Leysir vandamál og skapar þau

Sívaxandi fólksflutningar hafa verið mikið til umræðu undanfarin misseri, ekki hvað síst í Evrópu og þá sérstaklega Evrópusambandinu.

Mikill fjöldi fólks, sérstaklega frá austur og suður Evrópu hefur leitað til landa í norður Evrópu í leit að vinnu og betri kjörum.  Straumur flóttafólks frá Afríku hefur einnig beint kastljósinu að innflytjendamálum.

En frjáls för einstaklinga á milli ríkja "Sambandsins" er einn af hornsteinum þess, og meðan að aðildarríkin voru færri og einsleitari skapaði það engin vandamál.  En með stækkun þess og aðild ríkja sem standa höllum fæti breyttust forsendurnar og flæðið.

Og auðvitað eru margar jákvæðar hliðar á fólksflutningum sem þessum. 

Ekki hvað síst að ungt fólk hleypir heimdraganum og fær atvinnu, sem er oft of skornum skammti heimafyrir.  Það fær hærri laun og nýtir menntun sína oft betur. 

Lönd eins og Þýskaland hefur einnig hag af innflytjendu (eins og fram kemur í frétt BBC), enda fæðingaríðni lág og landið þarf á auknu vinnuafli að halda.  Sérstaklega er skortur á starfsfólki í ýmis sérhæfð störf.

Þetta styrkir Þýska velferðarkerfið og Þýsk fyrirtæki sem ella kynnu að lenda í erfiðleikum. 

Þess utan spara ríkin sem einstaklingarnir flytja frá í atvinnuleysisbótum og annari félagslegri þjónustu.

En til lengri tíma litið aukast vandamálin hjá ríkjunum sem einstaklingarnir flytja frá.

Þegar stórir hópar ungs fólks flytur á brott, breytist aldurssamsetningin verulega til hins verra.  Það hefur slæm áhrif á velferðarkerfin, enda greiðslur lífeyris og annars slíks oftar en ekki byggðar á gegnumstreymi í ríkiskassanum.

Ríkin hafa einnig lagt út á mikinn kostnað við menntun ungs fólks, sem síðan skilar fyrst og fremst arði fyrir önnur ríki.  Skortur verður á sérhæfðu starfsfólki, sem hefur slæm áhrif á t.d. menntun og heilbrigðisþjónustu og verður einnig til þess að fyrirtæki flytja á brott.

Aukin fjöldi innflytjenda verður einnig til þess að laun hækka síður í löndunum sem flutt er til, sem aftur verður til þess að fyrirtæki hafa síður áhuga á því að flytja starfsemi sína til "jaðarlanda".

Þannig eru fólksfjöldaspár fyrir mörg lönd A-Evrópu sem eru í "Sambandinu" afar neikvæðar, sem mun ef gengur eftir skapa fjöldann allan af vandamálum sem fylgir fækkun íbúa, en fjölgun lífeyrisþega.  Mörg ríkjanna eru engan veginn í stakk búinn til að takast á við slíkan vanda.

Skammtímahagsmunirnir (sem eru þó ekki án vandamála) eru augljósir, en vandamálin er erfiðara að festa hendur á, enda flest þeirra líklega frekar að finna í framtíðinni.


mbl.is Innflytjendur streyma til Þýskalands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband