Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

Óeðlileg upplýsingaöflun?

Ég held að fáum komi á óvart að einhverjum upplýsingum hafi verið safnað um starfsemi kommúnista á Íslandi, allra síst þeim sjálfum.

Eins og kemur fram í fréttinni, voru unnar skýrslur upp úr upplýsingunum og jafnframt birtar fréttir í Morgunblaðinu sem byggðu á upplýsingunum.  Að hluta til var þetta því einfaldlega blaðamennska, líklega það sem kallað væri í dag rannsóknarblaðamennska.

Ég reikna með því að Íslenskir kommúnistar hafi sömuleiðis fundið það út sjálfir, að fylgst var með þeim að einhverju marki og einhverjir "heimildarmenn" hafi starfað innan þeirra raða.  Þeim hlýtur að hafa verið það ljóst þegar fréttirnar birtust og jafnframt t.d. Rauða bókin - Leyniskýrslur SÍA, sem Heimdallur gaf út fyrst 1962, ef ég man rétt.

En að hluta til ber þetta auðvitað vitni um "veröld sem var".  Samfélög voru meira "póleruð" og "samsærin" leyndust víða. Þannig man ég til dæmis eftir því að áttunda áratugnum að hafa heyrt af einum "hörðum vinstrimanni" sem gjarna stóð nálægt Frímúrarahúsi og skrifaði niður hverjir mættu, því það "þeim andskotum þurfit að fylgjast með".

En svo má líka velta því fyrir sér hvers vegna Íslendingar eru svo gjarnir á að telja sér trú um að allt það sem er að "gerast í útlöndum" gerist ekki á Íslandi.

Það á jafnt við "upplýsingaöflun" og "njósnir", sem og að sakleysi kommúnista á Íslandi hafi verið slíkt að þeir hafi verið eins og skátaflokkur í samanburði við kommúnisthreyfingar víða um lönd.

Enn enn eimir eftir af þessum hugsunarhætti. Auðvitað er engin hætta á því að hryðjuverk eigi sér stað á Íslandi, nú eða að Íslenskir múslimar gangi til liðs við "Islamic State", eða að njósnir eigi sér enn stað á Íslandi.

En Íslendingar eru langt í frá einir um slíkar hugsanir, og ég hygg að þær séu víðast hvar í hinum "smærri" ríkjum.

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Leyniskýrslur um „komma“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lauk kalda stríðinu einhvern tíma?

Nú þegar liðið er ríflega hálft ár síðan Rússar réðust inn í Ukraínu (því í raun er ekki hægt að kalla þetta annað en innrás), er ennþá verið að tala um hættu á "köldu stríði".

Það er líklega vafamál hvort að Ukraínumönnum finnist stríðið kalt, þó að ég efist ekki um að þeir eigi eftir að finna fyrir kuldanum í vetur.

En lauk kalda stríðinu svokallaða einhverntímann?  Þó að einhver hlýnum hafi átt sér stað á hnettinum, held ég að í raun megi leyfa sér að efast verulega þar um.  Þó að fall Berlínarmúrsins og Sovétríkjanna hafi vissulega breytt heimsmyndinni, eru breytingarnar ekki eins miklar og oft er af látið og ef til vill minnstar í hugum margra.

Enn virðast margir trúa að eina leiðin til jafnvægis í veröldinni sé að ríki eins og Rússland hafi vald yfir nágrannalöndum sínum mörgum málum.

Engu skipti hver vilji almennings eða stjórnvalda í ríkjum sem liggja að Rússlandi sé, til að "friður geti ríkt á okkar tímum", verði þau að sætta við að teljast á "yfirráðasvæði" Rússa.

Hjá mörgum virðist hugsunarhátturinn ekki hafa breyst meira en þetta á þeim 25 árum sem liðin eru frá því að "Járntjaldið" féll. Fall "Járntjaldsins", breytti því í mörgum tilfellum litlu um þankaganginn.

Þó er engin leið til að segja að Rússum standi ógn af nágrannaríkjum sínum í Evrópu, eða af herjum ríkja Evrópusambandsins.  Fréttir af þeim eru flestar á einn veg, þeir eru fjársveltir og tæki þeirra og tól ekki í góðu ásigkomulagi.

Efnahagslega má hins vegar vel rökstyðja að Rússum finnist sér ógnað.

Rússar hafa enda reynt og viljað bindast nágrannalöndum sínum nánari efnahagslegum böndum.  En þeir hafa lítið upp á að bjóða, nema orku og yfirgang, og jú innflutningsmarkað sem vissulega margir renna hýru auga til.  Íbúafjöldinn er þrátt fyrir allt ríflega 140 milljónir, þó hann hafi stöðugt leitað niður á við.

Og ef til vill er það hluti vandamálsins.  Rússland vill að aðrir líta á sig sem stórveldi.  En það er ekki of mikið eftir af fornri frægð.  Vissulega nær það yfir gríðarlegan landmassa, og er enn stærsta ríki heims að flatarmáli. Náttúrulegar auðlindir eru gríðarlegar.

En eins og áður sagði fer íbúunum fækkandi og efnahagurinn er ekki í blóma, þó að tekjur af orkusölu hafi verið mjög góðar undanfarin ár.

Vandamálið er að Rússland hefur lítið upp á að bjóða utan orkunnar. Ef ég hef skilið rétt, eru aðrar útflutningsvörur aðeins u.þ.b. 8% af þjóðarframleiðslunni.  En þjóðarframleiðslan er nokkuð á pari við Kalíforníu, þar sem búa ríflega 38 milljónir.

Það er því ekki að undra að nágrannaríki vilji horfa annað, frekar en að njörva sig niður í bandalagi með Rússum.

Yfirlýsingar Putins um að Ribbentrop/Molotov samningurinn hafi verið eðlileg gjörð, fær svo hrollinn til að hríslast um flesta í mið og A-Evrópu og "Sputnik" áform þeirra í "fjölmiðlarekstri" er heldur ekki líkleg til að róa öldurnar sem risið hafa upp á síðkastið.  Yfirlýsingar Putins um kjarnorkuvopn er svo rétt að hafa í huga, en í raun er það líklega það eina sem viðheldur kröfu Rússa um að teljast "stórveldi".

Það er í raun ekki hægt að draga þá ályktun að kalda stríðinu hafi nokkurn tíma lokið, þó að vissulega hafi brestir komið í ísinn á tímabili.

Þeir sem duglegastir eru við "ísframleiðsluna" eru Rússar sjálfir.  Þeir hafa ekki náð að yfirvinna tortryggni sína gagnvart öðrum þjóðum og þegar minnimáttarkennd og söknuður eftir horfnum "status" bætist við, verður til hættuleg blanda.

 

 


mbl.is Varar við öðru köldu stríði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómur sem getur haft umtalsverð áhrif

Það hefur verið rökrætt, ef ekki beint rifist nokkuð um málefni innflytjenda í Evrópusambandinu undanfarið.  Ekki síst um þá sem flytja sig á milli landa "Sambandsins".

Þessi dómur mun áreiðanlega hafa þó nokkur áhrif, og mun verða til þess að ríki, s.s. Bretland muni láta reyna frekar á aðgerðir gegn "bóta innflytjendum", sem hafa verið mikið í umræðunni þar.

En vilji Breta stendur til að takmarka fjölda innflytjenda, en það er nokkuð sem ég sé ekki gerast í bráð. 

En þessi dómur mun líka hafa mikil áhrif í Þýskalandi, því þó að umræðan sé þar með öðru sniði en í Bretlandi, hafa sveitarfélög líst vandræðaástandi, og segjast ekki ráða við sívaxandi innlytjendastraum.

Þar hefur hinn nýji flokkur, AFD, sótt verulega á í fylkiskosningum og náði sömuleiðis árangi til kosningum til Evrópusambandsþingsins.  Fylgisaukning hans er að stórum hluta sótt til Kristilegra demókrata, flokks Merkel.  En AFD hefur lagt mesta áherslu á innflytjendamál og að leggja niður euroið með skipulegum hætti.

Ég held því að óhætt sé að álykta að þessi dómur Evrópusambandsdómstólsins (hann hefur ekkert vald í Evrópu, utan "Sambandsríkjanna) muni auka umræðuna um innflytjendur, og hvernig lögum og reglugerðum þeim tengdum sé best háttað, ekki hvað síst hvað varðar bætur og félagsleg réttindi.

Ekki hvað síst í Bretlandi, þar sem kosið verður til þings á næsta ári, og Íhaldsflokkurinn, með Cameron í broddi fylkingar, er með breytingar á sambandi Breta og "Sambandsins", ekki hvað síst í innflytjenda málum, sem mikilvægan póst í baráttunni.

 

 


mbl.is Mega hafna innflytjendum um bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að setja krónurnar þar sem kjafturinn er

"Put your money where your mouth is", er máltæki sem oft má heyra á Ensku. 

Nú er það notað gegn þeim sem sóttu um "leiðréttingu" á lánum sínum, en voru annað hvort á móti því að af "leiðréttingu" yrði eða hafa lýst því yfir að þeir geti komist af án hennar og ráði við sín lán.

Og vissulega má segja að þeir hefðu getað látið það vera að sækja um, því "leiðréttingin" er valfrjáls.  Engum bar skylda til þess að sækjast eftir henni.

En mér þykja þetta alltaf frekar þunn rök.

Svona rétt eins og þeir sem eru þeirrar skoðunar að skattar séu of háir, ættu ekki að þiggja barna- eða vaxtabætur.  Eða að frjálshyggjumaður ætti að skammast sín fyrir að vinna hjá ríkinu.  Að "Sambandssinnar" ættu einfaldlega að flytja í "Sambandið".  Nú eða að sósíalistar ættu ekki að reka fyrirtæki og hafa af því góðan arð.

Flest kjósum við að aðlaga okkur þeim veruleika sem við búum við, hvort sem við erum alfarið sátt við hvernig hann er.  Margir berjast fyrir breytingum, en verða að sætta sig við að verða undir - og aðlaga sig því sem er.

Þannig er engin skömm að því fyrir þá sem eru ósáttir við "leiðréttinguna" að þiggja hana.  Þeir geta síðan gert við féð það sem þeir kjósa, notað þá upphæð sem afborganir þeirra lækka til að gera vel við sjálfan sig, eða gefið það öðrum.

P.S.  Eins og ég hef sagt áður hef ég ekki mjög sterkar skoðanir á "leiðréttingunni". Hef sagt að í prinsippinu sé ég á móti henni, en sé tekið tillit til þess hve umfangsmikinn part af lífi og fjármálum einstaklinga hið opinbera sé fari að taka yfir sé þetta "skiljanlegt" framhald.


mbl.is Hvetur Björk til að hafna leiðréttingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir þurfa að horfast í augu við gjörðir sínar

Það verða allir að horfast í augu við gjörðir sínar.  En flestir hafa líklega einhvern tíma fallið í þá freistingu að reyna að forðast að gera það fyrir annara augum.

En fyrir þá sem taka þátt í stjórnmálum og starfa fyrir almenning og þiggja laun af skattfé hans, er hægt og á að gera meiri kröfur til.

Ég skal fúslega viðurkenna að ég hef aldrei sett mig til hlýtar inn í "lekamálið", en það er ljóst að það fellur í flokk með málum sem hafa vaxið eins og snjóbolti, vegna lyga, undanfærslna og óheiðarleika.

Málið vatt upp á sig og öðlaðist sjálfstætt líf, vegna þess að Gísli kaus að horfast aðeins í augu við gjörðir sínar í einrúmi.

 

 


mbl.is „Verð að horfast í augu við gjörðir mínar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríki lífeyrissjóðanna

Staða Íslensku lífeyrissjóðanna á fjármálamarkaði er gríðarlega sterk. Líklega of sterk að margra mati. 

Bæði eiga þeir of stóran hluta af Íslensku Kauphöllinni, og svo er Íslenska Kauphöllin orðin of stór hluti af eigum þeirra.  Þannig gerist þetta undir fjármagnshöftum.

En hluti þeirra í af Íslenskum fyrirtækjum og í einstökum fyrirtækjum er líka orðinn það stór að lífeyrissjóðir geta ekki verið "þögulir fjárfestar".

Lífeyrissjóðir verða að taka fulla ábyrgð á gjörðum og rekstri fyrirtækjanna, þar með talinni launastefnu.

Svo má líka velta upp þeirri spurningu hvort að lífeyrissjóðir geti talist tengdir aðilar með ráðandi stöðu á markaði?

 

 

 

 

 


mbl.is Lífeyrissjóðirnir með 43%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sambandið"; Juncker og skattasiðferðið

Eðlilega hefur mikið verið fjallað um uppljóstranir um hagstæða skattasamninga sem yfirvöld í Luxemborg hafa gert við mörg fjölþjóðleg fyrirtæki. Margir búast við að aðeins toppurinn af ísjakanum sé sjáanlegur.

Heldur er farið að hitna undir forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean Claude Juncker, en hann var einmitt forsætisráðherra Luxemborgar, stóran hluta þess tíma sem uppljóstranirnar ná til.

Ýmsir hafa einnig rifjað upp ræðu sem hann hélt í Brussel í júlí síðastliðnum, en þar mun hann hafa lofað m.a.:

“fight tax evasion and tax dumping… We will try to put some morality, some ethics, into the European tax landscape.”

Í viðtali við Þýska sjónvarpsstöð lét hann hafa eftir sér:
 
“No one has ever been able to make a convincing and thorough case to me that Luxembourg is a tax haven. Luxembourg employs tax rules that are in full accordance with European law.”
 
 
Ekkert hefur enn komið fram sem bendir til þess að Luxemborg hafi brotið nein lög, þar fer Juncker með rétt mál.  En að halda því fram að Luxemborg sé ekki skattaskjól, er ég ekki viss um að margir séu tilbúnir að skrifa undir nú.  Og hvað siðferðið varðar er best að hafa sem fæst orð.
 
En ef til vill þarf þetta ekki að koma á óvart, komandi frá stjórnmálamanni, sem frægasta "kvót" er:  "when it becomes serious, you have to lie".
 
P.S. Inndregnu tilvitnanirnar eru fengnar frá Business Insider.
 
 

 

 


Fjórðungur aldar án "Brjóstvarnar gegn fasisma"

Það er vert að fagna því að fjórðungur aldar skuli liðinn frá því að Berlínarmúrinn féll. Í ríflega 28 ár stóð hann og skipti Berlín og Þýskalandi í tvennt.

Enginn veit hvað margir létu lífið við að reyna að komast yfir eða undir hann. En talað er um allt að 1200 einstaklingar hafi týnt lífinu við múrinn (aðrar tölur og allt niður í 100 eru einnig nefndar).

Talið er að um og yfir 5000 flóttatilraunir hafi átt sér stað, en enginn veita þá sögu alla.

Ég held að segja megi að Berlínarmúrinn eigi sér enga hliðstæðu í sögunni, nema fangelsismúra.  Hann var ekki byggður til að halda neinum "úti", heldur til að hindra að nokkur íbúanna gæti farið.

Útskýringar A-Þýskra stjórnvalda voru þó í þá átt að múrinn væri "Brjóstvörn gegn fasisma". (Antifaschistischer Schutzwall, á Þýsku, en Enska heitið var -, Anti-Fascist Protection Rampart).

Það er vert að hafa það í huga, nú þegar talað er um að nýtt kalt stríð sé yfivofandi eða þegar hafið.  Svipað tungutak er nú þegar farið að heyrast. Allt er hægt að afsaka með "baráttunni gegn fasismanum".

En kalt stríð er líkast til hafið fyrir all löngu, þó að íbúum Ukraínu þyki það líklega full heitt.  Þeir hafa þegar tapað ríki sínu að hluta og verður að teljast líklegt að Ukraína eins og við höfum þekkt hana sem sjálfstætt ríki sé verði hér eftir aðeins fundin á spjöldum sögunnar.

Hvernig ný og breytt Ukraína mun líta út á eftir að koma í ljós, og ekki víst að hún verði til.

En það er rétt að óska Þjóðverjum og í raun heimsbyggðinni allri til hamingju með daginn, sem vissulega markaði djúp spor í söguna.

 


mbl.is Berlínarmúrinn á allra vörum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta eru latte asnar Einar

Það er auðvitað með eindæmum að í 320.000 manna samfélagi skuli ekki hvert sveitarfélag hafa óskorað skipulagsvald innan marka sveitarfélagsins.

Það er auðvitað með eindæmum að eitthvað landsbyggðarhyski ætli að þvælast fyrir skipulagsvaldi Reykjavíkurborgar.

Það er auðvitað hneyksli að ríkisvaldið skuli telja sig þess umbúið að taka taka skipulagsvald af Reykjavíkurborg.

Rétt eins og það er auðvitað hneyksli að ríkisvaldið skuli vera að skipta sér af nýtingu fallvatna út á landi. Ættu ekki viðkomandi sveitarfélög að geta skipulagt á sínu landsvæði óáreitt?  Eru virkjanir ekki fyrst og fremst skipulagsmál?

Er ekki nóg að umhverfisnefnd hvers sveitarfélags fjalli um skipulag innan sveitarfélagsins?

Og sumarhús og hótelbyggð á Þingvöllum, er það ekki skipulagsákvörðun Bláskógabyggðar?

Og ef koma upp hugmyndir um að byggja vatnsrennibraut út í Jökulsárlón, er það ekki einfaldlega ákvörðun viðkomandi skipulagsyfirvalda?

Eiga einhverjir "latte asnar" að vera að skipta sér af því hvernig skipulagt er út á landi?

Er ekki rétt að "landsbyggðarhyskið" ráði sínum eigin skipulagsmálum?

Væri það ekki í fullum rétti að segja við þá sem andmæltu, "þetta eru latte asnar, Einar".

Og svo er það kvótinn.  Er ekki rétt að þau byggðarlög sem eiga land að fiskimiðunum ákveði hvernig honum er skipt?

Þurfa einhverjir lattelepjandi fiskifræðingar að koma að því?

Er ekki best að "hyskið" í hverjum landsfjórðungi ákveði það? Eða er rökréttara að miða við hvað langa strandlengju hvert kjördæmi á að viðkomandi fiskimiðum?

 

 


Lúxus borgar skattur

Uppljóstranir um skattasamninga ýmissa alþjóðlegra fyrirtækja við hertogadæmið í Luxemborg hafa eðlilega vakið mikla athygli. Vissulega eru þetta ekki nýjar fregnir, en nú voru lagðar fram býsna viðamiklar sannanir fyrir því sem áður hefur aðeins verið "talað um".

Áður en lengra er haldið, verður að taka það fram að ekki er talið að um nein lögbrot sé um að ræða af hálfu fyrirtækjanna.  Hvað Luxemborg varðar er heldur ekki um bein lögbrot að ræða, ESB hefur ekki lögsögu í skattaákvörðunum, en líklegt er talið að gjörðirnar gætu stangast á við reglugerðir um ríkisaðstoð innan Evrópusambandsins.

Þetta flokkast líklega frekast undir það sem oft er kallað á Íslensku, "löglegt en siðlaust".

En þó að fáum hafi líklega komið það á óvart að Luxemborg aðstoðaði við "skapandi skattframtöl", hygg ég að hve langt hafi verið seilst hafi komið mörgum á óvart.  Það að fyrirtæki hafi greitt allt niður í 1% skatt af þeim tekjum sem þau "veittu" í gegnum Luxemborg og hægt hafi verið að semja um fastar upphæðir er nokkuð sem ég held að fáir hafi ímyndað sér.

Að sjálfsögðu vekur það einnig mikla athygli að megnið af þessum samningum er gerðir í valdatíð Jean Claude Juncker, fyrrverandi forsætisráðherra Luxemborgar og leiðtoga Eurohópsins, og núverandi forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.  Ekki er að efa að margir aðrir leiðtogar "Sambandsríkja" hugsa honum þegjandi þörfina og í raun er ekki ólíklegt að þetta eigi eftir að gera honum erfitt fyrir.

Það er eitt að vera með lága skatt% fyrir fyrirtæki, en annað að gera leynilega samninga langt þar fyrir neðan.

En með þessu hefur Luxemborg náð sér í mikið af "money for nothing", ef svo má að orði komast, peninga sem ríkisstjórnir annara ríkja telja sig hafa átt að fá og hefðu haft full not fyrir.

Það er líka vert að taka eftir því að einungis er um að ræða gögn frá einu endurskoðunarfyrirtæki, Price Waterhouse Cooper.  Það bendir til þess að annað hvort hafi gögnum aðeins verið lekið frá því fyrirtæki, og eiga megi von á því að annað eins hafi farið í gegnum önnur endurskoðunarfyrirtæki, eða þá hitt að PWC, hafi haft gríðargóð og í raun óeðlileg tengsl við yfirvöld í Luxemborg.

Það verður því að teljast í alla staði líklegt að ekki hafi heyrst það síðasta frá þessu máli.

Það er líka vert að hafa í huga að þó að sé talað um Karabískar eyjar og sjóræningjaslóðir þegar rætt er um "skapandi skattframtöl", þá virðast þrjú lönd Evrópusambandsins, Luxemborg, Írland og Holland, vera hvað vinsælust þegar alþjóðleg fyrirtæki þurfa að "hagræða" í framtalinu hjá sér.  Ég bloggaði fyrir stuttu um skattalegt samkeppnishæfi og vel þekktar fléttur.

Hvort að þessar uppljóstranir verði til þess að "Sambandið" geri eitthvað í málunum á eftir að koma í ljós, verður raunar að teljast frekar ólíklegt.  En það þarf alla vegna ekki að leita langt yfir skammt, ef vilji verður til þess.

Hver veit, ef til vill man Juncker símanúmerið á gömlu skrifstofunni sinni?

 

 

 

 

 


mbl.is Milljarðar sparaðir í skattaskjóli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband