Sælgætisverslun Ríkisins, eða ....??

Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar ræða um hvort leyfa skuli sölu á áfengum drykkjum í matvöruverslunum, og líklega ekki það síðasta, því einhvernveginn hef ég ekki trú á því að þetta nái að verða samþykkt, ekki enn um sinn.

Eigi að síður er það þarft og nauðsynlegt að frumvarp sem þetta sé lagt fram og rætt, bæði á Alþingi og ekki síður á meðal almennings.

Persónulega er ég þeirrar skoðunar að sjálfsagt sé að heimila sölu áfengis í matvöruverslunum, nú eða sérverslunum.

Það er sjálfsagt að byrja á því, eins og lagt er til, að skylda verslanir til að gera skýr mörk á milli áfengis og annars varnings.

Eftir einhver ár má svo meta stöðuna og ákveða hvort mögulegt geti verið að slaka frekar á hömlum.

Mér þykir það alltaf merkilegt að heyra þær skoðanir að það hljóti að vera dýrara að einkaaðilar selji áfengi en hið opinbera.  Það hlýtur þá að mega færa þann "sparnað" yfir á aðrar vörutegundir.

Íslendingar hljóta að koma sér um Matvöruverslun Ríkissins, Byggingavöruverslun Ríkisins, Bifreiðaumboði Ríkisins o.s.frv., ef þeir eru sannfærðir um að Ríkið sé best til þess fallið að dreifa vörum og geri það ódýrar en allir aðrir.

Skyndibitakeðja hins opinbera myndi síðan starfa ein í landinu, þar sem boðið yrði upp á lostæti s.s. "borgari Ögmundur", "Lambaborgari Sigmundar", "Sigrúnar steik",  "Þistilfjarðar Pizzu" og "Salatskál Sigurðar".  Ekki er að efa að heilbrigði Íslendinga myndi taka stökk fram á við og heilsubrestum snarfækka.

Brugghús sem hafa sprottið upp um land allt hlýtur að þurfa að leggja niður, enda hljóta allir að sjá að það er ótækt að einstaklingar og fyrirtæki þeirra séu að sulla endalaust í áfengi.  Þess utan getur eitt ríkisbrugghús auðveldlega framleitt nægan bjór handa öllum Íslendingum, og það á mun ódýrari máta.  Það segir sig sjálft, eða hvað?

Varla þarf að efast um að Innkaupastofnun ríkisins myndi svo taka yfir allan innflutning til landsins alþýðunni til hagsbóta.

Annað sem oft má heyra í umræðunni er að vöruúrvalið muni versna, sérstaklega út a landsbyggðinni.  

Ekki ætla ég að dæma um það, enda vonlaust að fullyrða um hvernig markaður kemur til með að haga sér.  

En ef hið opinbera getur selt dýrt cognac með hagnaði á Djúpavogi (svo dæmi sé tekið) get ég ekki séð rökin fyrir því að einkaaðili geti það sömuleiðis.

Ef hins vegar Ríkið er í raun að "niðurgreiða" sölu dýru áfengi, þá hljótum við að spyrja okkur hvort að það eigi að vera verkefni hins opinbera.

Auðvitað eru margir þeirrar skoðunar að aðgengi að áfengi eigi að vera erfitt og takmarkað.  Auðvitað eru margir þeirrar skoðunar að ríkisrekstur sé hin farsæla leið.  

Þeir eru auðvitað frjálsir að skoðunum sínum eins og allir aðrir.

Í áratugi voru þeir ráðandi á Alþingi sem töldu Íslendinga ekki ráða við það að drekka bjór.  Það var sömuleiðis yfirdrifið að hafa einn aðila sem sá um útsendingar útvarps og sjónvarps.

Það þótti óþarfi að flytja inn sælgæti frá útlöndum, o.s.frv.

Sumir þeirra sem börðust hart gegn frelsi í þessum málum eru enn áberandi í umræðunni og eru jafnvel enn á Alþingi.

En ég tel ólíklegt að breyting verði að þessu sinni, tel ekki ólíklegt að málið sofni inn á þingi.  

En rétt eins og bjórfrumvarp hafðist ekki í gegn í fyrstu umferð, trúi ég að frelsi í áfengissölu muni sigra á Íslandi.

Þess vegna fagna ég væntanlegu frumvarpi.

 


mbl.is „Sjálfsagður hlutur að leyfa þetta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er alveg á því að fólk eigi að vita hvað hlutirnir kosta og er t.d. alveg á móti því að Harpa fái afslátt af fasteignargjöldum bara vegna þess að það sé sami aðili sem innheimtir og borgar þau.

Smásöluálagning ÁTVR er um 10% meðan venjuleg álagning matvörubúða er 40%

Hver treystir sér til að mæla fyrir lækkun áfengisgjaldsins = lægri tekjur í ríkissjóð = hærri skattar eða minni þjónusta

Grímur (IP-tala skráð) 14.7.2014 kl. 21:29

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég get alveg tekið undir með þér hvað Hörpu varðar Grímur.

En það er eitt sem verður að taka með í reikninginn þegar talað er um álagningu á áfengi.  Hún er auðvitað lág, vegna þess að áfengið er orðið svo dýrt þegar álagning verslunar kemur.

Það er oft sem að hlutirnir sem eru hvað lægstir í verði, hafa hvað hæstu álagninguna (ekkert er þó án undantekninga) en dýrari hlutir hafa lægri álagningu.  Það er nefnilega u.þ.b. jafn dýrt að höndla með dýrari hlut og ódýran. Helsti munurinn er auðvitað lagerhald.

Annar kostur við áfengi er lítil rýrnun, sem jöllu jöfnu ætti að þýða lægra vöruverð.

Hitt er svo, að þó að ég hafi enga útreikninga, þá þykir mér líklegt að 10% álagning sé nóg á þær tegundir af áfengi sem seljast vel og í magni.  Jafn líklegt þykir mér að með 10% álagningu borgi ÁTVR í raun með dýrum vörum, sem hreyfast lítið.  

Er það hlutverk hins opinbera?

Það að álagning Ríkisins á áfengi sé lægri á en matvöruverslana á matvöru segir ekkert.  Myndi ÁTVR treysta sér til að reka matvöruverslun með 10% álagningu?

Með þessu er verið að halda því fram að hið opinbera sé mun betri aðili til að annast smásölu á öllu en einkaaðilar.

Trúir því einvher?

G. Tómas Gunnarsson, 15.7.2014 kl. 05:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband