Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

Hægt að spara milljónatugi með láni í erlendri mynt - Skrýtin fréttamennska

Ég sá frétt á Stöð 2 þar sem fjallað var um hvað það væri hagstætt að taka erlent lán, til samanburðar við Íslenskt.  Heldur þótti mér fréttin skringilega fram sett og það vantaði ákaflega mikið í fréttina til að hún teldist vel unnin.  Ég sá síðan fréttina endurritaða á vefsíðu Vísis .

Þar segir m.a. rétt eins og sagt var í frétt Stöðvar 2:

"En hverju skyldi það muna? Fréttastofa Stöðvar 2 fékk Kaupþing til að reikna það út fyrir sig, svona eins og hægt er, því erfitt er að spá um framtíðina.

Hún Mist ætlar að kaupa sér þriggja herbergja íbúð á 20 milljónir og þarf 16 milljónir að láni til 40 ára. Ef hún tekur íslenskt verðtryggt jafngreiðslulán, væri hún að greiða röskar 93 þúsund krónur í afborganir á mánuði til að byrja meðen undir lokin á þessum 40 árum um 651 þúsund krónur. Heildarendurgreiðslan er rúmar 137 milljónir og 800 þúsund krónur.

En ef hún fær hluta af launum í evrum og tekur evrulán? Jú, þá væru fyrstu greiðslur kringum 146 þúsund krónur en um 236 þúsund í lok lánsins. Endanleg greiðsla yrði rúmar 107 milljónir, um 30 milljónum lægri en af íslenska láninu.

En hvernig væri að taka japanskt jenalán, lægri vextir finnast varla? Jú, af því vextirnir eru lágir þá yrðu fyrstu afborganir svipaðar og á krónuláninu, síðustu afborganir langtum lægri og heildarendurgreiðsla rúmlega 81 milljón eða um 56 milljónum króna minna en krónulánð."

Það sem er stærsti gallinn við fréttina er að áhorfandinn/lesandinn fær ekki að vita hvað er lagt til grundvallar við útreikninga.  Við hvaða vexti er verið að miða, við hvaða verðbólgu er miðað og svo mætti áfram telja.

Það vekur líka athygli að í samanburðinum þarf í upphafi að borga 53 þúsund krónur meira á mánuði ef tekið er evrulán.  Það gerir hvorki meira né minna en 636 þúsund hærri afborgun á ársgrundvelli í upphafi.  Engin tilraun er gerð til að skýra út hvers vegna fyrir áhorfandanum/lesandanum.

Það segir sig sjálft að ef hærra er borgað í upphafi þá borgast lánið mun fljótar niður og heildargreiðslan hlýtur að sama skapi að minnka.  Þá má líka velta því fyrir sér hve margir þeir eru sem munar ekkert um það að greiða ríflega 600 þúsundum meira á ári.

Rétt er að taka fram að með þessum pistli vil ég alls ekki gera lítið úr því að umhverfi til lántöku sé betra á evrusvæðinu heldur en á Íslandi, en það er áriðandi að að þegar rætt er um hlutina, séu breyturnar látnar koma fram og bornir saman eins sambærilegir hlutir og kostir er.

Það er alltaf algengt að stjórnmálamenn tali eins og fjarlægðin geri fjöllin blá og vextina lága, dæmi um það má sjá t.d. hér, þar sem fullyrt er að vextir á húsnæðislánum á evrusvæðinu séu almennt um 3%.  Því miður má svo stundum sjá svipaðar fullyrðingar í fjölmiðlum.

Auðvitað er þarft að ræða hlutina en umræðan þarf vera á öfgalausum og skýrum grunni.

 

 


Frábært

Þetta eru stórkostlegar breytingar, það er einfaldlega allt annað að ferðast þegar boðið er upp á svona "entertainment center" fyrir hvert sæti.  Sérstaklega þegar ferðast er með ómegðina, þetta styttir þeim stundir, þannig að ferðalagið er allt annað, bæði fyrir foreldrana og einnig fyrir samferðafólkið.

Ég er auðvitað mjög ánægður að sjá að Icelandair verður komið með þessa þjónustu áður en ég skelli mér ásamt fjölskyldunni til Finnlands, Eistlands og Íslands í sumar, en hún er einmitt bókuð með Icelandair og stutt síðan miðarnir komu í hús.

En það er einmitt í ferðum sem þessari sem stærsti kostur Icelandair kemur í ljós, alla vegna fyrir okkur sem búum hér fyrir "Westan".  Við förum héðan frá Toronto, beint til Finnlands (millilent í Keflavík auðvitað) og verðum þar í nokkra daga, tökum síðan "bátinn" yfir til Eistlands.

Síðan stoppum við nokkra daga á Íslandi á heimleiðinni, án nokkurs aukagjalds.

Ákaflega handhægt.

 

 


mbl.is Ný sæti í vélum Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matur og olía

Það vita líklega flestir og ekki síst þeir sem búa á Íslandi hve hátt olíuverð hefur verið undanfarin misseri.

Það hafa líka flestir heyrt um hækkandi verð á grunnmatvörum, s.s. hveiti, byggi, maís og þar fram eftir götunum, sem síðan hefur að sjálfsögðu áhrif á önnur matvæli, s.s. mjólk, pasta og kjöt.

En það sem hefur ekki hvað síst hækkað verð á matvælum er stóraukin notkun á t.d. maís og soya til eldsneytisframleiðslu, ekki hvað síst á þeim forsendum að það sé vistvænt.  Ekki ber þó að vanmeta aukna eftirspurn eftir grunnvörunum til kjötframleiðslu, en þar hefur aukin velmegun í Kína og á Indlandi líklega hvað mest áhrif.

En það er ekki hægt að líta fram hjá því að eftir því sem olíuverð verður hærra, er líklegra að meira og meira af korn og skyldum vörum verði tekið til eldsneytisfamleiðslu, sem líklega hækkar þá enn meira en orðið er í dag.

En það er ef til vill örlítið kaldhæðnislegt, að það lendir einmitt eins og bjúgverpill á mörgum af helstu olíuframleiðsluríkjum heims, sem er háðari innflutningi á matvælum en margar aðrar þjóðir.

Þetta hefur þegar leitt til stóraukinnar verðbólgu í þessum löndum og jafnvel óeirða eins og lesa má um hér og hér.

Verst verða þau ríki úti sem þurfa að flytja hvoru tveggja inn, kornmeti og olíu.

Það fer því að verða meira aðkallandi en nokkru sinni fyrr, að finna annan orkugjafa en olíu, svo að hægt sé að láta matvælin í friði og losna undan áþján síhækkandi verðs.


Fyrstu skrefin

Mér lýst afar vel á þetta, ef til vill getur þetta verið fyrsta skrefið til að leysa bændur úr þeim "álögum" sem þeir hafa verið í undanfarna áratugi.

Þetta getur líka tryggt þeim stærri bita af kökunni og skipt sköpum hvað varðar afkomu þeirra.  Sömuleiðis er líklegt að þetta auki gæði og vöruþróun, því þegar svona er staðið að drefingu stendur bóndinn með framleiðslunni alla leið, stendur og fellur með henni.

Sjálfur hef ég góða reynslu af því að kaupa "beint frá býli", þó að þau viðskipti hafi ekki öll verið lögleg þegar þau fóru fram.

Hér í Kanada er afar algent að bændur selji beint til neytenda, sumir jafnvel með litla söluskúra við endann á heimreiðinni.  Þar er algengast að boðið sé upp á ávexti, grænmeti, en sumir bjóða einnig upp á kjöt, bökur, kökur, brauð eða annað í þeim dúr.

Sjaldan hef ég verið svikinn af slíkum viðskiptum.


mbl.is Gæðamerki Beint frá býli: Heimaunnið sérmerkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðskiptaráðherra og forréttindi þeirra sem fara erlendis

Ég verð að segja að mér þykir það ákaflega merkilegt hve áfram viðskiptaráðherra er um að auka forréttindi þeirra sem fara erlendis, eins og það sé það sé svo aðkallandi.

Það sem er aðkallandi er að draga úr og helst fella niður alla tolla og vörugjöld, og gera þannig samkeppnisstöðu þeirra sem versla erlendis, þeirra sem panta á netinu og þeirra sem reka verslanir á Íslandi sem jafnasta.

Forréttindi handa þeim sem ferðast eru einfaldlega tímaskekkja.  Það getur enda varla talist sanngjarnt að þeir sem ferðist mest og oftast sleppi betur frá tollum og vörugjöldum en þeir sem versla heimafyrir, nú eða af netinu.

Auðvitað hljómar það vel að þeir sem fari erlendis geti haft meira með sér, af t.d. geisladískum, áfengi, iPodum og svo framvegis, en hvers eiga þeir að gjalda sem ekki ferðast?

Hvers eiga þeir að gjalda sem reka verslanir á Íslandi?

Ég hef áður sagt að mér þykir Björgvin áberandi slakasti ráðherrann í núverandi ríkisstjórn, og það þrátt fyrir "nætursaltaða" pistla Össurar

Það er stundum sagt að hver þjóð fái þá stjórnendur sem hún á skilið, ég velti því fyrir mér hvað Íslendingar hafi eiginlega gert af sér til þess að verðskulda að fá Björgvin G. Sigurðsson sem viðskiptaráðherra?  Ég finn fyrir því engin rök.

Hér og hér  eru fyrri blog mín um þetta mál.

Og hér má svo finna nýlega frétt af Vísi, um hvernig netviðskipti ganga fyrir sig á Íslandi.


mbl.is Telur tollafríðindin ekki í samræmi við veruleikann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtið

Er það ekki skrýtið að það virðast vera miklu meiri líkur á því að maður vinni í "lottóum" sem maður kaupir ekki miða í, heldur en þeim sem maður lætur þó glepjast til þess að kaupa "möguleika" stöku sinnum?

Eða hvað?


Lame duck á Tjarnarbakkanum

Nú berast þær fréttir út um heimsbyggðina (óstaðfestar að vísu þannig að ennþá er hægt að vona að þær reynist rangar) að Vilhjálmu Þ. Vilhjálmsson komi með þá niðurstöðu undan feldi að hann ætli að sitja sem fastast í borgarstjórn Reykjavíkur og taka við borgarstjóraembættinu eftir ríflega ár.

Þetta eru að mínu mati ákaflega slæm tíðindi og líkleg til þess að að gera stöðu Sjálfstæðisflokksins verri, bæði í borg og á landsvísu sem og að grafa undan trausti Íslendinga á stjórnmálamönnum sem heild.

Vilhjálmur verður "lame duck" í Ráðhúsinu, hefur ekki pólítíska stöðu til að koma neinum stærri málum á hreyfingu og hefur ekki svigrúm til neinna mistaka.

Pólítískir andstæðingar munu "keyra" miskunarlaust á hann og almenningur mun hafa tilhneigingu að leggja trúnað á allt það sem haldið verður fram að horfi til verri vegar og Vilhjálmur kemur nálægt.

Eins og oft kemur fram getur enginn neytt borgarfulltrúa til þess að segja af sér, hvað það varðar ræður hans eigin samviska, en rétt er að hafa í huga að borgarstóri er kosinn í borgarstjórn.

Ég bind því vonir mínar við tvennt.

Annað hvort að sú óstaðfesta frétt að Vilhjálmur hyggist sitja áfram og taka við borgarstjóraembættinu, sé einfaldlega skipulagður leki til að athuga hvernig landið liggur og Vilhjálmur taki þá ákvörðun þegar hann skynjar viðbrögðin að draga sig í hlé.

Hitt, að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins standi saman og láti Vilhjálm einfaldlega vita að þau komi ekki til með að greiða honum atkvæði sitt þegar þar að kemur. 

Þeirra er valdið, en ekki Vilhjálms, og ef þau hafa bein í nefinu láta þau hann ekki draga sig niður í þetta pólítíska svað.


Hefði viljað vera þar

Ég hefði þegið með þökkum að vera í Laugardalshöllinni og njóta tónlistar Þursanna.

Þursarnir eru einfaldlega með allra bestu hljómsveitum í Íslenskri tónlistarsögu.  Tvisvar sá ég þá á tónleikum í "den".  Í Samkomuhúsinu og einnig í "Skemmunni", þá með Baraflokknum og Þeysurunum.

En það er auðvitað langt síðan og þó að minningarnar séu stórkostlegar hefði ekki veitt af smá upprifjun á herlegheitunum.

En ég hef fulla trú á því að þetta hafi verið ánægjuleg kvöldstund.


mbl.is Þursarnir hafa engu gleymt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sollurinn

Í gegnum árin hafa öngvir verið jafn meðvitaðir um það og Framsóknarmenn hve mannlífið er fagurt í sveitunum (og dreifbýlinu) og hve sollurinn á mölinni getur reynst ungu fólki hættulegur.


Framboð og eftirspurn

Einhvern veginn finnst mér lögmálið um framboð og eftirspurn óvíða koma betur fram hér í Kanada en í verði á svínakjöti, eða öllu heldur á mismunandi hlutum svínsins.

Kemur þar ákaflega sterkt inn hve hrifnir Kanadabúar eru af svínarifum.  Einhver mundi líklega segja að þeir séu óðir í rif.  Það veldur því að gjarna er svipað verð á svínarifum og svínalundum.

Þannig var það í dag þegar ég fór að versla í matinn.  Tilboð var á bæði svínarifum og lundum.  6.59 dollarar kílóið, hvort sem var rif eða lundir.

Á meðan ég stoppaði við og velti fyrir mér hvaða bakka af lundum ég ætti að taka, komu 5 aðrir að kælikistunni  og tóku bakka, og allir - nema ég - völdu rif.

En hér verða lundir í matinn í kvöld.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband