Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

Allar auðlindir til ríkisins?

Það hefur í gegnum tíðina oft verið rætt og rifist um hverjir eiga Ísland.  Einfaldasta svarið er líklega bændur og ríkið.

Ég vil taka það fram að ég deili ekki skoðunum með ungu Vinstra grænu fólki um að einkaeignarhald á jarðnæði heyri vonandi sögunni til, en ég held að það sé samt þarft fyrir Íslendinga að ræða þessi mál og reyna að gera sér grein fyrir skoðunum sínum.

Krafan um að allar auðlindir verði í "þjóðareign" heyrist æ oftar.  Nú er "þjóðareign" ekkert annað en hljómþýðara orð yfir ríkiseign, en hvað eru auðlindir?  Ég ætla ekki í þessari bloggfærslu að útskýra það, en ég hygg þó að fæstir myndu neita því að jarðnæði heyri þar undir. 

Hvað með fisk?  Hann er jú mikil auðlind.   Á hann allur að vera í ríkiseigu?  Þar svara margir játandi.  En hvað með fiskinn sem hefur verið í einkaeigu í árhundruði?  Hefur verið veiddur, soðinn, reyktur, étinn af þeim sem eiga  og rétturinn til að veiða hann verið seldur og leigður svo lengi sem elstu menn muna. Jafnvel eru brögð að því að hann sé veðsettur óveiddur.  Á hann líka að fara í ríkiseigu?  Ef ekki hver er munurinn?  Skiptir seltustigið í vatninu einhverju máli, eða er það eitthvað annað?

Það er ekkert sjálfgefið hvernig þessum málum er háttað, enda mjög mismunandi hvernig það hefur verið gert í hinum ýmsu ríkjum, alveg burtséð frá því hvort að þau hafa talist kommúnísk eða kapítalísk.

Hér í Toronto eigum við hjónin okkar eigin pínulitla blett af Toronto.  Hann er ekki stór en hann er okkar og er metinn á u.þ.b. jafnmikið eða heldur meira en húsið sem við eigum á honum.  Við getum selt þennan blett hverjum sem er.  Það breytir því ekki að kaupandinn væri eftir sem áður háður skipulagsreglum, byggingarleyfum og þar fram eftir götunum.  Þannig er skipulagið hér, einstaklingar og fjölsyldur eiga sinn litla blett.

En hér í Kanada eru ár og vötn mestmegnis í héraðs eða ríkiseigu. Ég get keypt veiðileyfi fyrir tiltölulega fáa dollara (mig minnir að það kosti ca. 30) sem heimilar mér að veiða í flestum vötnum og ám hér í Ontario.  Það eru strangar reglur um veiðar samt sem áður og takmarkað hvað ég má hirða o.s.frv.

Bændur eiga hins vegar sínar jarðir.

Þannig er sinn siðurinn í landi hverju.

Hvað varðar fiskinn í sjónum er staðan flóknari og mismunandi kerfi í gangi eftir tegundum, en mikið talað um að taka upp kerfi sem er því sem næst kópía af því Íslenska.

Ef bændur geta deilt vatni og veiði verðmæti á milli sín í prósentuhlutföllum og, hvers vegna geta útvegsmenn það ekki?

Land er takmörkuð auðlind eins og fiskur og vatn.  Er einhver munur á því að selja kvóta sem komst í eigu fjölskyldunnar fyrir 2. tugum ára, á milljarða og að selja jörð sem komst í eigu fjölskyldunnar fyrir einhverjum hundruðum ára og er nú milljarða virði vegna þess að hún er nýtanleg sem byggingarland fyrir höfuðborgarsvæðið?  Er það þá aðallega eignartíminn sem skiptir máli eða er það eitthvað annað?

Ég tek það fram að ég hef engin svör í þessum efnum, eða tillögur um eitthvað kerfi sem mér finnst að Íslendingar ættu að taka upp, en ég held að það sé öllum hollt og gott að velta þessu fyrir sér og reyna ef til vill að mynda sér skoðun.  En ef til vill er fyrirkomulagið ljómandi eins og það er.

Það eru endalausar spurningar sem má spyrja þegar kemur að eignarrétti og ekki síður nýtingarrétti.  Ég hygg að seint muni finnast niðurstaða sem allir eru sáttir við.  En það er líka þarft að spyrja hvort að séreignarétturinn hafi ekki skilað árangri sem hægt sé að vera sáttur við.  En þar eins og víða annars staðar hygg ég að svörin kunni að vera mismunandi.

Víðast hvar um heiminn tíðkast einhverskonar blanda af sam og séreign, um það ríkir að miklu leyti sátt, en deilurnar um hvar línan eigi að liggja verða sjálfsagt seint settar niður að fullu.


mbl.is Einkaeign á landi úr sögunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óeðlileg erlend afskipti af innanríkismálum - Áróðursskrifstofa "Sambandsins" byrjar með rangfærslu

Það er fyllilega óeðlilegt að Evrópusambandið skuli setja á stofn áróðursskrifstofu á Íslandi.  Íslenska ríkisstjórnin hefur sótt um aðild að "Sambandinu".  Íslendingar munu einir taka ákvörðun um aðildina í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Umræðan í aðdragenda þjóðaratkvæðagreiðslunnar ætti sömuleiðis að vera Íslendinga einna.   Þar eiga erlend ríki eða ríkjasambönd ekki að troða sér inn.

Það er með eindæmum að Íslenskir fjölmiðlar skuli ekki fara ofan í saumana á áróðursverkefni og sérstaklega þeirri fullyrðingu sem sett hefur verið fram að Íslenska ríkisstjórnin hafi sérstaklega óskað eftir því að áróðursskrifstofan yrði sett á stofn.  Ef til vill eru fjölmiðlarnir hræddir um að það þýði myndi þýða að þeir fengju færri auglýsingar.

En áróðursskrifstofan byrjar strax að villa á sér heimildir.  Sjálft nafn hennar felur í sér rangfærslu, það er ef til vill lýsandi fyrir það sem á eftir mun koma.  Evrópa stendur ekki að stofnun skrifstofunnar, það gerir Evrópusambandið.  Því væri Evrópusambandsstofa réttnefni, en Evrópusambandið er laskað vöruheiti, og því líklega talið betra að tala eingöngu um Evrópu.  Hálfsannleikur er ekkert sem "Sambandssinnar" setja fyrir sig.

P.S.  Við skulum vona að Samfylkingin eða Kínverjar telji ekki að höfnun á landakaupum Nubos megi rekja til skorts á hlutlægum upplýsingum og þörf sé að auka umræðu, þekkingu og skilning á eðli og starfsemi Kína.  Þá verður líklega stutt í að Kína opni Kínastofu á Íslandi.                  


mbl.is Ráðin framkvæmdastýra Evrópustofu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evrópusambandið í tilvistarkreppu - töfralausnaflokkur í vanda

Það eru flestir sammála um að Evrópusambandið sé í vanda, flestir tala um stærsta vanda sem "Sambandið" hafi nokkru sinni þurft að glíma við.  Æ fleiri nota líkingar á borð við að "Sambandið" standi á brún hengiflugsins.  Stærsta vandamálið sem "Sambandið" gímir við er euroið, sem virkar eins og lóð sem dregur það að hengifluginu. 

Flestir, en þó ekki allir, segja að ýmsar leiðir séu færar út úr vandanum, en segja um leið að engin þeirra sé góð eða án sársauka.  En vandamálið er að "Sambandsþjóðirnar" eru ekki sammála um hvað leiðir á að fara og stundaglasið er að tæmast, en hver vikan sem líður eykur vandamálið og sársaukann sem fólginn er í hugsanlegum lausnum.

En upp á Íslandi breytist fátt.  Stuðningur við "Sambandsaðild" virðist þó eðlilega fara minnkandi, en hjá ríkisstjórninni breytist ekkert.  Þar eru aðlögunarviðræðurnar það sem halda ríkisstjórninni saman (annars væri Samfylkingin nærri því örugglega búin að slíta þessu hörmungarsamstarfi).  Allt annað er aukaatriði og öllum hindrunum  skal rutt í burtu, svo Ísland geti staðið með hinum "Sambandsríkjunum" á bjargbrúninni.  Orðatiltækið, sætt er sameiginlegt skipbrot kemur óneitanlega upp í hugann.

En hvers vegna er "Sambandsaðild" orðin að þessari þráhyggju hjá Jóhönnu og Samfylkingunni?  Hvers vegna vill flokkrurinn ekki staldra við og sjá hver þróunin verður og vita hvers konar "Samband" rís upp úr tilvistarkreppunni?

Svarið er að þá stendur ekkert eftir.  Þá er flokkurinn búinn að missa töfralausnina og eftir stendur lítill, hnípinn flokkur í vanda með ekkert upp á að bjóða nema forystu Jóhönnu og Össurar. 

En ef til vill er staðan á bjargbrúninni ekki svo slæm í þeim samanburði?

 


mbl.is Óttast framtíð ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyfið börnunum að koma til ykkar.....

Ég veit að ég er líklega að hætta mér inn á "jarðsprengjusvæði" með þvi að ræða trúmál, en ég get ekki skilið þær deilur sem eiga sér stað á Íslandi um aðgang trúfélaga að skólabörnum.

Sjálfur á ég 2. börn í skóla hér í Kanada.  Skólagangan byrjar við 4ja ára ára aldur.  Aldrei kemur prestur í skólann eða fulltrúi nokkurs trúfélags.  Aldrei eru börnunum kenndar bænir eða þær beðnar með þeim.  Skólaheimsóknir tíðkast þó.  Í heimsókn koma lögreglufólk, slökkviliðsmenn, vísindamenn, rithöfundar, hljómlistamenn og þar fram eftir götunum.

Samt eru kirkjur hér út um allt.  Þær njóta einskis stuðnings nema þeirra sem þær sækja, utan þess að mér skilst að borgin rukki þær ekki um fasteignagjöld.  Þetta kemur ekki í veg fyrir að kirkjusókn hér er þokkaleg að mér skilst og sé ég hér allt í kringum mig prúðbúnar fjölskyldur raða sér í bílana á sunnudögum.

Hér held ég að sú almenna skoðun ríki að trúarlegt uppeldi (sem og mestur hluti annars uppeldis) sé á ábyrgð foreldra og við það njóti þeir aðstoðar þess trúfélags sem þeir kjósa, ef þeir kjósa það á annað borð.

Það fer mér ekki vel að vitna í Jesú, en mig minnir þó að hann hafi talað um að það ætti að leyfa börnunum að koma til sín.  Mig rekur ekki minni til þess að hann hafi talað um að troða ætti sér upp á börnin, en ég geri vissulega ekki kröfu til þess að teljast sérfræðingur í þessum fræðum.

Ég segi því treystum foreldrunum, treystum trúfélögunum.  Trúarlegt uppeldi á að vera á þeirra hendi.  En látum skólana vera menntastofnanir.

Hitt er svo að í skólanum er byrjað að kenna 4ja ára börnum þjóðsönginn hér í Kanada og er hann oft sunginn hástöfum hér á heimilinu, bæði á ensku og frönsku.  Það væri líklega vart leggjandi á Íslensk börn, enda söngurinn tyrfinn og líklega þættu það hættuleg þjóðleg gildi.  Líklega þætti einhverjum sem sjá mætti glitta í fasisma væri sá hátturinn hafður á.

P.S. Hér eru þó við lýði sérstakir Kaþólskir barnaskólar sem standa jafnfætis "almenningsskólum" og eru kostaðir af borginni, en lúta sérstakri stjórn.  Þeir nutu mikilla vinsælda en hafa átt undir högg að sækja undanfarin ár, eftir því sem mér skilst.  Svo sækir fjöldi barna sérstaka trúarskóla um helgar, sem standa utan hinna hefðbundnu skóla.  Loks ber að geta þess að heimaskólun er viðurkennd hér og hef  ég hitt nokkrar fjölskyldur sem hafa valið þann kost.

P.S.S. Var að sjá haft eftir sóknarpresti að aðgerðir borgaryfirvalda væru eins og á dögum Sovétsins.  Hann ætti að skammast sín og biðjast afsökunar á því að reyna að nota slík hugrenningtengsl.  Ekki aðeins gerir hann lítið úr þeim tugum milljóna sem létu lífið í voðaverkum Sovétstjórnarinnar, heldur gerir hann sérstaklega litið úr þeim fjölmörgu kristnu mönnum sem voru myrtir eingöngu vegna trúar sinnar í Sovétríkjunum.  Að líkja þessu saman er slík vanvirðing að með eindæmum er. 


Nubo og Grímsstaðir í "unofficial" Kínversku sjónvarpi

New Tang Dynasty er Bandarísk sjónvarpsstöð sem sérhæfir sig í Kínverskum fréttum og málefnum.  Stöðin sendir út til Kína í gegnum gervihnött, í óþökk Kínverskra stjórnvalda.  Þeir reyna að segja fréttir frá öðrum sjónarhornum en hinir opinberu miðlar og flytja fréttir sem ekki heyrast innan Kína.

Kunningi minn sendi mér slóðir á tvær fréttir sem komu á stöðinni í dag og fjalla um Ísland, Nubo, Grímsstaði og Kínversk stjórnvöld.  Ég setti þær inn hér að neðan.

Alltaf gaman að sjá öðruvísi sjónarhorn.  Það er óhætt að segja að málið hefur vakið athygli víða.

Hér og hér má sjá fréttir úr Globe and Mail um Nubo og Grímsstaði.

 

 


Gott mál en óboðleg vinnubrögð

Það er gott mál að "kolefniskatturinn" svo kallaði sé dregin til baka.  Að öllum líkindum getum við þakkað "upphlaupsmönnum" innan Samfylkingarinna fyrir það.  Meirihlutinn sem ríkisstjórnin hefur er það naumur að lítið sem ekkert má út af bregða.  Það má heita víst að hefði eining ríkt innan ríkisstjórnarflokkana um málið, hefði skatturinn flogið í gegn með skelfilegum afleiðingum.

En svo notað sé vinsælt orðalag um þessar mundir, þá eru þetta óboðleg vinnubrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar og fjármálaráðherra. 

Var þessi fyrirætlan kynnt í ríkisstjórn og fékk hún samþykki þar?  Var þessi fyrirætlan kynnt í þingflokkum og fékk hún samþykki þar?

Eða æddi fjármálaráðherra af stað upp á sitt einsdæmi og setti fram á Alþingi tillögu sem m.a. innihélt þessa skattahækkun?  Mega Íslendingar ef til vill eiga von á því að forsætisráðherra skipi starfshóp innan ríkisstjórnarinnar sem taki yfir skattamálin frá Steingrími J.?

Því skaðinn er að hluta til skeður.  Vissulega er gott að skattaáformin eru dregin til baka, en eftir stendur hringlandaháttur ríkisstjórnar Íslands, skattar virðast ákveðnir hipsumhaps, eða eftir geðþótta einstkra ráðherra og lítið sem ekkert hugsað um hvaða áhrif þeir geta haft. Eftir stendur sömuleiðis að fjármálaráðherra virðist hafa ætlað að ganga á móti fyrri samningum við stóriðjufyrirtæki á Íslandi.  Slík vinnubrögð eru óboðleg og skaða orðspor Íslendinga hvað varðar erlendar fjárfestingar og var þó ekki úr háum söðli að detta.

P.S.  Skyldi einhverjum fréttamanninum detta í hug að spyrja Steingrím J. Sigfússon að því hvort að hann telji Ísland nú vera "... skattaparadís fyrir mengandi starfsemi..."?


mbl.is Hætt við hækkun kolefnisgjalds
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skeiðklukkupólítík

Sá það rétt í þessu á Eyjunni, að nú hafa Samfylkingarþingmenn miklar áhyggjur af því að einhver njóti meiri pólítískrar athygli en þeir sjálfir, all vegna í sekúndum talið.

Ef þeir fá ráðið verða fengnir starfsmenn í Menntamálaráðuneytið til að sekúndumæla umfjöllun ríkissjónvarpsins um landsfundi stjórnmálaflokkanna.  Það mætti auðvitað hugsa sér að bjóða slíkt eftirlit út á Evrópska efnahagssvæðinu.

Ef ekkert er að gert í þessum málum liggur fyrir að starfsfólk RUV veður uppi með sitt eigið fréttamat með ófyrirséðum afleiðingum fyrir land, þjóð og Samfylkinguna.  Ekki þó nauðsynlega í þessari röð.

Auðvitað er það svo að spennandi atburðir njóta alla jafna meiri athygli en óspennandi.  Það sama gildir um stjórnmálamenn, stjórnmálaflokka og landsfundi þeirra.

En þeir minna spennandi taka upp skeiðklukkuna.


Fékk Nubo rangar upplýsingar?

Ég sá það á vef RUV að þar er haft eftir hinum Kínverska ljóðræna athafnamanni að hann hafi fengið rangar upplýsingar um Grímsstaðamálið.  Þar er reyndar Íslenskum embættismönnum kennt um að svo hafi verið.

Mér þykir líklegra að þar megi frekar kenna þeim Íslenska hópi sem Nubo fékk til að aðstoða sig við málaleitanina.  Í þeim hópi má finna einstaklinga sem hafa á undanförnum árum náð undraverðum árangri í því að villla á sér heimilidir og  veita Íslensku þjóðinni rangar upplýsingar.  Nú hafa þeir náð þeim árangri að fara með þá hæfileika í útrás og hitt fyrir Nubo.

Spurningin er svo hvort að núverandi ríkisstjórn riði til falls vegna þeirrar útrásar.  Það yrði þá líklega að teljast önnur ríkisstjórnin sem félli á fáum árum, vegna "útrásarvíkinga" og rangra upplýsinga sem þeir veita.

Tveir núverandi ráðherra hafa verið í þeim báðum, en það hlýtur að vera tölfræðilega merkilegt og flokkast undir óheppni af þeirra hálfu.

 


Óboðleg ríkisstjórn

Þegar forsætisráðherra segir að óboðleg vinnubrögð séu viðhöfð innan ríkisstjórnar sinnar hittir hún auðvitað fyrst og fremst sjálfa sig fyrir.

Hún er jú leiðtogi ríkisstjórnarinnar.  Hún er forsætisráðherra.  Hún er "verkstjóri" ríkisstjórnarinnar.

Það liggur því fyrir að Íslendingar hafi ekki boðlegan forsætisráðherra.  Reyndar eru byrjaðar vangaveltur (í einum helsta fjölmiðli Samfylkingarinnar) að Ísland hafi engan forsætisráðherra.

Það er komin tími til þess að forsætisráðherra biðjist lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og efnt sé til kosninga.

Ríkisstjórn þar sem hver höndin er upp á móti annari er ekki það sem Íslendingar þurfa.  Þeir eiga betra skilið.

Það þarf kosningar, það þarf að skipta um forystu á Íslandi.


Lélegt hljóð hjá RUV?

Ég er oft að reyna að hlusta og horfa á þætti frá Íslandi á netinu.  Fréttir, umræðuþætti o.s.frv.  Leyfi líka börnunum oft að horfa á barnaefni og skemmtiþætti.

Oftar en ekki er hljóðið hjá RUV afar lélegt.  Mismunandi hljóðstyrkur á þátttakendum og umfram allt hljóðstyrkurinn svo lágur að varla heyrist orðaskil þegar ég nota "lappann" minn, þó að allt sé í botni.

Það er einna helst að hljóðið sé á góðum styrk þegar auglýsingar koma.

Það sama er ekki upp á teningnum þegar ég horfi á efni frá Stöð 2, þar er hljóðið mun betra, jafnara og öflugra þannig að hljóðið skilar sér vel og áheyrilega.

Kannast einhver við þetta vandamál, nú eða einhverja lausn við því?

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband