Hvað má barnið heita?

Mikið hefur verið rætt um mannanöfn á Íslandi undanfarin ár.  Umræðan hefur snúist um eiginnöfn, eftirnöfn og auðvitað starfsemi Mannanafnanefndar.

Sjálfur er ég mikill aðdáandi hinnar Íslensku hefðar, þar sem börn eru kennd við föður sinn.  Þess vegna eru börnin mín skrifuð Tómasson og Tómasdóttir, þó að ég hafi getað valið aðrar leiðir og önnur kenninöfn, þar sem þau fæddust.

Það hefur vissulega stundum valdið misskilningi.

Þegar sonur minn hóf skólagöngu, kölluðu kennarar og starfsfólk skólans mig yfirleitt Mr. Tómasson.  Það var þeim fjarlægt að ég bæri ekki sama eftirnafn og sonur minn.  Það skipti mig reyndar engu máli og fór ekki í taugarnar á mér.  Það var helst í upphafi að ég áttaði mig ekki á því að verið væri að tala við mig.

Málið gerðist þó heldur flóknara þegar dóttir mín hóf nám við sama skóla og hafði ekki sama eftirnafn og sonur minn.  Þá kom oftar fyrir að ég væri spurður að því hvernig stæði á þessu öllu saman.  

En eftir stuttar útskýringar var ekki þörf á frekari umræðu.  

Þegar fjölskyldan fer yfir landamæri höfum við hins vegar yfirleitt með okkur fæðingarvottorð fyrir börnin, bara til öryggis, því fjögurra manna fjölskylda með fjögur mismunandi eftirnöfn vekur stundum athygli.

En nóg um það. 

Þó að ég sé þeirrar skoðunar að hin Íslenska hefð sé góð, dettur mér ekki í hug að allir séu sama sinnis, eða að ég hafi áhuga til að neyða alla aðra til þess að fara eftir því sem mér þykir gott.

Því er eðlilegt að mínu mati að Mannanafnanefnd verði aflögð og sömuleiðis verði öllum Íslendingum frjálst að taka upp "ættarnöfn", eða annars konar eftirnöfn sem þeir kjósa.

Auðveldara verði gert að breyta um nafn, en ef til vill rétt að setja einhverjar hömlur um tíðni breytinga og annað slíkt.

Þó að ég sé ekki mótfallinn verndun Íslenkrar nafnahefðar eða tungumáls, þá verður það ekki gert svo vel fari með valdboði.

Svokölluð ættarnöfn sýnist mér verða æ algengari á Íslandi, enda virðast þau erfast bæði í karl og kvenlegg, og hljóta því að taka yfir hægt og rólega.

Það er engin ástæða til þess að neita þeim sem vilja, að taka upp ættarnöfn.  Það er einfaldlega mismunun.  Eins og áður sagði virðist þeim enda frekar fjölga en hitt.

Á þessu sviði, eins og svo mörgum öðrum, er þörf á að auka frelsi og færa völdin þangað sem þau eiga heima, til einstaklinganna.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband