Herra Grænn og Herra Brúnn

Þetta tilboð Sir Philip Green þess efnis að kaupa allar skuldir Baugs við hina ríkisvæddu Íslensku banka er óaðgengilegt.  Eðlilega kemur ekki fram hve hátt hlutfall hann hyggst greiða af skuldunum, en reikna má með að hans fyrsta tilboð sé ekki hátt.  Líklega á bilinu 10 til 15%.  Eftir því sem gefið er í skyn eru skuldir Baugs Group við hina horfnu Íslensku banka ríflega 300 milljarðar Íslenskrar króna.

En hvernig stendur á því að þetta fyrirtæki sem stóð svo vel og átti svo mikið laust fé er núna á barmi gjaldþrots? Hvernig gufaði sterk staða Baugs Group upp? 

Hvað varð af hinum 3. milljörðum Bandaríkjadollara sem Jón Ásgeir stærði sig af að Baugur Group hefði handbæra í apríl síðastliðnum?  Ekki hefur Baugur Group ráðist í meiriháttar fjárfestingu síðan þá.

Hvert er veðið að baki skuldum Baugs Group við hina horfnu Íslensku banka?  Hver er hlutabréfaeign Baugs Group í Saks (á félagið ennþá 8% þar?) og öðrum félögum þar sem það kemur ekki að rekstri?

Á ekki Baugur group ennþá verulega hlutabréfaeign í félögum eins og Debenhams, Woolworths, French Connection og Moss Bros?

Hverjar eru aðrar skuldir Baugs Group og hvaða lánastofnanir eiga þær?

Hverjar eru eigur Baugs Group í Danmörku og hvernig eru þær skuldsettar?

Ef til vill væri ekki úr vegi að genslast fyrir um aðrar eigur.  Á Baugur Group flugél, snekkju, eða aðrar eigur sem hægt væri að koma í verð, eða er því öllu komið fyrir í öðrum eignarhaldsfyrirtækjum?

Þetta og svo margt fleira væri verðugt verkefni fyrir Íslenska fjölmiðla og skilanefndir bankanna að grennslast um fyrir og fjölmiðlarnir eiga auðvitað að miðla upplýsingum til almennings.

Frétt Visis frá í gær er einstaklega ógeðfelld.  Þar er ýjað að því að sala skuldanna til Green sé besti kosturinn fyrir hið opinbera, annars sé mikil hætta á því að allt tapist.

Í fréttinni segir m.a.:

"Ekki er vitað hversu hátt hlutfall Green er tilbúinn til að borga af skuldunum. Ef samkomulag næst ekki gæti íslenska ríkið þurft að afskrifa hverja krónu af þeim rúmlega 300 milljörðum sem bankarnir tveir hafa lánað Baugi á undanförnum árum.

Staða Baugs í Bretlandi er afleit vegna milliríkjadeilu Breta og Íslendinga og hafa fyrirtæki í eigu þess fengið að finna fyrir andúðinni í garð íslensku eigendanna.

Fyrirtæki á borð við House of Fraser, Iceland, Karen Millen og Hamleys, hafa misst lánstraust hjá birgjum sínum og ef ekkert verður að gert geta fyrirtækin hvert af öðru farið í þrot og orðið verðlaus. Það myndi síðan þýða að dagar Baugs væru taldir."

"Heimildir fréttastofu herma að Green sé í afar góðu sambandi við Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, sem vill fyrir alla muni að framtíð fyrirtækja Baugs verði tryggð enda yfir 50 þúsund störf í húfi.

Ef Green tekur yfir skuldir félagsins nær hann meirihlutaeign í Baugi og líklegt að ró komist á hjá fyrirtækjum í eigu þess. Ef ekkert samkomulag næst er mögulegt að Brown þjóðnýti fyrirtækin til að vernda þau störf sem í húfi eru."

Á mannamáli hljóðar þetta einhvern veginn svona:  Ef Íslendingar gera ekki eins og herra Grænn leggur til, verður vinur hans herra Brúnn reiður og þjóðnýtir fyrirtækin og Íslendingar tapa öllu sínu.

Það læðist að manni óþægileg tilfinning um hvers vegna viðbrögð Brown voru jafn harkaleg og raun bar vitni, og hver hvíslar í eyru hans.

Auðvitað á ekki að ganga að tilboði Green.  Fyrst þarf að ganga úr skugga um hvaða verðmæti standa að baki skuldunum, hvaða aðra lánadrottna Baugur Group hefur o.s.frv.  Ef til vill væri samstarf við aðra lánadrottna mögulegt og gæti það aukið það fé sem fengist upp í kröfurnar.

Ég held raunar að það sé alvarlegur dómgreindarskortur hjá viðskiptaráðherra að funda með Jóni Ásgeir og Sir Philip.  Slíkum óskum á hann alfarið að vísa á skilanefndanna.  Ákvörðun um málefni sem þessi á að vera á viðskiptalegum grunni en ekki pólítískum.

Fundur sem þessi gerir ekkert annað en að ýta undir grunsemdir og fréttir um óeðlileg tengsl ráðherrans við kaupsýslumenn.  Við slíku má Íslensk stjórnsýsla ekki við nú um stundir.


mbl.is Jón Ásgeir: Fær ekkert út úr sölunni á Baugsfyrirtækjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Hugtakið "War Chest" í viðskiptum er notað þegar fyrirtæki hafa sett til hliðar fjármuni til að mæta óvæntum uppákomum, eða tækifærum, til dæmis til stækkunar, yfirtöku eða annarra kaupa. 

Það sjá margar tilvitnanir til forsvarsmanna Baugs Groups þess eðlis að þeir gerðu þeir grein fyrir því að yfirtökur gætu ekki verið eins skuldsettar og verið hafði undanfarin ár.

Það voru margir sem álitu að hið opinbera tæki alfarið ábyrgð á skuldum bankanna.  Margir bankamenn og jafnvel sumir stjórnmálamenn gerðu sitt til að ýta undir þann misskilning.

G. Tómas Gunnarsson, 12.10.2008 kl. 19:51

2 Smámynd: Eyþór Eðvarðsson í Vilnius

slíkar spurningar sem hér eru lagðar fram eru spurningar sem Jón Ásgeir hefði átt að fá tækifæri til þess að svara. spurningar sem Egill hefði átt að vera maður til að hafa á takteinum hefði hann komið undirbúinn undir þáttinn en ekki hagað sér eins og einhver kaffikerling á kjaftasnakki

Eyþór Eðvarðsson í Vilnius, 12.10.2008 kl. 21:03

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Það er ótrúlegur kontrastur í því að fólk elskar að fara í Bónus að versla en hatar nú eigandann!

Ef þetta lýsir ekki rugluðu hugarfari stórs hluta íslendinga veit ég ekki hvað gerir það betur.

Eins og Eyþór segir, Egill klúðraði því að Jón Ásgeir fengi vitrænar spurningar sem allir biðu eftir. Þessi í stað réð ruglið í honum ferðinni og eyðilagði viðtalið til fulls. Strax á fyrstu spurningunni sá maður hversu mjög Jóni Ásgeiri brá, enda var hún svo  arfavitlaus. Framhaldið var litlu skárra því Egill hafði ekki unnið neina vitlega heimavinnu fyrir þáttinn.

Af þessum sökum getur maður ekki einu sinni gert sér í neina hugarlund hvort nokkurt vit er í tilboði Greens.

Haukur Nikulásson, 12.10.2008 kl. 22:12

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er í ef til vill ekki svo mikill kontrastur í því Haukur.

Alveg burtséð frá því hvað fólki finnst um framgöngu Jóns Ásgeirs, hvort að hann hafi svindlað, eða prettað, eða sniðgengið lög, þá verður það ekki af Bónus tekið að þar hefur vöruverð verið lægst á Íslandi. 

Persónulega hef ég ekki trú á því að þeir séu að selja eins ódýrt og þær gætu, en samt eru þeir ódýrastir og auðvitað er ekki hægt að fara fram á meira.

Fjöldi fólks hefur ekki efni á öðru en að gera innkaupin þar sem þau eru hagstæðust, enda má segja að skynsamlegast sé að láta verðið ráða.

Vinsældir Bónuss hafa ekkert að gera með vinsældir/álit á eigenda.  Þeir tóku einfaldlega upp merkið sem Pálmi í Hagkaup hóf á loft, en þáverandi eigendur Hagkaupa höfðu glatað. 

Bónus er ódýrastur.

En ég held að það sé afar óráðlegt að selja Green kröfurnar á kringum 10%.

G. Tómas Gunnarsson, 12.10.2008 kl. 22:32

5 Smámynd: Heidi Strand

og elskan.: )

Heidi Strand, 12.10.2008 kl. 23:38

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

En Bjarni, hvaða möguleikar eru þá varðandi þetta?

Voru forsvarsmenn Baugs Group að ljúga í apríl?

Eru forsvarsmenn Baugs Group að ljúga núna?

Eða við spyrjum núna, hvert fóru þessir peningar, hvað varð um þá, fyrst þeir eru ekki til reiðu núna?

G. Tómas Gunnarsson, 12.10.2008 kl. 23:53

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Gleymdi að minnast á það að það er auðvitað tvennt ólíkt hvor að einhver treystir sér til þess að vera lægri en Bónus, eða hvort einhver treystir sér til að fara í samkeppni við Bónus, eins og Krónan reyndi hér um árið.

Fór ekki mjólkurlíterinn í 1. króna þá?  Það er ekki keppni um lágt vöruverð.  Það heitir að borga fyrir markaðshlutdeild.

Ef til vill eru ekki jafn digrir sjóðir núna, en ég sé ekki neinn hafa efni á því að borga með versluninni sinni í samkeppni við Bónus svo vikum eða mánuðum skipti.

G. Tómas Gunnarsson, 12.10.2008 kl. 23:56

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má velta því fyrir sér hvort að þeir hafi einfaldlega önnur not fyrir peningana.

Skynsamleg fjárfesting væri til dæmis að fá sér "frontman" til þess að bjóðast til að kaupa skuldir á 10%.  Fjárfestingar gerast varla betri en það.

G. Tómas Gunnarsson, 13.10.2008 kl. 21:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband