Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014
7.11.2014 | 14:19
Flugtak hjá Framsókn?
Það er alltaf varasamt að lesa of mikið út úr skoðanakönnunum og fylgisbreytingum í þeim. Í þessari könnun eru ekki miklar breytingar.
Ríkisstjórnin tapar örlitlu fylgi, en ekkert sem telst breyting, örlítið fylgi færist á milli stjórnarandstöðuflokkanna og sömuleiðis á milli stjórnarflokkanna.
En mér þykir að mörgu leyti styrking Framsóknarflokksins athyglisverðust og þá að sama skapi fylgistap Sjálfstæðisflokksins. Það stemmir nærri saman, munar 0.3 %stigum.
En það er viðsnúningur frá því sem verið hefur, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur náð að styrkja sig, en Framsókn sigið niður á við.
En að mínu áliti hefur fylgi flakkað nokkuð á milli þeirra og skoðanakannanir fyrir síðustu kosningar fannst mér gefa vísbendingar í þá átt. Ég veit líka um all marga sem fluttu sig frá Sjálfstæðisflokki yfir til Framsóknar fyrir síðustu kosningar, sumir sem höfðu aldrei merkt við annað en D.
Þeir höfðu síðan verið að fikra sig til baka, en núna virðist koma, ef til vill tímabundið, bakslag í það.
Það sem ég held að sé stærsti áhrifavaldurinn í þeim efnum, er Reykjavíkurflugvöllur. Þar hefur Framsóknarflokkurinn tekið mun einarðari afstöðu en Sjálfstæðisflokkurinn og það er að skila sér í fylgisaukningu nú.
Þó að það sjáist ekki í fréttinni, þá þykir mér líklegt að fylgisaukningin komi meira af landsbyggðinni, heldur en höfuðborgarsvæðinu.
33% stuðningur við ríkisstjórn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.11.2014 | 09:04
Grikkir eurosins
Það er ekkert nýtt að það séu talinn mistök að Grikkland skuli hafa tekið upp euroið. En sú ákvörðun hefur líklega verið tekin á pólítískum forsendum frekar en hagfræðilegum.
Og það er er einmitt þar sem euroið stendur í sparibauknum. Euroið virðist byggt jafn mikið á pólískum grunni og hagfræðilegum, ef ekki meira.
Fyrstu ríkin til að brjóta reglurnar voru Þýskaland og Frakkland og gerðu það refsingarlaust. Útlit er fyrir að þau bæði brjóti reglurnar á þessu ári og jafnvel næstu, með ólíkum hætti þó, og verður enn er útlit fyrir að það verði refsilaust.
Draghi, bankastjóri Seðlabanka Eurosvæðisins, hefur staðið sig að flestu leyti afar vel við að halda svæðinu saman, en þar er vissulega við ramman reip að draga. Þarfirnar enda breytilegar frá landi til lands og skoðanirnar ekki síður.
Þeir eru orðnir býsna margir og landregnir grikkirnir sem euroið hefur gert aðildarlöndunum.
Mistök að leyfa Grikkjum að taka upp evruna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.11.2014 | 07:50
Betra verð og stutt í jólin
Án þess að ég ætli að fullyrða um hvers vegna Íslendingar kjósa frekar að ferðast á haustin en að sumarlagi, dettur mér helst í hug að þar ráði verð, og svo aftur nánd við þá miklu gjafahátíð jólin.
Þar sem straumur erlendra ferðamanna til Íslands hefur margfaldast, þá verður eðlilega erfiðara að fá "gott fargjald" yfir háannatímann, það er að segja sumarið.
Það dregur líklega heldur ekki úr haustferðunum, að þá er komið nær jólum, og gott að versla jólagjafir erlendis. Sé rétt haldið á spöðunum ná líklega margir að "borga upp" ferðina, eða stóran hluta hennar með því sem þannig sparast.
Svo dæmi sé tekið, má spara á bilinu 5 til 6000 krónur, með því einu að kaupa sér lítersflösku af þokkalegu koníaki í Fríhöfninni. Sem er svo gott að dreypa á um jól og áramót.
Það er því hagstætt að skreppa til útlanda á haustin.
Íslendingar fara frekar út á haustin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.11.2014 | 07:34
25% af sögunni sögð
Það má vissulega taka undir það að tæp 500 þúsund króna mánaðarlaun eru ekki ofrausn fyrir lækna.
En það breytir vissulega miklu ef viðkomandi hefur þreföld þau laun í yfirvinnu.
Þó að vissulega taki líklega flestir undir það þeir vildu geta lifað af dagvinnulaunum, held ég að þær væru ekki færri sem vildu vita hvernig það er hægt að hafa 3svar sinnum hærri laun fyrir yfirvinnu, en dagvinnu.
Það er líklegt að mörgum entist ekki vinnuþrek til slíks, allra síst í krefjandi starfi.
En það er auðvitað ekki rétt að ræða kjaramál heillar stéttar út frá einu dæmi, sem er í þokkabót óstaðfest.
En ef við leyfum okkur að slíkt, og gefum okkur að rétt sé með farið, þá eru heildarlaunin u.þ.b. 2. milljónir.
Þó hlýtur líka að koma upp sú spurning hvort að ekki væri möguleiki að 2. eða þrír einstaklingar sinntu þessu starfi, með u.þ.b. 650.000 í laun, fyrir dagvinnu.
Því varla hefur viðkomandi einstaklingur unnið meira en samsvarar dagvinnu 3ja einstaklinga, það eru jú bara 24 tímar í sólarhringnum.
Ef til vill þarf að skera upp kerfið frá grunni.
Upplýsir ekki um heildarlaun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það er ekki langt síðan að ráðið var í stöðu stjóra Seðlabanka á Íslandi. Þrír af umsækjendunum þóttu hæfastir.
Eðlilega voru skiptar skoðanir um hver væri "bestur í djobbið". Ég held þó að segja megi að dæmt af skrifum í fjölmiðla, hafi Már Guðmundsson notið mestrar hylli. Ekki hvað síst hjá þeim sem segja má að séu hallir undir þá stjórnmálaflokka sem mynduðu síðustu ríkisstjórn. Ef til vill eðlilega, það var jú sú ríkisstjórn sem lagði á sig mikið umstang til að ráða Má.
Svo fór enda að Már Guðmundsson var endurskipaður seðlabankastjóri.
En nú ber svo við að sá sami seðlabankastjóri lýsir því yfir að staðan í Íslensku efnahagslífi sé að mörgu leyti öfundsverð.
Þá breytist nú heldur tónninn í garð seðlabankastjórans.
Hann sem var áður ómissandi fagmður, langbesti kosturinn til að gegna stöðu seðalbankastjóra og þar fram eftir götunum, er nú veruleikafirrtur, ómarktækur og þaðan af verra, sem er ekki ástæða til þess að hafa eftir.
En það er vissulega vandlifað í veröldinni og ekki síður í seðlabönkum - og það gildir ekki bara um þann Íslenska.
6.11.2014 | 11:25
Svo mælir stjórnmálamaður sem kjósendur höfnuðu
Það er líklega nokkuð teigjanleg skilgreining á því hver er stjórnmálamaður og hver ekki. En varla getur talist nokkur vafi á því að Þorvaldur Gylfason er stjórnmálamaður.
Ef ég man rétt var Þorvaldur ekki aðeins í fyrsta sæti á framboðslista, heldur var, eða er, formaður stjórnmálaflokks, Lýðræðisvaktarinnar.
Hvort að það dugi til þess að hann haldi sér í sem mestri fjarlægð frá stjórnarskránni og vinnu henni tengdri á eftir að koma í ljós.
En á ýmsan hátt má líklega segja að allri þeir sem buðu sig fram til stjórnlagaþings, hafi í raun orðið stjórnmálamenn, ef þeir voru það ekki fyrir.
En vissulega, eins og áður sagði, má líklega deila um skilgreinguna á því.
En persónulega lýst mér ekki vel á það að halda happdrætti um hverjir eigi að breyta stjórnarskránni.
Stjórnmálamönnum haldið frá málinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.11.2014 | 10:54
Leysir vandamál og skapar þau
Sívaxandi fólksflutningar hafa verið mikið til umræðu undanfarin misseri, ekki hvað síst í Evrópu og þá sérstaklega Evrópusambandinu.
Mikill fjöldi fólks, sérstaklega frá austur og suður Evrópu hefur leitað til landa í norður Evrópu í leit að vinnu og betri kjörum. Straumur flóttafólks frá Afríku hefur einnig beint kastljósinu að innflytjendamálum.
En frjáls för einstaklinga á milli ríkja "Sambandsins" er einn af hornsteinum þess, og meðan að aðildarríkin voru færri og einsleitari skapaði það engin vandamál. En með stækkun þess og aðild ríkja sem standa höllum fæti breyttust forsendurnar og flæðið.
Og auðvitað eru margar jákvæðar hliðar á fólksflutningum sem þessum.
Ekki hvað síst að ungt fólk hleypir heimdraganum og fær atvinnu, sem er oft of skornum skammti heimafyrir. Það fær hærri laun og nýtir menntun sína oft betur.
Lönd eins og Þýskaland hefur einnig hag af innflytjendu (eins og fram kemur í frétt BBC), enda fæðingaríðni lág og landið þarf á auknu vinnuafli að halda. Sérstaklega er skortur á starfsfólki í ýmis sérhæfð störf.
Þetta styrkir Þýska velferðarkerfið og Þýsk fyrirtæki sem ella kynnu að lenda í erfiðleikum.
Þess utan spara ríkin sem einstaklingarnir flytja frá í atvinnuleysisbótum og annari félagslegri þjónustu.
En til lengri tíma litið aukast vandamálin hjá ríkjunum sem einstaklingarnir flytja frá.
Þegar stórir hópar ungs fólks flytur á brott, breytist aldurssamsetningin verulega til hins verra. Það hefur slæm áhrif á velferðarkerfin, enda greiðslur lífeyris og annars slíks oftar en ekki byggðar á gegnumstreymi í ríkiskassanum.
Ríkin hafa einnig lagt út á mikinn kostnað við menntun ungs fólks, sem síðan skilar fyrst og fremst arði fyrir önnur ríki. Skortur verður á sérhæfðu starfsfólki, sem hefur slæm áhrif á t.d. menntun og heilbrigðisþjónustu og verður einnig til þess að fyrirtæki flytja á brott.
Aukin fjöldi innflytjenda verður einnig til þess að laun hækka síður í löndunum sem flutt er til, sem aftur verður til þess að fyrirtæki hafa síður áhuga á því að flytja starfsemi sína til "jaðarlanda".
Þannig eru fólksfjöldaspár fyrir mörg lönd A-Evrópu sem eru í "Sambandinu" afar neikvæðar, sem mun ef gengur eftir skapa fjöldann allan af vandamálum sem fylgir fækkun íbúa, en fjölgun lífeyrisþega. Mörg ríkjanna eru engan veginn í stakk búinn til að takast á við slíkan vanda.
Skammtímahagsmunirnir (sem eru þó ekki án vandamála) eru augljósir, en vandamálin er erfiðara að festa hendur á, enda flest þeirra líklega frekar að finna í framtíðinni.
Innflytjendur streyma til Þýskalands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.11.2014 | 09:55
Hinn pólítíski armur Fríhafnarinnar?
Það hljómar skringilega, að sama ríkisvaldið og ákveður álögur, s.s. vörugjöld, tolla, áfengisskatta og virðisaukaskatt, skuli jafnframt reka verslun sem er undanskilin þessum sömu álögum.
Því hærri sem álögurnar eru, því meiri er hvatinn til að kaupa vörur í verslun ríkisins.
Hljómar næstum eins og óeðlilegt samráð. Svona eins og Fríhöfnin hafi pólítískan stuðning til að auka hjá sér viðskiptin.
En því hærri sem álögurnar eru, færist meira af viðskiptunum frá hinum hefðbundnu Íslensku verslunum, ekki aðeins til Fríhafnarinnar eða annara þeirra sem versla í flugstöðinni, heldur ekki síður hreinlega erlendis.
Sömuleiðis aukast "fríðindi" þeirra sem ferðast til útlanda, á kostnað þeirra sem "heima sitja".
Það er því þarft mál að draga úr álögum og flytja verslunina í meira mæli "inn í landið".
Ríkið með þriðjungshlutdeild | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.11.2014 | 07:57
Þrjár fréttir
Þegar ég las þessa frétt (sem þessi færsla er hengd við), og hafði einnig lesið þessa frétt (sem ég sá bent á í annari bloggfærslu), datt mér í hug þessi frétt.
Þegar þessar þrjár fréttir eru lesnar saman og einnig leitað fanga í upprunalegu heimildinni, er auðvelt að draga þá ályktun að fyrirsögn fréttar Kjarnans, er ekki röng, en villandi.
Persónulega hef ég líka fulla trú á þeirri niðurstöðu að fyrirsögnin hafi áhrif á lestur frétta.
Ég get ekki dregið fengið þá niðurstöðu að fyrirsögnin hafi náð kjarna fréttarinnar. En ef til vill var það heldur ekki ætlunin?
Minnst hætta á fátækt á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.11.2014 | 12:10
Æ fleiri Bretar segja nei við Brussel
Það er ljóst að óánægja Breta með Evrópusambandið fer frekar vaxandi heldur en hitt. Nýlegar fréttir um hækkun á framlagi þeirra til "Sambandsins" um 1.7 milljarða punda, ef ég man rétt, hefur ekki fallið í góðan jarðveg, eða fengið kærleikann til að svífa um í Bretlandi.
Ég held að varla verði deilt um réttmæti þessarar hækkunar. Öfugt við flest önnur lönd "Sambandsins" hefur efnahagur Bretlands vaxið vel (og svo stækkaði hann verulegur þegar vændi, neysla ólöglegra vímuefna og glæpastarfsemi var tekin með í reikningin), og því hlutfallslega stærri hlutur af efnahag "Sambandsins".
En þessar "fréttir" gætu varla hafa komið á verri tíma. Eins og áður segir er vaxandi vilji á meðal Breta að endurheimta völd frá Brussel og ráða meira eigin málum. Eitt af meginstefnumálum Íhaldsflokksins er einmitt í þá átt.
Aukin framlög til sameiginlegra sjóða "Sambandsins" fellur því í afar grýttan jarðveg um þessar mundir.
Uppgangur UKIP, aukakosningar í Rochester, er ekki jarðvegurinn sem þessar fréttir fellur vel að.
Tal um að nauðsynlegt sé að Bretar geti sett takmörk á inflytjendur frá öðrum löndum "Sambandsins" verður síðan æ háværari, það er ekki eingöngu UKIP og Íhaldsflokkurinn sem tala á þann veg. Æ fleiri þingmenn Verkamannaflokksins taka undir þann málflutning, og formaðurinn Miliband, sagði nýlega að það hefðu verið mistök að setja ekki frekari takmörk gegn því árið 2003 og/eða 2004.
Fleiri Bretar vilja úr Evrópusambandinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |