Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014
8.7.2014 | 08:19
30.000 söngvarar
Ég er ekki mikill eða góður söngvari. Engum myndi detta til hugar að biðja mig um að syngja, nema ef þyrfti að rýma húsnæði eða slútta partýi.
Ég telst heldur ekki mikill áhugamaður um söng og ekki líklegasti maðurinn til að sjást á sönghátíum eða kóramótum.
En samt sem áður varð ég auðvitað að drífa mig á Eistnesku sönghátiðina. Það er aðallega upplifunin, burtséð frá söngnum (sem var þó góður eins langt og mitt eyra nam), vera innan um 90.000 manns eða svo og hlusta á u.þ.b. 30.000 manna kór.
Veðrið var gott, líklega heldur um of gott og erfitt að taka myndir í glampandi sólskininu. En þetta var einstök upplifun, sem mun lifa með mér.
Hér eru myndir sem ég tók í gær, en fleiri má finna á Flickr síðunni minni
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.7.2014 | 10:01
Dagar söngva og dansa
Á 5 ára fresti skunda Eistlendingar á sinn "þingvöll" og slá um söng og dans hátíð. Þessi hefð er orðin 145 ára gömul, þó að í upphafi hafi eingöngu verið um söng að ræða, ef ég hef skilið rétt.
En þetta er mikil hátíð, yfir 30.000 þáttakendur og mér er til efs að víða sé hægt að hlusta á yfir 20.000 einstaklinga syngja saman.
Sönghátíðin hefst með heljarinnar skrúðgöngu frá Frelsis torginu (Vabaduse Väljak) að Söngva torgi (Laulu Väljak), þar sem risastórt svið er og sönghátíðin fer fram.
Í skrúðgöngunni eru flestir Eistnesku þátttakendurnir í þjóðlegum búningum og ganga undir merki síns kórs og sveitarfélags.
Hér að neðan eru nokkrar myndir frá skrúðgöngunni í gær, en fleiri má finna á Flickr síðunni minni.
Meiri upplýsingar um hátíðina má finna á http://2014.laulupidu.ee/en/
Tónlist | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.7.2014 | 08:00
Hljómar líklega
Þessi frétt hljómar trúverðuglega. Hún er mun trúverðuglegri en ýmsar aðrar fréttir sem sagðar hafa verið um áhuga Costco undanfarna daga.
Því miður er það svo að ýmsum Íslenskum fjölmiðlum hættir til að fara undarlega stíga í fréttaflutningi.
Þannig fóru að birtast fréttir í ýmsum Íslenskum fjölmiðlum um hálfgerða kröfugerð Costco á hendur Íslenskum stjórnvöldum. Þegar þessi frétt er lesin kemur í ljós að þær fréttir virðast ekki eiga við nein rök að styðjast.
Ef til vill var framsetningin fyrst og fremst með þeim hætti til reyna að setja Costco í neikvætt ljós og gefa þeim sem fyrir eru á markaði tækifæri til að stíga fram með yfirlýsingar?
Hér er hins vegar fjallað um málið að rólegan og yfirvegaðan hátt.
Það stemmir við mína reynslu (sem viðskiptavinur) af Costco, þar sem verslanirnar eru lagaðar að þeim lögum og reglum, þar sem þær starfa. Eru þess vegna eðlilega mismunandi, bjóða yfirleitt nokkuð gott úrval af "local" vörum þó að kjarninn sé hinn sami og framsetning.
En það kemur mér ekki á óvart að mikið sé lagt í undirbúninginn, þó að ákvörðun hafi ekki verið tekin. Þannig vinnur Costco og hefur ferla og undirbúning á hreinu.
Það hlýtur sömuleiðis að vera Íslendingum umhugsunarefni að lágmarkslaun sem Costco hefur ákveðið fyrir sitt fyrirtæki séu hærri en lágmarkslaun á Íslandi.
En það stemmir við það sem ég hef heyrt. Costco hefur gott orð á sér sem vinnuveitandi, borgar ágætis kaup, gerir vel við sitt fólk og að starfsmannavelta sé frekar lítil.
Það hljómar ef til vill undarlega, en í þeirri Costco verslun sem ég hef verslað mest í, þekki ég orðið mörg andlitin og þau kannast við marga af kúnnunum.
Costco sker sig sömuleiðis frá öðrum verslunum sem ég hef stundað, með því að við útgöngudyr stendur alltaf starfsmaður (eða menn) og fara yfir strimilinn og gjóa augunum yfir körfuna.
Næstu alltaf þegar krakkarnir voru littlir og voru með mér, teiknaði starfmaðurinn lítið skrípó, eða í það minnsta kosti broskall og afhenti krökkunum.
Mér er nær að halda að það hafi verið "polisía" í versluninni.
Gríðarleg vinna lögð í komu Costco | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.7.2014 | 07:34
Rússar spila út "heilsubrests" trompinu
Auðvitað sjá flestir í gegnum það sem hér er fjallað um í fréttinni. Rússneska neytendastofan er enda að verða helsti skelfir margra nágrannalandanna og hefur víðtæk efnahagsleg völd og áhrif.
Og Rússnesk yfirvöld eru ekki feimin við að beita henni fyrir sig.
Ekki nóg með að hún takmarki eða banni innflutning frá ákveðnum löndum, eins og nú frá Ukraínu, heldur hefur hún oft "handvalið" fyrirtæki sem fá að flytja inn til Rússlands og sett bann á önnur. Hafa margir viljað meina að það val sé ekki háð tilviljunum.
En auðvitað vilja Rússar ekki flytja inn "heilsubrest" frá Ukraínu.
En þetta er auðvitað langt í frá einsdæmi og mjög algengt er að ríki (og jafnvel sveitarfélög) beiti heildbrigðisreglum og jafnvel skipulagi til þess að takmarka samkeppni.
Það þekkja líklega flestir.
En líklega er þó fátítt að beita þessu jafn hnitmiðað og Rússar gera.
Loka á úkraínskar mjólkurvörur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.7.2014 | 11:29
Innflutningur á heilsubresti
Eins og alltaf þegar innflutningur matvæla ber á góma á Íslandi, kemur það í umræðuna að heilsufari Íslendinga stafi hætta af innflutningi.
Nú er það svo að það er flutt inn gríðarlegt magn af matvælum til Íslands og meira að segja þó nokkuð af kjötmeti.
Yfirvöld virðast ekki hafa verulegar áhyggjur af áhrifum þess á heilsu Íslendinga en þeim mun meiri áhyggjur af því að innflutt kjöt hafi heillavænleg áhrif á pyngju þeirra.
Því innflutt kjöt má ekki vera ódýrt.
Það er reynt að koma því svo fyrir að það verði því sem næst eins dýrt og framast er unnt.
Ég hef oft sagt það áður að ég tel að aukin innflutningur á kjöti sé óhjákvæmilegur. Það er hins vegar engin ástæða til þess að ganga í "Sambandið" til þess að svo megi verða.
Það er heillavænlegra fyrir Íslendinga að taka slíkar ákvarðanir á eigin spýtur, og skipuleggja þær á eigin hraða.
Það er heldur engin ástæða til að einskorða sig við vörur frá "Sambandinu", nautakjöt má sækja til S-Ameríku, kengúrukjöt til Ástralíu, buffaló kjöt til Kanada, o.sv.frv.
Það er sömuleiðis nauðsynlegt að draga úr íþyngjandi tollum á innflutninginn, en slíkt er best gert í áföngum og löngu tímabært að Íslendingar búi til áætlun í þeim tilgangi.
4.7.2014 | 08:56
Flikkeraðar myndir
Sumarið er góður tími til að taka myndir. Það er óneitanlega þægilegra að taka myndir þegar þokkalega er hlýtt og sumarbirtan er oft engu lík.
Hér fylgja á eftir nokkrar myndir sem ég hef tekið á undanförnum vikum. Meðal annars í Finnlandi, ég ég skrapp þangað í nokkra daga.
Einnig er auðvitað hægt að fara á Flickr síðuna mína.
3.7.2014 | 17:19
Það eru engir eins og Frakkar
Það eru engir eins og Frakkar. Ýmsir myndu líklega bæta við hér, sem betur fer, en aðrir óska sér þess að þeir væru fleiri sem tækju sér þá til fyrirmyndar.
En það er stórt skref að heimila að banna léttvín á Frönskum vinnustöðum.
Það er rétt að undirstrika það, að það er einungis verið að heimila að banna léttvín á Frönskum vinnustöðum, ekki að banna léttvín á Frönskum vinnustöðum.
Á því tvennu er mikill munur.
Og segir okkur líka hve mikill "menningarmunur" er á milli þjóða.
En "tveggja tíma hádegisverði" er varla í útrýmingarhættu í Frakklandi.
Samanburðurinn á milli Frakklands og Bandaríkjanna í hektólítrum er svo ekki mikið til að taka mark á. Líklega taka Kínverjar fram úr Bandaríkjamönnum fyrr en varir.
Neysla á eintakling er svo allt annað mál.
Það er enda aukin neysla í Asíu, sem hefur haldið uppi frekar háu verði á víni undanfariin ár. Ásamt auðvitað áráttu Evrópusambandsins að breyta gæða víni í edik og eldsneyti. En það er önnur saga.
Mega banna vín á vinnustöðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.7.2014 | 12:07
Tilboð frá Costco í tölvupósti
Nú þegar mikið er rætt um hvort að Costco muni opna verslun á Íslandi og svo hvað þar verði á boðstólum, hef ég orðið var við að margir vita ekki hvernig verslun Costo er.
Costco er nokkurs konar blanda af heildverslun og smásöluverslun. Að hluta til nokkurs konar "gripið og greitt", að hluta til hefðbundin smásöluverslun.
Þar við bætist að flestar verslanir þeirra hafa bensínsölu, dekkjaverkstæði, apótek, gleraugnaþjónustu, ljósmyndaprentun og passamyndatökur, bakarí inni í versluninni sem og kjötvinnslu (þó að megnið af kjötvörum sé að keypt að ég tel).
Bakarí og kjötvinnsla er með þeim hætti að við viðskiptavinurinn getur fylgst með því sem þar gerist.
Til að versla í Costco þarf að gerast meðlimur og borga árgjald. Boðið hefur verið upp á tvenns konar aðild. Almenn aðild sem í Kanada kostar 55 dollara og svo 110 dollara aðild, innifelur frekari fríðindi, sem og endurgreiðslu upp á 2% af því sem keypt er (einhverjar vörur undanþegnar ef ég man rétt), þó að hámarki 750 dollurum.
Fyrir þá sem kaupa mikið og eru tryggir Costco, er síðari kosturinn álitlegur og gerir oft meira en að borga árgjaldið.
En hvað selur Costco? Í stuttu máli sagt flest milli himins og jarðar. Vöruúrval er mismunandi eftir búðum, þó að ákveðinn kjarni sé í þeim öllum.
Costco rekur einnig öfluga netverslun. Margt sem þar er boðið upp á fæst einnig í verslununum, en annað er eingöngu í netversluninni. Netverslunin sendir reglulega út tilboð í tölvupósti og má sjá það nýjasta hér.
Rétt er að hafa í huga að þetta er tilboð fyrir Ontario. Öll verð eru án sölskatts, eins og tíðkast að birta verð í Kanada. Samanburður við Ísland er líklega í mörgum tilfellum ekki raunhæfur, þar sem tollar, vörugjöld og annað slíkt spilar sína rullu á Íslandi.
Vöruúrval í netverslun má skoða á www.costco.ca eða costco.com Mismunandi úrval er fyrir Bandaríkin og Kanada.
Hér má svo sjá nýjustu "couponana" eða afsláttarmiðana fyrir Ontario. Þar gildir það sama, að verð eru án söluskatts, en matvæli bera engan söluskatt í Ontario, eins og víðar í N-Ameríku.
Costco hefur orð á sér fyrir að vera "gott" fyrirtæki. Borga starfsfólki sínu vel samkeppnishæf laun og vera góður vinnustaður. Verslanir þess sem ég hef stundað í Kanada, eru t.d. með fleiri "lokunardaga" en margar aðrar verslunarkeðjur og starfsmannavelta þar virðist ekki mikil. Mörg andilt þar ég hef séð frá því að ég fyrst kom inn í verslunina, fyrir ríflega 12 árum.
Auðvitað eru einstaklingar þó mishrifnir af Costco, og sumum finnst ekki henta sér að kaupa inn í stórum pakkningum.
Ég er þó ekki í minnsta vafa um að fyrir Íslendinga væri mikill akkur í því ef Costco setur upp verslun á Íslandi.
Nú má sjá í fréttum að Reykjavíkurborg virðist hafa fallist á að leyfa fjölorkustöð á Korputorgi og er það vel.
Nú er bara að sjá hvert setur og hvort Costco muni opna Íslandi og ef svo fer hvort það verður í Reykjavík eða Garðabæ.
P.S. Eftir að hafa séð þessa frétt, spái ég að Garðabær verði fyrir valinu ef af verður. Skilyrði Reykjavíkurborgar eru einfaldlega of íþyngjandi. Ef skoðað er hvert hlutfall bifreiða notar vistvæna orku og svo aftur "hefðbundna", sést að það er auvitað skrýtið skilyrði að krefjast þess að helmingur dæla sé fyrir vistvæna orku.
Enn eitt dæmið um hvernig skipulagsyfirvöld í Reykjavík virðast vilja þvinga einhverri draumsýn á borgarbúa og fyrirtæki, sem ekki er í takt við raunveruleikann.
Slíkar takmarkanir og skilyrði hindra í raun samkeppni og spilar upp í hendurnar á þeim sem fyrir eru á markaðnum og ekki þurfa að hlýta slíkum skilyrðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.7.2014 | 10:56
Að flytja eða ekki flytja - til Akureyrar
Fyrirhugaðar flutningur Fiskistofu til Akureyrar hefur eðlilega vakið athygli og umræður. Það er ekki á hverjum degi sem ríkisstofnanir eru fluttar út á landsbyggðina.
Eðlilega sýnist sitt hverjum.
Í mínum huga skiptir tvennt meginmáli.
Er vilji fyrir því að flytja ríkisstofnanir út á landsbyggðina?
Hvernig er best staðið að því?
Sjálfur er ég fylgjandi því að flytja stofnanir út á landsbyggðina, en það má auðvitað finna rök á móti því einnig.
En þó að ég sé þeirra skoðunar að varasamt sé að hafa afskipti af staðsetningu einkafyrirtækja, gildir annað um ríkisstofnanir, sem eðli hlutarins samkvæmt eru kostaðar af landsmönnum öllum og eiga í flestum tilfellum að þjóna þeim öllum.
Og ef flytja á ríkisstofnanir út á land, eru varla margir staðir hentugri en Akureyri og ég ímynda mér að fáar stofnanir henti betur til flutnings út á landsbyggðina en Fiskistofa.
En hvernig er best að standa að flutningum sem þessum?
Eftir því sem ég hef komist næst, stendur ekki til að leggja starfsemina niður í Reykjavík, þar verður eftir sem áður all öflug starfstöð. Það er enda eðlilegt.
Það má sömuleiðis velta því fyrir sér hvað er gott að flytja stóra "bita" af stofnunum í einu, og hvað ætti að gefa sér langan tíma til þess. Sömuleiðis er vert að hafa í huga hvað langur tími ætti að líða frá tilkynningu um flutning, þangað til flutningur hefst. Það gefur starfsfólki tíma til að meta stöðu sína, jafnvel finna sér nýtt starf, nú eða t.d. fyrir maka til að þreifa fyrir sér með starf á nýjum stað, ef áhugi er fyrir því að flytja.
En fyrirtæki og stofnanir eru ekki reknar fyrir starfsfólkið. Jafn sjálfsagt það er að reyna að gera vel við starfsfólk, hafa jafn fyrirtæki sem stofnanir, flutt, dregið saman seglin, lagst niður o.s.frv. í gegnum tíðina og verður svo í framtíðinni einnig.
Það er ekkert óeðlilegt að Fiskistofa flytjist norður á Akureyri, ekki óeðlilegra en reiknað er með að Sýslumannsembættið á Akureyri verði lagt niður og Akureyri sinnt frá Húsavík. Mig rekur ekki minni til að stéttarfélög hafi lagt í mikla baráttu gegn þeim hugmyndum, alla vegna ekki enn.
Það er alltaf ástæða til þess að velta upp hugmyndum um hvernig betur megi standa að hlutunum, en það þýðir ekki að hlutirnir eða hugmyndirnar séu ekki þess virði að framkvæma þær.
P.S. Svo að gagnsæið sé í hávegum haft, er auðvitað rétt að taka fram að þó að bloggari hafi ekki komið til Akureyrar í háa herrans tíð, er hann fæddur þar og uppalinn. Það hefur þó ekki að ég tel haft nein veruleg áhrif á þessi skrif. :-)
Aðferðafræðin skiptir öllu máli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.7.2014 | 07:48
Thick As A Brick - Live in Iceland
Rakst á þetta þvælingi mínum um netið. Ég er engin Jethro Tull, eða Ian Anderson aðdáandi, en datt í hug að einhverjum þætti fengur af þessari vitneskju.
Útgáfan mun verða seinnipartinn í ágúst og að sjálfsögðu er forsala hafin hér og þar á netinu, t.d. á Amazon.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)