Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Auðvitað er Framsókn stjórntæk. Fleiri vildu Framsókn í borgarstjórn en Vinstri græn eða Pírata

Ýmsir stjórnmálamenn og álitsgjafar hafa sett sig í yfirlætislegar stellingar og talað um að Framsóknarflokkurinn sé ekki stjórntækur.  Þar sem þessar fullyrðingar virðast helst eiga við setu þeirra tveggja kvenna sem hlutu brautargengi til borgarstjórnar Reykjavíkur, er þetta auðvitað alls kostar rangt.

Framsóknarflokkurinn á tvo fulltrúa í stjórn Reykjavíkur, borgarstjórn.  Hann situr þar ekki vegna þess að Samfylkingin, Vinstri græn, Björt framtíð, Píratar eða Sjálfstæðisflokkurinn hafi ákveðið að hann væri tækur í stjórn borgarinnar.

Það var ákveðið af kjósendum, þeim hluta borgarbúa sem hefur atkvæðisrétt og nýtti sér hann.

Það er ekki til neitt sem heitir "góð" eða "slæm" atkvæði, "stjórntæk" eða "óstjórntæk" atkvæði, það er bara til ein gerð af atkvæðum.

Það er rétt að hafa í huga að Framsóknarflokkurinn fékk fleiri atkvæði en til dæmis Vinstri græn og Píratar.  Fleiri Reykvíkingar vildu að Framsóknarflokkurinn kæmi að stjórn borgarinnar en kærðu sig um að Vinstri græn eða Píratar gerðu það.

Að mínu mati er það ekki til fyrirmyndar þegar stjórnmálamenn gera lítið úr kjósendum andstæðinga sinna. 

Það eiga allir rétt á að velja sína fulltrúa í lýðræðisríkjum. Gerum ekki lítið úr því.  Allra síst fer það þeim stjórnmálamönnum vel sem rétt höfðu það inn í borgarstjórn.

Að þessu sögðu er það að sjálfsögðu öllum í sjálfsvald sett, hverja þeir kjósa sem samstarfsmenn, en að hefur ekkert með "stjórntæki" eins eða neins að gera.

Framsókn er stjórntæk, hún er í borgarstjórn með 2. fulltrúa, vegna þess að borgarbúar ákváðu að svo yrði.

 

 


70 ár í sögu þjóðar

Þó að saga Íslensku þjóðarinnar sé nokkuð löng, er saga lýðveldisins aðeins 70 ár.  Og þó að ég ætli ekki að dæma þar um, held ég að það sé rétt að það var hvorki sjálfsagt eða sjálfgefið skref.

En margt hefur gengið vel og annað miður, þannig gengur lífið, hvort sem er hjá einstaklingum eða þjóðum.

En í heild sinni geta Íslendingar litið með stolti til lýðveldistímans.  Framfarir hafa verið miklar og velmegun aukist.

Það er því fyllsta ástæða til að óska Íslendingum öllum til hamingju með daginn og lýðveldið.

Í dag hefur Ísland haft stöðu umsóknarríkis að Evrópusambandinu í nákvæmlega 4. ár.  Það er mál að linni.


mbl.is Lýðveldið var ekki sjálfgefið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Stjáni blái er ráðherra heildbrigðismála......

Auðvitað er spínat meinhollt, en Íslendingar hafa þó ekki verið sérstaklega ginkeyptir fyrir því í gegnum árin.

En þegar Stjáni blái er heilbrigðistráðherra hlýtur neysla spínats að aukast.

Það segir sig sjálft.

Annar Stjáni blái og mikill spínatmaður, gengur einnig undir nafninu Popeye.


mbl.is Íslendingar óðir í spínat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óttinn við hið óþekkta. Múslimar þurfa að kynna trú sína og afstöðu safnaðarins til samfélagsmála

Nú er mikið talað um andúð eða jafnvel hatur á múslimum og söfnuði þeirra á Íslandi.  Margir vilja kenna um umræðu um moskubyggingu fyrir nýafstaðnar borgarstjórnarkosningar.

Það er auðvitað skelfileg einföldun, en umræðan dró ef til vill athyglina að ótta margra Íslendinga við aukin umsvif múslima á Fróni.

Og óttin á sér eflaust margar skýringar.  Ekki hvað síst að fjölmiðlar, bæði Íslenskir og ekki síður erlendir, flytja flesta daga fréttir af margvíslegum ofbeldis og mannréttindabrotum sem framin eru í nafni trúar múslima.  

Mörgum einstaklingum hættir til að óttast hið óþekkta og óttinn magnast upp í "hópsálinni".

Það er því nauðsynlegt að söfnuðir múslima á Íslandi kynni trú sína og afstöðu safnaða sinna til samfélagsmála fyrir Íslendingum.

Það er reyndar Íslenskum fjölmiðlum til skammar að það skuli ekki hafa verið gert og auðvitað ættu múslimar sömuleiðis að leggja metnað sinn í að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Teljast Íslensku söfnuðirnir til súnnía eða shíta? Eða einhvers allt annars?

Hafa söfnuðir þeirra t.d. jafnréttisstefnu, og ef svo er í hverju er hún fólgin?  Hver er afstaða Íslensku safnaðanna til sharia laga? Hver er afstaða þeirra til klæðnaðar kvenna?  Eru þeir fylgjandi eða andstæðir búrkum?  

Hver er staða samkynhneigðra innan safnaðanna? Hver er afstaða þeirra til umskurðar kvenna? Finnst þeim sameiginlegir sundtímar í grunnskólum ásættanlegir?  Er að þeirra mati ásættanlegt að Íslenskir fjölmiðlar birti myndir af spámanninum?

Hvað finnst söfnuðum múslima á Íslandi um nauðungarhjónabönd?  Hvað finnst þeim um hjónabönd systkinabarna? Er að þeirra mati munur á hvort að múslimskur karlmaður kvænist "heiðingja", eða hvort að múslimsk kona giftist utan trúarinnar?

Hafa margir í söfnuðunum á Íslandi yfirgefið trúnna og er einhver refsing við því?

Þiggja söfnuðir múslima á Íslandi erlenda styrki, og ef svo er, hverjir eru helstu styrktaraðilarnir?  Verður moska byggð og/eða rekin að hluta eða öllu leyti fyrir erlenda styrki?

Þetta eru bara nokkur atriði, og eflaust eru mörg önnur atriði sem vert er að bæri á góma.  Þessi upptalning hjá mér endurómar hluta af þeirri umræðu sem ég hef rekist á, bæði í innlendum og erlendum fjölmiðlum.

Ég held að það væri þarft fyrir söfnuði múslima að kynna trú sína, starfsemi og sjónarmið og í raun ótrúlega slakt af Íslenskum fjölmiðlum að hafa ekki haft forgöngu um slíka kynningu, frekar en að hleypa í "æsingagírinn".

Frekari umræða um stöðu og starfsemi trúfélaga og aðkoma opinberra aðila að henni væri sömuleiðis þörf.  

Íslendingar þurfa að ákveða hvernig þeir vilja að henni sé háttað til framtíðar, ekki með upphlaupum yfir einstaka atburðum.

 

 

 

 


Hafa Danir ákveðið að hætta að refsa Færeyingum?

Nú virðist sem betur fer stefna í það að Evrópusambandið og þar með taldir Danir ætli að hætta refsiaðgerðum gegn Færeyingum.

Það er vel.

En það leiðir líka hugann að því að oft er rætt um hvort að þjóðirnar innan "Sambandsins" hafi haldið sjálfstæði sínu eður ei?

Ákváðu Danir að beita refsiaðgerðum gegn Færeyingum?  Ákváðu Danir hvort að þeir hættu refsiaðgerðum gegn Færeyingum?

Er líklegt að Danir hefðu gripið til þessara refsiaðgerða gegn Færeyingum að eigin frumkvæði?

Er hægt að líta svo á að Danir séu að fullu sjálfstæð þjóð?

Styrkja þessar refsiaðgerðir, eða stöðvun þeirra, sem eru ákveðnar með því að Danir hafa ákveðið "að deila" fullveldi sínu með "Sambandsríkjunum" fullveldi Dana?

Höfðu Danir raunverulega eitthvað um málið að segja?

Er þeirra eina huggun ef til vill að þeir höfðu þó "sæti við borðið", þegar refsiaðgerðir gegn Færeyingum voru samþykktar?

 


mbl.is Hætt verði að refsa Færeyingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Önnur sýn á málið, en það byggja þó fleiri trúfélög kirkjur en þjóðkirkjan

Það er rétt að taka það fram í upphafi að ég tilheyri ekki þjóðkirkjunni (eða nokkru öðru trúfélagi) og er andsnúinn því að hún njóti forréttinda umfram önnur trúfélög.

En það virðist í fljótu bragði ekki vera hægt annað en að álíta að Brynjar Níelsson hafi mikið til sín máls. Það virðist hvergi vera til lagabókstafur sem skyldar sveitarfélög til að gefa öllum trúfélögum lóðir og undanskilja þær gatnagerðargjöldum.

Lögin virðast eingöngu tala um kirkjur, en svo má líklega deila um hvort að það hljóti ekki að gilda um aðra kristna söfnuði, sem þó standa utan þjóðkirkjunnar.  Eflaust geta einhverjir haldið því fram að lög um kristnisjóð gildi einungis um þjóðkirkjuna.

En nú hlýtur að standa upp á borgarfulltrúa og lögspekinga Reykjavíkurborgar að útskýra á hvaða lagalegu forsendum, þeir hafa ákveðið að gefa skuli öllum trúfélögum lóðir.

Eða er það einfaldlega vilji meirihluta borgarstjórnar og greiddi hún atkvæði um málið?

Sú röksemd að öll trúfélög eigi að vera jöfn fyrir lögunum, stenst ekki, því æðstu lög þjóðarinnar, sjálf stjórnarskráin, mismunar trúfélögum,  þjóðkirkjunni í hag, svo að enginn vafi leikur á.

Hitt er svo annað mál að að sjálfsögðu á að afnema forréttindi þjóðkirkjunnar, og hið opinbera á að hætta að innheimta félagsgjöld fyrir trúfélög og aðra klúbba, en það er annað mál.

En það er áríðandi að farið sé að lögum, hvort sem við erum sammála þeim eður ei.

 

 

 


mbl.is Ólöglegt að gefa trúfélögum lóðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr forseti

Það ætti ekki að koma verulega á óvart að Ólafur Ragnar sækist ekki eftir endurkjöri.  Ef til vill má þó segja að ekkert sé öruggt í þeim efnum, fyrr en framboðsfrestur rennur út.

Það er jú ennþá nægur tími fyrir undirskriftalista.

En líklegt verður þó að teljast að Íslendingar velji sér nýjan forseta árið 2016.

Það er einnig næsta víst að ýmsir einstaklingar munu "máta sig" í stólinn á næstu mánuðum og árum.  Þreifa fyrir sér og jafnvel munu þeir eða "stuðningsmenn" splæsa í skoðanakönnun. 

Bara svona rétt til þess að meta "stöðuna" og möguleikann á því að setjast að á Bessastöðum.

Sjálfsagt eiga margir eftir að fá "fjölda áskoranna" og "hvatningu víða að" og líklega geta þeir ekki annað en velt framboði fyrir sér, annað væri hreinlega dónaskapur við þann fjölda sem hefur hvatt þá til framboðs.

Stærsta spurningin er líklega hvort að Íslendingar muni velja sér "pólítískan" forseta til að fylgja á eftir valinu á Ólafi Ragnari, eða hvort að þeim þyki nóg um, og kjósi að snúa aftur til "hlédrægari" og "ópólítiskari" þjóðhöfðingja.

Persónulega hef ég ekki heyrt neinn nefndan sem mér þykir vel fallinn til embættisins, en það eru enn þá 2. ár til stefnu.

 

 

 

 


mbl.is Sækist ekki eftir endurkjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að eiga samstarf bæði til hægri og vinstri

Ýmsa hef ég séð vilja gera mikið úr því að Björt framtíð starfi bæði með Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni í sveitarstjórnum.

Persónulega get ég ekki séð að í því felist nein breyting í Íslenskum stjórnmálum.

Þar hefur tíðkast í gegnum árin og áratugina að allir starfi með öllum, þó að vissulega finnist flokkum samstarfsmöguleikarnir mis álitlegir.  Í sveitarstjórnum spila svo persónurnar gjarna stærri rullu.

En allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkurinn (sem eðli málsins samkvæmt vinnur aðeins til vinstri) og VG/Alþýðubandalagið (sem á ekki annan kost en að vinna til hægri) hafa átt samstarf, sitt á hvað til vinstri eða hægri.

Það hefði frekar talist til tíðinda ef stjórnmálaflokkur útilokaði samstarf við annan flokk, hvort sem það hefði verið Björt framtíð eða einhver annar.

Það má enda telja Bjartri framtíð það pólítísk lífsnauðsyn að starfa með öðrum flokkum en Samfylkingunni, ef henni stendur slíkt til boða.   Ef BF hefði aðeins samtarf til vinstri, eða við Samfylkinguna, er hætt við að kjósendur hættu fljótlega að sjá nokkurn tilgang með því að gefa BF atkvæði sitt.  Ef enginn munur er á Samfylkingu og BF (lítill er hann að mínu mati) gætu kjósendur allt eins greitt SF atkvæði sitt.

Það gerðist að hluta til í Reykjavík, nú í nýafstöðnum kosningum og  verður líklega ekki svo auðvelt fyrir Bjarta framtíð að vinda ofan af þeirri þróun.

Hitt er svo einnig að það kann að vera klókt af hálfu Sjálfstæðisflokksins að hjálpa til við að "establisera" þriðja vinstra miðjuflokkinn, það gefur möguleika á fleiri samstarfsaðilum og  ýtir undir pólítíska þróun sem gæti orðið flokknum hagstæð.

 


Dvalarstaður Gorbachevs í Reykjavík, rifinn í Kína

Þeir eru líklega býsna margir sem muna eftir leiðtogafundi Reagans og Gorbachevs í Reykjavík 1986.  Nýlega las ég að til stæði að gera kvikmynd um atburðinn.

En nú nýverið var dvalarstaður Gorbachevs á meðan á Reykavíkurdvölinni stóð, rifinn í Kína, ef marka má frétt Eistneska ríkisútvarpsins.

Skipið Georg Ots, nefnt eftir frægum Eistneskum söngvara á býsna merka sögu, og á sinn stað í minningum margra Eistlendinga, bæði á meðan Sovéska hernáminu stóð og fyrstu árum endurheimts sjálfstæðis.

En líklega hefur saga skipsins risið hvað hæst, þegar því var siglt til Íslands og hýsti leiðtoga Sovétríkjanna á meðan á fundum hans með Reagan stóð, árið 1986.

 

 

 

 


Annar taktur í sveitastjórnarmálum?

Það hefur vakið athygli mína í fréttum í dag, að Framsóknarflokkurinn í Skagafirði hefur ákveðið að taka Sjálfstæðisflokkinn með sér í meirihluta, þrátt fyrir að Framsókn hafi meirihluta bæjarfulltrúa.

Sömuleiðis er Sjálfstæðisflokkurinn á Akranesi, sem einnig hlaut hreinan meirihluta, í viðræðum við Bjarta framtíð um að koma í meirihlutasamstarf.

Þetta finnst mér athyglivert og  bendir til áhuga á að stjórna á breiðari grunni.  Ef til vill bendir það einnig til þess að sveitarstjórnarfólki finnist í einhverjum tilfellum minnsti hugsanlegi minnihluti ekki vera nógu traustur, enda hafa meirihlutar í sveitastjórnum sprungið í vaxandi mæli undanfarin ár.

En þetta er þróun sem mér finnst vert að gefa gaum.

 


mbl.is Tóku sjálfstæðismenn með í meirihlutann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband