Meingölluð tillaga Þorgerðar Katrínar

Það hefði verið gráupplagt að kjósa um Evrópusambandsaðild og áframhald viðræðna samhliða komandi Alþingiskosningum, að því leyti til er tillaga Þorgerðar Katrínar góð.

Það gera sér þó líklega flestir grein fyrir því að alltof seint er að leggja slíka tillögu fram nú, örstutt til kosninga og utankjörstaðaatkvæðagreiðsla hafin.  Slík tillaga hefði þurft að koma fram mikið fyrr.  Ég held reyndar að þjóðaratkvæðagreiðsla með svo stuttum fyrirvara stangist á við lög, en ætla þó ekki að fullyrða um það.

Því er varla annað hægt en að flokka þessa tillögu sem sýndartillögu, lagða fram með sýndarmennsku í huga.  Fjöldi slíkrar "fjölmiðlafrumvarpa" og  tillagna hafa komið fram á undanförnum dögum og er ekki til fyrirmyndar.

Það má merkilegt teljast að Þorgerður skuli velja slíka "sýndartillögu" sem endapunktinn á þingferli sínum, en persónulega þykir mér ekki mikil reisn yfir því.

Síðan má auðvitað deila um orðalag spurningarinnar, og þarf ekki að efa að þar mun sitt sýnast hverjum, en ég ætla ekki út í þá sálma hér.

En síðari dagsetningin sem Þorgerður Katrín tiltekur, finnst mér eiginlega út í hött.

Mér finnst eiginlega einboðið hafi viðræðum við "Sambandið" ekki lokið á einhvern hátt áður en til sveitastjórnarkosninga árið 2014 komi, þá sé ekki ástæða til að halda þeim áfram, nema þá að samningar séu á lokaspretti og þurfi nokkrar vikur til viðbótar.

Það er engin ástæða til þess að samningaviðræður standi "endalaust", og það er engin ástæða til þess að gefa sér að til samnings komi.  Ef til vill næst ekki niðurstaða sem báðir aðilar geta sætt sig við.

Þess vegna er líka seinnihluti spurningar Þorgerðar Katrínar allt of gildishlaðinn, þar sem hún gefur sér að slík niðurstaða fáist.

Þess utan er engan vegin rökrétt að núverandi þing reyni á einhvern hátt að binda hendur komandi þings í þessu máli.  

Kosningar eru eftir rétt rúman mánuð, þar velja kjósendur nýtt þing, nýja þingmenn sem þeir veita umboð til fjögurra ára.  Það er það þing sem kemur til með að taka ákvörðun um framvindu og framhald málsins.

Tillaga Þorgerðar Katrínar er sýndartillaga af ódýrari gerðinni.  Ef til vill hefur þingmaðurinn ekki "pólítískt kapítal" fyrir meiru, nú við enda þingferils.

 


mbl.is Kosið verði um ESB 27. apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Páll Haraldsson

Samkvæmt fréttu í dag, þá er þessi tillaga Þorgerðar ekki að koma of seint. Það þarf bara að vera samstaða á þingi. Allir hafa þeir sagt að annaðhvort eigi að klára viðræður eða að það eiga að kjósa um framhald. Nú þurfa menn bara að standa einusinni við sín orð. Ef við kjósum samhliða alþingiskosningum þá getum við tekið næsta skref í samræmi við vilja þjóðarinnar og hlítur það ekki að vera mesta lýðræðið? Eða eru kannski einhverjir sem vilja ekki lýðræði?

Jón Páll Haraldsson, 20.3.2013 kl. 18:17

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það þarf þá, eftir því sem ég kemst næst, að breyta lögum um þjóðaratkvæðagreiðslu.  Það er vissulega möguleiki.

En það er ekki síður mikilvægt að setja einhvern tímaramma um aðildarviðræður við "Sambandið".  Það er engan vegin ásættanlegt að aðildarviðræður taki ótakmarkaðan tíma.

Hvað lengi er eðlilegt að viðræður taki langan tíma?

Það er engan vegin heldur rökrétt að ganga út frá því að það sé vissa fyrir því að samningar náist.  Það er að segja ekki nema að eina markmiðið með samningaviðræðum sé að ná samningum.

Það sem ekki hvað síst vantar í uppýsingum til almennings, er að upplýsa um hvaða skilyrði Íslensk stjórnvöld setja sem ófrávíkjanleg skilyrði til að samningar náist.

Það er eitt af því sem "Sambandssinnar" hafa forðast eins og heitan eldinn að nefna.

Það er nefnilega ekki ófrávíkjanlega regla að samningaviðræður leiði til samninga.  IceSave deilan hefði átt að kenna Íslendingum það, en eitthvað virðist skorta upp á að sú lexía hafi skilað sér.

Það er ef til vill ekki tilviljun, að mikil fylgni virðist vera á milli þess að hafa viljað samþykkja alla IceSave samningana og að vilja ganga í Evrópusambandið.

Hitt er svo að það er auðvitað eitthvert stærsta glappaskot Íslenskra stjórnmála, fyrr og síðar, að aðildarumsóknin skyldi ekki hafa verið sett í þjóðaratkvæði.

Til þess hafði ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna ekki pólítískt hugrekki.  Það er ekki síst vegna þess að aðildarumsóknin er í "hægagangi" núna og er í svo miklum vandræðum.

Síðan má deila um hvort ekki sé rétt að spyrja:

Vilt þú að Ísland gangi í Evrópusambandið?

Nei

Því auðvitað er ekki rétt að standa í aðildarvíðræðum, nema að vilji sé til þess að ganga í sambandið.

G. Tómas Gunnarsson, 20.3.2013 kl. 18:37

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Gleymdi að kasta hér fram þeirri spurningu til Jóns Páls, hverjar hann teldi líkurnar á því að tillaga Þorgerðar Katrínar næði að hljóta samþykki fyirr þinglok?

G. Tómas Gunnarsson, 20.3.2013 kl. 18:47

4 Smámynd: Jón Páll Haraldsson

G. Tómas

Ég er efins

Jón Páll Haraldsson, 20.3.2013 kl. 19:20

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Ég held að það sé rétt að vera mikið meira en efins.  Persónulega tel ég engar líkur á því að þingsályktunartillaga Þorgerðar Katrínar verði samþykkt.

Þess vegna segi ég hana sýndartillögu, vegna þess að ég tel flutningsmann tillögunnar jafnt sem flesta aðra alþingismenn gera sér grein fyrir þvi.

Hvers vegna var hún enda ekki lögð fram fyrr?

G. Tómas Gunnarsson, 20.3.2013 kl. 19:38

6 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það er númer eitt að sýna þessu áhuga en ekki tala svona tillögu niður. Þetta er hægt og fólk vill þetta. Kannski vill Þorgerður halda áfram í pólitíkinni en það er þá eins gott að hún komi þessu í gegn.  Ég styð tillögu Þorgerðar K G

Valdimar Samúelsson, 20.3.2013 kl. 21:03

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það þjónar að mínu mati engum tilgangi að sýna tillögu sem hefur enga raunhæfa möguleika á því að vera samþykkt, verulegan áhuga.

Rétt er að velta því fyrir sér hvers vegna þessi tillaga er að koma fram nú, en kom ekki fram fyrir vikum, eða mánuðum síðan?

Rétt eins og flestir hafa gert sér grein fyrir því að stjórnarskrártillögur eru illa til þess gerðar að vera samþykktar, held ég að flestir geri sér grein fyrir því að þessi tillaga er ólíklega á leið í gegnum þingið.

Hver er þá tilgangurinn með því að leggja hana fram nú?

G. Tómas Gunnarsson, 20.3.2013 kl. 21:41

8 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Það er hjákátlegt hjá landanum að vera spyrja hversvegna þetta og hversvegna hitt. Þessi tillaga þjónar sama tilgangi og aðrar þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta sama mál. Ef hún verður feld þá það ef hinn hlutinn verður samþykktur þá er það næstbesti kosturinn sem við höfum. Ef sjálfstæðisflokkur og framsókna komast í stjórn þá eru þeir búnir að lofa að hætta viðræðum svo hvað er svo galið við þessa tillögu.

Valdimar Samúelsson, 20.3.2013 kl. 21:51

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Jú, það er eðlilegt og æskilegt að spyrja hvers vegna þetta og hvers vegna hitt.  

Það eru engar líkur til þess að þessi tillaga verði samþykkt, vegna þess að hún er að koma fram núna.

Hugsanlega hefði hún átt möguleika á samþykki hefði hún komið fram stuttu eftir áramót.

Því er eðlilegt að spyrja sig, hver er tilgangurinn með því að leggja hana fram nú?

Hver er tilgangurinn með því að hrúga inn fjöldanum öllum af tillögum og frumvörpum rétt fyrir þinglok?

G. Tómas Gunnarsson, 21.3.2013 kl. 09:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband