Hvar greiða fyrirtæki lægstu skattana?

Oft má heyra eða lesa alls kyns "ranta"um hið gerspillta Bandaríska samfélag sem sé aðeins fyrir fyrirtækin og hina ríku en skilji almenning eftir á köldum klaka.

Hlutirnir séu öðruvísi í Evrópu og hinum "sósíalískari" löndum.

Það kann því að hafa komið einhverjum á óvart að Bandarísk fyrirtæki hafa í all nokkrum mæli "flúið land" í því skyni að greiða lægri skatta.

Og hvert skyldu þau nú flytja?

Jú, þau flytja til landa eins og Kanada (eins og Burger King hyggst gera með kaupum sínum á Tim Hortons.

Þau flytja til landa í Evrópusambandinu eins og Írlands (eins og Chiquita hyggst gera með samruna sínum við Fyffes), Bretlands (eins og t.d. lyfjafyrirtækið Abbvie gerði).

Vert er að hafa í huga að "Sambandslönd" s.s. Írland og Holland eru oft talin þungamiðjan í skatta undanskotum  alþjóðlegra fyrirtækja. 

Hugtök eins og "Double Irish" og "Dutch Sandwich", eða tvöfaldur Íri og Hollensk samloka hafa hlotið nafn sitt vegna þess.

Það þarf því ef til vill ekki að koma á óvart að stærstu útflytjendur á Írlandi eru Google og Microsoft, í þessari röð.  Önnur velþekkt fyrirtæki sem finna má á topp 20 yfir útflytjendur á Írlandi, eru:  Johnson og Johnson, Dell, Oracle, Pfizer, Apple, SanDisk, IBM og Facebook.

Eflaust man einhver líka eftir því að sterk tengsl voru á milli Íslenskra fyrirtækja og eignarhaldsfélaga í Hollandi á blómadögum "útrásarinnar". Og ekki má heldur alfarið láta hjá líða að minnast á Luxembourg þegar minnst er á skattamál.

Ásakanir á hendur fyrirtækjum eins og Starbucks, Google, Amazon og fleirum tengjast einnig "skattafléttum" af þessu tagi.

Rétt er að hafa í huga að enn sem komið er, eru þessi fyrirtæki eru ekki talin hafa brotið nein lög að því ég kemst næst (alla vegna ekki í flestum tilfellum).  

Þau eru ásökuð um að hafa notfært sér möguleika löggjafarinnar til hins ítrasta.  Margir vilja telja það ósiðlegt.

Á móti má spyrja hvort að það eigi að búast við því að einhver greiði meiri skatta en honum lagalega ber?

Og það er eftir all nokkru að slægjast.  Skattar á fyrirtæki eru 40% í Bandaríkjunum en 12.5 á Írlandi.  Ísland er með 20% eins og Finnland, Svíþjóð 22%, en Þýskaland hefur t.d. lækkað sína skattprósentu úr ríflega 38% í 29.5 fyrir fáum árum.

En hvað er til ráða?

Bandaríkin hyggja á lagasetningar sem myndu "múra" fyrirtækin inni, en því er haldið fram að það komi ekki til með að breyta miklu, heldur aðeins snúa við dæminu.  Það er að segja að í stað þess að Bandarísk fyrirtæki kaupi Evrópsk eða Kanadísk, muni Kanadísk eða Evrópsk fyrirtæki kaupa Bandarísk.  Niðurstaðan verði sú sama hvað skattgreiðslur varði.

Margir halda því svo fram í Bandaríkjunum að besta leiðin til að stemma stigu við þessu sé að lækka skattprósentuna verulega og eyða um leið undanþágum.

Margir innan "Sambandsins" hafa talað fyrir því að skattprósentur verði samræmdar innan þess, en aðrir mega ekki heyra á það minnst og er ólíklegt að slíkt verði gert, í það minnsta á næstu árum.

Það er líka ljóst að skattalögfræðingar og aðrir þeir sem véla með fjármál og framtöl fyrirtækja virðast í flestum tilfellum hafa í fullu tré og örlítið betur við þá sem semja og búa til skattalögin.

Mörg lönd, s.s. Írland, Holland, Luxembourg og Sviss, svo nokkur dæmi séu nefnd hafa af því umtalsverðar tekjur,  að bjóða fyrirtækjum lága skattprósentu.  Tekjur sem önnur ríki telja oftar en ekki "tilheyra" sér.

Ein slæm afleiðing þessa er það forskot sem þessi "skapandi reikningsskil" (ef svo má að orði komast) gefa stórum alþjóðlegum fyrirtækjum í samkeppni við smá eða meðalstór "heima" fyrirtæki, sem borga þá mun hærri skattprósentu.

International Tax CompetitivenessEn skattprósenta segir auðvitað ekki alla söguna heldur þarf að taka tillit til skattalöggjafar.  Því er reiknuð út "skattaleg samkeppnishæfi ríkja".  Þar er Eistland talið í fyrsta sæti, þó að skattprósenta á fyrirtæki þar sé t.d. hærri en á Írlandi (og að sjálfsögðu Íslandi), en Svíar koma til dæmis best út af Norðurlöndunum.  Bandaríkin fá þar frekar háðuglega útreið.

Það er því ljóst að það er í mörg horn að líta þegar talað er um skatta og skattbyrði.

Það er ljóst að bæði fyrirtæki og einstaklingar flytja á milli landa til að lágmarka skattgreiðslur. 

Það liggur sömuleiðis í augum uppi að góðir skattalögfræðingar og "skapandi" endurskoðendur munu verða jafn eftirsóttir á næstu árum og verið hefur.

Hvernig getur það verið á annan máta þegar t.d. Bandaríska skattalöggjöfin er sögð vera u.þ.b. 74.000 blaðsíður.

Síðan árið 2001, er sagt að henni hafi verið breytt að meðaltali meira en einu sinni á dag, alla daga.

Hvað skyldu vera sambærilegar tölur fyrir Ísland?

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband