Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Kristinn aftur genginn í Framsókn

Það er enginn lognmolla í pólítíkinni þessa dagana.

Flokkar renna saman, þingmenn skipta um flokka og mikið gengur á, það styttist enda til kosninga.

Nú berast þær fréttir að Kristinn H. Gunnarsson sé aftur gengin til liðs við Framsóknarflokkinn.  Eftir því sem ég heyri fer lítið fyrir fagnaðarlátunum hjá Framsóknarmönnum, en ég verð þó að viðurkenna að ég er ekki beintengdur í grasrótina þar.

En það verður fróðlegt að sjá hvernig móttökur Kristinn fær hjá Framsóknarmönnum, ef hann fer í prófkjör í NV.

Einhvern veginn hef ég ekki trú á því að þeir slátri alikálfi.

P.S. Fyrirsögnin er alltof skemmtilega tvíræð til að hægt væri að sleppa henni, þó að hún lykti af aulahúmor.

 


Fjórflokkurinn sterkari en áður

Það töluðu margir í þá átt að eftir bankahrunið hlyti að verða uppstokkun í Íslenskum stjórnmálum og nýjar hreyfingar og flokkar yrðu áberandi.

Annað virðist vera að koma á daginn.

"Fjórflokkurinn" virðist hins vegar vera sterkari en oft áður. Frjálslyndi flokkurinn virðist vera að liðast í sundur, þó að vissulega sé of snemmt að afskrifa hann með öllu.  Það bendir þó margt til að saga hans á Alþingi sé á enda.

Íslandshreyfingin er búin að kasta inn handklæðinu og forystumenn hvetja til þess að félagsmenn styðji Samfylkinguna.

Nýjar hreyfingar virðast ekki vera að ná flugi.

Það er svo vel til fundið að sama dag og Íslandshreyfingin verður aðili að Samfylkingunni, samþykkir ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar frumvarp frá iðnaðarráðherra Samfylkingar um að gengið verði til samning um uppbyggingu álvers í Helguvík.

Það hlýtur að hafa kætt nýju félagana.


mbl.is Íslandshreyfingin verður aðili að Samfylkingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fórnfús Norskur seðlabankastjóri

Ég verð að segja að mér líst ágætlega á nýja seðalbankastjórann.  Hann hefur ágætis starfsferil og lítur út fyrir að drífandi maður.  Ég vona að honum gangi allt í haginn og óska honum góðs.

Það er ágætis hugmynd að leita út fyrir landsteinana eftir seðlabankastjóra, en það settur þó ef til vill blett á að vafi leiki á hvort að heimilt sé að skipa eða ráða útlending sem embættismann á Íslandi.  Ef til vill hefði ríkisstjórnin þurft að breyta fleiri lögum en um Seðlabankann til að vel á færi.  Ég þekki það ekki nægilega.

En það hlýtur að sömuleiðis að vekja athygli að það er ekki talið til vansa að seðlabankastjóri sé fyrrverandi pólítíkus, fyrst að hans pólítíska reynsla er ekki á Íslandi.  Ef til vill spillir ekki fyrir að reynslan er af "réttum" stað á litrófi pólítíkurinnar.

Nú er almennt talið að staða seðlabankastjóra á Íslandi teljist lítt eftirsóknarverð við núverandi aðstæður (þó að menn hafi reyndar ekki verið áfjáðir í að hætta), og verður því að telja að fórnfýsi hins Norska seðlabankastjóra sé til fyrirmyndar.  Ekki síst ef haft er í huga að laun hans nema varla einum þriðja af því sem hann hefur haft í laun undanfarin ár.

Laun og skattgreiðslur hans fyrir árin 2006 og 2007 má skoða hér.

Kostirnir eru þó að líklega er ódýrt að finna íbúð til leigu í Reykjavík og hann getur sjálfur gefið sér heimild til að færa launin sín yfir í erlendan gjaldmiðil.


mbl.is Nýr seðlabankastjóri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðvaranir Peningastefnunefndar

Þá eru ný lög um Seðlabanka Íslands orðin staðreynd.  Þeir eru líklega býsna margir sem fagna því ákaft.

Vissulega hafa hefur frumvarp það sem lagt var fram af ríkisstjórninni tekið miklum framförum í meðförum Alþingis, enda upphaflega frumvarpið hrákasmíð sem var forsætisráðherra lítt til sóma.

En líklega hefði þinginu ekki veitt af frekari tíma til umfjöllunar þó að vissulega hafi þingið fært frumvarpið verulega til betri vegar.

En það er vissulega umhugsunarefni þegar ný lög um Seðlabanka Íslands eru keyrð of svo miklum hraða og offorsi í gegnum Alþingi.  Ég hvet alla til að lesa hér frétt um álit Jóhannesar Nordal, í Viðskiptablaðinu er talað við Jón Daníelsson, en ef til vill segir fyrirsögnin á frétt Vísis mikið til um hvernig fjölmiðlamenn og almenningur lítur á frumvarpið og tilgang þess.

Hún er:  Seðlabankastjórar reknir

Það er hins vegar ekki að efa að það eiga eftir að heyrast margar viðvaranir frá Peningastefnunefndinni á næstunni, enda viðsjárverðir tímar í fjármálaheiminum, ekki bara á Íslandi heldur því sem næst alls staðar í heiminum. 

Og ekki veldur sá er varar, eða er það?

Það hlýtur mörgum að vera það íhugunarefni að stjórnvöld skuli velja þessa leið til að bola einstaklingum úr embætti.

Má eiga von á þvi að sá siður festist í sessi á Íslandi að þegar ný ríkisstjórn tekur við völdum, leggi hún fram frumvörp um breytingar á hinum ýmsu ríkisstofnunum til að losa sig við einstaklinga og koma þar að fólki sem henni þóknast betur?


mbl.is Seðlabankafrumvarpið samþykkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sleggjan á Samfylkinguna

Það virðist sem svo að Frjálslyndi flokkurinn sé að leysast upp, þó að vissulega sé of snemmt að segja hann búinn að vera.

En "fjórflokkurinn" virðist keikur sem oftast áður, þó að fylgið færist til.

En nú virðist vera orðið ljóst að Kristinn H. Gunnarsson gengur til liðs við Samfylkinguna og ætlar sér í prófkjör í NV-kjördæmi.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig útkomu Kristinn fær í sínum nýja flokki.  Líklega verður baráttan afar hörð og vandséð að Kristinn komist í vænlegt sæti í prófkjörinu.  Þar eru tveir þingmenn Samfylkingar fyrir á fleti.  Ennfremur þar sem mér skilst að reglur kveði á um fléttulista, þá yrði þriðji karlmaðurinn á lista efst í 5. sæti.

En þetta eru spennandi tímar.


mbl.is Flótti úr Frjálslynda flokknum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing og breytingar á stjórnarskrá? Er þörf fyrir bæði?

Ég fékk tölvupóst frá ágætis kunningja mínum.  Þar talaði hann um stjórnlagaþing og fyrirætlanir í þá veru.

Við erum reyndar sammála því að stjórnlagaþing gæti orðið til góðs á Íslandi, en vissulega er ekki sama hvernig að því er staðið og hvernig því er komið á laggirnar.  Sjálfur er ég ekki með neinar mótaðar hugmyndir um hvernig ég vildi sjá kosið til stjórnlagaþings eða hvernig það ætti að starfa.

En það sem kunningi minn vakti athygli mína á er sú þversögn að sú minnihlutastjórn sem nú situr á Íslandi, hefur lýst yfir fyrirætlunum sínum um að koma á stjórnlagaþingi (sjá t.d. hér), en hefur sömuleiðis lýst yfir þeim fyrirætlunum sínum að standa fyrir breytingum á stjórnarkránni eftir hefðbundnum leiðum á Alþingi.

Hvernig má það vera að ríkisstjórn sem hefur vilja til þess að koma á stjórnlagaþingi til að vinna nýja stjórnarskrá, telur þörf á því að breyta stjórnarskránni stuttu áður en stjórnlagaþing tæki til starfa?

Er ekki best að allar breytingar bíði stjórnlagaþings?

Eða er engin alvara á bakvið hugmyndir um slíkt þing?


Stutt stopp í bankaráðinu

Það er ekki hægt að segja að seta Gunnars Arnar í bankaráði Kaupþings hafi verið löng. 

En auðvitað kemur það mönnum á óvart að seta í bankaráði á þeim tímum sem nú eru sé tímafrek og krefjandi.  Auðvitað eiga menn von á því að um "þægilega innivinnu" sé að ræða. 

Ekki hefur Steingrímur J. útskýrt það nægilega vel fyrir Gunnari í hverju starfið er fólgið, fyrst hann verður að segja sig frá því eftir svona skamman tíma.

En auðvitað er það bagalegt að hver formaður bankaráðsins á fætur öðrum segi af sér.  Auðvitað er þörf á styrkri stjórn á ráðinu, nú sem aldrei fyrr.

Það er óskandi að Steingrími J. takist sem fyrst að finna einhvern sem hefur áhuga til þess að sitja í bankaráðinu, hefur til þess tíma og er viljugur til að takast á við erfið verkefni.

En það væri ef til vill ráð að Steingrímur gengi úr skugga um það áður en hann skipaði viðkomandi í ráðið.


mbl.is Gunnar Örn hættir í bankaráði Kaupþings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kastljósinu beint að Davíð

Það er ekkert nýtt að Davíð sé í kastljósinu, en viðtalið sem tekið var við hann í Kastljósinu í kvöld var skemmtilegt og fróðlegt.

Ekki eins skemmtilegt og fróðlegt og það hefði sjálfsagt getað orðið, en spyrillinn féll í þá gryfju sem svo margir Íslenskir fréttamenn "búa í" að telja það sitt helsta hlutverk að bera undir viðmælandann það sem aðrir hafa sagt, eða að reyna að fá viðmælanda sinn til að játa eða neita óstaðfestum fregnum eða "almannarómi".

Spyrillinn hafði lítið sem ekkert fram að færa sjálfur, færði ekki fram nein rök.  Davíð pakkaði honum enda snyrtilega saman og fór mest allan tímann með stjórn á viðtalinu. 

En það var ýmislegt athyglivert sem kom fram í þessu viðtali.

Það kom fram mjög hörð gagnrýni á síðustu ríkisstjórn og einstaka ráðherra sem í henni sátu.  Samkvæmt Davíð skeytti hún ekkert um viðvaranir og tók mun meira mark á viðskiptabönkunum en Seðlabankanum.

Perónulega skildi ég Davíð þannig að bankarnir hafi "keypt" stjórnmálamenn sem hafi í gegnum einkahlutafélög fengið óeðlilega fyrirgreiðslu.  Þetta er mál sem allir fjölmiðlar á Íslandi hljóta að fylgja eftir.

Það var sömuleiðis fróðleg uppljóstrun að bréf til lögreglu um óeðlileg hlutabréfaviðskipti hins arabíska sheiks hafi komið frá Davíð, sem hafi fengið nafnlausa vísbendingu um þau. 

Umfjöllun Davíðs um Seðlabankafrumvarpið var sömuleiðis fróðleg og fagleg að mínu mati.  Ég held að flestum sé ljóst að upphaflega frumvarpið var samið með það eitt að markmiði að koma Davíð úr Seðlabankanum. 

Davíð viðurkenndi í þættinum að Seðlabankinn hefði líklega gert mistök, með því að einblína of mikið á verðbólgu í stað gengis (það er ekki rétt sem sum staðar er haldið fram, að Davíð hafi ekki viðurkennt nein mistök, enda sagði hann í þættinum að allir geri mistök).

Eflaust eigum við eftir að fá meiri upplýsingar á næstu dögum og sjónarhorn annarra á þau mál sem Davíð fjallaði um.

En það verður fróðlegt að fylgjast með hvert framhaldið verður.  Sérstaklega ef Davíð hættir í Seðlabankanum á næstu dögum og verður "frjáls".

En það verður sömuleiðis fróðlegt að fylgjast með hvaða stefnu "seðlabankamanía" núverandi ríkisstjórnar tekur.  Kemst frumvarpið úr nefnd?  Hverjir funda með AGS á fimmtudaginn?  Hver verður næsti leikur ríkisstjórnarinnar?

Það er orðið ljóst að einn af þeim seðlabankastjórum sem ríkisstjórnin telur "rúin trausti" er búinn að fá atvinnutilboð frá seðlabanka Noregs. 

Þetta eru spennandi tímar.


mbl.is Helgi Magnús: Davíð sendi bréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norski seðlabankinn gefur ekki mikið fyrir álit Íslensku ríkisstjórnarinnar

Gráglettni örlaganna er oft á tíðum skondin áhorfs.

Nú er Norski seðlabankinn búinn að bjóða Ingimundi Friðrikssyni, fyrrum seðlabankastjóra starf hjá sér. 

En Ingimundur var eins og flestum er líklega í minni, einn af þremur seðlabankastjórum sem vinstristjórn Jóku og Gríms þóttu ekki hæfir til að sinna störfum sínum hjá Íslenska seðlabankanum.  Forsætisráðherra Íslands sendi Ingimundi ásamt starfsbræðrum sínum bréf þar sem krafist var afsagnar hans.

Máltækið enginn er spámaður í eigin föðurlandi, kemur upp í hugann.

Ef að draumur Steingríms J. um tengingu Íslensku við þeirrar Norsku (sem er þó ekki líklegt), þá gæti farið að Ingimundur tæki aftur þátt í starfaði aftur við þann seðlabanka sem Íslendingar nytu.

Svo er spurningin hvort að gert er meira með hæfileikamat Norska seðlabankans, eða þeirrar vinstri minnihlutastjórnar sem nú ræður ríkjum á Íslandi.

Ég er í það minnsta kosti ekki í vafa.


mbl.is Ingimundur í norska seðlabankann?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur viðskiptaráðherra betri yfirsýn yfir verslunarmarkaðinn en stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins?

Ég held að margir muni fagna þessum skoðunum viðskiptaráðherra.  Aukin samkeppni er alltaf af hinu góða fyrir neytendur.  Það hefur líka að margra mati verið skortur á virkri og heilbrigðri samkeppni milli verslana á Íslandi.

En það ætti einnig að vekja eftirtekt að hér talar stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins frá 2005 (ég man það ekki alveg, en er hann ekki einungis í leyfir frá þeim störfum).  En margir sem ég hef heyrt í eru einmitt þeirrar skoðunar á samkeppni hafi hrakað mikið á þeim árum.  Æ fleiri fyrirtæki hafi einmitt safnast á færri hendur án þess að Samkeppniseftirlitið hafi haft sig nægilega í frammi.

En því ber að fagna ef samkeppni eykst og þó fyrr hefði verið.


mbl.is Óeðlileg samkeppni í verslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband