Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2014

Þegar atvinnuleysi er yfir 50% ....

Þegar atvinnuleysi á meðal ungs fólks á Spáni er yfir 50%, þarf enginn að undrast að unga fólkið hyggi á brottför.

Nú stendur atvinnuleysi á meða ungs fólks á Spáni í 55%. , þrátt fyrir að hafa sigið ofurlítið. Það er uggvænleg tala.

Það gengur lítið að ná atvinnuleysinu niður, þrátt fyrir að 100 þúsunda Spánverja, að stórum hluta ungt fólk hafi flutt á brott.

Talað er um að u.þ.b. 100.000 Spánverjar hafi flutt til Bretlands og Þýskalands árið 2013, og þá eru öll hin löndin ótalin.

Eurokreppan hefur verið djúp og landvinn á Spáni.  Aðeins hefur örlað á bata, með því að skera niður laun hefur landið náð aðeins að auka samkeppnishæfi sitt.

Tugþúsundir hafa misst húsnæði sitt og fasteignaverð er ennþá lágt eftir hrun.

Það þarf engum að koma á óvart að Spánverjar séu reiðubúnir til að hlusta á aðra en hina hefðbundnu stjórnmálaflokka.

En það er hætt við því að leiðin áfram verði erfið fyrir Spánverja.  Euroið blés í bóluna með of lágum vöxtum.  Peningamálastefna sem var ekki í takt við efnahagsstefnuna svipti þá samkeppnishæfninni.

Og þar sitja þeir og framtíð landsins er reiðubúin til að flytja á brott.

 

 

 

 


mbl.is Vilja úr landi í leit að vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarleysi að búa sig ekki undir fall eurosins

Það hefði verið mikið ábyrgðarleysi af hálfu stjórnvalda í ríkjum Eurosvæðisins hefðu þau ekki látið undirbúa áætlanir um hvernig þau tækju upp eigin gjaldmiðil.

Vissulega vildu ríkisstjórnir ríkja s.s. Þýskalands og Hollands halda í euroið og voru reiðubúin til að leggja mikið á sig til að svo gæti orðið.

En það var engan veginn tryggt að euroið myndi lifa af.

Því varð að vera til "plan B".

Sjálfsagt eru slík plön ennþá til og eru uppfærð miðað við þær breytingar sem orðið hafa og þykja sjáanlegar framundan.

Annað væri ábyrgðarleysi.

Því þó að euroið standi sterkari fótum nú, en árið 2012, eru ennþá ýmsar blikur á lofti. 

Ekki hvað síst er varðar pólítískan stöðugleika.

Og efnahagsvandmál, atvinnuleysið og verðhjöðnun eru sömuleiðis enn að finna í þeim veruleika sem Euroríkin horfast í augu við.

 


mbl.is Voru viðbúnir því að yfirgefa evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Litlu þúfurnar

Þetta er merkileg mynd.  Ég hygg að út frá "ljósmyndalegri fagurfræði" (hvað sem það er) skori hún ekki mörg stig.

En þegar talað er um pólítískt mikilvægi þá verður annað upp á teningnum.

Þessi saklausa mynd, með þeim saklausa texta sem mætti ef til vill þýða sem "mynd frá Rochester", eða "staðan í Rochcester", olli því að einn af "skuggarráðherrum" Verkamannaflokkins var rekinn, eða sagði af sér, svona eftir því hverju menn vilja trúa.

En er Twitter færslan stór pólítísk og ber hún vott um "virðingarleysi fyrir kjósendum"?

Um það eru eðlilega skiptar skoðanir.

En myndin sýnir það sem væri líklega kallað raðhús, þrjá Enska fána og hvítan sendibíl.

En spurningin er m.a. hvernig sýnir það "stöðuna" í Rochester, eða á hvaða hátt er þetta "lýsandi mynd" frá Rochester?

Þá byrja skoðanirnar líklega að verða enn skiptari.  En vissulega er Enski fáninn sterk táknmynd, en fyrir hvað?  Hann hefur enga "opinbera stöðu" í Bretlandi eftir því sem ég kemst næst.  En hann hefur í vaxandi mæli verið notaður við ýmis tækifæri, ekki hvað síst tengdum Enska knattspyrnulandsliðinu.  Lengra aftur tengdist hann "Enskum þjóðernissinnum", s.s. BNP, en sú tengsl rofnuðu eftir að hann fór að verða notaður æ meir opinberlega.

En flóknara er að útskýra "táknræna meiningu" hvíts sendiferðabíls, ef hægt er að fullyrða að hann hafi einvherja.

En þó ekki sé hægt að fullyrða um til hvers hvítir sendibílar eru notaðir almennt, eru þeir oft (í Bretlandi, ef ekki víðar) tengdir smærri atvinnurekendum, verktökum, iðnaðarmönnum, einherjum sem er að reyna "að hífa sig upp", og rekur lítið fyrirtæki með fáum starfsmönnum.

En það var einmitt fyrirlitning á "þjóðhollustu" og "litla bisnessmanninum" sem Emily Thornberry, var sökuð um að sína með Twitterfærslu sinni.

Að Enski fáninn og litli atvinnurekandinn væri eitthað sem væri andstætt Verkamannaflokknum og öfugt.  Að svona væri "andrúmsloftið" á "UKIP slóðum". Að fáninn og hvíti sendibílinn væri eitthvað slæmt.  Eitthvað neikvætt fyrir Verkamannaflokkinn.

En eru Enski fáninn og "litli atvinnurekandinn" eitthvað neikvætt fyrir Verkamannaflokkinn?  Því verður líklega seint full svarað og mun seint verða fullt samþykki um.

En það sem gerist næst er að Ed Miliband, höfuð Verkamannaflokksins ákveður að þessi Twitterfærsla sé algerlega á skjön við stefnu flokksins og að Emily Thornberry verði að víkja úr "skuggaráðuneyti" hans.

Þannig tryggði hann að stór hluti af þeirri fjölmiðlaathygli, sem eðlilega hefði beinst að því að Íhaldsflokkurinn missti þingsæti til UKIP, beindist að því að Verkamannaflokkurinn var að reka (eða að hún ákvað að segja af sér) einn af "skuggaráðherrum" sínum.

Íhaldsflokkurinn hefði ekki getað óskað sér neins betra.

Var möguleiki að reyna að gera sem minnst úr mistökum Emily?  Var ástæða fyrir Ed Miliband að bregðast jafn harkalega við?

Það er ekkert endanlegt svar við því, og eflaust margar skiptar skoðanir uppi.

En eitt er víst, að oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, og að viðbrögðin við "hneykslinu" skipta oft meira máli en "hneykslið" sjálft.

Að því leyti ætti "tíst" Emily Thornberry, að vera lærdómur fyrir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka um víða veröld.

P.S. Það er svo ástæða til þess að velta því fyrir sér, hve margir Englendingar, Bretar, eða hvað þá íbúar annara landa, hefðu vitað hver Emily Thornberry er, fyrr en þetta "misheppnaða tíst" fékk vængi á vefnum?


mbl.is Sagði af sér út af ljósmynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

No Cash, No Hope

Þessi beið mín í töluvupóstinum í morgun, það er gott að hlægja í morgunsárið. 

Reyndar heyrði ég svipaðan orðaleik fyrir mörgum árum, en þessi er enn betri.

A few decades ago we had Johnny Cash, Bob Hope and Steve Jobs. Now we have no Cash, no Hope and no Jobs. Please don't let Kevin Bacon die.'

Bill Murray


Inn um einn, út um annan?

Það er ekki hægt að reikna með því að ekki fjölmennari þjóð en Íslendingar standi undir því að reka marga alþjóðlega flugvelli, þó að ferðamanna fjöldinn fari sífellt vaxandi.

Og stór partur af viðskiptamódeli stærsta flugfélagsins, Icelandair, byggir á því að vera með einn flugvöll, þar sem skipt er um flugvél, til að að halda áfram annaðhvort til Evrópu eða N-Ameríku, eftir ástæðum.

Eftir því sem mér skilst stefnir WOW á svipaða uppbyggingu.

Það er því á brattann að sækja að fá flugfélög til að nýta aðra flugvelli en Keflavíkur til millilandaflugs.

Þó væri það tvímælalaust til bóta og yrði eins og vítamínsprauta fyrir ferðaþjónustu víðar um landið.

Eitt af því sem flugfélög og ferðaþjónustuaðilar gætu velt fyrir sér og sameinast um að bjóða ferðafólki um háannatímann, væri að lenda á einum flugvelli fara í ferðalag um landið og fljúga svo heim frá öðrum.

En hvort að það er viðskiptahugmynd sem vert væri að athuga nánar verða einhverjir aðrir að komast að en ég.

 

 

 


mbl.is Einnar gáttar stefna skaðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

UKIP tryggir sér annan þingmann, sigrar í Rochester og Strood

Breski Sjálfstæðisflokkurinn (UKIP) sigraði, eins og flest benti til nokkuð örugglega í aukakosningum í Rochester og Strood í gær.

Flokkurinn hefur því tryggt sér annan þingmann sinn á Breska þinginu.

Sigurinn er sætur fyrir UKIP og eykur spennu fyrir  hinar almennu þingkosningar sem fara fram í maí á næsta ári.

Það er ýmislegt sem vekur athygli, að sigri UKIP frátöldum.  Tap Verkamannaflokksins í prósentustigum er næstum eins mikið og Íhaldsflokksins.  Það kann þó að eiga sér þá skýringu að kjósendur Verkamannaflokksins hafi kosið UKIP til að tryggja þeim sigur og þannig auka óróann í Íhaldsflokknum.  Þeirra frambjóðandi var enda ekki talinn eiga mikla möguleika.  Fyrir einskæran klaufaskap eins þingmanns þeirra, kemur Verkamannaflokkurinn svo enn verr út úr þessum kosningum, en efni stóðu til.

Hræðileg útkoma Frjálslyndra demókrata vekur sömuleiðis athygli, enda líklega versta útkoma sem "einn af stóru flokkunum" hefur hlotið í Bretlandi.  349 atkvæði eða 0.87%.  Það getur ekki talist annað en hrein skelfing og flokkurinn situr í ríkisstjórn.  Þeirra tap í %stigum er stærra en Íhaldsflokksins, þeir tapa yfir 15 %stigum.

En sigur UKIP er heldur minni en margar skoðanakannanir höfðu gefið til kynna, en það sýnir þó einnig að UKIP vann, þrátt fyrir að Íhaldsflokkurinn hafi lagt allt í sölurnar til þess að halda sætinu.

En það er næsta víst að þessi úrslit eiga eftir að hafa umtalsverð áhrif á Bresk stjórnmál á næstu mánuðum. 

Umræðan um bæði Evrópusambandið og innflytjendamál hefur þegar breyst, en á líklega eftir að gera það enn frekar.  Nú þegar tala margir fjölmiðlamenn um að hinir flokkarnir séu að "Out UKIP, UKIP", í viðleitni sinni til að ná til baka kjósendum sínum.

En það er ljóst að UKIP stefnir hraðbyri á að verða "þriðja aflið" í Breskum (frekast þó Enskum) stjórnmálum.  En breytingin er einnig sú að Skoski þjóðarflokkurinn eflist með hverjum deginum og sömuleiðis Græningjar (sem náðu 4ja sætinu í þessum aukakosningum). 

Hvað verður um Frjálslynda demókrata er svo einnig spurning.

En það hriktir æ meir í tveggja flokka kerfinu í Bretlandi, og ef svo fer sem horfir gæti staðan orðið sú að hvorugur stóru flokkana nái hreinum meirihluta tvö kjörtímabíl í röð.

 

 

 

 

 

 


mbl.is UKIP fær annað þingsæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær er rétt að segja af sér eða biðjast lausnar?

Auðvitað má alltaf deila um hvenær ráðherra á að segja af sér og hvenær ekki. Sömuleiðis hvenær ríkisstjórn á að beiðast lausnar og hvenær ekki.

Að flestu leyti get ég tekið undir með Brynjari, og hvatt Hönnu Birnu til þess að taka ábyrgð á misgjörðum og lygavellingi aðstoðarmanns síns, með því að segja af sér sem ráðherra.

En sé litið til Íslenskrar stjórnmálahefðar get ég hins vegar ekki fundið ástæðu til annars en að hún sitji áfram í embætti.  Myndi raunar hvetja hana til þess.

Því heilt yfir er lítið um samræmi í því þegar kallað er eftir afsögnum ráðherra.  Flestir sem slíkt gera virðast fyrst og fremst gera slíkt til að ná sér niðri á pólítískum andstæðingum.

Þeir eru til dæmis líklega ekki margir sem hafa kallað eftir afsögn ráðherra, bæði á þessu kjörtímabili og því síðasta.

Hvernig skyldi standa á því?

Þó vantaði ekki tilefni til afsagnar ráðherra eða í raun ríkisstjórnar á síðasta kjörtímabili.

Þá var forsætiráðherra (sem einnig fór með jafnréttismál) dæmd fyrir brot á jafnréttislögum. En auðvitað hvarflaði ekki að henni að svo mikið sem "íhuga stöðu sína", hvað þá segja af sér.  Líklega hefði það þótt yfrin ástæða til, "í mörgum af þeim löndum sem við berum okkur saman við".

Og fyrst við erum farin að tala um "samanburðarlöndin", skyldu margar ríkisstjórnir í þeim hafa setið sem fastast, eftir að hafa ekki einu sinni, heldur tvisvar verið gerðar afturreka af kjósendum í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Og ýmsir ráðherrar bitu höfuðið af skömminni með því að taka ekki þátt í lýðræðislegri þjóðaratkvæðagreiðslu, sem þeir sjálfir (gegn vilja sínum) höfðu þó boðað til.

Skyldu vera til önnur dæmi um slíkt í lýðræðissamfélögum?

Auðvitað voru uppi kröfur um afsögn, en hve margir eru þeir sem slíkt gerðu, þeir sömu og krefjast nú afsagnar ráðherra? (og öfugt).

Og var ekki ráðherra í síðustu ríkisstjórn, sem verður líklega helst minnst fyrir að hafa staðið að lagasetningu sem dómstólar dæmdu ólöglega, síðar verðlaunaður með því að vera gerður að formanni síns flokks? Líklega telst það "frjáls aðferð" í að taka ábyrgð á mistökum.

En ég er þó þeirrar skoðunar að það væri til bóta að Hanna Birna Kristjánsdóttir myndi stíga til hliðar sem ráðherra.  Íslensk stjórnmál mega alveg við smá "siðferðisinnspýtingu".

En sé litið til hefðarinnar, er engin ástæða fyrir hana að gera slíkt. Og þó að öllum helstu andstæðingum ríkisstjórnarinnar finnist það sjálfsagt, er það ekki ástæða í sjálfu sér.

En hún á völina og eins og oft áður fylgir því að eiga kvölina.

 


mbl.is Skoðun Brynjars hefur ekki breyst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lúxus(borgar) kaffi í Hollandi. Juncker og Timmerman leiða leitina að skattaundanskotunum

Það er margt hægt að segja um skattaskjól. Bæði jákvætt og neikvætt. Það fer líklega ekki hvað síst eftir því hvorum megin viðkomandi (land eða einstaklinglur)er.  Og svo líka skilgreiningunni á skattaskjóli.

Hvenær eru skattar eingöngu lágir, og hvenær gera þeir land að skattaskjóli.

Fæstir vilja að samkeppni ríkja á skattasviðinu verði úr sögunni, en æ fleiri eru þeirrar skoðunar að breytinga sé þörf, þannig að meiri skattar séu greiddir, þar sem veltan á sér stað.

En það eru ekki hvað síst þrjú ríki Evrópusambandsins sem hafa verið í sviðsljósinu.  Lúxemborg, Holland og Írland.

Enn sem komið er, hefur ekkert komið fram um að ólöglegt athæfi hafi átt sér stað, þó að margir telji líklegt að reglugerðir um "ríkisaðstoð" hafi verið brotnar.  En um hvað siðferðið er lágt, eru minni deilur.

Ekki hvað síst þykir siðferðið á lágu plani, þegar ríki "Sambandsins", hafa keppst um að hafa skatttekjur af öðrum "Sambandslöndum", því í þeim "skógi" eiga allir að vera vinir.

Og hverjir skyldu nú vera betri til þess að leiða leitina að skattsvikunum, heldur en forseti Framkvæmdastjórnar "Sambandsins", Jean-Claude Junker, fyrrverandi forsætis og fjármálaráðherra Luxemborgar.  Og ekki er að efa að varaforseti hans getur sömuleiðis lagt rannsókninni lið, en það er Frans Timmerman, fyrrverandi utanríkisráðherra Hollands.

Ótti "Brusselmanna" um að eitthvað athugavert finnist, fer enda óðum dvínandi.

Juncker tók persónulega þátt í því að fá fyrirtæki líkt og AOL og Amazon til að koma til Luxemborgar og sagði þá (2003) að það snerist um "rétta skattastefnu".

Þó kröfur hafi verið gerðar um að Juncker víki eru littlar sem engar líkur taldar á því að Evrópusambandsþingið telji ástæðu til þess.  Þar virðast þingmenn vera sáttir við að Juncker sé bæði rannsakandi og sá sem rannsakaður er.

 

 

 


mbl.is Holland sagt skattaskjól Starbucks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir í fríi og fara "heim" á skriðdrekunum

Það hefur verið í senn fróðlegt og skelfilegt að fylgjast með þróun mála í Ukraínu. Í raun hafa Rússar ráðist inn í landið, þegar innlimað Krím hérað og stefna ótrauðir á að taka yfir austur héruðin.

Rússneskir hermenn sjást innan um "aðskilnaðarsinna" og Rússnesk hergögn streyma yfir landamærin.

Ef trúa á fullyrðingum Rússa (sem hreint ótrúlega margir virðast gera), eru þetta hermenn í fríi.  Næsti hluti skýringanna hlýtur að vera að þeir fái að fara heim á "vinnutækjunum" því það sé langt að labba, og það útskýri hertrukkana og skriðdrekana.

Sem betur fer virðat augu Evrópskra stjórnmálamanna vera að opnast gagnvart framferði Rússa og hvert þeir virðast stefna.

En Rússar hafa styrkt stöðu sína verulega í Ukraínu og notað "vopnahléið" vel. Senn fer í hönd kaldasti tíminn, sem líklegt er að vinni með Rússum.  Orkan er jú á meðal þeirra helstu vopna.

Næsta skref hjá Rússum er að stór auka áróður sinn á vesturlöndum, með "Sputnik".  Þar kunna þeir sitt fag og því miður er ekkert sem bendir til þess að þeim verði ekki vel ágengt.

 

 

 

 


mbl.is Rússar „streyma inn í Úkraínu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsagðar og réttlátar breytingar

Verandi mikill aðdáandi Íslenska nafnakerfisins, ég tel það vera yfirburðakerfi, er ég jafnframt hjartanlega sammála og fagna þessu frumvarpi.

Að sjálfsögðu er rétt að færa valdið og ábyrgðina yfir til foreldrana.  Þeim er fyllilega treystandi til það velja nöfn á börnin sín.

Það mætti jafnvel bæta við frumvarpið, eða leggja fram annað seinna, sem auðveldaði einstaklingum að skipta um nafn síðar á lífsleiðinni, ef vilji stendur svo til.

Hvað varðar ættarnöfn, eða "fjölskyldunöfn", er það sjálfsögð réttindi og sanngirnismál að allir standi jafnir fyrir slíkum lögum.  Íslensk ættarnöfn virðat öllu jöfnu erfast bæði frá móður og föður, og hljóta því fyrr eða síðar að ná yfirhöndinni hvort eð er.  Það ætti varla að teljast frágangssök þeirri þróun verði flýtt eitthvað, eða að fleiri nöfn komi í pottinn.

En það kemur ef til vill líka ljós hvort að það er einhver raunverulegur áhugi fyrir því á meðal Íslendinga að halda í þessa hefð, nú eða að "vernda" Íslenskuna.

Því eins og segir í kvæðinu, "...það gerir enginn nema ég og þú."

P.S. Þó að bæði börnin mín séu fædd þar sem fullt frelsi ríir til nafngifta og ættarnafna, bera þó bæði nafn mitt með viðeigandi viðhengi, dóttir og son. En þau hafa jafnframt "ættarnafn", þó að dags daglega sé það ekki notað.  Það var gert svo að í framtíðinni geti þau sjálf ákveðið hvernig tilhögunin verður.  Til þess treysti ég þeim vel.

 


mbl.is Allir fái að bera ættarnöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband