Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

70 ár. Innrás sem breytti gangi stríðsins og veraldarsögunnar

Það eru 70 ár síðan þessi stærsta innrás yfir sjó átti sér stað.  Líklega verður þetta síðasta stórafmælið þar sem enn verður nokkur fjöldi af þeim sem voru í innrásarhernum verða með í hátíðarhöldunum.

Enn það er rík ástæða til þess að minnast innrásarinnar um ókomna tíð og þeirra sem tóku þátt í henni.

Það voru ekki mörg lýðræðisríkin í Evrópu sem voru frjáls á stríðsárunum, það mátti telja þau á fingrunum.

Við öll eigum þeim stóra skuld að gjalda sem tóku þátt í innrásinni og börðust til að frelsa hin hernumdu lönd Evrópu, ekki síst þeim sem enduðu ævina, oft ekki langa, á ströndum Normandy.

En þó að það sé ekki mikið um það fjallað, voru það ekki bara hermenn bandamanna og Þjóðverja sem létu lífið þessar örlagaríku daga í júni1944.  Þúsundir heimamanna, óbreyttir borgarar létu lífið í loftárásum dagana á undan innrásinni og í bardögunum sem fylgdu í kjölfarið.

Frelsið kom ekki án blóðs, beiskju og fórna. En það var nauðsynlegt að láta markmið hernaðarins ganga fyrir, lokatakmarkið, skilyrðislaus uppgjöf Þýskalands, frelsun hinna hernumdu landa.

Ég velti því stundum fyrir mér hvernig fjallað yrði um þetta í fjölmiðlum dagsins í dag.  Hvernig þetta allt liti út í "beinni"?

Og hvernig þetta bergmálar, þó veikt sé í nútímanum, þegar Bandaríkjamenn hafa enn og aftur ákveðið að auka útgjöld sín til varnar Evrópu, þó aðeins sé um milljarð dollara enn sem komið er.

Það er rétt að enda þessa færslu með söng Veru Lynn, sem flytur lagið We´ll Meet Again.  En Vera Lynn hafði á árum síðari heimsstyrjaldarinnar viðurnefnið, "The Forces´ Sweatheart." Hún var óþreytandi, og kom fram á skemmtunum hermanna um víða veröld, Egyptalandi, Indlandi, Burma og að sjálfsögðu í Bretlandi og Frakklandi.

 

 


mbl.is Innrásarinnar minnst í Normandí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt mat hjá Elliða

Ég held að þetta sé rétt mat hjá Elliða.  Það væri til hagsbóta fyrir hægri sinnaða einstaklinga ef það verður af flokksstofnun hjá "sjálfstæðum "Sambandssinnum"".

Það skapast ró innan Sjálfstæðisflokksins, en jafnframt verður til vettvangur fyrir hægri sinnaða einstaklinga sem vilja ekkert frekar en ganga til liðs við "Sambandið".

Það er engan veginn óeðlilegt að jafn stórt mál og sjálfstæði Íslands og innganga í "Sambandið" valdi deilum og endurraði einstaklingum að einhverju leiti í flokka.

Líklega myndi þetta fjölga þeim atkvæðum og þingmönnum sem hægri sinnaðir flokkar fengju og ekki veitir af.

En það er ekkert nýtt að það séu skiptar skoðanir innan Sjálfstæðisflokksins um hin aðskiljanlegustu málefni.

Af því að "sjálfstæðum Sambandssinnum" er svo tíðrætt um vestræna samvinnu, hef ég i gegnum tíðina t.d. þekkt Sjálfstæðismenn sem voru í hjarta sínu og prinsippinu á móti veru Bandarísks herliðs á Íslandi og jafnvel aðild Íslands að NATO.

En aldrei hvarflaði að þeim að flokkurinn myndi álykta gegn aðild eða veru hersins.  Þeir gerðu sér grein fyrir því að þeir voru fámennur hópur innan flokksins.

En eins og áður sagði, þegar deilt er um grundvallaratriði eins og sjálfstæði, fullveldi og inngöngu í "Sambandið" getur það varla talist óeðlilegt að einhver uppskipti verði.

Til lengri tíma litið er það líklega öllum hægrimönnum og stefnunni til framdráttar. 

 

 

 


mbl.is Færir áhersluna til hægri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

En hefur þeim sem vinna fjölgað?

Að dregið hafi úr atvinnuleysi teljast góð tíðindi, en vissulega skiptir máli hvernig samdrátturinn á sér stað hversu góð tíðindin geta talist.

Vonandi hafa sem flestir fengið atvinnu.  En tölulegar staðreyndir taka t.d. ekki á því hve margir hafa gefist upp og flutt í burtu.  Það gildir bæði á Íslandi og á Eurosvæðinu.

Síminnkandi verðbólga, bendir til þess að eftirspurn dragist saman sem bendir aftur til þess að samfélagið hafi í heild sinni hafi minna umleikis.Reyndar er samdráttur upp á 0.1 prósentustig (á milli mánaða, minnkunin er 0.3% á ársgrundvelli) ekki mikill samdráttur og bendir einnig til þess að störfum hafi ekki fjölgað, eða lítið.

occupati entassodisoccupazione en

 

 

 

 

 

 

 

 

Hér að ofan má sjá tvö gröf frá Ítölsku hagstofunni, annars vegar fjölda einstaklinga sem hafa vinnu (til vinstri) og prósentstig atvinnleysis (til hægri).

Það er til dæmis áberandi að þó að fjöldi einstaklinga sem hafa vinnu fækki verulega á milli mars og apríl, þá stendur atvinnuleysið í stað.


mbl.is Dregur úr atvinnuleysi og verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Undarleg ímyndaruppbygging

Ég get ekki að því gert að mér þykir það skrýtin ímyndaruppbygging að bjóða forsætis- og fjármálaráðherra að opna laxveiðiá. 

Bæði af hálfu veiðiréttarhafa og ríkisstjórnarinnar.

Nema þá auðvitað að vonast sé eftir því að salan aukist vegna þess að sjálfsagt sé að bjóða opinberum aðilum í laxveiði.

En ég vonast auðvitað til í framhaldinu að ráðherrarnir sjái hve órökrétt það er að veiðileyfi séu undandþegin virðisaukaskatti og í framhaldi verði sú undanþága afnumin, skattkerfið einfaldað og veiði sitji við sama borð og önnur ferðaþjónusta.

Þá væri veiðiferðin sannarlega ekki til einskis.

 P.S.  Er það ekki merkilegt að með frétt um að ráðherrum sé boðið í laxveiði, er birt mynd þar sem lítur út fyrir að þeir séu báðir að ná í veskið sitt?


mbl.is Ráðherra að bæta ímynd laxveiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofmat á skoðanakönnunum. Hugsast getur að kjósendur hafi einfaldlega skipt um skoðun

Margir vilja meina að misræmi á milli skoðanakannana og kosningaúrslita megi fyrst og fremst rekja til þeirra sem ekki mættu á kjörstað.

Þeir virðast hafa ofutrú á að skoðanakannanir hafi verið réttar, en það hafi einfaldlega ekki rétt úrtak mætt á kjörstað.

Getur ekki einfaldlega verið að þó nokkur fjöldi kjósenda hafi einfaldlega skipt um skoðun, stuttu fyrir kjördag, eða hreinlega á kjördag.

Umfjöllun og umræðum um kosningar halda jú áfram fram á síðustu stundu.

Umræðuþáttur með oddvitum í Reykjavík var á dagskrá RUV kvöldið fyrir kjördag.  Gæti ekki hugsast að ýmsir kjósendur hafi t.d. skipt um skoðun á meðan þeir horfðu á umræðurnar?

Getur ekki verið að hluti kjósenda hafi ekki líkað frammistaða t.d. Dags Eggertssonar í þeim þætti, eða hvað hann hafði fram að færa?

Getur ekki verið að aðrir hafi séð að það væri engin munur á því að kjósa Samfylkinguna, Pírata eða Bjarta framtíð?

Einnig má hugsa sér að sumir kjósendur hafi hrifist af frammistöðu fulltrúum Sjálfstæðisflokks eða Framsóknarflokks í þættinum.

Skoðanakannanir eru allra góðra gjalda verðar.  En þær mæla stöðuna eins og hún var, með þó nokkrum frávikum þó.

Það tekur ekki nema augnablik að skipta um skoðun, stundum gerist það í kjörklefanum.

 

 

 


mbl.is Ósamræmi milli kannana og úrslita
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar á netinu auka ekki kosningaþátttöku. Aðeins áhugaverð stjórnmál og stjórnmálamenn geta gert það

Nú að nýafstöðnum sveitarstjórnarkosningum er mörgum brugðið yfir þeirri staðreynd hvað kosningaþátttakan er léleg og hefur farið hratt minnkandi.

Margir telja að nauðsynlegt sé að hefja netkosningar til vegs og virðingar, svo auka megi kosningaþátttöku.

Persónulega er ég á öndverðri skoðun, þó að tækninni fleygi sífellt fram, hef ég ekki séð neinar sterkar vísbendingar um að netkosningar auki kosningaþátttöku, en hins vegar bjóða þær ýmsum hættum heim.

Fáar, ef nokkrar, þjóðir hafa meiri reynslu af netkosningum en Eistlendingar. Þar voru fyrstu kosningarnar með þeim möguleika að greiða atkvæði á internetinu haldnar 2005.  Það voru sveitarstjórnarkosningar, en síðan hafa verið haldnar þingkosningar, bæði til þings Eistlands og Evrópusambandsþingsins, þar sem boðið hefur verið upp á þann möguleika að greiða atkvæði á netinu.

Netkosningar fara ávalt fram nokkrum dögum fyrir hinn eiginlega kjördag.  Þannig lokar netkosningin 2 til 3 dögum fyrir kjördag.  Líklega er þetta gert í öryggisskyni, þannig að möguleiki sé á að hvetja kjósendur til að endurtaka atkvæði sín á "hefðbundin" hátt, ef eitthvað kemur upp á hvað varða e-atkvæðin.

Þeim fjölgar (sem hlutfalli) sem greiða atkvæði sín á netinu.  En það hefur ekki orðið til þess að stórauka kosningaþátttöku, sem fer upp og niður eftir sem áður.

Þannig minnkaði kosningaþátttaka í kosningum til Evrópusambandsþingsins sem voru í maí.  Þar fór kosningaþátttakan úr u.þ.b. 44% árið 2009 í  u.þ.b. 36% í ár.  Hvoru tveggja er þó betri þátttaka en árið 2004, er þátttakan var u.þ.b. 22%.

En auðvitað segja prósentutölur ekki alla söguna, það sem skiptir líklega mestu máli er hvort kjósendum finnst kosningarnar skipta máli og hvort að frambjóðendur nái til þeirra.  Þannig vilja margir þakka Indrek Tarand aukninguna í Evrópusambandsþingkosningunum árið 2009.  Hann var í einmenningsframboði, en hlaut rétt tæp 26% atkvæða.  Aðeins 1. stjórnmálaflokkur náði fleiri atkvæðum og var munurinn um 1100, eða um kvart %.  Atkvæðafjöldi hans hefði nægt til að koma 2. mönnum á þingið, en hann var einn í framboði.

Þannig hefur kosningaþátttaka verið upp og niður í Eistlandi, en óhætt yrði að segja að Eistlendingar yrðu nokkuð ánægðir með kosningaþátttöku þá sem Íslendingum þykir nú svo arfaslök

Hins vegar færa e-atkvæðagreiðslur þeim sem ekki eru staddir í heimalandinu, eða búa langt frá kjörstað að sjálfsögðu gríðarleg þægindi.  Það skiptir miklu máli í landi eins og Eistlandi þar sem tugir þúsunda sækja vinnu í öðrum löndum eða búa jafnvel í öðrum heimsálfum.

En netkosningar koma ekki án galla.  T.d. er ekki lengur hægt að tryggja að kjósendur séu "einir í kjörklefanum".  Það er hugsanlegt að einstaklingur kjósi undir "pressu" og auðveldara er að fylgjast með því að kosið sé "rétt".  Atkvæðakaup eru einnig gerð auðveldari og "tryggari". 

Hugsanlegt er að einstaklingar afhendi öðrum aðgang sinn að kosningakerfinu.

Ég held að aðeins áhugaverð stjórnmál og áhugaverðir stjórnmálamenn geti aukið kosningaþátttöku.

Það sem er ef til vill ekki hvað síst áhugavert, er hvað áhugi virðist minni fyrir sveitarstjórnarkosningum (sérstaklega í stærri sveitarfélögum), en t.d. Alþingiskosningum.  Þó eru sveitarfélög ekki síður að taka ákvarðanir sem snerta daglegt líf borgaranna.

Margir greiða hærra hlutfall af launum sínum til sveitarfélagsins en til ríkisins.  Ef ég man rétt er það ekki fyrr en um og yfir 300.000 króna tekjum sem einstaklingur fer að borga hærri tekjuskatt en útsvar.

Hér fyrir eru tvær greinar af netinu um netkosningar í Eistlandi.

http://blogs.lse.ac.uk/europpblog/2013/10/04/the-estonian-experience-shows-that-while-online-voting-is-faster-and-cheaper-it-hasnt-increased-turnout/

http://www.eui.eu/Projects/EUDO-PublicOpinion/Documents/bochslere-voteeui2010.pdf

 


Framtíðarfylkingin?

Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig kemur til með að spilast úr sveitarstjórnarkosningunum.  Ekki eingöngu í Reykjavík heldur um allt land og á landsvísu.

Eitt af því sem hlýtur að vekja eftirtekt, er hvernig samstarfi Samfylkingar og Bjartrar framtíðar verður háttað, eða hvort að það verður samstarf, ekki bara í Reykjavík, heldur ekki síður á stöðum eins og t.d. Hafnarfirði.

Á Akureyri leggur Samfylkingin upp með samstarf við Framsóknarflokk og L-listann og skilur BF eftir í kuldanum, en það er spurning hvort að það leggur einhverjar línu?

Ein af niðurstöðum nýafstaðinna kosninga sem ekki er hægt að líta fram hjá er stór persónulegur sigur Dags Eggertssonar í Reykjavík.  Það stendur upp úr hve góðu árangur Samfylkingar er þar samanborið við annars staðar á landinu.

Því hlýtur sú spurning að vakna, hvort að Samfylkingin hafi áhuga á því að kalla Dag til starfa á landsvísu og jafnvel að gera hann að formanni flokksins.  Árni Páll hefur ekki megnað að hífa flokkinn upp og eðilegt að uppi séu vangaveltur um að "skipta um kallinn í brúnni sem er hættur að fiska".

Ef af því yrði, er komin upp nokkuð merkileg staða.  Þá væru þeir orðnir formenn tveggja stjórnmálaflokka, sem fæstir sjá mikinn mun á, Dagur Eggertsson og Guðmundur Steingrímsson.  

Milli þeirra tveggja hefur verið mikið samstarf og er skemmst að minnast þess að Guðmundur var aðstoðarmaður Dags, í hundrað daga borgarstjóratíð hans.  Þá var Guðmundur varaþingmaður Samfylkingarinnar ef ég man rétt.

Væri þá ekki kominn nokkuð sterkur grundvöllur fyrir sameiningu þessara tvegga (systur)flokka?  

Og væru slíkar væntingar ekki sterkur hvati fyrir Samfylkingarfólk að gera Dag að formanni flokksins?

 


mbl.is Dagur og Björn ræða saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er sitthvað landsbyggð og latte. Sterk staða Sjálfstæðisflokksins um allt land

Það er ekki hægt að segja annað en að Sjálfstæðisflokkurinn geti vel við unað við úrslit sveitarstjórnarkosninganna sé litið yfir landið.

Allt í kringum Reykjavík er Sjálfstæðisflokkurinn með sterka stöðu.  Hreinir meirihlutar í Mosfellsbæ, Garðabæ, Seltjarnarnes, góð staða í Kópavogi og Hafnarfirði.

Stórsókn á Akranesi, ótrúlega góður árangur í Vestmannaeyjum, meirihlutinn heldur í Árborg og í Hveragerði.

Aukning á Akureyri og víðast hvar um landið er Sjálfstæðisflokkurinn í góðri stöðu. Meirihlutinn fellur að vísu í Reykjanesbæ, þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn haldið um stjórntaumana frá upphafi, og vissulega skarð fyrir skildi, en kom þó ef till ekki svo mikið á óvart. Sömuleiðis féll meirihluti flokksins á Ísafirði, en þar spilaði líklega persónuval stærri rullu en víðast hvar annarsstaðar.

Miðað við ríkisstjórnarflokk og þau innanflokks átök sem geisað hafa upp á síðkastið,  getur Sjálfstæðisflokkurinn verið ánægður með árangur sinn

Kosningarnar hafa farið betur með Samfylkinguna heldur en útlit var fyrir framan af.  En það er ekki síst í gömlum vígum flokksins eins og Hafnarfirði og Kópavogi sem tapið er áberandi.  SF náði að styrkja sig all vel á lokasprettinum á Akureyri og líklega má segja að staðan sé erfið en þolanleg.

Framsóknarflokkurinn er í þokkalegri stöðu víða um landið.  Vinnur góða sigra í Skagafirði og á Dalvík.  Í Skagafirði nær Framsókn hreinum meirihluta og bætir við sig 2 mönnum á Dalvík.  Staðan verður að teljast þokkaleg hjá Framsókn miðað við umdeildan ríkisstjórnarflokk.

Björt framtíð vinnur eftirtektarverða sigra, nema í Reykjavík þar sem flokkurinn (sem arftaki Besta flokksins) bíður afhroð.  Það er athyglisvert að sjá "nýjan" flokk ná þetta góðri fótfestu.

Vinstri græn virðast í vandræðum víðast hvar og ná ekki að flytja vinsældir formanns síns og verandi í stjórnarandstöðu í vinsældir á sveitarstjórnarstiginu.  Síðasta ríkisstjórn er kjósendum líklega enn í of fersku minni.

Píratar náðu að koma inn manni í Reykjavík, sem telst góður árangur, en að sama skapi hlýtur það að vera þeim vonbrigði að það tókst ekki víðar.

Í heild sinni tel ég að ríkisstjórnarflokkarnir megi mjög vel við una.

Að sama skapi tekst stjórnarandstöðuflokkunum ekki að auka hlut sinn, þó ríkisstjórnin hafi þurft að stíga ölduna.  Líklega er síðasta ríkisstjórn kjósendum enn minnisstæð.  Björt framtíð nær þó eftirtektarverðum árangri og árangur Samfylkingarinnar er eftirtektarverður, en skrifast líklega meira á Dag en Samfylkinguna.

En það er rétt að hafa í huga að það er ekki það sama að vinna kosningar og "vinna" í meirihlutamyndunum.

En það sem er ekki hvað síst eftirtektarvert við þessar kosningar er minnkandi kjörsókn og hvað úrslitin í Reykjavík skera sig frá þeim meginlínum sem sjá má víðast hvar annarsstaðar.

Það er sitthvað landsbyggð og latte svo spilað sé aðeins með klisjurnar.

 

 

 


mbl.is D-listi stærstur nema í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Högg á lýðræðið

Þó að úrslit falli all verulega frá þeim skoðanakönnunum sem birst hafa undanfarna daga (sem er ástæða til að velta fyrir sér) er stærstu og verstu tíðindin í þessum niðurstöðum afar slök kjörsókn.

Að aðeins 63% kjósenda sjái ástæðu til þess að nýta atkvæðisrétt sinn er högg á lýðræðið og er virkileg ástæða til að hafa ahyggjur af þróuninni.

Að kosningaþátttakan skuli falla um 10 %stig á milli kosninga undirstrikar hve alvarlegt málið er.

Að einhverju marki má segja ástæðuna að lítil spenna var í kosningunum, margir töldu úrslitin nokkuð ráðin og skoðanakannanir gáfu það til kynna.

Einnig virðist sem svo að frambjóðendur hafi ekki náð að koma því til skila hve mikilvæg sveitarstjórnarmál eru fyrir kjósendur og hve mjög þau snerta líf þeirra.  Eflaust finnst einhverjum það ekki skipta máli hver það er sem mætir í "Star Wars búningi", eða stekkur alklæddur út í sundlaugar.  Það sé varla þess virði að ómaka sig á kjörstað til að ákveða slíkt.

En sigurvegari kosninganna í Reykjavík er Samfylkingin og ef til vill enn frekar Dagur Eggertsson.  Árangurinn i Reykjavík sker sig úr þegar litið er til árangurs Samfylkingarinnar víðast hvar annars staðar, og þó að meirihlutinn hafi fallið, er næsta ómögulegt annað en að Samfylkingin leiði næsta meirihluta og Dagur verði borgarstjóri.

Sjálfstæðisflokkurinn er næst stærsti flokkurinn og má þokkalega við una, ef miðað er við skoðanakannanir, en á alla aðra mælikvarða er árangurinn hræðilegur. Sértaklega ef miðað er við stöðu flokksins í borginni í sögulegu samhengi og hvernig gengi Sjálfstæðisflokksins er í öðrum stórum þettbýlisstöðum.  Flokkurinn hlýtur að fara í alvarlega sjálf(stæðisflokks)skoðun í Reykjavík

Björt framtíð tapar stórt í Reykjavík.  Þeir gera þó einnig kröfu til þess að teljast sigurvegarar,  þar sem BF hafi ekki boðið fram áður.  En það þýðir ekki að koma fram sem framhald Besta flokksins fyrir kosningar, eins og Björn Blöndal gerði trekk í trekk og þykjast svo vera nýtt og ótengt framboð eftir kosningar.  Björt framtíð tók upp listabókstaf Besta flokksins.

En það fer ekki hver sem er í "Star Wars" búninginn hans Jóns Gnarr og Björt framtíð seig hægt og rólega niður í skoðanakönnunum alla kosningabaráttuna.  Að fara úr 6 borgarfulltrúum 2 er afhroð.

Framsóknarflokkurinn kemur enn og aftur á óvart.  2 borgarfultrúar fara líklega fram úr þeirra björtustu vonum og flokkurinn hlýtur að teljast til sigurvegara þessara kosninga.  Þessi sigur Framsóknarmanna sýnir að það þarf að vera sýnilegur og í umræðunni.  Fjölmiðlaumfjöllun (bæði góð og slæm) hefur skilað flokknum þessum árangri.

Vinstri græn hafa sloppið fyrir horn og halda sínum manni.  Fyrir flokk í stjórnarandstöðu bæði í borg og á landsvísu og með vinsælan formann getur það ekki talist merkilegur árangur.  En ef þau komast í meirihluta getur það breytt miklu.

Píratar unnu sigur á síðustu metrunum.  Það er glæsilegur árangur þó að hann sé ekki jafn góður og skoðanakannanir gáfu til til kynna.  Fyrsti sveitarstjórnarfulltrúi Pírata er staðreynd.  Hugsanlegt er einnig að þeir komist í meirihluta og gefur þeim þá möguleika á að vekja frekar á sér athygli.

En hverjir verða þá í meirihluta?

Ég held að ekkert geti komið í veg fyrir að Samfylkingin og Björt framtíð verði í meirihlutasamstarfi.  En hvaða flokk eða flokka taka þeir með sér?

Þá vakna spurningarnar um VG eða Pírata eða hvort sterkast væri að bjóða þeim báðum að taka þátt í meirihutanum?

Það getur verið traust að vera með 9 manna meirihluta, en það "kostar" líka.  Ef ég ætti að spá þá myndi ég veðja á að annað hvort verði bæði VG og Píratar í meirihlutanum, eða eingöngu Píratar.

Slík spá byggir þó meira á tilfinningu, en pólítísku innsæi.

 

 

 


mbl.is Meirihlutinn fallinn í borginni - lokatölur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband