Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Stærsta viðfangsefni stjórnmálanna

Stærsta viðfangsfefni stjórnmálanna á Íslandi nú um stundir ættu að vera atvinnumál.

Þau hefðu sömuleiðis átt að vera það undanfarin fjögur ár.

Eins og kemur fram í fréttinni, skapa þau ekki aðeins tekjur (fyrir einstaklinga, hið opinbera og þjóðarbúið), heldur draga þau úr útgjöldum til velferðarmála.

Þó vissulega hafi dregið úr atvinnuleysi, þá er enn þörf á fleiri störfum.  Við skulum einnig hafa í huga hve margir hafa flutt af landi brott.  Mörgum það nauðugur einn kostur.  

Íslenskt þjóðfélag þarf að auka tekjur sínar og minnka útgjöldin.   Það eru skuldir sem þarf að greiða. Höft sem þarf að afnema.

En hið opinbera á ekki að skapa störfin.

En það á ekki að leggja steina í götu þeirra sem geta gert það.  Það hefur þó verið raunin undanfarin fjögur ár.

Hið opinbera þarf að skapa umhverfi sem hvetur til sköpunar atvinnu og tækifæra.

Slíkt umhverfi verður ekki til með sífelldum skattahækkunum og -breytingum. 

Hagstætt, en umfram allt einfalt og gegnsætt skattkerfi og einfalt en skilvirkt reglugerðar og lagaumhverfi skilar atvinnu og velmegun.

En undanfarin ár hafa Íslendingar stefnt í þveröfuga átt.

Krafturinn hefur farið í að umbylta stjórnarskrá, aðlögunarviðræður við "Sambandið", vilja til að ráðast á undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, sjávarútveginn, með "bílslysafrumvörpum".

Og árangurinn?

Um árangurinn munu kjósendur dæma í vor.  Þá munu kjósendur sýna hvort þeir vilja stefnubreytingu eða hjakka í sama fari fyrstu hreinu vinstristjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. 

 

 


mbl.is 5.000 störf þýða 20 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæta höft lífskjör?

Sé nú að hér og þar á netinu er verið að rífast um hvort að höft bæti lífskjör, eður ei.

Í sjálfu sér spurning sem er klassísk og ætti að spyrja sig að reglulega.

En án þess að leggjast í rannsóknarvinnu eða leggja á mig mikla heimildarvinnu, myndi ég líklega svara með eftirfarandi hætti.

Höft draga úr lífskjörum sé litið til lengri tíma.  Hitt er þó varla umdeilanlegt að höft geta til skamms tíma bætt eða varðveitt lífskjör og velsæld, sé litið til heildarinnar.  Einhverjir hljóta þó alltaf að bíða skaða af þeim.

Ég hygg að fáir myndu neita því að gjaldeyrishöftin sem ríkisstjórn Geirs Haarde setti á 2008 hafi verið ill nauðsyn.  Þau hafi þjónað hagsmunum Íslensks samfélags.

Ég leyfi mér sömuleiðis að halda því fram að ef núverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna teldi að ef lífskjör myndu almennt batna á Íslandi með því að afnema gjaldeyrishöftin nú þegar, yrði það gert.

Hitt er svo annað mál hvenær höftin fari að hafa neikvæð áhrif, hafi í för með sér verri afleiðingar en að afnema þau?

Svo er önnur umræða hvað þarf að gera til að afnema þau og hvort að núverandi ríkisstjórn hafi staðið síg í því að gera það sem þarf að gera til undirbúnings afnáms haftanna?

 


Stærsta óréttlætið enn til staðar

Þó að vissulega beri að fagna því að fólk geti greitt til lífsskoðunarfélaga (hvað svo sem það er) í stað trúfélaga, er stærsta réttlætismálið enn óleiðrétt.

Stærsta réttlætismálið er að þeir sem kjósa að standa utan trú- eða lífsskoðunarfélaga þurfi samt sem áður að greiða "sóknargjald".

Hvernig getur það samrýmst réttlætiskennd þingmanna?

Hvernig getur það verið réttlætt að þeir sem standa utan trú og lífsskoðunarfélaga eigi að borga hærri skatt til ríkisins en aðrir, sem nemur "sóknargjaldi"?

Þetta á að lagfæra sem fyrst.


mbl.is Lífsskoðunarfélög á við trúfélög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólítískt langlífi

Hér er ein leiðin sem fara má til að ná pólítísku langlífi. Það gefst vel að stilla sér upp með sigurvegurunum. 

Jafnvel hrósa þeim sem maður hefur haft horn í síðu fyrir andstæðar skoðanir.

Jafnframt skal reynt að gleyma þeim vafasömu fullyrðingum og tillögum sem maður kann að hafa staðið að áður.

Krossleggja fingurna og treysta því að kjósendur muni ekki eftir því hvað maður hafi sagt og gert áður.

Sjá til dæmis hér.

Og hér.

Og hér.

 


mbl.is Góður liðsmaður utanríkisþjónustunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband