Lauk kalda stríðinu einhvern tíma?

Nú þegar liðið er ríflega hálft ár síðan Rússar réðust inn í Ukraínu (því í raun er ekki hægt að kalla þetta annað en innrás), er ennþá verið að tala um hættu á "köldu stríði".

Það er líklega vafamál hvort að Ukraínumönnum finnist stríðið kalt, þó að ég efist ekki um að þeir eigi eftir að finna fyrir kuldanum í vetur.

En lauk kalda stríðinu svokallaða einhverntímann?  Þó að einhver hlýnum hafi átt sér stað á hnettinum, held ég að í raun megi leyfa sér að efast verulega þar um.  Þó að fall Berlínarmúrsins og Sovétríkjanna hafi vissulega breytt heimsmyndinni, eru breytingarnar ekki eins miklar og oft er af látið og ef til vill minnstar í hugum margra.

Enn virðast margir trúa að eina leiðin til jafnvægis í veröldinni sé að ríki eins og Rússland hafi vald yfir nágrannalöndum sínum mörgum málum.

Engu skipti hver vilji almennings eða stjórnvalda í ríkjum sem liggja að Rússlandi sé, til að "friður geti ríkt á okkar tímum", verði þau að sætta við að teljast á "yfirráðasvæði" Rússa.

Hjá mörgum virðist hugsunarhátturinn ekki hafa breyst meira en þetta á þeim 25 árum sem liðin eru frá því að "Járntjaldið" féll. Fall "Járntjaldsins", breytti því í mörgum tilfellum litlu um þankaganginn.

Þó er engin leið til að segja að Rússum standi ógn af nágrannaríkjum sínum í Evrópu, eða af herjum ríkja Evrópusambandsins.  Fréttir af þeim eru flestar á einn veg, þeir eru fjársveltir og tæki þeirra og tól ekki í góðu ásigkomulagi.

Efnahagslega má hins vegar vel rökstyðja að Rússum finnist sér ógnað.

Rússar hafa enda reynt og viljað bindast nágrannalöndum sínum nánari efnahagslegum böndum.  En þeir hafa lítið upp á að bjóða, nema orku og yfirgang, og jú innflutningsmarkað sem vissulega margir renna hýru auga til.  Íbúafjöldinn er þrátt fyrir allt ríflega 140 milljónir, þó hann hafi stöðugt leitað niður á við.

Og ef til vill er það hluti vandamálsins.  Rússland vill að aðrir líta á sig sem stórveldi.  En það er ekki of mikið eftir af fornri frægð.  Vissulega nær það yfir gríðarlegan landmassa, og er enn stærsta ríki heims að flatarmáli. Náttúrulegar auðlindir eru gríðarlegar.

En eins og áður sagði fer íbúunum fækkandi og efnahagurinn er ekki í blóma, þó að tekjur af orkusölu hafi verið mjög góðar undanfarin ár.

Vandamálið er að Rússland hefur lítið upp á að bjóða utan orkunnar. Ef ég hef skilið rétt, eru aðrar útflutningsvörur aðeins u.þ.b. 8% af þjóðarframleiðslunni.  En þjóðarframleiðslan er nokkuð á pari við Kalíforníu, þar sem búa ríflega 38 milljónir.

Það er því ekki að undra að nágrannaríki vilji horfa annað, frekar en að njörva sig niður í bandalagi með Rússum.

Yfirlýsingar Putins um að Ribbentrop/Molotov samningurinn hafi verið eðlileg gjörð, fær svo hrollinn til að hríslast um flesta í mið og A-Evrópu og "Sputnik" áform þeirra í "fjölmiðlarekstri" er heldur ekki líkleg til að róa öldurnar sem risið hafa upp á síðkastið.  Yfirlýsingar Putins um kjarnorkuvopn er svo rétt að hafa í huga, en í raun er það líklega það eina sem viðheldur kröfu Rússa um að teljast "stórveldi".

Það er í raun ekki hægt að draga þá ályktun að kalda stríðinu hafi nokkurn tíma lokið, þó að vissulega hafi brestir komið í ísinn á tímabili.

Þeir sem duglegastir eru við "ísframleiðsluna" eru Rússar sjálfir.  Þeir hafa ekki náð að yfirvinna tortryggni sína gagnvart öðrum þjóðum og þegar minnimáttarkennd og söknuður eftir horfnum "status" bætist við, verður til hættuleg blanda.

 

 


mbl.is Varar við öðru köldu stríði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband