Bloggfærslur mánaðarins, maí 2013

"Sambandsumsóknin" komin í "pólítískt Vökuport"

Ég myndi nú ekki ganga svo langt að segja að það sé mikið áfall fyrir "Sambandið" að aðlögunarferli Íslands verði stöðvað.

Ég myndi frekar segja að það væri enn einn neikvæði "kubburinn" sem bætist í það "púsl" sem Evrópusambandið er að leggja, og heildarmyndin sem birtist þessi misserin er ekki glæsileg.

Þær eru fáar jákvæðu fréttirnar sem koma frá og af "Sambandinu" þessa dagana.  Það varð meira að segja að draga til baka bann við því að að olívuolía væri borin fram í margnota umbúðum á veitingahúsum.  Það er vissulega áfall fyrir alla skynsama menn.

En auðvitað er það efnahagsástandið sem er mál málanna (it's the economy stupid). Samdráttur og yfirgengilegt atvinnuleysi.  Það eru "fyrirsagnirnar" sem koma frá "Sambandinu".  Önnur orð sem tengjast orðið ESB órjúfanlegum böndum eru neyðarfundir og ósætti.

Tal um "brennandi hús og hótel", "ófullgerðar byggingar" og þar fram eftir götunum, hefur komið oftar upp en tölu má á festa, undanfarin misseri.

En auðvitað er meginörsökina fyrir slæmri stöðu aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu að finna hjá Íslendingum sjálfum og ekki síst þeirri ríkisstjórn sem yfirgaf stjórnarráðið í gær.

Eins og segja má um svo fjölmörg önnur mál, var ESB umsóknin illa undirbyggð og naut ekki raunverulegs pólítísks stuðnings sem dugði.

Því endar hún sem eitt af hinum pólítísku "bílslysum" fyrstu "tæru vinstri stjórnarinnar" og endar í "pólítísku Vökuporti", með mörgum öðrum málum hennar.

Stærstu mistökin voru að setja umsóknina ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu í upphafi, en telja að nóg væri að snúa nógu margar hendur á loft á Alþingi, án þess að raunverulegur stuðningur fylgdi.

Endalausar fullyrðingar um velvilja þessa og hins innan "Sambandsins" og hraðferð sem byðist Íslendingum, standa eftir sem skrum, hjóm og hjákátleg trúgirni.

Æ fleirigera sér grein fyrir því hve illa var að málinu staðið og í hvílíkt öngstræti fyrrverandi ríkisstjórn kom því.

Stöðvun aðlögunarviðræðnanna kemur ekki degi of snemma.  En til þess þurfti nýja ríkisstjórn. 

 


mbl.is Áfall fyrir Evrópusambandið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frelsi til framfara - nýtt tímabil

Mér lýst ljómandi vel á nýja ríkisstjórn og óska henni og þeim ráðherrum sem í henni starfa alls hins besta, farsældar og velfarnaðar í starfi.

Ég, eins og líklega svo margir aðrir, bind góðar vonir við þessa ríkisstjórn og horfi án söknuðar á þá sem nú hverfur inn í söguna.

Þó að stjórnarsáttmálinn sé ekki "nákvæm leiðsögn" inn í framtíðina, líst mér vel á hann. Það er gott og tímabært að stöðva aðlögunarviðræðurnar við "Sambandið" og aðalverkefnið hlýtur að vera að auka verðmætasköpun Íslendinga.

Það þarf einnig að taka til í ríkisrekstrinum.  Lækka útgjöld og ef til vill ekki síst færa þau til.

Það þarf enginn að óttast að ríkisstjórnin hafi ekki næg verkefni, þvert á móti.

En mér líst vel á byrjunina og vel á mannskapinn.

Ég er sérstaklega ánægður með að stemmingin og traustið virðist vera gott, og að ekki er farin sú braut að skipta á forsætisráðuneytinu eftir einhver ár.

Það þarf að forðast ráðherraskipti eins og kostur er.  Ráðherrastarfið er ekki íhlaupavinna. 

 

 

 

 

 


mbl.is Ný ríkisstjórn formlega tekin við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný ríkisstjórn - hreint borð

Það er ábyggilega bæði kostur og löstur að enginn ráðherra nýrrar ríkisstjórnar hafi átt sæti við ríkisstjórnarborð áður.

Löstur að því leiti að vissulega er reynsla yfirleitt af hinu góða.

Kostur að því leiti að þá gefst tækifæri til þess að segja skilið við hinu "gömlu pólítík" og byrja með hreint borð.  Taka upp öðruvísi starfshætti og horfa fram á veginn.

Ég held að ef það væri eitthvert máltæki sem ný ríkisstjórn ætti að gera að sínu, væri það:  Í upphafi skyldi endinn skoða.

Ekki rjúka af stað með mál nema búið sé að gera sér grein fyrir því hvernig þau eiga að klárast, og hvaða áhrif þau kunna að hafa.

Ekki leggja fram "bílslys" á Alþingi.

Og halda sambandinu við almenning.

 


mbl.is Ekki gerst áður á lýðveldistímanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eðlilegt og sjálfsagt að neita "Sambandinu" um áheyrnaraðild

Persónulega finnst mér sjálfsagt og eðlilegt að Evrópusambandinu sé neitað um áheyrnaraðild að Norðurheimskautsráðinu.

Evrópusambandið á einfaldlega ekkert erindi inn í ráðið.

Ekki frekar en NAFTA, ASEA eða fjöldi annara samtaka og sambanda.

Þrjú aðildarríki "Sambandsins" eiga aðild að Norðurheimskautsráðinu, Svíþjóð, Finnland og Danmörk (í gegnum Grænland).  Það er engan vegin eðlilegt að "Sambandið" ætli sér að koma til viðbótar inn í ráðið.

Auðvitað mætti hugsa sér að Evrópusambandið tæki sæti ríkjanna þriggja yfir, en svo lengi sem ríkin eru sjálfstæðir aðilar að Norðurheimskautsráðinu, á "Sambandið" ekkert erindi þangað inn. 


mbl.is Samþykktu áheyrnaraðild Kínverja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

109 milljarðar hurfu á fjórum árum

Það gengur mjög á sparifé segir fréttin.  Íslendingar hafa verið duglegir að taka út úr bönkunum fé sitt á undanförnum fjórum árum.  Það er ef til vill ekki að undra.

Verðbólgan étur það upp, og síðan kemur ríkisstjórnin og tvöfaldar skattinn af tapinu.

Það er reyndar merkilegt að rétt rúmir 109 milljarðar skuli hafa "gufað upp" vegna verðbólgu og það er enginn farinn að tala um forsendubrest ennþá.  Hvað þá að hið opinbera eigi að bæta þeim sem urðu fyrir honum, tjónið.

En það er líklega minnihlutahópur sem sparar. Það virtist vera talið nokkuð í lagi að "níðast" á honum. Er ekki meginmarkmið samfélagsins að tryggja þeim sem vilja taka lán, lága vexti?

Því er nær að kaupa sér ekki hús, bíl eða hjólhýsi fyrir peninginn.

En hér er auðvitað kominn hluti af hagvextinum. Það verður að reyna að þröngva almenningi til að ganga á sparifé sitt.

En hluti af þessum úttektum er svo að finna "undir koddanum", ekki síst hjá eldra fólki.  Eldra fólki sem reyndi að leggja fyrir til að eiga eitthvað upp á hlaupa.  Eldra fólki sem vill eiga fyrir hlutunum og kaupir ekki á afborgunum.  

En þegar ávöxtunin er neikvæð, neikvæðu "vextirnir" eru samt sem áður skattlagðir um 20% og neikvæðu vextirnir eru jafnframt réttlæting þess að skerða lífeyrinn, þá sér flest skynsamt fólk að það borgar sig ekki að eiga peninga í banka.

Þá er betra að sofa "með hátt undir höfðinu".

Á "hátíðarstundum" er talað um að efla þurfi sparnað í landinu. En í raunveruleikanum er fyrst og fremst litið á sparnað sem einn einn skattstofninn.


mbl.is Gengur mjög á sparifé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samningastjórnin

Sterkasta arfleifð fráfarandi ríkisstjórnar er líklega samningarnir sem hún hefur staðið í og fyrir á kjörtímabilinu.

Sé eitthvað sem mun halda minningu hennar á lofti um ókomna tíð eru það samningarnir.

Oftast mun hennar líklega verða getið fyrir hina slæmu samninga sem hún hefur gert.

Þar standa hæst, IceSave samningarnir svokölluðu.  Ég hygg að það færi fáir þá plús megin í kladdann.

Svo eru það samningar eins og þessi sem talað er um í fréttinni sem hér er tengt við.  Samningur Nýja Landsbankans, við þrotabú gamla Landsbankans.

Svo má nefna samninga ríkisstjórnarinnar við kröfuhafa í þrotabú Glitnis og KBbanka, sem færði þeim bróðurpartinn af Arion og Íslandsbanka.  Það eru margir sem vilja meina að það hafi verið á meðal stærstu mistaka ríkisstjórnarinnar.

Ekki má gleyma að minnast að "samningaviðræður" ríkisstjórnarinnar við Evrópusambandið.  Þar var talað um 18. mánaða til 2ja ára samningaviðræður.  Þær standa enn og enn hefur varla verið rætt um það sem mestu máli skipti, þ.e.a.s. sjávarútveg og landbúnað.  Það sem "áunnist" hefur í samningaviðræðunum, er að Evrópusambandið samþykkir að ÁTVR megi ennþá hafa einkasöluleyfi.

Plúsmegin hjá mér, en langt í frá öllum kemur svo fríverslunarsamningurinn sem ríkisstjórnin gerði við Kína.

Þó að ekki hafi náðst samkomulag í makríldeilunni, verð ég þó að taka það fram, að þar finnst mér ríkisstjórnin hafa staðið sig með ágætum.


mbl.is Óvíst um undanþáguheimild LBI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein birtingarmynd hærri skatta

Ég reikna með að flestir Íslendingar kannist við "svarta vinnu".  Ef ekki af eigin raun, þá af frekar "nælægri afspurn".

Það er kunn staðreynd að eftir því sem skattar hækka, eykst "vinna án nótu".  Hvatinn verður meiri til þess að sniðganga bókhaldið.  Sparnaðurinn fyrir greiðandann eykst sömuleiðis.

Auðvitað gerist þetta ekki yfir nótt, þegar skattar eru hækkaðir.  En hægt og rólega aukast undanskotin.

Þau hverfa heldur ekki á einni nóttu, þó að skattar verði lækkaðir.  Margir vilja meina að það taki lengri tíma fyrir þau að hverfa, heldur en að skjóta upp kollinum.

Það er engin leið a fullyrða hvað er rétta skattprósentan.

En flestir eru sammála um að það er fylgni á milli hækkunar og undanskota.

Þetta er hluti af arfleifð fráfarandi ríkisstjórnar. 

 

 

 


mbl.is 20-30% bílviðgerða í svartri vinnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttaleysið veit á gott

Það er á köflum hreinlega vandræðalegt fyrir fjölmiðla hvað litlar fréttir berast frá stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.  Þess vegna hafa fréttirnar aðallega snúist um hvar fundirnir eru haldnir, hvað hefur verið á borð borið o.s.frv.

Frekar pínlegt fyrir fjölmiðla og jafnvel sömuleiðis fyrir lesendur þeirra.  Það er að segja nema þá sem einmitt vantaði góða vöffluuppskrift.

En ég held að fréttaleysið, þögnin viti á gott.  

Ekki eingöngu eru formennirnir þögulir, heldur hafa þingmenn flokkanna ekki stokkið fram með ótímabærar yfirlýsingar og vangaveltur og hugleiðingar.

Ég held að það viti á gott.

Ég vona að það viti á að komandi ríkisstjórn (ég vona að hún komist á laggirnar) takist að forðast stórar og eilífar yfirlýsingar og að stuðningsmenn hennar á Alþingi tali ekki  í allar áttir í fjölmiðlum.

Ég vona að innan hennar muni ríkja sátt um helstu mál og trúnaður á milli ráðherra og deilumál þeirra á milli verði ekki eilíflega í fjölmiðlum.

Ég vona að fjölmiðlar verði ekki fullir af vangaveltum um hvort að hinn eða þessi þingmaður stjórnarflokkanna, muni halda áfram að styðja ríkisstjórnina eða að hann sé með stjórnina á "skilorði".

Ég vona að þeir sem sitja á Alþingi á nýhöfnu kjörtímabili hafi í það minnsta dregið þann lærdóm af því nýafstaðna.

P.S. Mikið hefur verið gert úr því að aðeins formennirnir komi að viðræðunum ásamt aðstoðarmönnum sínum.  Þó að ég ætli ekkert að fullyrða hér um hvernig staðið er að viðræðunum, ber sú gagnrýni ekki vott um mikinn skilning á nútíma vinnubrögðum.

Það er allt eins líklegt að fjöldi hópa og einstaklinga hafi verið að störfum hér og þar, og leyst hin og þessi verkefni og útreikninga.  Það er ekki lengur nauðsynlegt að fólk "komi saman" til að "vinna saman". 

Það kann einmitt að vera klókara að halda slíkum hópum utan kastljóss fjölmiðla, þannig gengur vinnan betur og umræðan fer ekki öll að snúast um "hverjir voru hvar". 

 

 


mbl.is Viðræður fram á kvöld og á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sambandssinnar" að fara á "eurolímingunum"?

Það hefur verið merklegt að fylgjast með ýmsum "Sambandssinnum" í umræðunni undanfarna daga. "Hamfarakosning" helsta "Sambandssinnaflokksins", virðist valda þeim umtalsverðum sálarkvölum og stöðugar fregnir af efnahagsvandræðum innan "Sambandsins", virðist ekki gera neitt nema auka á angistina.

Þeir virðast vera í stökustu vandræðum að finna nokkuð jákvætt við "Sambandið".  En þá duttu þeir niður á Eurovision. Og þá röksemd að líklega ætluðu "vondu og ljótu" andstæðingar "Sambandsins" að taka Eurovision af Íslendingum.

Sú staðreynd að Eurovision sé ekki á vegum "Sambandsins", þvælist lítt fyrir í þeirri umræðu, þó að í þeirra huga teljist hún án efa upplýst.  Að  EBUsetji það ekkert fyrir sig hvort að félagar séu í "Sambandinu" eður ei, skiptir í hinni upplýstu umræðu engu máli.

Það að sum ríki "Sambandsins" hafi ákveðið að vegna þess hve efnahagur þeirra er bágborinn, að senda ekki keppendur til leiks í ár, hefur líklega líka farið fram hjá þeim. Það er líklega alveg óþarfi að blanda slíku inn í upplýsta umræðu.

Ef ég man rétt tók Ísland í fyrsta sinn þátt í keppninni árið 1986, en Sjónvarpið hefur sýnt hana eins langt og ég man, þó að framan af hafi ekki verið um að ræða beinar útsendingar.

Slíkt mun auðvitað halda áfram eins lengi og Íslenska sjónvarpinu þykir tilhlýðilegt, sem ég reikna með að verði býsna lengi.

Þegar var byrjað að sýna hana í Íslensku sjónvarpi var umræða um Evrópusambandsaðild Íslendinga varla eða ekki til staðar, og annað "Samband" fyrirferðarmeira í umræðunni.  Það er eitthvað sem segir mér að Eurovision verði ennþá sýnd í Íslensku sjónvarpi eftir að "Sambandsaðild" Íslendinga verður að mestu leyti úr sögunni og umræðunni.

En það er hollt fyrir "Sambandssinna" að minnast þess að "... þú leggur ekki inn í Gleðibankann tóman blús".

 

 


Er hér fundin raunverulega skýringin á því hvers vegna aðlögunarviðræðurnar voru settar í hægagang?

Það eru vissulega stórar fréttir að Framkvæmdastjórn "Sambandsins" hafi lagt til að tvö skilyrði verði lögð fram, áður en hægt verði að hefja viðræður við Ísland um sjávarútvegsmál, í aðlögunarviðræðunum.

Mér, em er yfirleitt lítt trúaður á tilviljanir,  þykir reyndar ótrúlegt að það hafi fyrst komið upp á yfirborðið nú, svona rétt þegar kosningum er lokið.

Ef til vill er komin hér skýring á því hversu nauðsynlegt það var talið að setja aðlögunarviðræðurnar í hægagang.

Ef til vill er hér komin skýring á því af hverjur Samfylkingu og Vinstri grænum þótti það nauðsynlegt að ekki yrðu opnaðir fleiri kaflar í stjórnartíð þeirra.

Það er ekki líklegt að tilkynning þess efnis að sjávarútvegskaflinn fengist ekki opnaður, nema að uppfylltum tveimur skilyrðuðum sem Framkvæmdastjórn "Sambandsins" hyggðist leggja fram, myndi færa flokkunum tveimur atkvæði, eða styrkja stöðu þeirra á annan hátt fyrir kosningarnar.

En þetta er ein vísbending þess að það á ekki að ganga út frá því sem sjálfsögðum hlut að samningar náist nokkurn tíma á milli Íslands og Evrópusambandsins. 

Hlutverk samninganefndar Íslendinga er ekki eingöngu að ná samningi, heldur ætti það ekki síður að vera að standa vörð um rétt Íslendinga og þau atriði sem Íslendingar hyggjast ekki gefa eftir.  Ekki undir neinum kringumstæðum.

Þess vegna er nauðsynlegt að komandi ríkisstjórn gangi rösklega til verks.  Ef ekkert bendir til þess að hægt sé að ljúka viðræðunum á skömmum tíma, er best að slíta þeim.

P.S.  Ekki yrði ég hissa þó að annað af tveimur skilyrðum Framkvæmdastjórnarinnar lúti að makríl og deilu Íslands og "Sambandsins" um veiðar á honum.


mbl.is Tvö opnunarskilyrði í sjávarútvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband