Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Hagnast ríkið á eignarhlutum sínum í Íslensku bönkunum? Hvers vegna að afhenda erlendum vogununarsjóðum Íslensku bankana?

Þessi frétt fór ekki mjög hátt, enda að mörgu að hyggja og í ýmsu að snúast í kringum áramót.  En þetta er mjög fróðleg frétt og er að mörgu leyti fróðlegri vegna þess að hún er úr bréfi til VG félaga ef ég skil rétt.  En þar segir Steingrímur:

... Ef staðan í dag er skoðuð er ljóst að ríkið hefur haft mjög góða ávöxtun á því fé sem það varð að binda í þetta verkefni, sem er um 250 milljörðum minna en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Ætla má að ríkið fái þessa peninga að fullu til baka og komist frá endurreisn stóru bankanna án nokkurs taps í þeim skilningi að arðgefandi eignir og/eða endurseljanlegar eignir standi fyllilega undir því fé, sem ríkið hefur bundið í verkefnið, miðað við efnahagsreikninga bankanna. Þannig hafa fjármunir ríkissjóðs ekki farið í botnlausa hít heldur þvert á móti verið festir í verðmætum eignum. Í framtíðinni verður hægt að nota þessa fjármuni eða arðinn af þeim til þess að greiða niður skuldir og halda áfram við byggja upp íslenskt samfélag.

Það er auðvitað gríðarlega gott ef Íslenska ríkið kemst án alls taps frá fjárbindingum sínum í "stóru" Íslensku bönkunum.  Það léttir mikið undir með Íslensku þjóðinni og er mikið fagnaðarefni.

En um leið og því er fagnað, hljóta spurningarnar hvers vegna ríkisstjórnin Íslenska ákvað að afhenda erlendum vogunarsjóðum 2. af 3. stærstu Íslensku bönkunum (þ.e. aðeins halda eftir u.þ.b. 5% í þeim).

Það hlýtur að hafa verið flestum ljóst að áhættan, þó að hún sé vissulega alltaf til staðar, væri ekki óásættanleg, enda hefðu hinir erlendu vogunarsjóðir varla sóst eignarhaldi á fallít fjármálastofnunum.  Þeir hljóta að hafa talið sig eiga möguleika á auknum hagnaði með eignarhaldi.

Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms hlýtur að skulda Íslendingum útskýringar á þessari ákvörðun sinni.  Hvers vegna hélt hún ekki eftir öllum 3. stóru bönkunum?  Hefði staða ríkissjóð ekki orðið betri fyrir vikið og hefði svigrúm stjórnvalda til að koma til móts við skuldug heimili ekki verið rýmra fyrir vikið?

Vissulega hefði það kostað að setja hefði þurft aukið fé í endurreisn bankanna, en ef litið er til þess hvernig útkoman er, hefði það ekki verið skynsamleg ákvörðun?

Það sem meira er, eru fjármunirnir ekki til?  Á ekki ríkissjóður stórar inneignir í Seðlabankanum? Að vísu fjármuni sem voru teknir að láni, en voru lánin ekki m.a. tekin til að standa straum af endurreisn fjármálakerfisins?  Hefði verið betra að nota það fjármagn til að halda stjórn á bönkunum 3. frekar en að láta það liggja ónotað í Seðlabankanum?

Er ekki frekar hjákátlegt að afhenda vogunarsjóðum eignarhaldið í 2. af 3. stærstu bönkunum og fara svo stuttu síðar að tala um nauðsyn þess að "sækja" meira fjármagn til sömu banka?

Þetta mál þyrfti svo sannarlega á frekari umfjöllun og rannsókn bæði fjölmiðla og opinberra aðila að halda.  En fyrst og fremst eiga Íslendingar skilið að forystumenn ríkisstjórnarinnar geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli.


mbl.is Ekkert tap af eign í bönkunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrst nafn, svo frambjóðendur, sjáum til með stefnumál. Er það björt framtíð?

Persónulega er ég ekki hrifinn af nafninu Björt framtíð.  Ekki það að ég sé á móti bjartri framtíð, öðru nær.  Nafnið mun ef til vill venjast, en mér finnst það ekki henta stjórnmálaflokki.  Er eitthvað svona ungmennafélagslegt (það má auðvitað ekki segja, áður en nokkur veit af verður farið að sjá eitthvað fasískt í því). 

En það á auðvitað að vera sniðugt og klókt.  Það er auðvelt að sjá fyrir sér slagorðin.  Kýst þú Bjarta framtíð?  Við kjósum Bjarta framtíð og svo myndir af "hip og kúl" fólki undir.

En framtíð dagsins í dag breytist í fortíð furðu fljótt og þeir eru býsna margir sem eiga glæsta framtíð að baki.

Einhver myndi sjálfsagt segja að Guðmundur Steingrímsson eigi bjarta framtíð að baki, bæði í Samfylkingunni og Framsóknarflokknum, en hún reyndist aðeins tálsýn.

En það hafa margir haft að orði að þessi verðandi stjórnmálaflokkur sé rýr að stefnumálum.  Persónlulega man ég aðeins eftir að hafa heyrt minnst á tvö.  Klára aðildarferlið að ESB og styðja núverandi ríkisstjórn til góðra verka.

Ef til vill er það helsti veikleiki hins verðandi flokks.  Það er ekki verið að reyna að fá fólk til að styðja við ákveðna stefnu, eða afla ákveðnum hugsjónum fylgis.

Fyrst er fundið nafn, svo á að afla meðlima og frambjóðenda.  Svo verður reynt að búa til stefnu. 

Aðalatriðið er að búa til flokk.  Stefnumálin má sjá til með.

Boðar það bjarta framtíð?


mbl.is Björt framtíð heldur nafninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Letter in Icelandic from the Ninette San

Kunningi minn sendi mér þetta lag í kvöld.  Taldi að þetta hlyti að vera eitthvað fyrir mig.  Iceland í titlinum eins og hann orðaði það. En flytjandi lagsins er  John K. Samson og lagið heitir Letter in Icelandic from the Ninette San.  Þess má geta að Káið í nafni flytjandans stendur fyrir Kristjan.

Ég þekki ekkert til hans en hann ku vera þekktur tónlistarmaður hér í Kanada, aðallega fyrir veru sína í hljómsveitinni Weakerthans, sem er frá Manitoba og nýtur vinsælda hér í Kanada.

En lagið er af væntanlegri sólóplötu John K. Samson, sem mun heita Provincial.

Texti lagsins mun vera saminn upp úr bréfum sem sjúklingur á berklasjúkrahúsi í bænum Ninette (Ninette Sanitorium) í Manitoba skrifaði og voru á Íslensku.  Þegar hlustað er á textann má heyra minnst á Gretti Ásmundsson, Drangey, sem og elliheimilið Betel, sem líklega er elliheimilið í Gimli.

Ef einhver vill frekar hlusta á endanlegu útgáfuna eins og hún er á hljómplötunni, sem er væntanleg þann 24. janúar næstkomandi, þá er hún hér fyrir neðan.


Að rekast í flokki, eða reka flokk?

Það má vissulega segja að það væri skynsamlegt að einhver fyrirhugaðra framboða myndu sameinast.  Það getur þýtt betri nýtingu atkvæða, aukið fjármagn að spila úr, breiðara bakland o.s.frv.

Reyndar má skilja af fréttum að Borgarar og Hreyfingin ætli að sameinast að nýju og bæta jafnvel við Frjálslynda flokknum og hugsanlega einhverjum fleirum.  Það á eftir að koma í ljós hvort að það samstarf reynist betur en það sem splundraðist í Borgarahreyfinguna og Hreyfinguna.  Einhverjir kunna líka að muna eftir því að samstarfið í Frjálslynda flokknum gekk nokkuð brösuglega, svo ekki sé sterkara að orði kveðið.

Þar liggur líklega í það minnsta hluti af hundinum grafinn.  Margir af þeim sem nú eru að undirbúa ný framboð hafa starfað í einum eða fleiri stjórnmálaflokkum áður.

Þeir hafa oftar en ekki yfirgefið þá flokka vegna þess að þeim fannst "þeirra" málefni ekki fá nógu góðan hljómgrunn, eða þá að þau urðu undir á landsfundum eða þingum flokkanna.  Sumum fannst ef til vill einnig að frami þeirra hafi ekki orðið sem skyldi.

Þeim hefur því komið í hug að betra væri að stofna nýja flokka, frekar en að berjast fyrir "hugsjónum" sínum eða eigin frama innan gróinna.

Í stuttu máli má segja að þeim hugnist betur að reka eigin flokka, en rekast í flokki. 

Það má því líklega segja að samstarf þessara ólíku aðila sé ekki líklegt til að verða "hamingjuríkt".  Til að svo mætti verða yrðu flestir eða allir að gefa afslátt af "hugsjónum" sínum, hugmyndum og framavonum.  Oftar en ekki er það ástæðan fyrir því að þeir yfirgáfu sína gömlu flokka.

Það er sömuleiðis umdeilanlegt hvort að það sé ekki betra að bjóða upp á smærri flokka með skýrari stefnu, en stærri framboð með meiri "moðsuðu".  Á móti má svo benda á að með því yrðu hugsanlegar stjórnarmyndunarviðræður mun flóknari og að sumu leyti myndi samsuðan sem ella ætti sér stað innan flokka færasta þangað.

Einnig þarf að hafa í huga að nokkru má segja að átakalínur í einstaka máli sé mun skýrari en öðrum, t.d. hvað varða Evrópusambandsaðild. Það er því eðlilegra að erfiðara sé að ná saman en stundum áður.


mbl.is Nýju framboðin sameinist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandið á brúninni - heimildamynd frá WSJ

Fékk hlekk á þessa stuttu heimildamynd sendan.  Hún er ekki löng, en er ágætis upprifjun á því sem hefur verið að gerast á eurosvæðinu.  Rétt eins og aðrar slíkar myndir er hún enginn stóri sannleikur í málinu, en fram koma viðhorf úr mismunandi áttum.  Vel þess virði að horfa á.


Ponzi stjórnvöld?

The lifstyle you ordered....Það hefur mikið verið rætt um opinberar skuldir undanfarin misseri.  Þær enda orðnar býsna ógnvænleg tala.  Stjórnmálamenn hafa verið duglegir að lofa upp í ermar kjósenda, sem virðast ekki hafa áttað sig á hverjir það eru sem borga brúsann á endanum.  Eða þá að þeir kæra sig kollótta.

Hér að neðan eru nokkrar athygliverðar staðreyndir um  opinber fjármál sem ég rakst á í dag.

Opinberar skuldir í Þýskalandi jukust um 120 milljónir euro á hverjum degi frá júlí til september á síðasta ári.  Það eru 80.000 euro á hverri einustu mínútu.

Í dag eru það aðeins 14 ríki sem hafa hæstu lánshæfiseinkun hjá stóru matsfyrirtækjunum þremur.

Ef að eftirlaunaskuldbindingum er bætt við opinberar skuldir Þýskalands, eru skuldirnar ekki 80% af GDP heldur 276%

Engin Þýskur fjármálaráðherra hefur skilað hallalausum fjárlögum frá árinu 1970.

Hver íbúi í Þýsku borginni Bremen skuldar u.þ.b. 4.320.000 Íslenskar krónur, eða 27.000 euro.

Frakkland varð 8 sinnum gjaldþrota á árunum 1500 til 1800.

Spánn gat ekki staðið undir skuldbindingum sínum 7 sinnum á 19. öldinni.

Þessar staðreyndir eru allar úr sömu greininni á vef Spiegel.  Greinin (þýdd úr Þýsku) heitir:  The Danger Debt Poses to the Western World.  Greinin er góð og óhætt að fullyrða að tíma þeim sem fer í að lesa hana er vel varið.

Myndin sem fylgir þessum pistli er fengin að láni úr greininni.  Hún sýnir graffiti listaverk eftir Breska listamanninn Banksy.  Verkið er einhversstaðar í London.


Ef til vill var hann bara að kaupa súkkulaði? Eða gefa heilbrigðisvottorð?

Belgískt súkkulaði er annálað fyrir gæði og ef til vill þurfti Monti eingöngu að fylla á í skápnum, þar sem jólagjafirnar hafi verið rýrari í súkkulaði en hann vonaðist eftir.

En hitt er staðreynd að fjármálamarkaðirnir í Evrópu eru eins og spenntur bogi.  Það sem verra er, það eru taugatrekktir einstaklingar sem halda um strenginn.  Það má lítið út af bregða og jafnvel sakleysisleg ferðalög geta þurkað út milljarðatugi, rétt si svona á meðan Monti verslar örlitið í Brussel.

Áramótaávörp leiðtoga í Evrópu gáfu heldur ekki miklar vonir í bjartsýnisátt, þar var talað um erfitt ár, erfiða baráttu framundarn.  Grikkland talar um þjóðargjaldþrot í mars, ef ekki fáist frekari fyrirgreiðsla, Spánn þarf að skera niður sem aldrei fyrr, Frakkar sömuleiðis, Italía boðar niðurskurð af áður óþekktri stærðargráðu.

Euroið sígur gagnvart Bandaríkjadollar (það er þó ekki eins og hagstjórnin sé til fyrirmyndar þar) og hefur ekki verið lægra gagnvart Japönsku jeni í áratug (sá áratugur er yfirleitt talinn "glataður", sem og sá á undan,  í Japan).

Það er bara Ísland þar sem sólskinsgeislar bjartsýninnar ná að skína, þar hafa stjórnvöld engar áhyggjur af euroinu, jafnvel þó að það sé næst stærsta viðskiptamynt landsins á eftir Bandaríkjadollar.

Sú traustsyfirlýsing (eða heitir það heilbrigðisvottorð?) nægði þó ekki til að euroið rétti sig við á mörkuðum.

Líklega gefur heimspressan þessum traustsyfirlýsingum (eða heilbrigðisvottorðum) ekki nægjanlegan gaum, enda þekkt fyrir að gera meira úr neikvæðum fréttum en þeim jákvæðu.


mbl.is Skjálfti vegna ferðar Montis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer að bresta á með trúarfofsóknum?

Þetta er nokkuð merkileg frétt þó að um leið og hún sé lesin sé brosað út í annað.  Hún snertir spurningar sem hafa líklega fylgt mannkyninu nokkurn veginn eins lengi og það hefur verið til. 

Hvað trúum við á og er hægt að trúa á því sem næst hvað sem er, eða er því sem næst ofaukið í þessari setningu?

Sá sem hér skrifar væri líklega að mörgu leyti hentugur meðlimur í söfnuð sem þann sem hér er fjallað um, enda sit ég marga daga langar stundir í "tilbeiðslu" fyrir framan tölvuskjáinn.  Skráarskipti hafa þó ekki verið framarlega í "bænaskrám" mínum.  Því verður þó ekki neitað að ég hafi "fiktað" við slíkan átrúnað þegar sá "spámaður" kom fyrst fram á sjónarsviðið.

En trúarbragðadeilur hafa verið upp svo langt aftur sem sagan nær og ekki er þessi nýja hreyfing líkleg til að draga úr því.  Líkur eru á að trúardeilur aukist í Svíþjóð og ég yrði ekki hissa ef fregnir af meintum trúarofsóknum færu að heyrast þaðan fljótlega. 

Líklega má segja að þetta snúist allt um control og svo hvort að C og V megi fylgja í kjölfarið.

Heimasíðu trúarhreyfingarinnar er:  http://kopimistsamfundet.se/

P.S. Ef að líkum lætur líður ekki á löngu áður en þessi trúarhreyfing kemur til Íslands, enda upprunin í einu af þeim löndum sem Íslendingar vilja bera sig saman við.


mbl.is Trúarsamtök um skráaskipti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndi ég kjósa yfirlýstan "Sambandssinna" í embætti forseta?

Nú þegar byrjaðar eru vangaveltur um hugsanlegan arftaka Ólafs Ragnars Grímssonar sem forseta Íslands, er byrjað að velta fyrir sér breytingum sem hafi orðið á embættinu sem aldrei fyrr.

Það er ekki óeðlilegt að miklar vangaveltur séu um málskotsréttinn og hvernig hugsanlegur forseti myndi hugsanlega beita honum.  Þar á eftir koma oft vangaveltur um hvort að forsetaframbjóðendur verði krafnir svara um skoðanir þeirra á hinum ýmsu álitamálum.  Sumum finnst það ólíklegt og raunar óviðeigandi, en aðrir eru þeirrar skoðunar að slíkt muni verða raunin.

Sjálfur skipa ég mér í síðari flokkinn og tel að kjósendur komi til með að vilja vita meira um skoðanir forsetaframbjóðenda á hinum ýmsu málum sem stundum flokkast undir "dægurmál".

Út frá því myndu kjósendur mynda sér skoðanir á þvi hversu líklegir forsetaefnin væru til að nota málskotsréttinn við mismunandi aðstæður.

Það má til dæmis hugsa sér að ef illa færi og Íslendingar samþykktu að ganga í Evrópusambandið, að það gæti skipt gríðarlegu miklu máli hver sæti á forsetastól og hvernig viðhorf hans væri gagnvart "Sambandinu".

Væri til dæmis uppi svipuð staða innan "Sambandsins" og nú er.  Rætt væri um miklar grundvallarbreytingar á sáttmálum þess og ríkisstjórnir og þing aðildarríkjanna væru að ræða og leita að leiðum til þess að komast hjá því að breytingarnar færu í þjóðaratkvæði. Undir slíkum kringumstæðum gæti afstaða forseta skipt Íslendinga gríðarlegu máli. 

Forsetinn gæti í slíku tilfelli haft úrslitaáhrif á hvort viðkomandi breyting færi í þjóðaratkvæði eður ei.

Því myndi ég líklega aldrei gefa yfirlýstum Evrópusambandssinna atkvæði mitt í forsetakjöri.


Einnota stjórnmálaflokkur?

Það er í sjálfu sér ekki mikil frétt þó að einn maður gangi úr stjórnmálaflokki. En þegar stofn og heiðursfélagar yfirgefa flokka eru það vissulega tíðindi.

Nú getur það vel verið að kommar þrífist einfaldlega ekki lengur í VG, um það ætla ég ekki að fjölyrða enda þekki ég lítið til.  En það er hins vegar langt frá því að þetta sé eini félaginn sem hefur yfirgefið VG.  En það er heldur ekki eingöngu að félagar yfirgefi VG, heldur virðist einnig vera megn óánægja meðal margra sem þó halda sig enn í flokknum.  Það verður þó að segjast eins og er, að slíkt ástand virðist frekar vera regla en undantekning í Íslenskum stjórnmálaflokkum um þessar mundir.

En við þessar kringumstæður efast ég um að Vinstri hreyfingin grænt framboð nái að lifa formann sinn og stofnenda í póítísku tilliti.  Átökin og skoðanaágreiningurinn í flokknum virðist svo harður að engin geti haldið honum saman annar en Steingrímur.  Það er að segja að þegar Steingrímur ákveður að stíga niður sem formaður og hætta formlegri þátttöku í pólítíkinni splundrist flokkurinn.

Verða Vinstri græn aðeins eins formanns flokkur?


mbl.is Óli kommi hættur í VG
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband