Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Aðalfréttin er hver fær ekki verðlaun?

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki séð Brúðgumann né kvikmyndina Þið, sem lifið, en það er ekki aðalatriðið hér.

Mér fannst þetta hins vegar svo skemmtilegt, dæmi um þá sjálfhverfni sem okkur Íslendingum er oft legið á hálsi fyrir, að við teljum okkur og okkar land sem nafla alheimsins.

Fyrirsögnin á þessarri frétt  "Brúðguminn fær ekki verðlaun Norðurlandaráðs", er hreint stórkostleg.

Auðvitað er það ekki fyrirsagnar virði að einhver Sænsk mynd hljóti verðlaunin, aðalatriðið er að Íslenska myndin fær þau ekki.

Það gengur Íslendingum margt í mót þessa dagana.

 


mbl.is Brúðguminn fær ekki verðlaun Norðurlandaráðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íhaldið sígur á, en engin meirihluti

Kosningarnar hér í Kanada fóru líkt og margir spáðu, Íhaldsmenn bættu við sig þingsætum, en voru þó nokkuð langt frá því að ná meirihluta.

Það verður því enn ein minnihlutastjórnin við völd, Íhaldsmenn (Conservative Party) bæta líkast til við sig 16 þingmönnum (ekki er búið að telja alveg alls staðar), enda með 143.  Frjálslyndi flokkurinn (Liberal Party) tapar, Nýi Lýðræðisflokkurinn (New Democratic Party) vinnur á, Græni flokkurinn fær engan þingmann en þeir sem komu líklega mest á óvart eru Quebec Blokkin, eða Bloc Quebecois, en þeir náðu 48 eða 49 af 308 þingmönnum á Kanadíska þinginu. 

Það verður að teljast góður árangur hjá Quebec blokkinni (þeir tapa lítillega, en mun minna en flestir reiknuðu með), það gerir þá að þriðja stærsta flokknum hvað varðar þingmannafjölda (eins og þeir hafa verið), en þeir hafa þó aðeins um 10% fylgi á landsvísu (þeir bjóða eingöngu fram í Quebec) en til samanburðar má geta að Nýji Lýðræðisflokkurinn fær líklega 36 eða 37 þingmenn (vinna 2 til 4) , en hefur ríflega 18% fylgi á landsvísu.

En svona er þetta þar sem einmenningskjördæmi eru.  Ef fylgið nýtist vel, skilar það sér í þingmannafjölda langt umfram það sem  % fylgi gefur til kynna.

Það má reyndar segja að þó að Íhaldsflokkurinn vinni ekkert á í fylgi, þá bætir hann við sig þingmönnum.  Það gerist fyrst og fremst vegna þess að Frjálslyndi flokkurinn tapar fylgi, og skiptingin er Íhaldsmönnum hagstæðari. 

Ef til væri því rökrétt að segja að Íhaldsmenn hafi tæplega unnið kosningarnar, en Frjálslyndi flokkurinn hafi tapað þeim.

Hér má sjá dæmi um hvað til þess að gera fá atkvæði geta skipt sköpum og hvað hátt hlutfall atkvæða getur í sumum kjördæmum fallið dauð.  Þess vegna getur örlítil % auking á landsvísu, skilað sér í stórauknum þingmannafjölda, nú eða einfaldlega betri skipting leitt af sér aukningu.

En ég er ágætlega sáttur við niðurstöðuna, vitanlega hefði verið betra að hreinn meirihluti hefði komið úr kosningunum (hér er engin hefð fyrir samsteypustjórnum), en alla vegna ætti minnihlutastjórnin að vera heldur sterkari en áður.

Enn og aftur bendi ég þeim sem vilja frekari fréttir á vefi Globe and Mail og National Post, en niðurstöður eru ekki 100% ljósar þegar þetta er skrifað, en það verða engar breytingar sem skipta máli.

 


Að axla ábyrgð

Það er mikið rætt um ábyrgð á Íslandi þessar vikurnar. Líklega er þó mest rætt um skort þess að menn axli hana.

Þó bar svo við fyrir nokkru að fram steig kona og lýsti því yfir að hún bæði þjóðina afsökunar og sagði sig jafnframt úr bankaráði Seðlabankans.

Ekki fylgdi sögunni hvernig hún taldi sig hafa brugðist trausti og trúnaði þjóðarinnar og ég gat ekki séð að nokkrum fjölmiðli dytti í hug að spyrja hana þeirrar einföldu spurningar.  Ég fór því að leitaði á netinu  að því hvert ábyrgðarhlutverk bankaráðsins væri reyndi að finna út úr því í hverju konan hefði þá brugðist.

Þegar ég las yfir lögin um bankaráð Seðlabankans þá gat mér ómögulega dottið nokkuð í hug sem að bankaráðið hefði í staðið sig í stykkinu með.

Auðvitað ráðið ábyrgð, til dæmis á því að bankstjórnin fari að lögum, en varla er bankaráðsmaðurinn fyrrverandi að meina að hún hafi ekki staðið sig hvað það varðar, því þá hlyti hún að hafa skýrt almenningi frá því?

En á hverju var hún að biðjast afsökunar?

Hitt er svo annað mál, að þó að ekkert banni það í lögunum, má vissulega deila um það hvort að heppilegt sé að starfsmenn ráðuneyti sitji í bankaráði Seðlabankans, en bankaráðsmaðurinn fyrrverandi var ráðinn til Félagsmálaráðuneytisins á yfirstandandi kjörtímabili.

En hér fyrir neðan má sjá hluta af lögum um Seðlabanka Íslands, en þau má finna í heild sinni á vef bankans.

26. gr. Kjósa skal bankaráð Seðlabanka Íslands að loknum kosningum til Alþingis. Bankaráð skipa sjö fulltrúar kjörnir hlutbundinni kosningu af Alþingi ásamt jafnmörgum til vara. Eigi má kjósa stjórnendur eða starfsmenn lánastofnana eða annarra fjármálastofnana sem eiga viðskipti við bankann til setu í bankaráði. Umboð bankaráðs gildir þar til nýtt bankaráð hefur verið kjörið. Láti bankaráðsmaður af störfum tekur varamaður sæti hans þar til Alþingi hefur kosið nýjan aðalmann til loka kjörtímabils bankaráðsins.
Bankaráð velur formann og varaformann úr eigin röðum. Ráðherra ákveður þóknun bankaráðs sem greidd er af Seðlabankanum.
27. gr. Formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands kallar bankaráð saman til fundar. Ætíð skal þó halda bankaráðsfund þegar tveir bankaráðsmenn óska þess. Fundur bankaráðs er ályktunarhæfur ef meiri hluti bankaráðs situr fund. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns. Á fundum bankaráðs skal halda gerðabók.
Bankastjórar sitja fundi bankaráðs og taka þátt í umræðum. Þeir skulu þó víkja af fundi ef bankaráð ákveður.
28. gr. Bankaráð hefur eftirlit með því að Seðlabanki Íslands starfi í samræmi við lög sem um starfsemina gilda. Bankastjórn skal jafnan upplýsa bankaráð um helstu þætti í stefnu bankans og um reglur sem hann setur. Að öðru leyti skal bankaráð sérstaklega sinna eftirtöldum verkefnum:
   a. Staðfesta tillögur bankastjórnar um höfuðþætti í stjórnskipulagi bankans.
   b. Ákveða laun og önnur starfskjör bankastjóra, þ.m.t. rétt til biðlauna og eftirlauna og önnur atriði sem varða fjárhagslega hagsmuni þeirra.
   c. Hafa umsjón með innri endurskoðun við bankann og ráða aðalendurskoðanda.
   d. Staðfesta starfsreglur sem bankastjórn setur um undirbúning, rökstuðning og kynningu ákvarðana í peningamálum, sbr. 24. gr.
   e. Staðfesta reglur sem bankastjórn setur um umboð starfsmanna bankans til þess að skuldbinda bankann, sbr. 23. gr.
   f. Staðfesta kjarasamninga við starfsmenn bankans, fjalla um reglur um lífeyrissjóð þeirra og staðfesta skipun fulltrúa í stjórn hans þegar svo ber undir.
   g. Staðfesta tillögu Seðlabankans til forsætisráðherra um reglur um reikningsskil og ársreikning bankans, sbr. 32. gr.
   h. Veita forsætisráðherra umsögn um reglugerð um framkvæmd einstakra þátta laga þessara þegar svo ber undir, sbr. 39. gr.
   i. Staðfesta ársreikning bankans, sbr. 32. gr.
   j. Staðfesta áætlun um rekstrarkostnað bankans sem bankastjórn leggur fram í upphafi hvers starfsárs.
   k. Hafa eftirlit með eignum og rekstri bankans og staðfesta ákvarðanir um meiri háttar fjárfestingar.
   l. Staðfesta reglur sem bankastjórn setur um viðurlög í formi dagsekta, sbr. 37. gr.
   m. Staðfesta reglur sem bankastjórn setur um heimild starfsmanna bankans til setu í stjórnum stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans, sbr. 25. gr.
   n. Staðfesta starfsreglur sem bankastjórn setur um varðveislu


Ef ákveðið væri að sækja um "Sambands" aðild í dag, hvenær gætu Íslendingar tekið upp euro?

Margir Íslendingar og Íslenskir stjórnmálamenn tala eins og nú þýði ekkert annað en að sækja um "Sambands" aðild og taka upp euroið.  Þeir tala eins oft hafi verið þörf, en nú sé nauðsyn vegna bágs efnahagsástands þjóðarinnar.

Ég verð að viðurkenna að ég treysti mér ekki til að segja til um það hvenær hægt væri að leggja samning fyrir Íslensku þjóðina í atkvæðagreiðslu.  Eigum við að segja í ársbyrjun 2010?

En hvenær yrðu Íslendingar reiðubúnir í myntsamstarfið, hvenær verður Íslenskt efnahagslíf búið að uppfylla þau skilyrði sem þarf til að öðlast aðgang að myntsamstarfinu?

Á það ber að líta að aðildarlöndum "Sambandsins" hefur gengið mjög misjafnlega að uppfylla skilyrðin, reyndar bæði þeim sem bíða eftir euroinu og þeim sem hafa það.

Þau eru raunar ekki mörg ríki sem hafa tekið upp euroið, sem ekki voru í upprunalega hópnum, eru það ekki eingöngu Slóvenía, Kýpur og Malta?

Aðrar þjóðir hafa þurft að fresta upptöku euro í tví og þrígang.

En segjum nú að Íslandi gangi betur, gæti Ísland tekið upp euro 2014 - 2015?  Það er býsna langur timi þangað til.

Í raun er aðalatriðið hvað á til bragðs að taka þangað til, og ekki hvað síst akkúrat núna?

Krónan er það eina sem er í boði.

P.S. Ég er enn sem áður þeirrar skoðunar að til lengri tíma litið sé best fyrir Íslendinga að halda sig fyrir utan "Sambandið", en geri mér auðvitað grein fyrir því að þjóðin mun ákveða hvert hún vill stefna, annað hvort í þjóðaratkvæðagreiðlsu eða í hefðbundnum kosningum. Það hefur hún gert hingað til.

 


Og hatturinn sveiflast svo

Ég hafði varla lokið við bloggið hér að neðan, þar sem ég lyfti hatti mínum fyrir Eiríki Bergmann, en að mér barst tölvupóstur þar sem mér var bent á grein sem Gylfi Zoega skrifar í Financial Times.

Grein Gylfa má finna hér.

Að sjálfsögðu lyfti ég hatti mínum fyrir Gylfa.

Við þurfum meira af þessu, Íslendingar þurfa að halda áfram að útskýra málið frá sinni hlið.

 


Ég tek ofan hatt minn

Í gegnum tíðina hef ég lesið ýmislegt eftir Eirík Bergmann.  Líklega hef ég oftar en ekki verið ósammála honum, en tek þó fram að ég hef lesið eftir hann ýmislegt sem hefur verið mér til gagns.

Ég er heldur ekki sammála öllu því sem hann skrifar í þessum greinum, þó að flest geti ég tekið undir, en það er gjarna svo.  En greinarnar eru settar fram æsinglausan máta og á góðu skiljanlegu máli og eru í heildina góðar.

En á hátíðisstundum stærum við Íslendingar okkur af því hve vel menntuð þjóðin sé.  Við stöndum í fremstu röð í heiminum, eigum frábæra vísinda og fræðimenn sem standi vel í samanburði þjóðanna.

Því ætla ég ekki að mótmæla, en hvað margir af okkar velmenntuðu fræðimönnum stóðu upp og vörðu Ísland, nú þegar þörfin var líklega meiri en oft áður?  Reyndu að útskýra okkar málstað og halda uppi vörnum? 

Í fljótu bragði verð ég að viðurkenna að ég hef bara rekist á einn, Eirík Bergmann og finnst mér það vera honum til mikils virðingarauka.

Og tek ofan hatt minn fyrir honum.

P.S.  Mér finnst ótrúlegt að sjá allar kviksögurnar um andúð, eða illa meðferð á Íslendingum sem sumir Íslenskir fjölmiðlar virðast njóta þess að birta.  Ég get fullyrt að þeir sem ég hef hitt hér í Toronto hlakka ekki yfir óförum Íslendinga, mikið frekar finnst mér ég finna fyrir samúð í okkar garð.  Auðvitað voru engir "Íslenskir" innlánsreikningar hér.  Ef ég er spurður reyni ég að útskýra málið eins vel og mér er unnt, þó að ég ætli ekki að dæma um hversu gott það er.

En Íslendingar þurfa að styrkja vörnina.  Hver og einn spilar mikilvæga rullu þar.


mbl.is Fjögur hundruð bloggfærslur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningar í dag

Það er kosið í dag hér í Kanada.  Einhvern veginn finnst mér kosningadagar alltaf verið hálfgerðir hátíðisdagar, en stemningin hér í Kanada er þó mikið mun rólegri en oftast er á Íslandi. 

Sjálfur sit ég á "hliðarlínunni", hef ekki kosningarétt en rak á eftir konunni að fara og kjósa og gera það rétt, svona til að taka þó einhvern þátt.

En fæstir eiga von á breytingum.  Reiknað með að áfram verði minnihlutastjórn, og talið næsta víst að hún verði Íhaldsflokksins.

Fjórir "aðalflokkar" eru í framboði, Íhaldsflokkurinn (Conservative Party), Frjálslyndi Flokkurinn (Liberal Party), Nýi Lýðræðisflokkurinn (New Democratic Party) og Græni flokkurinn (Green Party).

Talið er líklegast að þingmannafjöldi verði í þeirri röð sem flokkarnir eru í hér að ofan.  Skoðanakannanir hafa gefið til kynna að bæði Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn tapi fylgi, Nýi lýðræðisflokkurinn standi í stað, en Græni flokkurinn vinni á, komist yfir 10%.  Þó er allt eins líklegt að hann nái ekki inn þingmanni.

Hér er í gildi einmenningskjördæmi og því alls óvíst að Græni flokkurinn nái nokkursstaðar nægu fylgi til að sigra.  Algengt er að sigur vinnist með rétt ríflega 40% atkvæða, en margir frambjóðendur ná þó yfir 50.

Það sem gæti breytt niðurstöðunni er "stategic voting", en það er þekkt að margir kjósa annað en þeir hafa hugsað sér, til að reyna að fá "betri kost" en þann sem stendur best, ef þeir meta stöðuna svo að þeirra kandidat eigi ekki möguleika.

Framan af gáfu skoðanakannanir til kynna að Íhaldsflokkurinn ætti möguleika á meirihlutastjórn, en það þykir ólíklegt í dag, það er útskýrt m.a. með breyttum efnahagshorfum.

Fyrir þá sem hafa áhuga á því að kynna sér málið frekar, bendi ég á kosningaumfjöllun í Globe and Mail og National Post.


The Day That Music ...

Ég get fúslega viðurkennt að ég hef alltaf litið á sjálfan mig sem "menningarlegan barbara par exelance". 

Ég get heldur ekki ekki varist þeirri hugsun að fyrst sú staðreynd að Sinfóníuhljómsveit Íslands þarf að fresta tónleikaferð til Japans, veldur Íslendingum verulegu hugarangri og er "fyrsta frétt" á mbl.is, þá sé ástandið ekki svo slæmt.

Líklega standa bankarnir eftir allt saman ágætlega, hlutabréf eigenda þeirra eru að stækka í verði, peningasjóðir eru á uppleið og gjaldeyrisviðskipti þjóðarinnar ganga eins og í sögu.

Bara ef Sinfóníuhljómsveitin kæmist nú til Japan væri þungu fargi af þjóðinni létt.

Og auðvitað er þetta orðspori Íslands að kenna.  Af því að bankarnir hrundu fyrir 10 dögum síðan hefur engin keypt miða á tónleikanna sem líklega fóru í sölu fyrir mörgum vikum síðan. 

Í fréttinni kemur fram að Japanir treysti ekki hljómsveitinni fjárhagslega, en þeir borgi þó allan kostnað.  Áttu þeir von á því að hljómsveitarmenn stælu í verslunum, eða létu söfnunarbauka ganga um tónlistarsalina?

Líklega sáu Japanir einfaldlega góða leið til að losna við leiðinlega skuldbindingu.  Líklega höfðu sárafáir Japanir áhuga á því að hlusta á hljómsveitina, og lái þeim hver sem vill.


mbl.is Vilja ekki íslensku sinfóníuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífþing

Það hljómar ágætlega í mín eyru að lífeyrissjóðir reki banka.  Hreint ekki galið.  En ég geld þó allan vara við því að það sé verið að véla um kaup á banka í miðjum rykmekkinum og enginn annar fái að gera tilboð.

Lífeyrissjóðir og einhverjir fjárfestar sem þeir handvelja með sér fái að kaupa þann banka sem talinn var best staddur af þeim þremur sem ríkið leysti til sín.

Hvernig ber að skilja setninguna:  "Þeir eiga gríðarlega mikið undir í Kaupþingi, en voru þarna að segja frá frumhugmyndum um þetta."

Eiga þeir eitthvað mikið undir Kaupþingi?  Eru lífeyrissjóðirnir rétt eins og allir aðrir fyrrum hluthafar Kaupþings búnir að tapa sínu hlutafé?  Það hefði ég haldið.  Ef til þess kæmi að þeir kaupi reksturinn eiga þeir ekki inni neinn afslátt sem fyrrum hluthafar.

Ríkisstjórnin þarf að ákveða hvaða ferli hún ætlar að setja þá í.  Það dugar ekki að ákveða þetta á hlaupum, og viðskiptaráðherra sé svo að sitja fundi með hverjum þeim sem sýnir áhuga á því að kaupa þetta eða hitt úr eignasafni ríkisins.

Það þarf að vera til áætlun og almenningur á heimtingu á því að slík áætlun sé kynnt, áður en ráðist er í að selja eitt eða annað.

 


mbl.is Stefnt að niðurstöðu lífeyrissjóða á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það eru ennþá mikil verðmæti í Íslensku bönkunum

Það eru ennþá gríðarleg verðmæti í Íslensku bönkunum.  Ennþá gríðarlegur upphæðir sem er hægt að ná inn til að standa á móti innlánum og jafnvel eitthvað meir.

Hér er selt fyrir tæpa 18 milljarða, og enn er jafnstór hlutur eftir.  Það er gríðarleg vinna framundan við að kortleggja og koma eignum í verð.  Auðvitað er árferði til sölu ekki gott, en fer þó vonandi heldur að skána.

Þegar rykið sest er líklegt að staðan sé ekki eins slæm og hún lýtur út fyrir að vera.  Auðvitað á mikið eftir að tapast, en þyngslin sem leggjast á ríkissjóð og almenning verða vonandi ekki eins slæm og margir virðast reikna með.

En það má heldur ekki flana að neinu, ekki selja kröfur á óeðlilegu verði, ekki hlaupa til eftir kviksögum.  Ekki hlaupa í fangið á kaupahéðnum sem koma á einkaþotum og vilja kaupir skuldir fyrir 10% eða minna.

Það er býsna merkilegt að sjá til dæmis hvernig fréttir af Baugi hafa þróast í fjölmiðlum.  Fyrst virtist vera reynt að ýta undir ótta að fyrirtækið færi í þrot, yrði jafnvel þjónýtt.  Íslenska ríkið myndi tapa öllum sínum kröfum.  Hugsanlegt væri að fyrirtækin myndu ekki öll opna á mánudag.

Nú er þjóðnýtingin ekki lengur rædd, fyrirtækin störfuðu öll eðlilega á mánudag.  Baugur er búinn að ráða fyrirtæki sér til aðstoðar við endurskipulagningu, hugsanlega reiknað með að til greiðslustöðvunar komi.

En það eru líka komnir fleiri aðilar til sögunnar sem vilja kaupa skuldir Baugs.  Tiltrúin á fyrirtækinu virðist vera einhver.+

Ef það er satt að með þessum skuldum nái sá sem þær á að stjórn á fyrirtækinu, eins og sést hefur haldið fram í fjölmiðlum, hlýtur að vera eftir drjúgu að slægjast.  Það hlýtur að vera meira en 20 - 30 milljarða virði að hljóta slíkt hnoss.

Skoðið eignalistann.


mbl.is Kaupþing selur 10% hlut í Storebrand
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband