Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014
4.11.2014 | 06:14
Auðvitað eru sóknargjöld félagsgjöld
Persónulega finnst mér það liggja í augum uppi að sóknargjöld eru félagsgjöld. Þau eru greidd fyrir þá (af ríkinu) sem eru félagar í viðkomandi félögum.
Hvers vegna ríkið er að innheimta félagsgjöld fyrir sum félög í landinu en önnur ekki, er mér svo hulin ráðgáta.
Ef til vill hyggst ríkið bjóða öllum félagasamtökum í landinu upp á þennan kost?
Hitt er ennþá óskiljanlegra, hvers vegna ríkið innheimtir hið sama félagsgjald af þeim sem ekki eru í neinum af þeim félgasamtökum sem ríkið innheimtir fyrir.
Það er sjálfsögð krafa að félagsgjöld verði aðeins innheimt af þeim sem eru í þeim félögum sem ríkið innheimtir fyrir og að val verði um hvort að gjaldið sé innheimt með sköttum eður ei.
Með nútíma tækni er til dæmis sára einfalt að bjóða upp á þann valmöguleika, t.d. með því að á skattskýrslu sé boðið að haka við möguleikann: Ég óska að sóknargjald mitt .... (upphæð) sé innheimt með sköttum.
Annað er hrein hneysa og jaðrar við mannréttindabrot.
Telur sóknargjöld vera félagsgjöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.11.2014 | 18:30
Er yenið ónýtur gjaldmiðill?
Á undanförnum árum hafa margið haldið því fram að Íslenska krónan sé "ónýtur gjaldmiðill". Hún hafi lítið gert nema að falla og endanlega "eyðilagst" í bankahruninu.
En ég hef marg oft áður skrifað hér um mismunandi gengi gjaldmiðla. Og hvernig það sveiflast upp og niður.
Yenið er hins vegar gjaldmiðill stórþjóðar og eins af stærri efnahagsveldum heims. Ef ég man rétt er yenið í 3ja sæti yfir gjaldmiðla hvað varðar gjaldeyrisviðskipti og í 4ja sæti hvað varðar hlutdeild gjaldmiðla í gjaldeyrisvarasjóðum.
En samt sveiflast gengi yensins verulega. Frá því um ca. mitt ár 2012 hefur yenið fallið um u.þ.b. 40% gegn gjaldmiðlum eins og hinum Bandaríska dollar og euroinu.
(hægt að að smella á gröfin til að sjá þau stærri)
Þetta stóra gengisfall yensins má sjá hér að ofan. Meira að segja gegn hinni Íslensku krónu hefur yenið fallið, og það verulega, en það er ef til vill ekki óhlutdrægt viðmið, enda Íslenska krónan í höftum eins og allir þekkja.
En þýðir þetta að yenið sé "ónýtt"? Ættu Japanir að taka upp annan gjaldmiðil? Eða ættu þeir að leitast eftir að sameinast öðru ríki?
Það má meira en vera að einhverjir Japanir séu þeirrar skoðunar, en ég hef engan heyrt tala á þann veg í fullri alvöru.
En hvers vegna fellur gjaldmiðill eins mesta efnahagsveldis heims með þessum hætti?
Í stuttu máli er það vegna þess að Japanir vilja að hann falli. Seðlabankinn dælir út yenum eins og enginn sé morgundagurinn, í þeirri von að verðbólga nái sér á strik og sömuleiðis til að hrista upp í efnahagslífi sem var í stöðnum og verðsamdrætti. Svipuðu ástandi og blasir nú við Eurosvæðinu, ef ekki tekst að snúa þróuninni þar við.
En Japan er ekki komið á rétt ról enn, og enn eru prentuð yen af feiknarkrafti. En atvinnuleysi hefur farið minnkandi (var þó aldrei verulega hátt, japönsk fyrirtæki segja ekki svo glatt upp starfsfólki), og nú eru Japönsk fyrirtæki farinn að tala um að flytja verksmiðjur heim frá Kína. Yenið hefur enda fallið gagnvart Kínverska yuaninu, um u.þ.b. 50%.
En þó að Japan sé að reyna að hrista slenið úr sínu efnahagskerfi, og hafi í upphafi verið að veikja gjaldmiðil sinn, sem flestir viðurkenndu að var alltof hátt skráður, er veikingin komin á það stig að nágrannaríkjum (og reyndar fleirum) er að verða um og ó. Sumir spá því að á bresti "gjaldmiðlastríð" innan tíðar, þar sem fleiri ríki munu vilja veikja gjaldmiðla sína. Aðrir segja að það sé þegar skollið á.
En er yenið þá ónýtur gjaldmiðill á fallanda fæti?
Auðvitað ekki. En yenið sýnir að Japanir misstu tök á efnahagslífi sínu. Stór fasteignabóla og síðan stöðnun og drungi í rúman áraug. Týndi áraugurinn í Japan.
Þeir eru hins vegar að leita leiða til að keyra efnahagslífið af stað og yenið er stór þáttur í þeirri viðleitni.
En auðvitað rýrna laun og innistæður í yenum. Innfluttar vörur hækka í verði. Þann þátt ættu flestir að þekkja.
En of sterkur gjaldmiðill er engin blessun, það þekkja Japanir.
En yenið fellur, það hefur ekki alltaf verið svoleiðis. Hér fyrir neðan má sjá línurit yfir gengisþróun á milli Bandarísks dollar og yens frá 1975 til 1995. Þá styrktist yenið ár frá ári að segja má, í takt við vaxandi styrk Japansks efnahagslífs.
En það er einmitt efnahagslífið og efnahagsstjórnunina sem gjaldmiðillinn endurspeglar.
3.11.2014 | 14:15
"Sambandið" er ekki hlaðborð
Það yrði vissulega verulegt áfall fyrir "Sambandið", ef niðurstaðan verður sú að Bretland ákveði að ganga úr því.
Það er vel skiljanlegt að Bretar vilji breyta áherslum í "Sambandinu", endurheimta völd heim til London og leggja fyrst og fremst kraft í "innri markaðinn", en snúa við samrunaferlinu og snúa af þeirri leið að til verði "Bandaríki Evrópu".
En fyrir því er ekki meirihluti í "Sambandinu". Þar liggja allar leiðir til Brussel og jafnt og þétt er spægipylsan skorin, í átt að ríki "Sambandsins".
Og eins og frú Merkel bendir réttilega á, er "Sambandið" ekki hlaðborð, þar sem aðildarríki geta valið aðeins þá "rétti" sem þeir telja henta sínum bragðlaukum.
Bretar geta ekki skotið sér undan reglunum og haldið aðild.
Í raun er auðvelt að skilja sjónarmið frú Merkel og hinna aðildarríkjanna. Ef öll aðildarríkin vilja breyta sáttmálum "Sambandsins", eða fá viðamiklar undanþágur frá þeim, verður "Sambandið" allt annað, en það sem stefnt er að.
Það er því í raun eðlileg krafa að Bretar aðlagi sig að "Sambandinu", eða yfirgefi það ella.
Í raun má segja að Íslendingar hafi rekið sig á með líkum hætti. Þess vegna var rýniskýrslan um sjávarútveg aldrei afhent. Skilyrði þau sem Alþingi setti, voru með þeim hætti að "Sambandinu" var ljóst að Íslendingar ætluðu ekki að aðlaga sig að "Sambandinu". Því var viðræðum svo gott sem sjálfhætt.
Þess vegna þurfti stjórn Jóhönnu og Steingríms, að setja viðræðurnar við "Sambandið", undir stjórn Össurar, í saltpækil. Þar hafa þær verið síðan.
Íslendingar komust að því, rétt eins og Bretar eru að komast að nú, að "Sambandið" er ekki hlaðborð.
Þess vegna er löngu tímabært að hella pæklinum af umsókninni og slíta henni formlega.
P.S. "Samband" án Breta, ef þeir svo segja sig úr því, er enn síðri kostur fyrir Íslendinga.
Merkel ræðir mögulegt brotthvarf Breta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |