Önnur sýn á málið, en það byggja þó fleiri trúfélög kirkjur en þjóðkirkjan

Það er rétt að taka það fram í upphafi að ég tilheyri ekki þjóðkirkjunni (eða nokkru öðru trúfélagi) og er andsnúinn því að hún njóti forréttinda umfram önnur trúfélög.

En það virðist í fljótu bragði ekki vera hægt annað en að álíta að Brynjar Níelsson hafi mikið til sín máls. Það virðist hvergi vera til lagabókstafur sem skyldar sveitarfélög til að gefa öllum trúfélögum lóðir og undanskilja þær gatnagerðargjöldum.

Lögin virðast eingöngu tala um kirkjur, en svo má líklega deila um hvort að það hljóti ekki að gilda um aðra kristna söfnuði, sem þó standa utan þjóðkirkjunnar.  Eflaust geta einhverjir haldið því fram að lög um kristnisjóð gildi einungis um þjóðkirkjuna.

En nú hlýtur að standa upp á borgarfulltrúa og lögspekinga Reykjavíkurborgar að útskýra á hvaða lagalegu forsendum, þeir hafa ákveðið að gefa skuli öllum trúfélögum lóðir.

Eða er það einfaldlega vilji meirihluta borgarstjórnar og greiddi hún atkvæði um málið?

Sú röksemd að öll trúfélög eigi að vera jöfn fyrir lögunum, stenst ekki, því æðstu lög þjóðarinnar, sjálf stjórnarskráin, mismunar trúfélögum,  þjóðkirkjunni í hag, svo að enginn vafi leikur á.

Hitt er svo annað mál að að sjálfsögðu á að afnema forréttindi þjóðkirkjunnar, og hið opinbera á að hætta að innheimta félagsgjöld fyrir trúfélög og aðra klúbba, en það er annað mál.

En það er áríðandi að farið sé að lögum, hvort sem við erum sammála þeim eður ei.

 

 

 


mbl.is Ólöglegt að gefa trúfélögum lóðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valur Arnarson

Megir þú eiga miklar þakkir fyrir þessi öfgalausu og yfirveguðu skrif. Það mættu fleiri taka sér þetta til fyrirmyndar. Ég er svo hjartanlega sammála þér hér.

Valur Arnarson, 13.6.2014 kl. 23:26

2 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæll. Þú minnist á innheimtu sóknargjalda.

Í þessu sambandi megum við ekki gleyma að síðasta ríkisstjórn skar með ólögmætum hætti margsinnis á stjórnartíð sinni niður sóknargjöld til trúfélaga um marga tugi prósenta og hirti til annarra óskyldra verkefna þá aura sem af voru skornir. Sem kunnugt er þá var bætt við skattgreiðslurnar þessu félagsgjaldi skattgreiðanda aukalega fyrir ótal áratugum síðan til að skila til trúfélags viðkomandi og þar með er ráðstöfun sem þessi klárt lögbrot og varðar í raun sektum og fangelsisvist ef venjulegur maður gerði slíkt. Á þennan hátt svelti síðasta ríkisstjorn alla starfsemi trúfélaga þannig að mjög víða ramba sóknir þjóðkirkjunnar og trúfélög ýms á barmi gjaldþrots þrátt fyrir að hafa skorið niður starfsemi og útgjöld sín til mótvægis á þessu quadrennium horribilis sem þessi skelfingarstjórn stóð yfir.

Vel að merkja þá leyfði ríkisstjórn þessi sér slíkar aðgerðir þegar venjulegt fólk þurfti verulega á kirkju sinni að halda sem aldrei fyrr. Alþjóðlegt bankahrun var nýgengið yfir heimsbyggðina með tilheyrandi vandamálum og gengisfelling krónunnar varð enn meiri hjá okkur íslendingum vegna alls kyns glæfra útrásarböðla þjóðarinnar um langt skeið.

Við þessar aðstæður varð margt heimilið örbirgð að bráð og leitaði til sálusorgara síns um bæði andlega og fjárhagslega aðstoð. Sem fyrr segir er öll sálusorgun án endurgjalds hjá þjóðkirkjunni. Hitt er annað að fjármagn til að geta aðstoðað einstaklinga í neyð, sem átti jafnvel ekki fyrir mat handa börnum sínum hluta mánaðarins vegna mikilla útgjalda þar sem nauðþurftir höfðu hækkað í verði og veðlán heimilanna rokið upp úr öllu valdi með tiheyrandi auknum útgjöldum, var auðvitað af skornum skammti eftir slíkan ólögmætan niðurskurð.

Sama átti við um verðtryggða leigu þeirra sem á leigumarkaði voru. Sjóðir kirkjunnar eru fljótir að verða þurrausnir við slíkar aðstæður. Ég veit um presta sem gáfu úr eigin veski við erfið tilfelli sem þau sem ég nefndi því það er vitaskuld ekki auðvelt að þurfa að snúa grátbólginni einstæðri móður, sem ekki á til að kaupa matvæli handa ungviði sínu, á braut allslausri úr slíkri bónarför. Það er eitt að eiga erfitt, en erfið og níðþung eru þau skref fyrir móður í slíkum aðstæðum að fara til prestsins síns og óska eftir slíkri aðstoð og fáar gera slikt fyrr en öll önnur sund eru þeim lokuð.

Ég mun hér í sparnaðrskyni á tíma mínum setja hér inn hluta úr upprifjun sr. Gísla Jónassonar prófasts á þessu málefni :

„ Í þessu sambandi skal það rifjað upp að þegar undirritaður hóf störf sem sóknarprestur í Vík í Mýrdal árið 1982 tíðkaðist það enn að gjaldkeri sóknarnefndar gekk fyrir hvers manns dyr til að innheimta sóknargjaldið. Ég gekkst þess vegna fljótlega fyrir því að semja við sýslumanninn, sem á þeim tíma var innheimtumaður opinberra gjalda, um að hann annaðist þessa innheimtu svipað og gjaldheimtan í Reykjavík gerði þá fyrir söfnuðina í höfuðborginni.
Á þessum tíma vissu allir hverjum þessar tekjur tilheyrðu.

Þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp vildi ríkisvaldið útrýma öllum „nefsköttum“. Því var kirkjunni og öðrum trúfélögum gert það tilboð, að ríkið skyldi taka að sér að innheimta og síðan skila sóknargjöldum til réttra aðila, sem tiltekið hlutfall af tekjuskatti.

Var það fyrirkomulag síðan fest í lög með gildandi lögum um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987.
Í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga segir að það meginsjónarmið hafi verið haft við tillögugerðina að trúfélögin haldi tekjustofnum sínum óskertum, miðað við það sem þau hafi áður haft. Jafnframt sé mikilvægt að reglur sem settar verði tryggi stöðugleika á tekjustofnum þeirra.

Þá segir í greinargerðinni að kostir þeirrar leiðar, sem valin var við að reikna út og skipta umræddum gjöldum, séu einkum þeir að hún sé einföld í framkvæmd, hún tryggi til frambúðar stöðugleika á umræddum tekjustofnum og fylgi tekjubreytingum. Þetta auðveldi trúfélögunum að áætla tekjur sínar og byggja fjárhagsáætlanir á þeim.“

Flókið er þetta ekki og algerlega kýrskírt, en virðist samt velkjast fyrir svo mörgum.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 16.6.2014 kl. 19:39

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Þetta er ekki svo flókið, en samt fyllilega óeðlilegt og eðlilegast að hvert trúfélag innheimti fyrir sig.

Reyndar er þetta meira en rukkun, því menn eiga enga undankomuleið frá því að borga.  Þetta er hreinlega tekið eins og skattur.  En enginn nema ríki og sveitarfélög hafa heimild til skattlagningar, að því ég best veit.

Önnur félög, verða að fara þá leið að rukka og ef ekki er borgað endar oft með því að viðkomandi einstaklingur er 'strikaður út', það er að segja er ekki lengur talinn í félaginu.

Því væri lágmarks kurteisi að bjóða upp á þann valkost í skattframtali að 'haka við' hvort að viðkomandi vildi að dregið væri sóknargjald af launum hans.

Annað er hreinn yfirgangur.

Höfuðið er svo bitið af skömminni, með því að þeir sem engu trúfélagi tilheyra fá engan 'afslátt'.

Ég hef reyndar ekki búið á Íslandi um alllanga hríð, en mér skilst að sóknargjald sé ekki lengur sundurliðað á gjaldaseðli.  Því má líta svo á að trúfélög eigi ekki viðkomandi upphæð sem innheimt er, enda hún 'innifalin' í tekjuskatti.  Því getur ríkið líklega lagalega séð, ráðstafað þessu eins og því best sýnist.

Ef ég byggi á Íslandi, myndi ég líklega kæra það fyrir mannréttindadómstólnum (ég hef ekki mikla trú á að réttlæti fengist fyrir Íslenskum dómstólum í slíku máli), að sama upphæð væri dregin af mér, sem stendur utan trúfélaga, og þeim sem slíkt kjósa að gera.

Auðvitað má hugsa sér að setja upp kerfi, þar sem menn geta 'hakað við' og beðið um að dregið sé af sér félagsgjald í KR, Karlakórinn Þresti, Bílaklúbb Akureyrar, eða hvaðeina annað.  En ég er þeirrar skoðunar að best sé að ríkið haldi sig frá slíkri innheimtu.

G. Tómas Gunnarsson, 17.6.2014 kl. 08:31

4 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Þú hefur greinilega hvorki lesið innlegg mitt, lögin um soknargjald né greinargerð með lögunum. Nema þú sért einn þeirra sem átt erfitt með að lesa þér til gagns, eða notar aðferð Nelsons aðmirals og lest með blinda auganu það sé þér hentar.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 17.6.2014 kl. 12:43

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég las innleggið þitt frá upphafi til enda.  Hitt viðurkenni ég fúslega að ég las ekki, enda takmarkað hvað ég get leyft mér tímalega hvað þetta varðar eins og annað.

Ég er ekki að tala um að þetta sé ólöglegt, aðeins að þetta sé óeðlilegt.  

Lög eru lög og þeim ber að fara eftir, en þeim má, og oft er æskilegt að þeim sé breytt.  Um breytingu á einstökum lögum eru þó eðlilega skiptar skoðanir.

Hitt er svo að ef trúfélög sæju sjálf um innheimta (til þess að gera einfalt í gegnum banka nú orðið) er engin leið fyrir hið opinbera að skerða tekjur þeirra.

G. Tómas Gunnarsson, 17.6.2014 kl. 12:50

6 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Það er ólíku saman að jafna trúfélögum og lífsskoðanafélögum sem 99,9999 % landsmanna eru félagar í, fyrir utan þig og þessa aðra sem ekki vilja vera innan.

Eins og þú hefur þá lesið þá innheimtu víða sýslumenn og gjaldheimtan sóknargjöld gegn þóknun til sín fyrir innheimtuna. Þessu þótti eðlilegt að breyta þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp. I einstakri sókn getur vdrið um að ræða allt að 12.000 sóknarmenn og þar með stærra en hvaða íþróttafélag eða kór sem er og allt annar handleggur að innheimta hjá slíku batteríi. Ríkissjóðurætlar sér enn þóknun sem fyrr við innheimtu sóknargjaldanna.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 17.6.2014 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband