Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

Nauðsynlegt að minnka vægi Evrópu í utanríkisviðskiptum Íslendinga

Hin nýgerði fríverslunarsamningur Íslands og Kína, verður Íslendingum vonandi gott tæki til að minnka vægi Evrópu í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar.

Að ýmsu leyti hefur hlutfall utanríkisviðskipta Íslendinga sem fer til eða í gegnum Evrópu verið of óþægilega hátt.  Í þessu eins og svo mörgu öðru er betra að dreifa áhættunni.  Ekki vera um of háður einum markaði.

Það er engin ástæða til annars en að ætla að eftirspurn eftir fiski fari vaxandi á næstunni, þó að aukið framboð geti valdið tímabundnum erfiðleikum og verðlækkunum.

En því víðar sem "netin" eru lögð því betur mun ganga að efla utanríkisviðskiptin og auka verðmætin.

Það er óskandi að komandi ríkisstjórnir láti fríverslunarsamning við Kínverja vísa sér áfram þann veg.

 


mbl.is Óttast minna framboð á fiski frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umframorkan sem gufaði upp

Það er vissulega athyglivert að lesa um orkuskort á Íslandi, svo stuttu eftir að mikil umfjöllun hefur verið um gríðarlega umframorku sem engum væri til gagns.  

Ég man ekki betur en að það væri ein af þeim ástæðum þess að rafstrengur til Evrópu væri í umræðunni.  Það gæfi kost á að koma allri "umframorkunni" í verð.

En eins og allt annað sem byggir á náttúrunni, er vatnsaflsvirkjanir háðar duttlungum hennar.

Ég veit ekki nákvæmlega hvað veldur vatns/orkuskorti nú, en þetta sýnir að oft er þörf að hafa borð fyrir báru.

Ég hef reyndar ekki verið einn af áhugamönnum þess efnis að byggja raforkustreng til Evrópu,  en það er önnur saga.

En líklega sýnir vatnsskorturinn nú, að það er varasamt að byggja stór plön varðandi raforkusölu til Evrópu frá Íslandi.

 


mbl.is Raforkuafhending skert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitthvað sem búast mátti við og Íslendingar kannast við.

Ég vona að gjaldmiðilshöftin á Kýpur verði afnumin fljótlega.  Það er án efa erfitt að búa við höft á því að nota eigið fé, jafnvel í eigin landi.

En í upphafi var talað um að höftin yrði við lýði á Kýpur í u.þ.b. viku.  En það er gömul saga og ný að höft, þegar þau eru einu sinni komin á, verða oftar en ekki við lýði munu lengur en í upphafi er ætlunin.

Það er eitthvað sem Íslendingum er fullkunnugt um.

En aflétting hafta verður að vera eitt af forgangsmálum komandi ríkisstjórnar.

En höft geta verið við lýði, hvort sem er með eða án euros, það sýnir dæmið frá Kýpur.  En þá verður að setja á höft, á notkun gjaldmiðils, bæði innanlands og utan.

 

 


mbl.is Höftin áfram við lýði á Kýpur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að drekka hvítvín með humrinum, eða bara af stút

Nú sit ég og skrifa þessar línur í einu af fátækari löndum Evrópu.  Hér má kaupa hvítvín eða hvaða annarð áfengi sem er, hvaða dag vikunnar, í matvöruverslunum, áfengisverslunum, söluturnum, bensínstöðvum o.s.frv. 

Hvort sem hvítvínið er ætlað til neyslu með humri, eða það er drukkið af stút.

Og þrátt fyrir að ríkidæmið sé ef til vill ekki mikið kaupir almenningur hvítvín - líka á sunnudögum.  Þrátt fyrir það munu vera hér all nokkur fjöldi starfandi guðshúsa og messað í flestum þeirra á sunnudögum.

En ég velti því fyrir mér hvort að Íslendingar haldi að fátæktin hér stafi af þessu frjálsræði í áfengissölu, eða því að hér ríkti harðstjórn, ofríki og stjórnlyndi kommúnismans í ríflega fimmtíu ár.

 


Verður "Sambandið" orðið að sambandsríki innan fárra ára?

Það veit enginn hvert "Sambandið" er að stefna.  Ekki síst vegna þess að enginn einhugur ríkir innan þess um hvert skal stefna.

Æ fleiri af "frammámönnum" "Sambandsins" vilja stefna að sambandsríki. Flytja æ meiri völd til Brussel, og þar verði ákvarðanir teknar.  Þegnar "Sambandsins" kjósi forseta og "Bandaríki Evrópu" líki dagsins ljós.

Aðrir vilja fara allt aðra leið.

Þeir vilja flytja heim, hluta af því valdi sem Brussel hefur þegar tekið og að "Sambandið" einblínu fyrst og fremst á "innri markaðinn" og sé ekki að skipta sér um of af innri málefnum aðildarríkjanna.

Enginn veit hvor leiðin verður ofan á, en eins og er hafa "sambandsríkjasinnarnir" sterkari stöðu í Brussel.

En ef sú leið verður valin, gæti það hæglega þýtt að einhver ríki kjósi að yfirgefa "Sambandið", frekar en að gefa eftir meira af fullveldi sínu.

Það er t.d.i erfitt að sjá fyrir sér Bretland ganga í sambandriki. Ég held að ólíklegt að ríki eins og Svíþjóð myndi taka þátt í sambandsríki og ég á erfitt með að ímynda mér að Danir myndu kjósa sér slíkt fyrirkomulag.

Það yrði hins vegar mun erfiðara fyrir löndin á Eurosvæðinu að skera sig frá.

En þessar vangaveltur ýta undir nauðsyn þess að slíta aðlögunarviðræðum Íslands að "Sambandinu".

Það er engin ástæða til að halda áfram að aðlaga sig að "Sambandi" sem engin veit, eða einhugur ríkir um hvert stefnir, í jafn stóru máli sem hugsanlegt sambandsríki er.

Það væri vissulega fróðlegt ef eitthvert kannanafyrirtækið spyrði Íslendinga hvernig þeim hugnaðist að ganga í sambandsríki Evrópusambandsins.

Sjá frétt Telegraph:  Baroso segir að "Sambandið" verðí orðið að sambandsríki innan fárra ára.

 

 

 

 


Fullvissan um að hægt sé að ná samningum

Eitt af því sem vekur athygli mína og eftirtekt við málflutning "Sambandssinna", er sú fullvissa þeirra um að hægt sé að ljúka aðlögunarviðræðum Íslands og "Sambandsins" í sátt, það er að segja með samningi.

Satt best að segja þykir mér æ meira benda til þess að engin leið sé til þess að ljúka aðlögunarviðræðunum með sátt.

Eitt af þvi sem bendir til þess er þetta.

Íslendingar hafa ekki efni á því að gefa eftir hvað varðar sjávarútveginn.  Það ætti að vera það sem sameinar Íslendinga.  En því mður er það ekki svo.

Ég leyfi mér að vitna í orð Vilhjálms Egilssonar, eins helsta "Sambandssinna" á Íslandi:

Hann [Vilhjálmur Egilsson] segir að það hafi alltaf legið fyrir að aðild að sjávarútvegsstefnu ESB yrði skref afturábak fyrir íslenskan sjávarútveg. Spurningin sé bara hversu stórt það skref yrði.

„En að sjálfsögðu mundi sjávarútvegurinn, líkt og aðrar greinar, hafa hag af því að taka upp evru, fá efnahagslegan stöðugleika og lægri vexti. Í aðildarviðræðum myndu menn reyna að ná einhverri málamiðlun hvað sjávarútveginn varðar en það verður aldrei hægt að halda því fram að ESB-aðild yrði skref fram á við fyrir sjávarútveginn,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.

 mbl.is, 24.11.2008

 

Mega Íslendingar við því að stigið sé "skref afturábak" fyrir Íslenskan sjávarútveg?

Þurfa Íslendingar að afsala sé yfirráðum yfir fiskveiðilögsögunni?

Auðvitað er full ástæða fyir Íslendinga að draga umsókn sína að "Sambandinu" til baka.  Íslendingar losuðu sig við "tæru vinstri stjórnia", auðvitað ættu þeir að losa sig við aðlögunarumsóknina einnig. 


mbl.is Ný ríkisstjórn ljúki ESB-viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti flokkurinn stendur keikur, en er eiginlega alveg hættur að vera fyndinn

Þessi skoðanakönnun er um margt merkileg. Ég hugsa að það hafi ekki margir reiknað með að Besti flokkurinn stæði þetta vel, eftir u.þ.b. 3ja ára stjórn Reykjavíkurborgar.

En ég held að býsna margir hafi vanist Besta flokknum.  Hugsunin að hann sé við völd og Jón Gnarr sé borgarstjóri sem líklega var flestum fjarlæg, hefur vaxið og vanist með tímanum.

Nú ætla ég ekki að dæma um hvernig Reykvíkingar upplifa stjórnartíð Besta flokksins.  Það fer best á því að Reiykvíkingar geri það sjálfir.  Ég heyri ekki margar kvartanir, en þær hafa þó helst komið í kringum skólamálin.

En stærsta málið held ég, er að þó að Jón klæði sig upp sem Jeda, í drag, eða stökkvi alklæddur út í sundlaugar, þá hefur að mestu leyti ríkt friður í borgarstjórn.  Og enn mikilvægara, það hefur ríkt friður í Besta flokknum og í samstarfi hans við Samfylkinguna.

Efþað var eitthvað eitt sem skóp sigur Besta flokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum, var það einmitt ástandið í Borgarstjórn kjórtímabilið á undan.

Kjósendur voru yfir sig þreyttir á eilífum "bombum", rifrildum, meirihlutaskiptum og undirferlum.  Því var stór hluti kjósenda reiðubúinn til að gefa Besta flokknum atkvæði sitt og hinum "hefðbundnu stjórnmálamönnum" frí.

Það var vissulega hætta á því að verið væri að skipta "trúðum" út fyrir "trúða", en "trúðarnir" í Besta flokknum voru þó í það minnsta kosti fyndnir, en ekki grátbroslegir.

En síðan breyttist Besti flokkurinn að mestu leyti í hefðbundinn stjórnmálaflokk.  Gekk til verka og hætti eiginlega að mestu eða öllu leyti að vera fyndinn.

En enn er ár til kosninga og þessi könnun sínir að Besti flokkurinn er sá sem setur viðmiðið og er stærsti flokkurinn í Borgarstjórn.

Hinir hefðbundnu stjórnálaflokkar verða að spýta í lófana, ef þeir ætla sér að verða "betri" en hann.

P.S.  Svo dúkkar upp Framsóknarborgarfulltrúi í könnuninni.  Menn hafa farið flatt á því að vanmeta Framsóknarflokkin einu ári fyrir kosningar.  Lítið bara á Alþingiskosningarnar.

 

 

 


mbl.is Besti flokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn stærstir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Pragmatískir" Svíar

Svíar eru pragmatískir.  Þeir láta ekki plata sig til þess að taka upp sameiginlega mynt í pólítískum tilgangi.  Þeir horfa á efnahagslega grunninn.

Þó er Svíþjóð eins og öll önnur ríki "Sambandsins" (að Bretlandi og Danmörku undanskilið) skuldbundið til þess að taka upp euroið.

Frá því hafa þeir enga undanþágu.

En það er hægt að "draga lappirnar" og "fara undan í flæmingi", og það er einmitt það sem Svíar hafa gert.  

Það sést einnig að stuðningur Svía við "Sambandið" sjálft minnkar og sárafáir Svíar eru hrifnir af þvi sð sambandsríki verði myndað.

Þó er það að mörgum talið það eina sem geti gert euroið að góðum gjaldmiðli fyrir öll ríkin sem nú nota það.

 

 


mbl.is 9% Svía vilja taka upp evruna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sósíalistar valda vonbrigðum

Fyrir ári síðan kusu Frakkar sósíalista til valda.  Gerðu Francois Hollande að forseta lýðveldis síns. Frakkar trúðu því að hinar sósíalísku lausnir sem hann stóð fyrir gætu leitt þá fram á við.

Það kemur mér ekki sérlega á óvart að þeir hafi orðið fyrir vonbrigðum.

Það var bjartsýni, en borin von að sósíalískar lausnir Hollande gætu leitt Frakka út úr þeim vandræðum sem þeir eru komnir í.

Ostrichs in Piggybanks Loforð um lækkun eftirlaunaaldurs og að setja ofurskatta á "ofurríka" einstaklinga duga gjarna til að fá atkvæði í Frakklandi, en eru síður vænleg til árangurs í "raunhagkerfinu".

Þegar staðreyndin er sú að Frakkland hefur glatað samkeppnishæfni sinni, eftir að það tók upp euroið og ríkið hefur ekki skilað jákvæðum fjárlögum síðan síðan Pompidou var keyrður um stræti Reykjavíkur í svörtum Citroen á milli þess sem hann fundaði með Nixon.

Þegar bætt er í blönduna valdamiklum og "militant" verkalýðsfélögum vaxa vandamálin enn frekar.

Atvinnuleysi vex, skuldir aukast og niðurskurðurinn er óhjákvæmilegur en leysir ekki vandann.

Það er engin tilviljun að skýrsla þar sem talað var um Frakkland sem "vandræðabarn" lak út frá Þýsku ríkisstjórninni nýlega.

Þolinmæði Þjóðverja gaganvart Frökkum hefur ekki verið minni um all langt skeið.

24% Frakka styðja forseta sinn.  Það er lægsta prósenta sem nokkur forseti 5. lýðveldis Frakka hefur haft eftir ár í embætti.

Frakkar hafa ekki trú á sínum sósíalíska forseta, en hafa þeir misst tilrúnna á hinar sósíalísku lausnir?  Það á eftir að koma í ljós.


mbl.is Dapurlegt ársafmæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árlegur skandall sem þarf að stöðva

Staðreynd að stjórnmálaflokkarnir hafa "mjólkað" skattgreiðendur um 1.2 milljarða á síðustu 4. árum, er skandall sem þarf að stöðva.  Ekki seinna en strax.

Mér reiknast til að það sé u.þ.b. 3.750 á hvern núlifandi Íslending á kjörtímabili, eða 937.5kr á ári.

Það er ekkert annað en svívirða í mínum huga.

Það er ekkert óeðlilegt að hið opinbera leggi þeim þingflokkum sem starfa á Alþingi til nokkurt fé, því vissulega þurfa þeir sem þar starfa að geta leitað ráðgjafar og ráðið einstaklinga til starfa og aðstoðar til lengri eða skemmri tíma.

En að sá stjórnmálaflokkur sem fær mest fái fast að  400 milljónum á kjörtímabili, hvað réttlætir það?

Hvað réttlætir að borgaðar séu um það bil 12 og hálf milljón fyrir hver prósentustig sem flokkur hlýtur í fylgi?

Hví gjalda skattgreiðendur svo fyrir atkvæði sitt?

Hvað fá þeir fyrir peninginn?

Þetta eru að mínu mati dýr og óþörf "sóknargjöld".

Ég vil jafnt þessi "sóknargjöld" sem og hin eiginlegu "sóknargjöld" felld niður, fyrir þá sem kæra sig ekki um að borga þau.

Hér má sjá árleg framlög til stjórnmálaflokka, 2010 til 2013

P.S.  Þessu er ekki beint gegn neinum flokki.  Svo lengi sem þessar greiðslur eru við lýði er eðlilegt að fylgismesti flokurinn, hljóti hæstu greiðslurnar.  En stjórnmálaflokkar eiga ekki að vera ríkisreknir. 

 

 

 

 


mbl.is Flokkarnir fengu 1,2 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband