum vörum sýnir hver þróunin verður. Stjórnvöld virðast því miður fyrst og fremst hafa áhuga á því að passa upp á að almenningur njóti þess ekki verðlega og innlendir framleiðendur (ekki síst afurðastöðvar) njóti verndar.
Samhliða því að aðildarumsókn að "Sambandinu" yrði dregin til baka á næstunni, ættu Íslensk stjórnvöld að vinna áætlun til nokurra ára, hvernig best verði staðið að því að heimila aukin innflutning á landbúnaðarvörum, á forsendum Íslendinga, og með hæfilegum skrefum og hraða.
Segir bandarískt kjöt örugga vöru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.7.2014 | 17:43
Engin leið fyrir Ísland að ganga í "Sambandið" næstu 5 árin. Tímabært að draga umsóknina til baka
Ef marka má frétt The Telegraph, hefur Jean-Claude Juncker lýst því yfir að engin ný ríki verði tekin inn í Evrópusambandið næstu 5 árin.
Það þarf ekki að koma neinum á óvart. Að mörgu leyti er þetta skynsamleg afstaða.
Það hefur lengi verið ljóst að takmarkaður áhugi hefur verið á meðal aðildarþjóða að taka inn ný ríki, enda margir þeirrar skoðunnar að "Sambandið" hafi nú þegar færst of mikið í fang.
En það er auðvitað engin ástæða fyrir Íslendinga að halda í umsókn sem ekki er að "gera sig", fyrir hvorugan aðilan, Íslendinga eða "Sambandið".
Meirihluti Íslendinga hefur gegnumgangandi í skoðanakönnunum lýst sig andsnúna "Sambandsaðild" og nú lýsir Juncker því yfir að engin ný ríki verði tekin inn í "Sambandið" næstu 5 árin.
Eftir hverju er þá ríkisstjórn Íslands að bíða?
Rétt er að draga umsókn Íslands til baka án frekari tafar.
Einbeita sér að frekari fríverslunarsamningum eins og frekast er unnt.
Síðar er hægt að sækja um aðild að "Sambandinu" ef sterkur vilji er fyrir því á meðal þjóðarinnar - að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Með umsókn sem væri betur undirbúin og undirbyggð en hrákasmíðin sem ríkisstjórn Samfylkingar og VG, Jóhönnu og Steingríms sendi til Brussel.
Sú umsókn fer í "bókina" sem einhver stærstu pólítísku mistök sem gerð hafa verið á Íslandi, og er þó af þó nokkru að taka.
Kosinn forseti framkvæmdastjórnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.7.2014 | 07:24
Hvað má barnið heita?
Mikið hefur verið rætt um mannanöfn á Íslandi undanfarin ár. Umræðan hefur snúist um eiginnöfn, eftirnöfn og auðvitað starfsemi Mannanafnanefndar.
Sjálfur er ég mikill aðdáandi hinnar Íslensku hefðar, þar sem börn eru kennd við föður sinn. Þess vegna eru börnin mín skrifuð Tómasson og Tómasdóttir, þó að ég hafi getað valið aðrar leiðir og önnur kenninöfn, þar sem þau fæddust.
Það hefur vissulega stundum valdið misskilningi.
Þegar sonur minn hóf skólagöngu, kölluðu kennarar og starfsfólk skólans mig yfirleitt Mr. Tómasson. Það var þeim fjarlægt að ég bæri ekki sama eftirnafn og sonur minn. Það skipti mig reyndar engu máli og fór ekki í taugarnar á mér. Það var helst í upphafi að ég áttaði mig ekki á því að verið væri að tala við mig.
Málið gerðist þó heldur flóknara þegar dóttir mín hóf nám við sama skóla og hafði ekki sama eftirnafn og sonur minn. Þá kom oftar fyrir að ég væri spurður að því hvernig stæði á þessu öllu saman.
En eftir stuttar útskýringar var ekki þörf á frekari umræðu.
Þegar fjölskyldan fer yfir landamæri höfum við hins vegar yfirleitt með okkur fæðingarvottorð fyrir börnin, bara til öryggis, því fjögurra manna fjölskylda með fjögur mismunandi eftirnöfn vekur stundum athygli.
En nóg um það.
Þó að ég sé þeirrar skoðunar að hin Íslenska hefð sé góð, dettur mér ekki í hug að allir séu sama sinnis, eða að ég hafi áhuga til að neyða alla aðra til þess að fara eftir því sem mér þykir gott.
Því er eðlilegt að mínu mati að Mannanafnanefnd verði aflögð og sömuleiðis verði öllum Íslendingum frjálst að taka upp "ættarnöfn", eða annars konar eftirnöfn sem þeir kjósa.
Auðveldara verði gert að breyta um nafn, en ef til vill rétt að setja einhverjar hömlur um tíðni breytinga og annað slíkt.
Þó að ég sé ekki mótfallinn verndun Íslenkrar nafnahefðar eða tungumáls, þá verður það ekki gert svo vel fari með valdboði.
Svokölluð ættarnöfn sýnist mér verða æ algengari á Íslandi, enda virðast þau erfast bæði í karl og kvenlegg, og hljóta því að taka yfir hægt og rólega.
Það er engin ástæða til þess að neita þeim sem vilja, að taka upp ættarnöfn. Það er einfaldlega mismunun. Eins og áður sagði virðist þeim enda frekar fjölga en hitt.
Á þessu sviði, eins og svo mörgum öðrum, er þörf á að auka frelsi og færa völdin þangað sem þau eiga heima, til einstaklinganna.
15.7.2014 | 06:52
Er einhver ástæða til þess að hatast við hakakrossinn?
Því verður ekki á móti mælt að hakakrossinn var tákn einhverrar fyrirlitlegustu hreyfingar sem mankynið hefur hefur þekkt, flokks þjóðernis sósíalista í Þýskalandi á síðustu öld.
En er það ástæða til þess að hatast við, eða banna jafn gamalt tákn og hakakrossinn er?
Ég er ekki þeirrar skoðunar.
Það er engin að réttlæta nazisma, en það þýðir ekki að aldagamalt tákn sem nazisminn tók upp eigi að vera bannfært um aldur og ævi. Það má líka draga mun á milli hakakrossins og fána nazista.
Fánar eða tákn fremja ekki ódæðisverk, það gera einstaklingar og hópar þeirra.
Það hefur enda engin bannað (að best ég veit) t.d. stjörnu, hamar, sigð, hálfmána eða sirkil, en þó hafa ýmis af viðurstyggilegustu ofbeldisverkum sögunnar verið framin undir merkjum með slíkum táknum.
Krosssinn, sem m.a við Íslendingar höfum í fána okkar, er heldur ekki undanskilin þegar ofbeldisverk og viðurstyggð eru annars vegar.
En auðvitað lifum við með þesum öldnu táknum. Og hakakrossinum líka.
Þau eru partur af sögu okkar, menningu og líka þjáningu.
Flugu með hakakross yfir New York | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.7.2014 | 09:04
Sælgætisverslun Ríkisins, eða ....??
Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar ræða um hvort leyfa skuli sölu á áfengum drykkjum í matvöruverslunum, og líklega ekki það síðasta, því einhvernveginn hef ég ekki trú á því að þetta nái að verða samþykkt, ekki enn um sinn.
Eigi að síður er það þarft og nauðsynlegt að frumvarp sem þetta sé lagt fram og rætt, bæði á Alþingi og ekki síður á meðal almennings.
Persónulega er ég þeirrar skoðunar að sjálfsagt sé að heimila sölu áfengis í matvöruverslunum, nú eða sérverslunum.
Það er sjálfsagt að byrja á því, eins og lagt er til, að skylda verslanir til að gera skýr mörk á milli áfengis og annars varnings.
Eftir einhver ár má svo meta stöðuna og ákveða hvort mögulegt geti verið að slaka frekar á hömlum.
Mér þykir það alltaf merkilegt að heyra þær skoðanir að það hljóti að vera dýrara að einkaaðilar selji áfengi en hið opinbera. Það hlýtur þá að mega færa þann "sparnað" yfir á aðrar vörutegundir.
Íslendingar hljóta að koma sér um Matvöruverslun Ríkissins, Byggingavöruverslun Ríkisins, Bifreiðaumboði Ríkisins o.s.frv., ef þeir eru sannfærðir um að Ríkið sé best til þess fallið að dreifa vörum og geri það ódýrar en allir aðrir.
Skyndibitakeðja hins opinbera myndi síðan starfa ein í landinu, þar sem boðið yrði upp á lostæti s.s. "borgari Ögmundur", "Lambaborgari Sigmundar", "Sigrúnar steik", "Þistilfjarðar Pizzu" og "Salatskál Sigurðar". Ekki er að efa að heilbrigði Íslendinga myndi taka stökk fram á við og heilsubrestum snarfækka.
Brugghús sem hafa sprottið upp um land allt hlýtur að þurfa að leggja niður, enda hljóta allir að sjá að það er ótækt að einstaklingar og fyrirtæki þeirra séu að sulla endalaust í áfengi. Þess utan getur eitt ríkisbrugghús auðveldlega framleitt nægan bjór handa öllum Íslendingum, og það á mun ódýrari máta. Það segir sig sjálft, eða hvað?
Varla þarf að efast um að Innkaupastofnun ríkisins myndi svo taka yfir allan innflutning til landsins alþýðunni til hagsbóta.
Annað sem oft má heyra í umræðunni er að vöruúrvalið muni versna, sérstaklega út a landsbyggðinni.
Ekki ætla ég að dæma um það, enda vonlaust að fullyrða um hvernig markaður kemur til með að haga sér.
En ef hið opinbera getur selt dýrt cognac með hagnaði á Djúpavogi (svo dæmi sé tekið) get ég ekki séð rökin fyrir því að einkaaðili geti það sömuleiðis.
Ef hins vegar Ríkið er í raun að "niðurgreiða" sölu dýru áfengi, þá hljótum við að spyrja okkur hvort að það eigi að vera verkefni hins opinbera.
Auðvitað eru margir þeirrar skoðunar að aðgengi að áfengi eigi að vera erfitt og takmarkað. Auðvitað eru margir þeirrar skoðunar að ríkisrekstur sé hin farsæla leið.
Þeir eru auðvitað frjálsir að skoðunum sínum eins og allir aðrir.
Í áratugi voru þeir ráðandi á Alþingi sem töldu Íslendinga ekki ráða við það að drekka bjór. Það var sömuleiðis yfirdrifið að hafa einn aðila sem sá um útsendingar útvarps og sjónvarps.
Það þótti óþarfi að flytja inn sælgæti frá útlöndum, o.s.frv.
Sumir þeirra sem börðust hart gegn frelsi í þessum málum eru enn áberandi í umræðunni og eru jafnvel enn á Alþingi.
En ég tel ólíklegt að breyting verði að þessu sinni, tel ekki ólíklegt að málið sofni inn á þingi.
En rétt eins og bjórfrumvarp hafðist ekki í gegn í fyrstu umferð, trúi ég að frelsi í áfengissölu muni sigra á Íslandi.
Þess vegna fagna ég væntanlegu frumvarpi.
Sjálfsagður hlutur að leyfa þetta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.7.2014 | 18:44
Á teinunum með tjú tjú?
Ég hef alltaf verið frekar skeptískur á lestarsamgöngur á Íslandi, þó að vissulega væru þær á margan hátt skemmtilegur kostur. Einn helsti kostur þeirra er að þeir nota rafmagn, innlendan og umhverfisvænan orkugjafa.
Ókostirnir eru gríðarhár stofnkostnaður og ósveigjanleiki.
Persónulega hef ég ekki trú á því að hraðlest á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur sé álitlegur fjárfestingarkostur, alla vegna enn um sinn.
Ég held að flestir ættu að spyrja sig að því hvort þeir væru reiðubúnir til að leggja sparifé sitt í framkvæmdina, áður en þeir svari þeirri spurningu hvort að þeir séu fylgjandi því að farið sé í framkvæmdina.
Það er einnig fyllsta ástæða til þess að velta því fyrir sér hvort að allar forsendur muni standast þegar á hólminn er komið.
Ef aðeins ein lestarstöð er í Reykjavík, hver verður þá raunverulegur tímasparnaður fyrir túrhest að taka lestina?
Og hvað verður það á endanum dýrara fyrir hann að taka lest, og svo leigubíl frá lestarstöðinni upp á hótel, heldur en það er í dag, þar sem margir þeirra geta notið þjónustu flugrútunnar alla leið á hótelið?
Slík þjónusta kostar að ég best veit 2500 krónur, en reiknað er með að lestarferð kosti allt að 2600 og þá á eftir að koma sér af lestarstöð á hótel.
Einnig hlýtur það að vera stór spurning hve hagkvæmt það er fyrir þá sem sækja vinnu til Reykjavíkur, hvað auðvelt það er að komast þangað frá lestarstöðinni. Eflaust þykir mörgum þægilegra að ferðast "frá dyr til dyra" í sínum eigin bíl, jafnvel þó að það kunni að vera eitthvað dýrara. Ekki síst ef til dæmis að ferðin sé oft notuð til að sinna öðrum erindum.
Síðan þarf einnig að velta því fyrir sér hversu raunhæfur kostnaðaráætlunin er, og þá reynslu sem Íslendingar hafa af því að slíkar standist.
Síðast en ekki síst, er full ástæða til að vera hugsi yfir framkvæmdum sem sagt er að aðeins krefjist þess, eða hins frá hinu opinbera, sé sjálfsagt að framkvæma í svokallaðri "einkaframkvæmd", en nauðsynlegt að hið opinbera beri einhverja ábyrgð á henni.
Enn og aftur hvet ég alla til þess að velta því fyrir sér hvort að þeir myndu vilja festa sparifé sitt í framkvæmd sem þessari.
Mitt svar er nei.
Stofnkostnaður hraðlestar 100 milljarðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.7.2014 | 06:21
Banki hins heilaga anda minnir fjárfesta á eurokreppuna
Eurokreppan rifja upp kynnin af Marteini Mosdal, eins og hann kemur hún alltaf aftur. Réttar væri þó að segja að hún hafi aldrei farið, heldur verið hulin.
Loforð um að "gera allt sem þarf" ná aðeins að slá á einkennin, en ef lítið er gert, sækja hlutirnir í sama farið. Flestir hafa enda varla tölu á öllum þeim skiptum sem búið hefur verið "að leysa" eurokreppuna.
Draghi og Seðlbanki Evrópusambandsins hafa að mörgu leyti staðið sig vel, en umhverfið og uppbygging eurosins gerir þeim erfitt fyrir.
Það er ekki að undra að lesi megi í Íslenskum fjölmiðlum varnaðarorð erlendra fjármálasérfræðinga, sem hvetja Íslendinga til að taka alls ekki upp euro við núverandi kringumstæður.
Auðvitað verður eurokreppan "leyst" á næstu dögum eða vikum, það hafa frammámenn "Sambandsins" gert svo oft á undanförnum árum að það varla vefst fyrir þeim. En það er eitthvað sem segir að við höfum þó ekki séð það síðasta af henni.
Það er ef til vill tímanna tákn, að fljótlega verður Jean Claude Juncker, orðinn forseti framkvæmdastjórnar "Sambandsins". Hans þekktustu ummæli eru líklega "þegar hlutirnir eru alvarlegir þarf að ljúga".
Og þannig er haldið áfram, þangað til eurokreppan minnir á sig næst.
Evrópskir fjárfestar óttaslegnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.7.2014 | 08:58
Seðlabankastjórnun snýst um fleira en hagfræði
Ég verð að viðurkenna að mér þykir þessi gagnrýni á skipan nefndar sem meta á hæfni umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra skrýtin, þó að ég vilji ekki nota orðið "stórfurðuleg".
En starf seðlabankastjóra er margslungið og líklega gefst best að líta til fleiri þátta en hagfræði þegar ráðið er í starfið.
Engan hef ég heyrt fullyrða að "besti hagfræðingurinn" yrði endilega besti seðlabankastjórinn, eða öfugt.
Það er enda um atriði að ræða sem erfitt er að setja mælistiku á.
Það er því ekki óeðlilegt að mínu mati að nefndin sé skipuð fleirum en hagfræðingum.
Trúverðugleiki stofnunar eins og seðlabanka er samansettur úr ótal þáttum.
Líklega hefur hann ekki beðið meiri hnekki í langan tíma, en þegar upp komst um að bankinn hefði greitt málskostnað seðlabankastjóra gegn bankanum.
En það hefur auðvitað ekkert með hagfræði að gera, heldur almenna dómgreind og skynsemi.
En það er auðvitað slæmt þegar stjórnendur hvaða fyrirtækis sem er, fá falleinkunn í þeim "fögum", sama hvaða "einkunn" þeir kunna að hafa fengið í hagfræði.
Skipan Stefáns stórfurðuleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2014 | 08:42
Ferðaþjónustan skapar Íslendingum miklar tekjur
Það alls ekki ólíklegt að krónan hefði gefið eitthvað eftir, hefði þeirra tekna sem ferðaþjónusta færir Íslendingum ekki notið við.
Ferðaþjónusta hefur vaxið með ævintýralegum hætti og hefur sprungið út á árunum eftir bankahrunið. Þar má að hluta til þakka hinni sömu krónu, sem seig verulega og gerði Íslandsferð að möguleika fyrir marga sem höfðu neitað sér um það áður.
Þó að ég hafi ekki skýra mynd af verðlagi á Íslandi í dag, efast ég um að það sé jafn hátt t.d. í dollurum og var árin 2006 og 2007 til dæmis. Mér hefur að vísu skilist að verðlagið á Íslandi hafi hækkað mjög ört undanfarna mánuði, en það væri fróðlegt að sjá samanburð á milli þessara ára og verðþróun í dollurum, t.d. frá 2005.
En auðvitað á svo ferðaþjónustan sinn þátt í hinum neikvæða viðskiptajöfnuði sem nefndur er í fréttinni. Slíkur fjöldi ferðamanna kallar að sjálfsögðu á aukin innflutning. Það þarf að flytja inn matvæli, áfengi, hreinlætisvörur, svo ekki sé minnst á hina stórauknu fjárfestingu í ferðaþjónustu.
En slíkur innflutningur skilar sér auðvitað margfallt til baka, þó að vissulega geti verið blikur á lofti hvað varðar fjárfestinguna, því varasamt er að treysta á að vöxturinn haldi áfram um ókomna tíð.
Ferðaþjónustan mikilvæg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |