Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Simply Money

Þetta hefur verið eitt af mínum uppáhaldslögum, allt frá því að ég heyrði það fyrst árið 1985, þá nýkomið út.  Fyrsta lag sem Simply Red gaf út, hafði í höndunum gott 12" mix, spilaði það mikið.

Mörgum árum seinna náði ég að eignast lagið með upprunalegum flytjendunum, Valentine Brothers, sú útgáfa er ekki síðri.

En myndbandið hjá Simply er heldur ekkert slor.


Allt í mínus vegna "safekeeping"

Ég er einn hinna mýmörgu Íslendinga sem töpuðu á því þegar bankarnir voru ríkisvæddir.

Allt hlutafé mitt í Kaupþing hefur nú verið afskrifað á vörslureikning mínum og stendur þar í 0.  Reyndar er vörslureikningurinn minn í mínus. 

Þetta er svo sem engin skelfing fyrir okkur hér að Bjórá.  Eignin mín í Kaupþingi náði ekki 80 hlutum, þannig að afskriftin er ekki stór.  Vörslureikningurinn minn var heldur ekki bólginn.  Á honum var ekkert að finna nema þessi örfáu hlutabréf í Kaupþingi og enn færri bréf í Exista sem ég fékk í arð í fyrra eða eða árið á undan.

En nú stendur reikningur í mínus eins og áður sagði.

Kaupþingsbréfin standa í 0, Existabréfin í nokkrum hundraðköllum, en þóknun bankans setur reikninginn í mínus.

Og fyrir hvað er þóknunin?

Jú það kemur skýrt fram á reikningnum, það er v/safekeeping.

 


mbl.is Gengi bréfa bankanna 0 krónur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðskrumarar og frysting eigna auðmanna

Það er átakanlegt að fylgjast með umræðunni um sem komin er af stað um að frysta eigur auðmanna sem tóku þátt í Íslensku "útrásinni", eða skuldsetningunni eins og nú er víst farið að kalla þetta.

Í fjölmiðlum og bloggum má heyra þá kröfu að eignir "auðmanna" verði frystar.  Meira að segja stjórnmálamenn kyrja nú þennan söng.  Í það minnsta hef ég heyrt Ágúst Ólaf Ágústsson og Steingrím J. Sigfússon taka þetta upp.

Hvað eru mennirnar að meina?  Er eignarétturinn eitthvað sem ekki ber að virða lengur á Íslandi?

Ég get fyllilega skilið að stjórnmálamenn sem og aðrir séu óánægðir með ástandið, en lög verða að ríkja.  Lögleysan má ekki taka við.  Lýðskrumið ekki heldur.

Ef rökstuddur grunur (n.b. rökstuddur) er um að einhverjir af "auðmönnunum" hafi brotið lög, þá getur frysting eigna verið réttlætanleg og eðlileg, en það verður þá að fara rétta leið.

Hafi Ágúst Ólafur Ágústsson eða Steingrímur J. Sigfússon (nú eða einhverjir aðrir) rökstuddan grun um að um ólöglegt athæfi sé að ræða, eiga þeir auðvitað að leita til viðeigandi yfirvalda og afhenda þeim gögn sín og/eða skýra frá grunsemdum sínum.  Það væri sjálfsagt og eðlilegt að tryggja "whistleblowers" einhverja "vernd" eða sakaruppgjöf ef slíkt væri í stöðunni.

Það er ekki rétta leiðin að koma í sjónvarp, dæla út úr sér dágóðum skammti af lýðskrumi og gera svo ekki neitt.

Það er sérstakt áhyggjuefni að þeir sem starfi á löggjafarsamkundunni hagi sér með slíkum hætti.

Það er raunar ótrúlegt til þess að hugsa að einstaklingar sem höfðu allt á hornum sér þegar eitt stærsta fyrirtæki landsins sætti löglegri og eðlilegri rannsókn og töluðu um ofsóknir, skuli nú vilja frysta eigur einstaklinga án þess að hafa nokkuð til málanna að leggja sem rökstyddi slíka aðgerð eða bent á nokkur lög sem réttlæti hana.

Með lögum skal land byggja, en lýðskrumi eyða.

Hvað sem gengur á verður landið og hreingerningin sem nú gengur yfir að byggjast á lögum.

 


Kætumst meðan kostur er

Ég er búinn að fá þessa mynd í mörgum tölvupóstum í dag og í gær.  Hún hefur slegið í gegn á Íslandi og líklega víðar.

Einhvern veginn endurspeglar hún á sinn nötulega hátt ástandið á Íslandi, eins og það virðist vera þessa dagana.

Það þyrfti eiginlega að gera þessa mynd ódauðlega í málverki (svon í stíl síðustu kvöldmáltíðarinnar) eða stórri veggmynd.  Gæti sem bestu verið í einhverri af þeim "nýju" bankastofnunum sem Íslendingar eru að byggja upp.

Er ekki Hallgrímur á lausu?  Eða er hann ennþá upptekinn við að skrifa blaðagreinar? 

 

baugur veisla


Herra Grænn og Herra Brúnn

Þetta tilboð Sir Philip Green þess efnis að kaupa allar skuldir Baugs við hina ríkisvæddu Íslensku banka er óaðgengilegt.  Eðlilega kemur ekki fram hve hátt hlutfall hann hyggst greiða af skuldunum, en reikna má með að hans fyrsta tilboð sé ekki hátt.  Líklega á bilinu 10 til 15%.  Eftir því sem gefið er í skyn eru skuldir Baugs Group við hina horfnu Íslensku banka ríflega 300 milljarðar Íslenskrar króna.

En hvernig stendur á því að þetta fyrirtæki sem stóð svo vel og átti svo mikið laust fé er núna á barmi gjaldþrots? Hvernig gufaði sterk staða Baugs Group upp? 

Hvað varð af hinum 3. milljörðum Bandaríkjadollara sem Jón Ásgeir stærði sig af að Baugur Group hefði handbæra í apríl síðastliðnum?  Ekki hefur Baugur Group ráðist í meiriháttar fjárfestingu síðan þá.

Hvert er veðið að baki skuldum Baugs Group við hina horfnu Íslensku banka?  Hver er hlutabréfaeign Baugs Group í Saks (á félagið ennþá 8% þar?) og öðrum félögum þar sem það kemur ekki að rekstri?

Á ekki Baugur group ennþá verulega hlutabréfaeign í félögum eins og Debenhams, Woolworths, French Connection og Moss Bros?

Hverjar eru aðrar skuldir Baugs Group og hvaða lánastofnanir eiga þær?

Hverjar eru eigur Baugs Group í Danmörku og hvernig eru þær skuldsettar?

Ef til vill væri ekki úr vegi að genslast fyrir um aðrar eigur.  Á Baugur Group flugél, snekkju, eða aðrar eigur sem hægt væri að koma í verð, eða er því öllu komið fyrir í öðrum eignarhaldsfyrirtækjum?

Þetta og svo margt fleira væri verðugt verkefni fyrir Íslenska fjölmiðla og skilanefndir bankanna að grennslast um fyrir og fjölmiðlarnir eiga auðvitað að miðla upplýsingum til almennings.

Frétt Visis frá í gær er einstaklega ógeðfelld.  Þar er ýjað að því að sala skuldanna til Green sé besti kosturinn fyrir hið opinbera, annars sé mikil hætta á því að allt tapist.

Í fréttinni segir m.a.:

"Ekki er vitað hversu hátt hlutfall Green er tilbúinn til að borga af skuldunum. Ef samkomulag næst ekki gæti íslenska ríkið þurft að afskrifa hverja krónu af þeim rúmlega 300 milljörðum sem bankarnir tveir hafa lánað Baugi á undanförnum árum.

Staða Baugs í Bretlandi er afleit vegna milliríkjadeilu Breta og Íslendinga og hafa fyrirtæki í eigu þess fengið að finna fyrir andúðinni í garð íslensku eigendanna.

Fyrirtæki á borð við House of Fraser, Iceland, Karen Millen og Hamleys, hafa misst lánstraust hjá birgjum sínum og ef ekkert verður að gert geta fyrirtækin hvert af öðru farið í þrot og orðið verðlaus. Það myndi síðan þýða að dagar Baugs væru taldir."

"Heimildir fréttastofu herma að Green sé í afar góðu sambandi við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sem vill fyrir alla muni að framtíð fyrirtækja Baugs verði tryggð enda yfir 50 þúsund störf í húfi.

Ef Green tekur yfir skuldir félagsins nær hann meirihlutaeign í Baugi og líklegt að ró komist á hjá fyrirtækjum í eigu þess. Ef ekkert samkomulag næst er mögulegt að Brown þjóðnýti fyrirtækin til að vernda þau störf sem í húfi eru."

Á mannamáli hljóðar þetta einhvern veginn svona:  Ef Íslendingar gera ekki eins og herra Grænn leggur til, verður vinur hans herra Brúnn reiður og þjóðnýtir fyrirtækin og Íslendingar tapa öllu sínu.

Það læðist að manni óþægileg tilfinning um hvers vegna viðbrögð Brown voru jafn harkaleg og raun bar vitni, og hver hvíslar í eyru hans.

Auðvitað á ekki að ganga að tilboði Green.  Fyrst þarf að ganga úr skugga um hvaða verðmæti standa að baki skuldunum, hvaða aðra lánadrottna Baugur Group hefur o.s.frv.  Ef til vill væri samstarf við aðra lánadrottna mögulegt og gæti það aukið það fé sem fengist upp í kröfurnar.

Ég held raunar að það sé alvarlegur dómgreindarskortur hjá viðskiptaráðherra að funda með Jóni Ásgeir og Sir Philip.  Slíkum óskum á hann alfarið að vísa á skilanefndanna.  Ákvörðun um málefni sem þessi á að vera á viðskiptalegum grunni en ekki pólítískum.

Fundur sem þessi gerir ekkert annað en að ýta undir grunsemdir og fréttir um óeðlileg tengsl ráðherrans við kaupsýslumenn.  Við slíku má Íslensk stjórnsýsla ekki við nú um stundir.


mbl.is Jón Ásgeir: Fær ekkert út úr sölunni á Baugsfyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Japönsk skemmtun

Það vantaði ekkert á skemmtunina, spennuna og dramað í Japanska kappaksturinn.  Ýmis atvik voru á þann veg að eflaust á eftir að verða rifist um þau og rökrætt svo vikum skiptir, ef ekki árum.

En vissulega fór þetta ekki nógu vel fyrir mína menn, þó að það megi sjá ýmsa mjög jákvæða punkta.  Það er betra en ekkert að ná 1. punkti fyrir Massa og sá punktur gæti gert gæfumuninn þegar upp er staðið.  Munurinn er til dæmis sá að nái Ferrari 1 - 2 sigri í báðum þeim keppnum sem eftir eru, dugir það til sigurs, þó að Hamilton væri í 3. sæti.  Án þessa punkts hefði það ekki dugað.

Ferrari endurheimtir efsta sætið í keppni bílsmiða, það er þakka Raikkonen sem loksins skilaði punktum í hús, og keyrði vel, þó að hann næði ekki að fara fram úr Kubica.

Líklega er þó besti punkturinn að liðið hvíldi "ljósashowið" og tók aftur í notkun "sleikipinna".  Við megum ekki við fleiri mistökum á þjónustusvæðinu.

En maður dagsins var auðvitað Alonso, sem náði "tveimur í röð", sem er líklega eitthvað sem fæstir áttu von á.  Þessir sigrar hljóta að auka líkurnar á því að hann verði áfram hjá Renault.

Kubica stóð sig sömuleiðis frábærlega og Piquet jók verulega líkurnar á því að hann keyri áfram fyrir Renault.

Toyota líðið stóð sig vel á heimavelli.

En það sem á eftir að dóminera umræðuna eru refsingarnar sem Massa og Hamilton fengu.  Þeir þurftu báðir að keyra í gegnum þjónustusvæðið.

Mín skoðun er að þær hafi báðar verið réttlátar.  Hamilton skapaði stórhættu með gáleysislegum akstri í upphafinu og hafði stórkostleg áhrif á kappaksturinn með vítaverðum akstri.  Massa spann Hamilton undir kringumstæðum þar sem það var alls ekki óumflýjanlegt.  Sanngjarnir dómar.

En núna eru bara tvær keppnir eftir.  Ef Massa vinnur í Kína, eða minnkar forskot Hamilton um 3 - 4 stig, á hann möguleika á titlinum, því á Interlagos á hann að standa mun betur að vígi en Hamilton.

Það eru spennandi keppnir framundan.

 


mbl.is Alonso sterkastur í Fuji og Renault lét til sín taka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það lítur ekki vel út

Ég horfði ekki á tímatökurnar í nótt sem leið, en er að gera mig kláran fyrir keppnina sem hefst núna fljótlega.

En þetta lítur ekki alveg nógu vel út fyrir mína menn.  2 og fimmta sætið væri í sjálfu sér ásættanlegt, ef það væri Massa sem væri í öðru sæti og ætti því meiri möguleika á því að keppa við Hamilton.

En auðvitað þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn.  Það sem þyrfti auðvitað að gerast er að Raikkonen taki fram úr Hamilton í ræsingunni og haldi hraðanum niðri á meðan Massa vinnur sig upp.  En Massa þarf líka á góðri ræsingu að halda, þetta er gríðarlega mikilvæg keppni.  Ef að Massa nær ekki fleiri stigum en Hamilton í þessarri keppni, er þetta lang leiðina tapað fyrir hann, þó að fræðilegir möguleikar verði til staðar.

En það sannaðist reyndar í fyrra að ótrúlegir hlutir geta gerst og enginn ástæða að gefast upp, fyrr en ekið er yfir rásmarkið í síðustu keppninni.

En vonandi verður þetta spennandi og skemmtilegur kappakstur.

 


mbl.is Hamilton og McLaren með undirtökin í Fuji
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

When ever life gets you down Mrs. Brown

Það er alltaf gott að hlægja.  Stundum hreint nauðsynlegt.  Ein er sú hlátursmiðja sem aldrei bregst, en það er Monty Python, já jafnvel þó að þeir séu Breskir, jafnvel þó að Cleese hafi leikið í leiðinlegum bankaauglýsingum, þá er húmorinn hjá Monty Python eilífur.

 

Hér eru tvö sýnishorn sem eiga vel við í því ástandi sem nú ríkir.

 

 


Björn (Ingi) á Markaði

Ég var að enda við að horfa á nýja spjallþáttinn, Markaðinn á Stöð 2.  Þátturinn var að mörgu leyti ágætur, enda alltaf fróðlegt að heyra mismunandi sjónarhorn.

Það sem stóð upp úr í þættinum mínu mati var innlegg Gylfa Zoega.  Hann talaði af þekkingu, án upphrópana, skýrði málin og líklega sá eini í þættinum sem ekki blandaði pólítík í mál sitt.

En það er einmitt líklega helsti galli þáttarins.  Pólítíkin er þar yfir, undir og allt um kring.  Björn Ingi svissar á milli þess að vera þáttastjórnandi og Framsóknarmaður og virkar langt í frá traustvekjandi, enda man almenningur hann líklega betur sem aðstoðarmann Halldórs Ásgrímssonar og borgarfulltrúa heldur en sem blaðamann.  Sem borgarfulltrúi var hann einn helsti hvatamaður þess að útrásinni væri hleypt af stað hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Nú situr hann og "kryfur" málin og veltir upp hagsmunum þeirra "sem ekki tóku þátt í veislunni".  Trúverðugt? 

Ég held ekki.

En þetta er líklega eitt af vandamálum Íslendinga, samþáttun stjórnmála, viðskipta og fjölmiðla.  Þar er fátt sem skilur á milli.

Góður punktur sem kom út hjá mér hlátrinum var þegar Þorsteinn Pálsson sagði eitthvað á þessa leið við Björn Inga:  Og auðvitað er þetta líka bara ég og þú sem hafa eytt of miklu.  Björn Ingi svaraði "örugglega" og hélt áfram að ráðast á Seðlabankann.

En í stíl við tíðarandann ætti þátturinn auðvitað að heita "Björn á markaði".

 


Bjarnargreiði

Það vekur eðlilega athygli þegar eina þjóðin utan Norðurlandana sem býðst til þess að lána Íslendingum umtalsvert fé, og í raun eina þjóðin sem virðist hafa einhvern áhuga á að lána Íslendingum það mikið fé að það komi að raunverulegu gagni, eru Rússar.

Það getur ekki talist óeðlilegt að því sé velt upp hvað Rússneska birninum  gangi til, hver sé tilgangur hans með því að opna fyrir þann möguleika að koma Íslendingum til hjálpar.

Auðvitað er það gamal kunnugt að stórveldi kaupi sér áhrif með lánveitingum til ríkja sem eru í erfiðleikum.  Ríkin verða beint eða óbeint háð lánveitandanum, styðja hann (eða í það minnsta tala ekki gegn honum) á alþjóðavettvangi.

Hitt er svo að undanfarið hefur áhugi líklega beinst meira að Íslandi en verið hefur síðan á dögum kalda stríðsins (sem sumir vilja meina að sé að lifna við).  Þar má nefna áhuga Rússneskra aðila á að koma að uppbyggingu og rekstri olíuhreinsunarstöðvar á Íslandi. 

Margir hafa ennfremur nefnt til sögunnar baráttu og samningaviðræður sem eigi eftir að koma til hvað varðar efnhagslögsögu yfir landsvæðum á og í kringum norðurpólinn, en þar gera Rússar kröfur til mikilla landsvæða.

Líklegt má telja að Rússum þyki það heldur ekki miður að geta rekið "fjárhagsfleyg" inn í NATO, og sýnt um leið að þeir séu þess megnugir að koma þjóðum til hjálpar, að þeir séu á leið með að verða fjárhagslegt stórveldi.  Kistur þeirra eru enda bólgnar af fjármunum vegna hins háa olíuverðs sem hefur verið undanfarin misseri.

En eins og enska máltækið segir "beggars can´t be choosers".  Það virðast ekki margar leiðir stand Íslendingum opnar um þessar mundir og ef Rússar samþykkja lánveitinguna, get ég ekki séð að Íslendingar geti leyft sér að hafna henni.  Ekki nema að skilyrðin séu algerlega óaðgengileg.

Það hefur mikið verið rætt og skrifað um þau "mistök" Davíðs Oddsonar að tilkynna að Rússar hefðu ákveðið að lána Íslendingum, tilkynningu sem hann þurfti síðan að draga til baka.

Það er hrein ágiskun af minni hálfu, en einhvern veginn læðist sá grunur að mér að ekki hafi verið um mistök að ræða.  Íslendingar hafi einfaldlega verið að skjóta föstu skoti að hinum hefðbundnu vinaþjóðum okkar.  Að Íslendingar væru komnir upp að vegg, að Rússar væru hinir einu sem létu glitta í lánsfé.  Að ef ekkert gerðist, yrðu Íslendingar að leita til þeirra, að Íslendingar yrðu að þiggja þennan bjarnargreiða.

 


mbl.is Hvað vilja Rússar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband