Hægt að spara milljónatugi með láni í erlendri mynt - Skrýtin fréttamennska

Ég sá frétt á Stöð 2 þar sem fjallað var um hvað það væri hagstætt að taka erlent lán, til samanburðar við Íslenskt.  Heldur þótti mér fréttin skringilega fram sett og það vantaði ákaflega mikið í fréttina til að hún teldist vel unnin.  Ég sá síðan fréttina endurritaða á vefsíðu Vísis .

Þar segir m.a. rétt eins og sagt var í frétt Stöðvar 2:

"En hverju skyldi það muna? Fréttastofa Stöðvar 2 fékk Kaupþing til að reikna það út fyrir sig, svona eins og hægt er, því erfitt er að spá um framtíðina.

Hún Mist ætlar að kaupa sér þriggja herbergja íbúð á 20 milljónir og þarf 16 milljónir að láni til 40 ára. Ef hún tekur íslenskt verðtryggt jafngreiðslulán, væri hún að greiða röskar 93 þúsund krónur í afborganir á mánuði til að byrja meðen undir lokin á þessum 40 árum um 651 þúsund krónur. Heildarendurgreiðslan er rúmar 137 milljónir og 800 þúsund krónur.

En ef hún fær hluta af launum í evrum og tekur evrulán? Jú, þá væru fyrstu greiðslur kringum 146 þúsund krónur en um 236 þúsund í lok lánsins. Endanleg greiðsla yrði rúmar 107 milljónir, um 30 milljónum lægri en af íslenska láninu.

En hvernig væri að taka japanskt jenalán, lægri vextir finnast varla? Jú, af því vextirnir eru lágir þá yrðu fyrstu afborganir svipaðar og á krónuláninu, síðustu afborganir langtum lægri og heildarendurgreiðsla rúmlega 81 milljón eða um 56 milljónum króna minna en krónulánð."

Það sem er stærsti gallinn við fréttina er að áhorfandinn/lesandinn fær ekki að vita hvað er lagt til grundvallar við útreikninga.  Við hvaða vexti er verið að miða, við hvaða verðbólgu er miðað og svo mætti áfram telja.

Það vekur líka athygli að í samanburðinum þarf í upphafi að borga 53 þúsund krónur meira á mánuði ef tekið er evrulán.  Það gerir hvorki meira né minna en 636 þúsund hærri afborgun á ársgrundvelli í upphafi.  Engin tilraun er gerð til að skýra út hvers vegna fyrir áhorfandanum/lesandanum.

Það segir sig sjálft að ef hærra er borgað í upphafi þá borgast lánið mun fljótar niður og heildargreiðslan hlýtur að sama skapi að minnka.  Þá má líka velta því fyrir sér hve margir þeir eru sem munar ekkert um það að greiða ríflega 600 þúsundum meira á ári.

Rétt er að taka fram að með þessum pistli vil ég alls ekki gera lítið úr því að umhverfi til lántöku sé betra á evrusvæðinu heldur en á Íslandi, en það er áriðandi að að þegar rætt er um hlutina, séu breyturnar látnar koma fram og bornir saman eins sambærilegir hlutir og kostir er.

Það er alltaf algengt að stjórnmálamenn tali eins og fjarlægðin geri fjöllin blá og vextina lága, dæmi um það má sjá t.d. hér, þar sem fullyrt er að vextir á húsnæðislánum á evrusvæðinu séu almennt um 3%.  Því miður má svo stundum sjá svipaðar fullyrðingar í fjölmiðlum.

Auðvitað er þarft að ræða hlutina en umræðan þarf vera á öfgalausum og skýrum grunni.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Landfari

Sammála þér. Þetta var óunnin frétt. Eiginlega helst hægt að líka þessu við við einhverja bloggfærslu hjá einstaklingi með takmarkaða þekkingu á umfjöllunarefninu.

Landfari, 1.3.2008 kl. 16:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband