Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012
4.1.2012 | 15:25
Skuldastaðan ætti að vera aðalatriðið
Það er óneitanlega mjótt á mununum í forkosningunum í Iowa, sýnir að gamla klisjan um að hvert atkvæði skipti máli er í fullu gild. En það gladdi mig þó einna mest að sjá hvað Ron Paul fékk góða kosningu. Ekki það að ég reikni með að hann verði forsetaefni Repúblika, heldur tel ég gott að hans hugmyndir séu í umræðunni og meiri gaumur sé gefinn að því sem hann er að segja.
Bandarískir stjórnmálamenn, jafnt sem kjósendur, verða að horfast í augu við skuldir ríkisins sem eru löngu komnar úr böndunum.
Um áramót voru skuldir Bandaríkjanna $15,222,940,045,451.09
En það er ekki útlit fyrir að breyting verði á í bráð.
Romney vann með átta atkvæðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.1.2012 | 22:35
Ólafur Ragnar í framboð? Hvernig á að stöðva það?
Það hefur heyrst að spekingar lesi svo í nýjársboðskap Ólafs Ragnars Grímssonar, að hann muni hyggja á frekari landvinninga á meðal Íslenskra kjósenda og stefni ótrauður á frekari pólítískan frama, hafi jafnvel augastað á forsætisráðuneytinu. Hann muni líklega stofna stjórnmálaflokk og fara mikinn.
Það er auðvitað til einfalt mótsvar ef sitjandi þingmenn (og þá aðallega stjórnarþingmenn) hafa miklar áhyggjur að Ólafur hyggist fara í stjórnmálin og vilja koma í veg fyrir það.
Það er einfaldlega að rjúfa þing og boða til kosninga í t.d. mars eða apríl.
Ég hygg að þeir væru margir Íslendingarnir sem litu á það sem "2 fyrir 1" einn tilboð sem ekki væri hægt að hafna.
En það er rétt að taka það fram í lokin að ég hef persónulega enga trú á því að Ólafur ætli sér að stefna á þátttöku í Íslenskum stjórnmálum. Frekar hef ég trú á því að hann hafi undirbúið einhverja aðkomu að alþjóðastofnun. En á hitt ber líka að líta að Ólafur er ólíkindatól.
3.1.2012 | 16:42
Langtímaáhrifin eiga eftir að koma fram og hafa mun alvarlegri áhrif
Líklega eru ýmsir sem fagna því að áfengissala hafi dregist saman og telja það merki um að Íslenska þjóðin sé að snúa til betri lífshátta. Þetta sé því enn eitt dæmi um að hægt sé að skatta fólk til hlýðni og betri lífhátta.
Það er þó allt eins líklegt að "lestirnir" leiti einfaldlega til annara birgja og hafi þegar gert það.
Það er líklegt að samdrátturinn haldi áfram í áfengisölu ríkisins, þegar samkeppnisaðilarnir hafa náð að byggja betur upp framleiðslu sína og dreifingarleiðir.
Skattahækkanir og auknar álögur hafa ekki eingöngu áhrif þegar þær eru tilkynntar, heldur til langs tíma og áhrifin aukast eftir því sem fleiri skattgreiðendur komast í kynni við fleiri leiðir til sneiða hjá þeim.
Til lengri tíma litið spillast viðhorfin einnig og undanskot og "hjáleiðir" þykja sjálfsagðari en fyrr. Í hugum margra Íslendinga er það að kaupa áfengi á ódýrara verði á "svörtum", ekki dæmi um undanskot undan skatti, heldur happafeng.
Samkeppnin frá öðrum vímuefnum harðnar sömuleiðis þegar verðmunurinn eykst.
Þetta gildir ekki eingöngu um áfengi, heldur á öllum sviðum þjóðfélagsins. Eftir því sem ávinningurinn verður hugsanlegra stærri, er freistingin meiri.
Þannig munu gríðarlegar skattahækkanir núverandi ríkisstjórnar fylgja Íslendingum um ókomin ár og halda áfram að vinna tjón löngu eftir að núverandi ríkisstjórn er farin frá völdum. Það er erfiðara að vinda ofan af slíkum breytingum en koma þeim á.
Ekki síst breytingum á hugarfari.
Samdráttur í áfengissölu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.1.2012 | 16:02
Meira framboð en eftirspurn? Verða 10 eða fleiri flokkar í framboði? Góðkunningar kjósenda
Sem betur fer virðist vera mikill pólískur áhugi á Íslandi. En hvort að hann leitar í réttan farveg er sjálfsagt umdeilanlegra og minni líkur á að því séu allir sammála.
En það er einmitt eitt af einkennum þess að vera ósammála að sífellt fleiri flokkar eru stofnaðir og sífellt fleiri framboð koma fram.
Ef fram heldur sem horfir verður að teljast líklegt að um eða yfir 10 framboð verði til næstu Alþingiskosninga.
Sem yrðu þá:
Sjálfstæðisflokkur
Samfylking
Framsóknarflokkur
Vinstri hreyfingin grænt framboð
Hreyfingin (ekki ólíklegt að hún yrði í samstarfi við einhverja aðra hópa)
Svo kæmu til sögunnar
Hægri grænir (sem fréttin sem tengt er við er um)
Besti Guðmundarflokkurinn (þangað til annað nafn er kynnt)
Framboð tengt Lilju Mósesdóttur
Hægri ESB flokkurinn (sem ég sá frétt um í morgun, Friðrik Hansen var þar í forvari minnir mig)
ESB lýðfrelsisflokkur (Guðbjörn Guðbjörnsson hefur talað fyrir. Hvar sú hugmynd er stödd veit ég ekki.)
Svo má ekki gleyma flokkum eins og Frjálslynda flokknum, sem annað hvort gæti boðið fram eða runnið saman við eitthvert af nýju framboðunum, en mér hefur skilist að flokkurinn starfi áfram.
Sumir vilja svo meina að Ólafur Ragnar Grímsson hafi boðað undir rós, stofnun nýrrar stjórnmálahreyfingar, en persónulega hef ég ekki trú á því og tel það afar ólíklegt.
Ekki er ólíklegt að einhver framboð gætu bæst við, en vissulega er eins líklegt að einhver þeirra hellist úr lestinni.
En það gæti því farið að í framboði yrðu á bilinu 12 til 13. hundruð einstaklingar ef flest eða öll framboðin skiluðu inn fullum listum.
Það hefur stundum verið sagt að flestir Íslendingar gefi út bók eða í það minnsta láti sig dreyma um það á lífsleiðinni. Ef fram heldur sem horfir verður það ekki ólíklegra að flestir Íslendingar fari í framboð í það minnsta einu sinni á lífsleiðinni, eða verði að minnsta kosti beðnir um það.
En svo er líka möguleiki að á að listarnir fyllist fyrst og fremst af "the usual suspects", sem mætti ef til vill snara yfir á Íslensku sem "góðkunningjum kjósenda".
P.S. Setti þennan pistil hér inn aftur (og eyddi fyrri útgáfu) þar sem einhverra hluta vegna vistaðist hann eingöngu í belg og biðu (án greinarskila) og neitaði alfarið að taka breytingum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.1.2012 | 20:55
Engin húrrahróp á afmælinu
Það er engu líkara en það hafi farið fram hjá flestum að í gær voru 10. ár liðin frá því að euroið tók við sem mynt margra Evrópuríkja. Ég hef alla vegna ekki rekist á nein húrrahróp eða hástemmdar greinar.
Þó að spáin í fréttinni sem þessi færsla er hengd við, sé í hópi þeirra svartsýnustu, eru fáar bjartsýnar spár tengdar euroinu um þessar mundir. Æ fleiri spár reikna með að eitt eða fleiri ríki yfirgefi eurosamstarfið á árinu. Það kemur líklega engum á óvart að það eru Grikkland og Ítalía sem eru helst nefnd í því sambandi.
En árið sem er að líða var að mörgu leiti ár tíðinda og afhjúpana á eurosvæðinu.
Endalaus röð neyðarfunda setti svip sinn á svæðið. Boðaðar voru stórar lausnir, en raunin varð að þær entust í nokkra daga. Allt er útlit fyrir áframhald neyðarfunda á nýju ári. Sarkel fundar 9. janúar og mig minnir að stærri fundur sé boðaður þann 30.
Goðsögnin um "sæti við borðið" var sömuleiðis fyrir stóru áfalli á árinu sem er að líða. Sarkel tók ákvarðanirnar og síðan voru hinir kallaðir á fund til að rétta upp hönd. Fáir fengu að komast upp með múður. Cameron var sá eini sem hafði kraft til að segja nei. Í kjölfarið réðust ýmsir frammámenn "Sambandsins" harkalega á Bretland og forsætiráðherra þess. Frakkar gengu sérstaklega hart fram og fá ef nokkur fordæmi eru fyrir yfirlýsingum líkum þeim sem þeir gáfu um Breskan efnahag.
Opin umræða fór loksins fram um galla þá sem voru í uppbyggingu eurosins, sem enginn hafði sýnt vilja til að taka á í þau 20. ár sem liðin eru frá því að grunnurin var lagður. Jafnvel margir þeirra sem lögðu hvað mesta vinnu við að koma euroinu á fót, sögðu á árinu sem er að líða að gallar eurosins kæmu æ betur í ljós og ekkert hefði verið gert til að lagfæra þá.
Árið 2011 var líka það ár sem fyrsta sinn var farið að tala um möguleikann á því að euroið liðaðist í sundur og jafnvel að "Sambandið" sjálft væri í hættu. Áður hafði það verið algert tabú, alla vegna innan "Sambandsins" sjálfs.
Ef til vill má segja að orð aðalhagfræðings Þýska seðlabankans árið 1991, segi flest það sem segja þarf og hafi heyrst víða á síðustu mánuðum síðasta árs:
"There is no example in history of a lasting monetary union that was not linked to one State."
Otmar Issing, Chief Economist of the German Bundesbank Council,1991.
En eurokreppunni er langt í frá lokið. Þó að fjárdæling Evrópska seðlabankans hafi keypt nokkurn (en dýran) tíma, þá blasir við að grunnvandræði eurosins eru enn til staðar.
Samkeppnishæfni "Suðurríkjanna" er enn þá engan vegin á pari við "Norðurríkin" og ekkert hefur verið gert til að leiðrétta það misgengi.
Til þess að leiðrétta það misgengi, þarf stórar og regluflegar millifærslur, meiri samruna eða hreinlega að stofna sambandsríki. Sá það reyndar sagt á netinu einhversstaðar að það væri eina skynsamlega leiðin, það væri svo hreinlega smekksatriði hvort það það yrði kallað USE, United States of Europe eða eitthvað annað. En þá myndu líklega þó nokkur ríki ganga úr skaftinu.
Persónulega tel ég litlar líkur á því að euroið hverfi næstu árin. En líkurnar á að breyting verði á ríkjahópnum aukast dag frá degi. Þó að sambandsríki eða mikill frekari samruni, með stór auknu fullveldisframsali kunni að virðast skynsamleg lausn fyrir þau ríki sem þegar eru föst í eurogildrunni, þá er ólíklegt að það sé pólítískt framkvæmanlegt. Það eru einfaldlega ekki margir stjórnmálamenn sem hafa áhuga eða getu til að fá kjósendur til liðs við slíka framkvæmd.
Mín spá fyrir komandi ár er því að eurolöndin komi til með að hrekjast frá krísufundi til krísufundar enn um sinn. Forsetakosningar í Frakklandi gætu orðið einhver vendipunktur, en ekki endilega til góðs.
Við þessar kringumstæður er tóm firra að halda til streitu umsókn Íslands að Evrópusambandinu.
Segir 99% líkur á að evran lifi ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Það er óneitanlega merkilegt að lesa það í einum af "stærri" fjölmiðlum landsins að Árni Páll Árnason frafarandi viðskipta og efnahagsmálaráðherra hafi unnið að því hörðum höndum að afla Íslendingumu undanþágu frá Maastricht samkomulaginu, þannig að þeir gætu tekið upp euro jafnhliða, eða svo gott sem, inngöngu landsins í "Sambandið". Eftir því sem mér skylst er fréttin ættuð frá Stöð2 og mun hafa verið lesin þar upp í fréttum.
Með í kaupunum fylgir svo að alls sé óvíst að Steingrímur J. muni halda áfram þessum undirbúningi. Það verður þá líklega Steingrími að kenna ef ekki kemur euro til Íslendinga eða hvað? Nema svo er þetta smáatriði hvort að Íslendingar samþykki aðild að Evrópusambandinu, en reyndar verður það endanlega ákveðið á Alþingi, en ekki af þjóðinni.
En trúir því einhver að euroríkin séu tilbúin til að gefa Íslandi undanþágu frá Maastricht skilmálunum? Trúir því einhver sem fylgist með fréttum að euroríkin vilji senda þau skilaboð út, þegar ástandið innan svæðisins er eins og það er, að það sé ekkert mál að fá undandþágur frá skilyrðunum? Vissulega er efnahagur Íslendinga smár vexti, í samanburði við eurosvæðið, en trúir því einhver að euroríkjunum sé áfram um að bæta við smáríki út í ballarhafi, með vægast sagt skrikkjótan feril í efnahagsstjórnun, og gefa því í þokkabót undanþágu frá reglunum?
Nú er talað um á flestum vígstöðvum að herða euroskilmálana og auka refsingarnar við brotum á þeim (og jafnframt um að nauðsynlegt sé að beita þeim). Hvers kyns skilaboð væri það frá eurolöndunum ef byrjað væri að gefa undanþágur frá reglunum, svona í þann mund sem blekið á heitstrengingunum væri nýþornað?
En þeir eru margir Íslendingarnir sem vilja ekkert fremur en trúa á töfralausnir og fyrrverandi efnahags og viðskiptaráðherra hefur verið ötull talsmaður slíkra lausna.
Persónulega finnst mér stjórnmálamenn setja niður þegar þeir "leka" slíkum spuna. En fjölmiðlamenn sem stand alvöruþrungnir og bera slíkan spuna á borð fyrir almenning missa trúverðugleika. Þeir þurfa að læra að skilja á milli frétta og fagurgala spunameistara.
En skyldi einhver trúa því að um sé að ræða tilviljun, þegar slíkar fréttir opinberast á nokkurn veginn síðasta starfsdegi ráðherra?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.1.2012 | 18:19
Skin og skúrir
Það var fallegur nýjársmorgun hér í Toronto, sólin læddi sér fram stutta stund. En síðan fór að hellirigna og hefur gert það sleitulaust síðan.
Það er ekki ólíklegt að þannig verði árið sem nú er að hefjast, það skiptist á skin og skúrir eins og flest önnur ár.
En það er samt engin ástæða til annars en að líta bjartsýn fram á veginn og reyna að sneiða fram hjá stærstu holunum. Áfangastaðurinn er stundum óljós, en það er engin ástæða til þess að neita sér um að njóta ferðarinnar eins og kostur er.
Fjölskyldan að Bjórá óskar öllum, nær og fjær, hamingjuríks og farsæls nýs árs. Þökkum það sem liðið er.
Vinir og fjölskylda | Breytt 2.1.2012 kl. 01:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)