Þingið á Kýpur segir nei við skilmálum fyrir neyðarláni frá Evrópusambandinu

Það eru vissulega stór tíðindi að þingið á Kýpur hafi hafnað því að leggja sérstakan skatt á bankainnistæður.

Þannig "klipping" var skilyrði fyrir því að Evrópusambandið, Seðlabanki Evrópusambandsins og Alþjóða gjaldeyrisjóðurinn veittu ríkinu neyðarlán.

Það er rétt að hafa í huga í þessu sambandi að að ein af ástæðum þess að hinir Kýpversku bankar eru í vandræðum, eru fjárfestingar þeirra í Grískum ríkisskuldabréfum, sem hið sama Evrópusamband barði í gegn að fjárfestar sættu sig við "klippingu" á.

Nú er Kýpur næsti "dómínókubburinn".

En hvað gerist nú?

Það er ekki auðvelt að sjá fyrir en það eru ekki margir valkostir í stöðunni og líklega enginn þeirra góður.

Einn möguleiki er sá að "Þríeykið" eða "Troikan" gefi eftir og slaki á kröfunum gagnvart Kýpur.  Það væri pólítískt afar erfitt og hættulegt fyrir "Sambandið" og verður að teljast ólíkleg að um verulegar tilslakanir yrði að ræða.

Mun líklegra væri að aukin þrýstingur yrði settur á ríkisstjórn Kýpur og þingið látið greiða atkvæði um tillögurnar aftur.  Þar væri Evrópusambandið á heimavelli, fáir ef nokkur kann betur þá list að láta endurtaka atkvæðagreiðslur.

Þriðji möguleikinn væri að Kýpur leiti "annnara leiða" eins og stjórnmálamenn þarlendis hafa orðað varfærnislega.  Það væri þá næsta víst að um yrði að ræða frekari fjármögnun frá Rússlandi.  Þá næsta víst með "veði" og vinnslurétti í gríðarstórum gaslindum sem eru undan ströndum Kýpur. 

Flogið hefur fyrir að Rússar myndu hugsanlega lána fé í gegnum annaðhvort eða bæði Gazprom og Rosneft, en þau eru bæði undir tryggri stjórn Rússneska ríkisins.

Það væri vissulega nokkuð merkilegt ef Rússar næðu óbeinum yfirráðum yfir þeim gaslindum, fyrir framan nefið á Evrópusambandinu.  Nóg eru ítök þeirra á orkumarkaði "Sambandsins" fyrir.

Fjórði möguleikinn væri að Kýpur færi hreinlega í þrot, bankarnir hryndu og ekki ólíklegt að hið opinbera fylgdi á eftir.  Þó að ekki sé hægt að afskrifa þennan möguleika, verður hann að teljast ólíklegur.  Það eru einfaldlega það miklir hagsmunir, og mjög líklega tekjumöguleikar í gaslindunum, til staðar að það er líklegt að einhverjir hlaupi undir bagga með Kýpur.

Persónulega hallast ég æ meira að því að það verði Rússland.

Enn og aftur kemur í ljós hve illa Evrópusambandið og skipulag þess og uppbygging er fær um að kljást við krísur hjá aðildarríkjunum.

Enn og aftur má efast um að leiðtogar "Sambandsins" hafi gert sér grein fyrir því hvað þeir voru að samþykkja og til hvers það myndi leiða.

Enn og aftur kemur í ljós hve illa euroið hentar fyrir heild þeirra ríkja sem nota það.  Varnaðarorð sem féllu áður en euroið kom til sögunnar og fram á þennan dag, voru ætið höfð að engu.

Sjálfsagt eiga leiðtogar "Sambandsins" eftir að koma fram á næstu dögum og segja að það sem þurfi sé meira af því sama.  "Meira Samband".  En ræður þeirra hljóma æ holari og innantómari.

Sjálfsagt á Össur Skarphéðinsson eftir að koma fram í fjölmiðlum eftir fáa daga og segja að eurokrísan sé leyst.

 

 


mbl.is Kýpur hafnar skatti á innistæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband