Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2014

Nixon hvað?

Let them deny it, er svar sem yfirleitt er eignað Nixon fyrrverandi Bandaríkjaforseta, en stundum kollega hans Johnson, eða Joseph McCarthy.  Perónulega hef ég þó ekki getað fundið beina tilvitnun í neinn þeirra, en það er önnur saga.

En þetta "orðatiltæki" er það sem kemur fyrst upp í hugann þegar lesnar eru fréttir af frétt DV um meintan þrýsting Hönnu Birnu á Stefán Eiríksson lögreglustjóra.

Annað sem kemur reyndar einnig upp í hugann er hugtakið "að pönkast á einhverjum", en ég man reyndar fyrst eftir því að hafa heyrt það í tengslum við samræður ritstjóra og blaðamanns á því sama DV.

Síðan stökkva til "álitsgjafar" og "hanga á" "fréttinni" og ýmsum finnst að neitunum sé ekki nógu skýr og því hljóti fréttin að vera rétt.

Let them deny it.

Til þess er leikurinn gerður.

Auðvitað á ég, rétt eins og almenningur allur enga leið til að ganga úr skugga um hvort fréttin er rétt eða röng.  Við verðum einfaldlega að ákveða hvort við trúum Stefáni Eirikssyni, eða DV.

Og þó að ég reikni með að flestir trúi Stefáni, alla vegna er engin vafi í mínum huga, þá er til staðar efi í hugum margra.

Til þess er leikurinn gerður.

Let them deny it.

Látum þá neita því.

 

 


mbl.is Stefán: Hætti ekki vegna þrýstings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ófrjálslynt lýðræði?

Auðvitað þarf lýðræðisríki ekki að vera frjálslynt.  Frjálslyndi er enda eitt af þeim hugtökum sem erfitt er að skilgreina og oft er deilt um.

Þó að einstaklingur telji sig vera frjálslyndan, lítur annar á hann sem afturhaldssegg.  Margir eru frjálslyndir á sumum sviðum, en stjórnlyndir á öðrum.

Það er ekkert sem segir að lýðræðisríki þurfi að vera frjálslynt, það þarf fyrst og fremst að endurspegla (eins og kostur er) hugmyndir, viðhorf og skoðanir íbúa þess.

En svo er það spurningin um umburðarlyndi.

Reyndar er sagt í fréttinni "

Ég held að aðild okk­ar að Evr­ópu­sam­band­inu komi ekki í veg fyr­ir það að við get­um byggt ólýðræðis­legt ríki, byggt á þjóðleg­um grunni",

en ég vona að það um mistök í fréttaflutningi að ræða. Að henda lýðræðinu fyrir róða, er allt annað en að draga úr frjálslyndi. Mér sýnist reyndar að um slík mistök sé að ræða, þegar lesin er frétt Bloomberg um sama efni.

Svo má aftur túlka orð Orbans fyrst og fremst á þann máta að hann vilji draga úr vægi frjáls markaðar í Ungverjalandi (sem er annar og öðruvísi angi af frjálslyndi) .  Efla inngrip, ítök og þátttöku hins opinbera í atvinnulífinu. Tal hans um viðhald samkeppnishæfi bendir sterklega til þess. 

Þar sker hann sig ekki frá mörgum öðrum stjórnmálaleiðtogum í Evrópu og Evrópusambandinu.

En þegar Orban nefnir Rússland, Tyrkland og Kína sem dæmi sem líkja skuli eftir, hringja aðvörunarbjöllurnar.  

Í þeim ríkjum ríkir vissulega ekki frjálslyndið, ekki í neinum skilningi.  Fjölmiðlafrelsi er stórlega ábótavant og stjórnlyndið í hávegum haft.

En það er vissulega rétt að fylgjast með Ungverjalandi, og því hvernig Orban gengur að byggja upp "sitt" "stjórnlynda lýðræðisríki" innan  "Sambandsins".

Prófsteinninn verða næstu kosningar í Ungverjalandi og hvernig framkvæmd þeirra verður.  Kjósendur vilja oft þvælast fyrir hinum "stjórnlyndu lýðræðissinnum".  

Hylli þeirra er hverful, sem hefur sýnt sig t.d. hjá Hollande Frakklandsforseta, sem vissulega er stjórnlyndur, þó með öðrum hætti en Orban.

P.S.  Sú frétt sem þessi pistill er hengdur við, þarf á "yfirhalningu" að halda.  Hún vekur fleiri spurningar hjá lesandanum en hún svarar og inniheldur að mínu mati meinlega villu.


mbl.is Vill hverfa frá frjálslyndu lýðræðisríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stór og mikil tíðindi?

Þetta eru mikil tíðindi ef satt reynist.  Ef Þýskaland neitar að samþykkja fríverslunarsamning "Sambandsins" og Kanada, breytist staðan verulega.

Eins og fram kemur í fréttinni er talið að ef fríverslunarsamningurinn við Kanada verði ekki samþykktur kunni það að hafa veruleg áhrif á samingaviðræður Bandaríkjanna og "Sambandsins" um fríverslun.

Margir hafa viljað líta á samninginn við Kanada sem nokkurs konar "undanfara" samningsins við Bandaríkin. 

Þeir eru líka býsna margir (t.d. á Íslandi) sem hafa talað á þann veg að það væri nánast formsatriði að ganga frá þeim samningi og margir spáð að  hann yrði undirritaður 2015.

Persónulega hef ég miklar efasemdir um að til verði fríverslunarsamningur á milli Bandaríkjanna og "Sambandsins" og ef af verður er ég nokkuð viss um að hann verður ekki orðinn virkur árið 2015.

En ef Þýskaland mun neita samningnum við Kanada, verður það vissulega verulegt áfall fyrir "Sambandið", en sýnir ef til vill hve erfitt það er að gera fríverslunarsamninga fyrir 28 ríki í einu.  

En það er líka ljóst að það kæmist ekki hvaða "Sambandsríki" sem er upp með slíkt.

P.S.  Rétt er að hafa í huga að Ísland hefur nú þegar gert fríverslunarsamning við Kanada í gegnum EFTA.


mbl.is Hafna fríverslun við Kanada
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg framkoma

Framkoma svokallaðra "aðskilnaðarsinna" í Ukraínu hefur verið með eindæmum, allt frá því að Malayíska þotan var skotin niður.

Framkoma þeirra gerir ekkert nema að styðja við þá kenningu að þeir hafi skotið hana niður, flest bendir enda í þá átt.

Allt frá því að vélin var skotin niður hafa þeir gert rannsóknarstarf erfitt, tafið framkvæmd þess og sýnt þeim er létu lífið og aðstandendum þeirra ótrúlega fyrirlitningu.

Vegna þessa, eins og fram kemur í fréttinni, eru líkamsleifar enn á víðavangi, dreifðar um stórt svæði.  Vegna framkomu "aðskilnaðarsinna" hafa illa innrættir einstaklingar á meðal almennings og "aðskilnaðarsinna" sjálfra látið greipar sópa um eigur hinna látnu.

Að baki standa Rússar og gera ekkert til að róa ástandið, heldur virðast heldur auka í stuðnings sinn við "aðskilnaðarsinna" og verða því að teljast bera beina og óbeina ábyrgð á ástandinu og framferði "aðskilnaðarsinna".

 

Vergeef ons, NederlandcoverNewsweek PUtin

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Læt hér fylgja með forsíður frá tveimur mismunandi fjölmiðlum sem gripu athygli mína í gær.  Þeir sem hafa áhuga á að lesa umfjöllun Newsweek um stjórnarhætti Putins, fylgi þessum tengli.


mbl.is Líkamsleifar á víðavangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flikk héðan og þaðan

Sumarið er tíminn, ekki hvað síst til að taka myndir og ég hef verið duglegur við það núna undanfarið.  Farið hingað og þangað og tekið myndir af því sem fyrir augu ber.

Eins og venjulega er hægt að skoða fleiri myndir á flickr síðunni minni og skoða myndirnar stærri.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Hótelíbúðir góð lausn

Það er ljóst að ferðamannastraumurinn til Íslands hefur aldrei verið stríðari.  Metfjöldi túrista leggur leið sína til Íslands, þannig að mörgum þykir nóg um.

Ein af grundvallarþörfum ferðamanna er gististaðir.

Þó að vissulega sé hætta á offjárfestingu og offramboði er lítið hægt við því að gera.  Það er eðli slíkra markaða að þennslu/skorti fylgi offramboð uns oftast jafnvægi næst.

Það er tálsýn að hægt sé að stjórna eða skipuleggja slíkt með nákvæmum hætti og alltof algengur misskilningur að hið opinbera sé rétti aðilinn til þess að taka að sér skipulagninguna.

En hótelíbúðir eru góð lausn þó að fjölgun þeirra leiði líklega til ákveðinna vandræða til skemmri tíma litið.  

En það er líklega mun auðveldara að breyta þeim aftur í hefðbundar vistarverur, ef svo má að orði komast, en sérbyggðum hótelum.

Þess vegna eru hótelíbúðir lausn sem nauðsynleg er á markaðnum.

 

 


mbl.is Sprenging í útleigu íbúða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef varan er ekki áhugaverð, koma færri í búðina

Rétt eins og verslun sem býður upp á þreyttar og lítt áhugaverðar vörur má búast við fallandi sölu, mega stjórnmálamenn sem ekki ná til almennings búast við minnkandi kosningaþátttöku.

Það er hins vegar rétt að sú þróun, að færri og færri kjósendur telji það þess virði að mæta á kjörstað, er áhyggjuefni og sýnir að stjórnmál og stjórnmálamenn eru ekki að ná til fólksins.

Ég held að það hafi sýnt sig með nokkuð afgerandi þætti í síðustu sveitarstjórnarkosningum.  Þær vöktu litla athygli og vöktu takmarkaðan áhuga, sem eðlilega skilaði sér í lélegri þátttöku.

Það upphlaup sem varð um "smámál" eins og úthlutun lóðar undir mosku sýnir ef til vill betur en margt annað hvernig staðan er.

Ef marka má fréttir og umfjöllun, er það brýnasta hagsmunamál Reykvíkinga um þessar mundir.

En ef til vill skýrir orðræðan og fjölmiðlaumfjöllun hluta af vandamálinu.

Yfirleitt fjalla fjölmiðlar nú til dags um "popúlíska" flokka og "popúlíska" stjórnmálamenn af mikilli vandlætingu og margir fréttamenn geta ekki falið fyrirlitningu sína á slíkum "fyrirbrigðum".

En hvað er "popúlismi"?

Ef ég man rétt er "popúlismi" talinn eiga uppruna sinn í Rómaborg.  Hann er oft skilgreindur sem stefna sem sinni áhugamálum og hagsmunum (þar á meðal reyndar hræðslu) almennings og taki þá fram yfir hagsmuni yfirstéttar (elítu).

Þannig hafa populískir stjórnmálamenn þekkst bæði til vinstri og hægri og vissulega hafa þeir oft verið sakaðir um að "spila með" almenning og á hræðslu hans.

En stjórnmál snúast ekki eingöngu um "þá sem vita betur", þó að vissulega megi oft draga þá ályktun þegar fylgst er með fjölmiðlum.

En það er einmitt ein af meginástæðum þess að kosningaþátttaka fer minnkandi, ekki bara á Íslandi, heldur víðast um heim.  Stjórnmálastéttin er orðin "elíta", almenningi finnst engin tala máli sínu og sinna sínum hugðarefnum og sér því takmarkaðan tilgang með því að taka þátt í kosningum.

 


mbl.is Rannsaka minnkandi kjörsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er svo mörgu hægt að mótmæla

Persónulega finnst mér ekki óeðlilegt að einstaklingar komi saman til mótmæla.  Það er helgur réttur í lýðræðissamfélagi.  Það er heldur ekki óeðlilegt að samtök friðarsinna og stuðningssamtök hins og þessa taki þátt í slíku og hvetji sína félagsmenn til mótmæla.

Mér þykir hins vegar nokkuð merkilegt að sjá fjölda stéttarfélaga taka þátt í mótmælum sem þessum.  Telja forsvarsmenn þeirra að þeir hafi umboð félagsmanna sinna til þess?

Getur ekki verið að á meðal félagsmanna þeirra ríki skiptar skoðanir í málum sem þessu? 

En það virðist nokkuð útbreidd skoðun að Ísraelsher svari árásum á Ísrael með "of miklum krafti", eða umfram "meðalhóf".

Getur einhver útskýrt fyrir mér hvað "meðalhóf" í andsvari við árásum er?  Er það "auga fyrir auga og tönn fyrir tönn"?  

Ef árásaraðilar koma vopnum sínum fyrir á meðal "almennings" eru þau vopn þá friðhelg?  

Það má geta þess hér í framhjá hlaupi að áætlað er að á D-degi hafi fleiri óbreyttir Franskir borgarar látið lífið, en Bandarískir hermenn.  Hinir óbreyttu borgarar voru þó ekki við eða á "varnarstöðvum" Þjóðverja.

Er það dæmi um árás sem var "umfram meðalhóf"?

Svo er talað um nauðsyn þess að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael.  Ætli það mætti þá ekki skera niður all hressilega þann ríkjalista sem Íslendingar eiga í stjórnmálasambandi við?

Ættu Íslendingar að eiga stjórnmálasamband við Kína?  Ríki sem er alræmt fyrir mannréttindabrot.  Ríki sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vg kláraði fríverslunarsamninga við nýlega og ýmsir Samfylkingarmenn telja mikilvægasta samning sem Ísland hefur gert í 20 ár eða svo?  Ætti Ísland að slíta stjórnmálasambandi við Kína?

Ætti Ísland  að eiga stjórnmálasamband við Rússa? Land sem kyndir undir ófriði og ólgu í nágrannalöndum sínum og er í það minnsta óbeint ábyrgt fyrir að hafa skotið niður farþegaþotu nýlega.  En varla er verra að eiga í stjórnmálasambandi við Rússa, en að hafa átt áratuga stjórnmálasamband við Sovétríkin.  Ríki sem kúgaði og drap þegna sína miskunarlaust, hersat önnur ríki svo áratugum skipti og myrti með skipulegum hætti hundruð þúsunda þegna hersetnu landanna.

En mig rekur ekki minni til þess að margir hafi hvatt til þess að stjórnmálasambandi við Sovétríkin yrði slitið, hvað þá að verkalýðshreyfingar hafi staðið að mótmælum vegna þess.

Ættum Íslendingar að eiga í stjórnmálasambandi við Íran eða Norður Koreu?

En það er mörgu hægt að mótmæla.

Það væri hægt að mótmæla framferði Rússa í Ukraínu.  Það væri hægt að mótmæla því að Hamas samþykki ekki vopnahlé.

Það væri hægt að mótmæla því að Ísraelskir ferðamenn skuli hafa þurft vernd lögreglu gegn "mótmælendum" í Berlín, sem hrópuðu:  Gyðingur, við munum ná þér.

Það væri hægt að mótmæla því að í París hafi hundruðir "mótmælenda" brotið rúður í gluggum verslana og kaffhúsa gyðinga og brennt "kosher" verslun til grunna.

Það væri hægt að mótmæla því að heimili rabbína í Hollandi hafi verið grýtt tvisvar á einni viku.

Það væri hægt að mótmæla því að "mótmælendur" í Þýskalandi hafi verið staðnir að því að hrópa "gyðingana í gasklefana" og að lögregla í Berlín hafi bannað "mótmælendum" að nota hið "vinsæla" hróp "gyðingur, huglausa svín, komdu og berðust einn".

Það er svo mörgu hægt að mótmæla ......

 

P.S. Dæmin hér að ofan eru fengin úr frétt The Telegraph.

 

 

 

 


mbl.is Þrýsta á íslensk stjórnvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innflutningur á heilsubresti frá Danaveldi? Hvað verður það næst?

Af trúa ætti yfirlýsingum sem heyrst hafa undanfarnar vikur, ættu lýðheilsuyfirvöld að gefa út aðvörun til þeirra sem hyggjast snæða SS pylsur á komandi vikum. 

Það hlýtur að vera all nokkur hætta á að yfir neytendur hellist Danskur heilsubrestur, ef snæddar eru SS pylsur.  Það er að segja ef einhver leggur trúnað á misvitrar fullyrðingar um hættur þær sem fylgja innfluttu kjöti.

En líklega sjá hvorki ríkisstjórn eða alþingismenn ástæðu til að vara við þessari notkun á erlendu kjöti, þar sem það gerir pylsurnar ekkert ódýrari til almennings.  Það er engin hætta á hryggskekkju vegna þess að það þyngist í veskinu hjá pylsuneytendum.

En ef að flutt er inn nautakjöt í stórum stíl, svo veitingastaðir geti boðið upp á góðar steikur og til að SS geti framleitt pylsur og svo er flutt inn svínakjöt svo Íslendingar geti fengið beikon, síðan flytur Osta og Smjörsalan inn smjör til að anna eftirspurn, hvað er þá eftir af rökum gegn því að stórauka innflutning á landbúnaðarafurðum?

Jú, líklega eru einu rökin sem eftir eru að innflutta varan er of ódýr.

Og jú svo auðvitað þetta með heilsubrestinn.

Heilsubrestinn sem Sláturfélag Suðurlands, veitingastaðir og Osta og smjörsalan dreifa á meðal landsmanna, með innfluttum landbúnaðarafurðum?

Skyldi þess verða krafist að þessi fyrirtæki greiði aukalega til heilbrigðiskerfisins?

Það er kominn tími til að ræða málið með yfirveguðum hætti og gera áætlun um leyfi til aukins innflutnings sem taki 5 til 10 ár.  

Aukin innflutning á Íslenskum forsendum.

 

 


mbl.is Danskt kjöt í SS-pylsum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússland ber ábyrgð á ódæðisverkinu

Í mínum huga er það engin spurning að það að er hægt að setja ábyrgðina á dauða tæplega 300 einstaklinga sem flugu með Malaísku þotunni á herðar Rússneskra yfirvalda.  Putin eða hans "hrings".

Það skiptir engur máli í mínum huga hvernig litið er á málið.

Auðvitað er hægt að segja að Rússneskir aðskilnaðarsinnar í Ukraíu hafi skotið vélina niður.  En tilvera þeirra er vegna þess að Rússland vildi að þeir væru til.   Vopn í þeirra höndum eru þar vegna þess að Rússland vildi að þau væru þar.

Það er líka hægt að hlusta á Rússneskan áróður, og trúa þvi að "fasistar" í Ukraínu hafi skotið Malaísku flugvélina niður.

Það hljómar þó ekki trúverðuglega.

Spurningar sem allir þurfa að velta fyrir sér eru:  Hverjir hafa skotið niður flugvélar undanfarin misseri í Ukraínu?  Hverjir hafa verið að fljúga flugvélum um Ukraínska lofthelgi?

Hvers vega er það lang líklegast að að Rússar/Rúsneskir "uppreisnarmen" í Ukraínu séu ábyrgir fyrir verknaðinum?

En þetta er vissulega hræðilegur atburður.

En hver eru viðbrögð "alþjóðasamfélagsins"?

Hver eru viðbrögð Evrópusambandins, þar sem flugvélin á sinn upphafspunkt?

Hvað vigta u.þ.b. 300 einstaklingar á móti orkuþörf "Sambandsríkjanna"?

Hvernig blandast þessi atburður inn í val á "frammámönnum" Evrópusambandsins, en þar hefur ekki m.a. verið tekist á um hvernig afstaða "kandídata" er gagnvart Rússum.

Það hefur vakið furðu mína hve margir, og ekki síst á Íslandi eru reiðubúnir til að líta svo á að Rússland hafi fullan rétt til þess að ákveða "í hvaða átt" Ukraína snýr sér og með hverjum þeir kjósa að eiga samstarf. Að Ukraína tilheyri á einhvern hátt Rússum.

Að hvernig Rússar hafa í gegnum árin, með ofbeldi, brottfluttningi, skipulögðu svelti og morðum, hafa fækkað Ukraínubúum og flutt inn í staðinn "sitt fólk" gefi þeim á einhvern hátt rétt til Ukraínu eða að krefjast sameiningar við Rússland.

Þeir virðast ótrúega margir sem virðast reiðubúnir til að trúa þeim áróðri sem kemur frá Rússum, nú eins og áður.

Fátt virðist breytt frá kaldastríðsárunum þegar allt sem birtist í fréttum og hallaði á Sovétríkin var kallað lygi.

Og margir virðast ekki hafa áttað sig á því að að þar birtist auðvitað ekki allur sannleikurinn, sannleikurinn var í mörgum tilfellum mikið verri.

En Rússar virðast enn vinna eftir sömu "áróðurshandbókinni".  

Þeir sjá enga ástæðu til að skipta, því hún virkar enn.

P.S.  Fyrir mistök birtist þessi pistill skamma hríð áður en hann var kláraður.  Hann var því "tekinn úr umferð" og birtist nú aftur hér.

 


mbl.is Aðskilnaðarsinnar skutu á vélina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband