Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Stóra FBI málið

Það er frekar eritt að átta sig á þessu máli.  Flest það sem fram hefur komið vekur fleiri spurningar en svör.

Hvers vegna skyldi einstaklingur gefa sig fram við Bandaríska sendiráðið, frekar en Íslensk lögregluyfirvöld? 

Hvað færi 2. ráðherra í ríkisstjórn til þess að grípa inn í rannsókn á hugsanlegu sakamáli og síðan fyrirskipa að samstarfi við erlenda lögreglu skuli hætt?

Hvers vegna hefur ráðherra svo miklar áhyggjur af því að Íslenskur ríkisborgari tali við FBI af fúsum og frjálsum vilja.

Ef marka má fréttir þá flaug umræddur einstaklingur með FBI til Bandaríkjanna af fúsum og frjálsum vilja.  Hafði þar nokkra daga samstarf við FBI og flaug síðan heim.

Er það eitthvað sem Íslensk stjórnvöld hafa áhyggjur af og vilja stöðva?

Hvers vegna gengur yfirlýsing ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara því sem næst þvert á yfirlýsingar ráðherra?

Hvaða Íslenskum hagsmunum (eða hagsmunum stjórnvalda) ógnaði FBI rannsóknin á Íslandi?  Hvað var óeðlilegt við hana?

Finnst öllum það sjálfsagt að ráðherrar grípi inn í störf lögreglu með þessum hætti?

Ráðherra skulda útskýringar á þessu máli.  Auðvitað ættu íslenskir blaðamenn að grafa til botns í þessu, en því miður er ekki hægt að vera bjartsýnn hvað það varðar.

Það er rétt að hafa í huga að þetta er ekki í fyrsta sinn á kjörtímabilinu sem virðist reynt að fela og breiða yfir mál sem tengist tölvunjósnum gagnvart Íslenskum stjórnvöldum. 

P.S.  Sorglegast af öllu finnst mér þegar gamla "kanagrýlu" hugsunarhátturinn fer á fullt og viðkomandi sér ekkert nema "ofríki" heimveldis og þar fram eftir götunum.  Svo vilja líka ýmsir benda staðalímynd FBI í málið.  Vondu löggurnar sem koma og taka yfir málið frá "small town sherrif".  Senda hann út í kuldann en hann hefur svo auðvitað rétt fyrir sér. 

 


mbl.is Ögmundur vinnur að greinargerð um komu FBI
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Euroið er að ýmsu leyti "óeðlileg áhrif á gjaldmiðla". Frakkland uppgötvar kosti þess að deila gjaldmiðli með Þýskalandi

Það hefur nokkuð verið fjallað um viðleitni ýmissa ríkja til þess að verðfella gjaldmiðla sína undanfarnar vikur.  Sumir hafa gengið svo langt að tala um gjaldmiðlastríð.

En stærsta verðfelling gjaldmiðils gerist á Eurosvæðinu, þar sem segja má að "Norðurríkin", sérstaklega Þýskaland, verðfelli gjaldmiðla sína á hverjum degi með því að tengja þá við gjaldmiðla "Suðurríkjanna".

Þetta er það sem er kallað euro.

Svissneski seðlabankinn kaupir euro í gríð og erg, og prentar til þess Svissneska franka.  Síðan fer hann með euroin og kaupir erlend ríkisskuldabréf.  Að stórum hluta Þýsk, Bresk og Frönsk.

Þetta er ekki vegna þess að Sviss gæti ekki unnt gjaldmiðli Grikklands, Portugal eða Spánar að falla.  En Sviss má ekki við því að samkeppnisstaða Þýskalands verði enn betri.

Það sama má segja um Japani.  Þeir mega ekki við því að Þýskur bíla og hátækni iðnaður fái betri samkeppnisaðstöðu.  Því prenta þeir nú yen sem aldrei fyrr.  Ekki til að jafna aðstöðu sína gagnvart Ítölum, Gríkkjum eða Frökkum.  Nei, það er samkeppnisstaðan gegn Þýskalandi sem skiptir máli.

Bretar og Bandaríkjamenn hafa heldur ekki legið á liði sínu í seðlaprentuninni.

Þannig styrkist euroið og samkeppnisstaða fyrirtækja innan Eurosvæðisins versnar svolítið.

Vandamálið er að "Norðurríkin", sérstaklega Þýskaland, mega við því.  En "Suðurríkin" og þar með talið Frakkland mega ekki við frekara tapi á samkeppnishæfi.

Það má segja að þetta sé nokkurn vegin vandamál Eurosvæðisins í hnotskurn.

Á síðasta ári tókst vel til að lengja í snörunni, en ennþá á eftir að finna aðferð sem allir sætta sig við til að koma svæðinu úr henni.

Síðan euroið kom til sögunnar hefur samkeppnishæfi Frakklands hægt og rólega sigið niður á við.  Það sama hefur viðskiptajöfnuður landsins gert.

Hollande er að kynnast "kostum" þess að deila gjaldmiðli með Þýskalandi.  Atvinnuleysi eykst hröðum skrefum og fyrirtæki eru sífellt að tilkynna um lokanir eða samdrátt í Frakklandi.

Þannig verður ástandið í löndum þar sem gjaldmiðillinn dregur ekki dám af efnahagsástandinu í landinu, heldur jafn mikið eða meira af ástandinu í nágrannalandinu.

Það er merkileg staðreynd að þeir skuli finnast sem vilja ekkert frekar en að þetta verði hlutskipti Íslendinga.

Ef til eru þeir sannfærðir um að efnahagslífið á Íslandi muni slá í fullkomnum takti við það Þýska, og allt verði eins á Íslandi og í Þýskalandi.  Kauphækkanir verði þær sömu, lágmarklaun verði aðlöguð að Þýskalandi og svo framvegis.  Fiskverð hækkií takt við útflutning Þýskalands og bjór og vextir verði á svipuðu róli.

En það þarf ekki að horfa lengi yfir Eurosvæðið til að sjá að sú hefur ekki orðið raunin hjá öðrum ríkjum.

Enn og aftur er ástæða til  að hvetja Íslendinga til að kynna sér málin.  Ekki láta sér slagorð og fullyrðingar duga, heldur kynna sér hvað er gert og hvað er að gerast í löndum "Sambandsins" og á Eurosvæðinu.

Atvinnuleysistölur eru ekki versti staðurinn til að byrja á.

 

 


mbl.is Hátt gengi evrunnar ógnar ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir eru svo litlir að þeir falla í gegnum möskva björgunarnetsins?

Þetta er býsna merkileg frétt - fyrir margar sakir.

Ef Kýpur er svo lítið, að hrun fjármálakerfisins og fjármála ríikisins skapar ekki kerfislægan vanda fyrir Eurosvæðið, hvað yrði þá sagt um Ísland?  Hvað yrði sagt um Eistland?

Og sannar þetta ekki það sem svo oft hefur verið fullyrt, að Eurosvæðið hafði engan áhuga á því að bjarga Grikklandi, hvað þá Grískum almenningi?

Allar aðgerðir snerust um að bjarga euroinu.

Allar björgunaraðgerðir voru framkvæmdir með hagsmuni Eurosvæðisins í forgangi.  Ekkert annað skipti máli.  Hörmungar þær sem leiddar hafa verið yfir almenning á svæðinu er "kostnaður" þess að bjarga Eurosvæðinu frá frekari vandræðum og sérstaklega bönkum á svæðinu.

En samt hafa lönd eins og Kýpur tekið þátt í stofnun sjóða Eurosvæðisins, bæði EFSF og ESM, og ábyrgst þar sín framlög eins og aðrir.

En kemur þá í ljós að þeir eru svo litlir að þeir falla í gegnum möskva öryggisnetsins?

En auðvitað er engin ástæða fyrir Kýpurbúa að kvarta.  

Fengu þeir ekki fjármálalegan stöðugleika með því að ganga í "Sambandið" og taka upp euro?

Eru þeir ekki með "sæti við borðið" og hafa fengið þau gríðarlegu áhrif sem smáþjóðir fá með því að ganga í "Sambandið"?

Þeir stóðu að því að setja upp björgunarsjóði fyrir euroið.

En nú stendur þeim töfralausn Árna Páls ekki til boða.  Þeir geta ekki bjargað sér með því að sækja um aðild að "Sambandinu".  

En það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls.

Ef til vill er stóra lexían fyrir smærri lönd "Sambandsins", sú að forðast að lenda í fjárhagsvandræðum á kosningaári í Þýskalandi.

En þessar fréttir eru enn ein áminningin til Íslendinga um að skoða "Sambandið" vel.  Ekki eingöngu það sem er sagt, heldur það sem er gert og gerist.

 


mbl.is Kýpur of lítil til að bjarga?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ákærur vegna einkunnagjafa - Samningar náðust ekki

Þetta er fróðlegt mál og kemur til með að hafa áhrif víða um lönd og það líklega til lengri tíma.

Hve mikil ábyrgð fylgir því að gefa út einkunnir um fjárhagslega getu ríkisstjórna, fyrirtækja og hve áreiðanleg skuldabréf og vafningar eru?

Það er nú stóra spurningin sem nú verður látið reyna á fyrir dómi. 

Samkvæmt fréttum er það eftir að upp úr samningaviðræðum slitnaði, að Bandarísk stjórnvöld ákveða að kæra S&P.  Samningaviðræður leiða nefnilega ekki alltaf til samninga.

Ég held að enginn velkist í vafa um áhrifamátt stóru matsfyrirtækjanna þriggja en spurningin er hvað ábyrgð fylgir einkunnagjöfinni og hver ætti refsingin að vera við því að gera mistök?  Og havð ef "mistökin" voru ekki mistök?

En auðvitað er þjónustan keypt af fúsum og frjálsum vilja og líklega svo margir "disclaimerar" til staðar að erfitt er að hanka matsfyrirtækin, nema að sannist að um vísvitandi blekkingar hafi verið að ræða.

Er það saknæmt að selja ráðgjöf sem reynist röng?  Eða auglýsingaherferð sem virkar ekki? 

En verður án efa fylgst af athygli með þessu máli, en nðurstaðan kemur líklega ekki fyrr en eftir langan tíma, ef hún þá kemur yfirleitt. 

 


mbl.is Bandaríkin kæra Standard & Poors
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er það eins og að spila í happdrætti að leita til dómstóla?

Auðvitað er það svo að fátt er öruggt í lífinu, nema dauðinn.

Það er erfitt að fullyrða um niðurstöðu deilumála og sjá inn í framtíðina.

En mér þykir það merkilegt þegar talað er um að niðurstaðan í IceSave málinu hafi komið gríðarlega á óvart. 

Þó höfðu margir aðilar lýst stöðu Íslendinga nokkuð nákvæmlega eins og niðurstaðan varð. Íslenskir lögfræðingar höfðu skrifað greinar sem lýstu því að Bretar og Hollendingar hefðu engan lagalegan grunn fyrir kröfum sínum.

Hópar eins og InDefense og Advice höfðu sömuleiðis flutt afar góð rök fyrir því að kröfurnar byggðu ekki á neinum lagalegum grunni.

Auðvitað er það ekki trygging fyrir því að niðurstaðan yrði sú sem varð.  En það er óþarfi að láta eins og það hafi komið sérstaklega á óvart, eða sé helber tilviljun, eða eingöngu að þakka góðum lögfræðingum.

Allra síst ættu þeir einstaklingar, s.s. Jóhanna Sigurðardóttir, sem lýstu því yfir að þeir hefðu alltaf haft trú á málstað Íslands, að láta niðurstöðuna koma sér verulega á óvart.

Það er ekki eins og að kaupa happdrættismiða að leita til dómstóla, hvort sem það er innanlands eða erlendis, eða það skulum við alla vegna vona.

Dómstólar dæma eftir lögum - í það minnsta kosti alla jafna, og röksemdir um lagalega stöðu Íslands voru góðar.  Dómstólar dæma ekki eftir því hvort það sé "siðferðislega" rétt að greiða IceSave kröfuna, eins og ýmsir spekingar og álitsgjafar héldu fram.

Niðurstaðan úr IceSave málinu var ekki tilviljun.  Hún var afleiðing góðrar lagalegrar stöðu Íslands, vinnu góðs lagateymis og þeirrar samstöðu sem náðist eftir að ljóst var að ríkisstjórnin var gerð afturreka með samninga sína.

P.S. Það sem er ef til vill versta hugsunin í málinu öllu, er að stundum er eins og búist hafi verið við að dómstóllinn dæmdi á pólístískum forsendum, gegn hagsmunum Íslands.

Það er slæm tilfhugsun að talin skuli vera hætta á slíku hjá alþjóðlegum dómstól.

 

 


mbl.is Tilviljun hvernig Icesave-málið þróaðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og völundarhús án útgönguleiðar

Það er vissulega framfaraskref að frammámenn innan "Sambandsins" vilji fara að gera ráð fyrir því að hægt sé að yfirgefa myntsamstarfið.

Það bendir til þess að í það minnsta kosti einhverjir séu orðnir víðsýnari en svo að eina lausnin sé meira af því sama, eins og ein vinsæl mantra "Sambandsins" hljómar upp á.

Það er reyndar með eindæmum að "sjálfstæðar" þjóðir skuli hafa samþykkt að taka þátt í myntsamstarfi sem ekki er skír og skilmerkileg útgönguleið úr.

Það sama má segja um þjóðir sem hafa skuldbundið sig til þess samstarfs "eins fljótt og auðið er", án þess að útgönguleið sé til.  

Það er ef til vill ekki að undra að þær þjóðir sem ekki eru komnar inn í "völundarhúsið", en eru skuldbundnar til þess að fara inn, skuli eftir fremsta megni reyna að fresta inngöngunni.

En þetta er auðvitað partur af umræðunni sem Cameron vakti upp, það að "Sambandið" þurfi að vera sveigjanlegra og að "ein stærð henti ekki öllum".

En þeir sem tala um að eina lausnin við vandræðum  "Sambandsins" , sé meira "Samband" eru augljóslega ekki sammála slíkum þankagangi.

Eins og er eru það þeir sem ráða ferðinni.

Þess vegna er tómt mál að tala um að ganga í "Sambandð" á eigin forsendum.  

Einu forsendurnar sem bjóðast eru forsendur "Sambandsins".

Þess vegna er áríðandi fyrir Íslendinga að láta ekki glepjast og segja nei við "Sambandsaðild".


mbl.is Geti yfirgefið evruna og Schengen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnmálaflokkarnir, IceSave og skoðanakannanir

Mál ársins, það sem af er, á Íslandi er auðvitað IceSave.  Meira að segja handbolti gleymist nú þegar IceSave úrskurðurinn er kominn.

Eðlilega eru margir farnir að velta því fyrir sér hvort og hve mikil áhrif þessi niðurstaða muni hafa á alþingiskosningarnar í vor.

Um slíkt er erfitt að fullyrða, en þó held ég að það sé óhætt að segja að kjósendur muni líta til IceSave þegar þeir greiða atkvæði sitt.  En vissulega á margt eftir að ganga á fram að kosningum og spurning hvernig þeim sem IceSave lyftir tekst að halda því fylgi.

Nu hafa komið fram á síðustu dögum, 3. skoðanakannanir sem sýna býsna misjafna stöðu, en þó ekki svo ósvipaða þróun fylgis.

Þróunin er ótvítrætt fylgistap stjórnarflokkana, sértaklega Samfylkingar.  Vinstri græn virtust að mestu leyti hafa tekið sitt fylgistap út áður, en síga enn neðar.

En af stjórnmálaflokkunum held ég að það sé engin spurning að Framsóknarflokkurinn mun njóta IceSave málsins mest og sterkast.

Ég verð hissa ef að Reykvískir kjósendur eiga ekki eftir að kjósa Frosta Sigurjónsson á þing.   Hann hefur eðlilega fengið mikla athygli fyrir þátt sinn í málinu og þetta kemur til með að auðvelda honum að ná athygli í kosningabaráttunn og koma hugmyndum sínum og málstað Framsóknarflokksins á framfæri.

Ég held að þetta gæti sömuleiðis fært Framsóknarflokknum gríðar vind í seglinn í NorðAusturkjördæmi.  Þar fer Sigmundur Davíð fyrir listanum og kemur sömuleiðis afar vel undan IceSave málinu.  Í kjördæminu leiðir svo Steingrímur J. lista Vinstri grænna og kemur út, í það minnsta enn sem komið er, hvað verst í þessu máli.  Einhvernveginn virðist Samfylkingunni takast að láta málið falla mun meira í kjöltu VG.

Sé litið til þess að oft er talað um að fylgi færist á milli Framsóknarflokks og VG, ætti Framsóknarflokkurinn að eiga gríðarlega möguleika í NA, ef rétt er haldið á spöðunum.  Þar á hann enda gríðarsterkar rætur.

En IceSave er líklegt til að skila Framsóknarflokknum fylgisaukningu um allt land, eins og þessar skoðanakannanir sýna.

Sjálfstæðisflokkurinn lætur nokkuð undan síga í þessum könnunum.  Einstakir frambjóðendur, s.s. Brynjar Níelsson geta borið höfuðið hátt, vegna einarðrar afstöðu sinnar í málinu.  Sumir þingmenn flokksins, s.s. Birgir Ármannsson, Pétur Blöndal og Unnur Brá Konráðsdóttir stóðu einnig fast á sannfæringu sinni og greiddu atkvæði gegn samningunum.  Meirihluti þingflokksins stóð hins vegar að samþykkt IceSave III.   En fram að því stóð flokkurinn gegn samningunum, en vann þó vel við gerð fyrirvara sem vissulega skiptu máli í framvindunni.

Hvort að það er IceSave sem er að taka fylgið af Sjálfstæðisflokknum er ekki gott að segja, en þó ekki ólíklegt, en skrýtið útspil um gjaldmiðilsmál á þeim tíma sem "spot" kannanirnar voru gerðar gæti líka hafa haft áhrif. 

Hreyfingin getur borið höfuðið hátt, hvað IceSave málið varðar, en mér sýnist ekkert benda til þess að flokkurinn nái að nýta það sér á nokkurn hátt til fylgisaukningar.

Björt framtíð heldur áfram að bæta við sig fylgi.  Það er erfitt að gera sér grein fyrir því hvers vegna BF bætir svo við sig.  Helst er hægt að ætla að kjósendur sem telji þörf fyrir "eitthvað nýtt!" og gömlu flokkarnir séu ekki atkvæðisins virði, fylki sér um Bjarta framtíð.

Það er líka freistandi að ætla að stór hluti fylgis BF komi frá Samfylkingunni, vegna þess hve keimlík stefnumál flokkanna eru.  

Persónulega þætti mér ekki ólíklegt að Árni Páll geti að einhverju marki snúið þeirri þróun við.  Hann er mun líklegri til að höfða til stuðningsfólks BF, en Jóhanna eða Guðbjartur nokkurn tíma gæti.

Það er enda mikill kostur fyrir Árna Pál að þessar kannanir komu fram á "síðasta degi" Jóhönnu Sigurðardóttur.  Það getur verið mikið traustleikamerki fyrir hann ef hann nær að snúa þróuninni við og sigla upp á við.  Hvort að þessar kannanir séu botninn fyrir Samfylkinguna er erfitt að spá um, en ég tel þó líklegt að Árni Páll nái botnspyrnu nú.

Þó held ég að viðspyrnin geti reynst Samfylkingunni erfiðari, ef Jóhanna heldur áfram sem forsætisráðherra til vorsins.

Allar kannanirnar benda til þess að Vinstri græn séu i stórkostlegum vandræðum.  Fylgishrunið þar virðist ekki hafa stoppað.  Í könnunni sem var gerð fyrir Sprengisand er flokkurinn orðinn 6. stærsti flokkur á Íslandi.

Hægri grænir hafa komist upp fyrir þá.  Það er ekki auðvelt að sjá hvað þarf til að flokkurinn geti snúið þessari þróun við.  Því sem næst allt leggst honum í mót þessa dagana.  Flokkurinn enda í harðri andstöðu við sjálfan sig í málum eins og "Sambandsaðild", olíuleit og fleira.  IceSave niðurstaðan hefur heldur ekki hjálpað upp á.

Svo eru það Hægri græn.  Það yrðu óneitanlega tíðindi ef þau kæmu mönnun á þing.  Loksins kemur könnun sem gefur það til kynna.  Flokkurinn er ekki tilbúinn með neinn lista og lítið vitað hverjir koma til með að skipa þá.  En það er spurning hvort flokknum tekst að nýta sér þessa athygli sér til framdráttar?

Þessar kannanir gefa til kynna að mikil hreyfing sé á kjósendum og allt geti gerst fram að kosningum.

Sjálfstæðiflokkurinn hefur sterka stöðu, en bæði Framsóknarflokkur og Björt framtíð eru að sækja á.  Ríkisstjórnarflokkarnir eru í mjög þröngri stöðu.

Samfylkingin er nýbúin með landsfund.  Ég held að hann hafi ekki skilað þeim árangri sem flokkurinn vænti.  Vissulega var skipt um formann og varaformann og ég hygg að flestir geti verið sammála um að það ætti að skila flokkunum auknu fylgi.  En að öðru leyti fór landsfundurinn fram í skugga IceSave niðurstöðunnar og fylgishruns í skoðanakönnunum.   Því virtist áhugi á fundinum og starfinu ekki vera mikill, eins og sást í atkvæðatölum á sunnudeginum.

Nú fara hinir flokkarnir að halda fundi sína, hver af öðrum.  Það verður fróðlegt að fylgjast með þeim.

Svo hlýtur að líða að því að frekari málefnagrundvöllur sjáist hjá Bjartri framtíð.  Þó að vel gangi í skoðanakönnunu, hlýtur krafan að vera sú að þeir gefi sig frekar upp.

 

 

 


mbl.is Vinstri-grænir með 5,7% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengi krónunnar styrkist á meðal Íslendinga

Það hefur mikið verið barið á krónunni undanfarin ár.  Hlutskipti hennar og hluverk hefur mikið verið rætt og sitt sýnst hverjum.

En eftir alla þessa umræðu þá virðist gengi krónunnar aftur farið að styrkjast á meðal Íslendinga. Líklega hefur hin aukna umræða skilað því.

Reynsla margra Evrópuþjóða, sem hafa tekið upp "erlenda" mynt, hefur líklega sömuleiðis styrkt Íslendinga í þeirri trú að krónan muni vera best sem mælieining um ókomin ár.

Sjálfsagt myndi Árni Páll Árnason, nýkjörinn formaður Samfylkingar halda því fram að hann ætti erfitt með að trúa því að svo stór hluti kjósenda "sé svo skyni skroppinn" eins og fram kemur í þessari könnun.

En kjósendur hafa líklega margir gefist upp á því að trúa á töfralausnir Árna Páls og Samfylkingarinnar.

Ég yrði ekki hissa þó að gengi krónunnar eigi eftir að styrkjast enn frekar á meðal kjósenda. 

 


mbl.is Meirihlutinn styður krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fastir fyrir en skynsamir

Mér sýnist í fljótu bragði að þetta sé skynsamleg ákvörðun hjá Steingrími.

Íslendingar draga úr veiðum sínum í samræmi við heildarkvótann, en gefa ekkert eftir af hlutdeild sinni.

Það er skynsöm afstaða, í samræmi við stöðu Íslands sem ábyrg strandveiðiþjóð.

En auðvitað þarf að stórauka rannsóknir á markrílstofninum í Íslenskri lögsögu og áhrifum hans þar.  Á því að síðan að byggja framtíðarkröfur Íslendinga um hlutdeild í veiðum úr stofninum.

Þess vegna eiga Íslendingar ekki að beygja sig í samningaviðræðum, heldur halda fast við kröfur um hlutdeild í samræmi við aukna gengd og fæðisöflun makrílsstofnsins í Íslenskri lögsögu.

 

 


mbl.is Makrílkvótinn 15% minni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir ábyrgir vilja semja. Aðeins óábyrgir aðilar vilja ganga að hvaða samningum sem er

Þegar deilur rísa upp á milli þjóða, vilja allir skynsamir menn semja.  Þá yfirleitt hefjast samningaviðræður.

En eingöngu óskynsamir og óábyrgir einstaklingar og stjórnmálamenn vilja ganga að hvaða samningum sem er.

Það er ekki sjálfgefið og má ekki vera eina takmarkið að samningar náist.

Þjóðir þurfa að setja sér skýr samningsmarkmið og flokka þau niður.  Meginflokkarnir eru atriði sem se hugsanlega má gefa eftir í og svo atriði sem verða ekki gefin eftir.

Ef ekkert miðar í samningaviðræðunum, þá er þeim slitið.  

Það var í raun það sem gerðist með þjóðaratkvæðagreiðslunum, nema að Íslenskir kjósendur voru með mun harðari skilyrði en ríkisstjórnin.  

Þess vegna neituðu kjósendur að samþykkja samningana.  Ríkisstjórnin lyppaðist niður þar sem kjósendur voru ekki reiðurbúnir til þess.

Samningsleiðin er ábyrga leiðin, en eftirgjöf ríkisstjórnarinnar (þá tala ég sérstaklega um Svavarssamningin) var fullkomlega óábyrg að mati kjósenda.

Ríkisstjórn sem reynir að keyra samning í gegnum Alþingi, án þess að leyfa þingmönnum að sjá samninginn, er auðvitað meira en óóbyrg, hún er hættuleg lýðræðinu.

Eftir fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna, hefði Jóhanna að sjálfsögðu átt að segja af sér.  Forsætisráðherra sem neitar að taka þátt í þjóðatkvæðagreiðslu og segir hana marklausa, og bíður svo ósigur fyrir kjósendum, á auðvitað ekki að sitja áfram.  

Það er arfleifðin sem Jóhanna tekur með sér nú þegar hún fer á eftirlaun.

Að mörgu leyti má segja það sama um aðlögunarviðræðurnar við "Sambandið".  Ríkisstjórnin hefði átt að fara í þær með því hugarfari að þær myndu ekki nauðsynlega landa samningi.

Fyrst hefði átt að fara í viðræður um sjávarútvegskaflann.  Þar hafa Íslendingar ekki efni á því að gefa neitt eftir.   

Ef ekki hefði náðst samkomulag þar um full yfirráð Íslendinga yfir efnahagslögsögu sinni, hefði ekki þurft að hafa viðræðurnar lengri.

Aðeins óábyrgir stjórnmálamenn hefja viðræður með því eina markmiði að samningur náist.

P.S. Því má svo ef til vill bæta við hér, að enginn ætti að sækja um aðild að Evrópusambandinu nema að vilja að ganga í það.

En heilbrigð skynsmei þvældist ekki fyrir Vinstri grænum í því samhengi.  Eða vilja þeir ganga í "Sambandð", eða vilja þeir það ekki?  Veit einhver það?  Veit Steingrímur það?

 


mbl.is „Samningaleiðin var ábyrga leiðin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband